Vegna sérstakra aðstæðna ákvað ég að nota lánsbílinn milli heimilis og vinnu í þriðja sinn í vikunni í gær. Ég set það ekki endilega þannig upp að ég notaði strætó fjórum sinnum í síðustu viku. Frekar leit ég á þetta þannig að fleiri nutu góðs af ferðinni því báðir strákarnir urðu samferða mér áleiðis. Þeir fóru auðvitað út við Tækniskólann. Ef ég hefði ekki farið á bílnum hefði ég þurft að fara fyrr úr vinnu fjórða daginn í röð. Ég hefði þurft að fara upp úr klukkan tvö til að ná að komast á sýsluskrifstofuna og sækja frumritið um eignayfirflutninginn úr þinglýsingu fyrir lokun klukkan þrjú. Þess í stað skrapp ég frá milli hálftvö og tvö. Þegar til kom voru öll dagleg verk búin sem og öll endurnýjun um tvö þannig að síðustu tveir tímar í vinnunni fóru í kaffipásu og bið eftir að klukkan yrði "hættutími" (fjögur).
Á tveimur tímum snjóaði það mikið að ég varð að byrja á því að sópa af bílnum áður en ég keyrði beint heim. Hafði hakk og spakk í kvöldmatinn, vafraði um á netinu, horfði á fréttir og meira sjónvarp alveg til klukkan að ganga tólf og las svo í einni bókasafnsbók, Klækir eftir Sigurjón Pálsson aðeins fram yfir miðnætti.