31.1.14

Síðasti dagurinn í janúar

Vegna sérstakra aðstæðna ákvað ég að nota lánsbílinn milli heimilis og vinnu í þriðja sinn í vikunni í gær.  Ég set það ekki endilega þannig upp að ég notaði strætó fjórum sinnum í síðustu viku.  Frekar leit ég á þetta þannig að fleiri nutu góðs af ferðinni því báðir strákarnir urðu samferða mér áleiðis.  Þeir fóru auðvitað út við Tækniskólann.  Ef ég hefði ekki farið á bílnum hefði ég þurft að fara fyrr úr vinnu fjórða daginn í röð.  Ég hefði þurft að fara upp úr klukkan tvö til að ná að komast á sýsluskrifstofuna og sækja frumritið um eignayfirflutninginn úr þinglýsingu fyrir lokun klukkan þrjú.  Þess í stað skrapp ég frá milli hálftvö og tvö.  Þegar til kom voru öll dagleg verk búin sem og öll endurnýjun um tvö þannig að síðustu tveir tímar í vinnunni fóru í kaffipásu og bið eftir að klukkan yrði "hættutími" (fjögur).

Á tveimur tímum snjóaði það mikið að ég varð að byrja á því að sópa af bílnum áður en ég keyrði beint heim.  Hafði hakk og spakk í kvöldmatinn, vafraði um á netinu, horfði á fréttir og meira sjónvarp alveg til klukkan að ganga tólf og las svo í einni bókasafnsbók, Klækir eftir Sigurjón Pálsson aðeins fram yfir miðnætti.

30.1.14

"Nú er það svart maður, allt orðið hvítt..."

Það liggur við að maður setji jólalög á fóninn og farið að raula með.  Tók stærtó í vinnuna í gærmorgun og þriðja daginn í röð fékk ég að hætta fyrr.  Á mánudagsmorguninn var sendi ég kvensjúkdómalækninum mínum e-mail (rafrænan póst) sem hann svaraði innan tveggja stunda.  Í bréfinu frá mér kastaði ég því fram hvort ekki væri komið nóg af hormónameðferð og svarið frá honum var á þá leið að hann yrði að spjalla um það við mig augliti til auglitis.  Hann hringdi svo í mig rétt fyrir hádegi í gær og bauð mér tíma klukkan þrjú, sem ég þáði.  Trítlaði af stað tuttugu mínútum fyrir þrjú og var mætt upp á Landsspítala við Hringbraut eina mínútu yfir.  Þurfti aðeins að bíða í um fimm mínútur áður en læknirinn kallaði mig inn.  Hann gaf sér góðan tíma til að spjalla og sagði að viðmiðið við tíðahvörf væru í kringum fimmtugt en ég gæti prófað að minnka daglegan hormónagelskammt um helming til að byrja með.  Nú er það svo að þessi tiltekni læknir á aðeins þrjú ár í sjötugt svo það slapp út úr mér eftirfarandi spurning: "Eigum við þá að "hætta" saman?"  En hann ætlar alla vega að athuga hvort hann geti ekki fengið fyrir mig nýtt lyfjaskýrteini sem gildir þá aftur 100%.  Og ég féllst á að halda eitthvað áfram í þessari nauðsynlegu meðferð.  

Eftir hálftíma spjall og sónarskoðun labbaði ég áfram heim til að sækja bók sem faldi sig fyrir mér í margar vikur.  Í haust skilaði ég, að ég hélt, 12 bókum á safnið.  Mér láðist reyndar að telja bækurnar og bera saman við listann og þegar ég fór inn á gegnir.is eftir að ég kom heim sá ég að tvær af bókunum voru enn skráðar á mig.  Þá hringdi ég í bókasafnið og önnur af þessum bókum fannst þar, en ekki hin.  Þrátt fyrir mikla leit fann ég ekki bókina sem átti að vera enn hjá mér fyrr en í fyrradag að hún kom upp í hendurnar á mér þegar ég var að leita að allt öðru.  Ég skilaði henni loksins á safnið í gær og borgaði 600 kr. í sekt.

Hafði afganga í matinn og var svo mætt á kóræfingu um hálfátta.  Það vantaði einhvern eða einhverja í allar raddir og við vorum aðeins níu með kórstjóranum.  En æfingin var samt bæði góð og skemmtileg.  Nokkru eftir að ég kom heim horfði ég á Kiljuna.

29.1.14

Hætti fyrr í dag líka

Rétt fyrir þrjú á mánudaginn var fékk ég e-mail-skilaboð frá lögfræðingnum mínum sem ég sá ekki fyrr en um kvöldið.  Það var kannski bara ágætt því ég hefði ekki getað sinn alveg öllu varðandi það því sýsluskrifstofan lokar klukkan þrjú.  Ég fór því á bílnum í vinnuna annan daginn í röð í gærmorgun og bauð Davíð Steini far í skólann í leiðinni.  Vann til klukkan eitt og tók mér þá smá orlof.  Fyrst fór ég að hitta lögfræðinginn sem var með plagg frá lögfræðingi exins undirritað af þeim síðarnefnda og vottað af þeim fyrrnefnda.  Plaggið var á þá leið að færa átti íbúðareignina alfarið yfir á mig.  Farið var fram á að stimpilgjöld yrðu felld niður í þessu tilviki.  Ég skrifaði undir þetta í tvíriti og lögfræðingurinn minn vottaði.  Kom við heima til að sækja nauðsynleg gögn en greip í tómt, hef sennilega verið slegin einhverri blindu og minnisleysi um hvað ég gerði við þessi plögg en þau áttu að vera á vísum stað.  Þá var ekki um annað að ræða en að fara á sýsluskrifstofuna og beint upp á þriðju að biðja um afrit.  Með það og yfirlýsinguna fór ég með niður á fyrstu hæð og tók númer.  Til að hafa ekki of langt mál um þetta þá voru stimpilgjöldin ekki felld niður en ég borgaði þessar tæpu fjörutíuþúsund og má svo sækja þetta úr þinglýsingu til þeirra á morgun.  En ég get samt sagt strax að nú á ég íbúðina ein, reyndar í félagi við íbúðalánasjóða og Landsbankann.  Kom við í fiskbúð áður en ég fór heim og keypti bleikju til að hafa í kvöldmatinn og ýsuflök til að eiga í frysti.  Trítlaði einnig yfir í Sunnubúð að kaupa meira brauð og gular baunir.

28.1.14

Orlof eftir hádegi í dag

Meira um það allt á morgun.  En í þessari viku þarf ég að fá að hætta fyrr nokkrum sinnum og það byrjaði strax í gær.  Oddur Smári var afar glaður að ég skyldi fara á bílnum í vinnuna.  Hann var með svo mikið af dóti, tösku, íþróttatösku, aukatösku (eins vinar þeirra) og svo var hann búin að undirbúa sig að fara beint til pabba síns eftir skóla.  Vinnudagurinn leið nokkuð hratt bara og klukkan þrjú fékk ég að fara til að sinna bankamálum.  Náði að klára helminginn af því sem til stóð en ekki alveg allt.

Fór beint heim eftir erindið.  Vafraði aðeins um á netinu og ákvað að við Davíð Steinn gætum bara haft afgang í matinn.  Lilja vinkona hringdi til að afboða sig í saumaklúbb til mín.  Það er mikið að lesa hjá henni og svo er hún að pakka fyrir flutninga úr Úlfarsfellsbyggð hingað í bæinn þannig að það verður styttra á milli okkar bráðum.  Ég var með allt klárt um átta. Sonja kom um hálfníu og þá fór kvöldið á skrið.  Ég get svo svarið það að tíminn leið á ljóshraða.  Ég saumaði aðeins í "Lost no more" og byrjaði einnig á útlínum í verkefninu sem ég var að vinna að um daginn.  En það var mikið spjallað og mikið hlegið og áður en við vissum var klukkan byrjuð að ganga tólf.

27.1.14

Síðasti mánudagur þessa mánaðar

Gærdagurinn var afar rólegur og tíðindalítill.  Mætti nöfnu minni úr altinum á kirkjutröppunum baka til um eitt leytið.  Hún var að koma út því presturinn hafði sagt henni að kórinn ætti ekki að syngja.  Hvorug okkar nennti þá að bíða til tvö eða koma aftur.  Ég skrapp á Hlemm til að kaupa mér strætómiða.  Þegar heim kom horfði ég á Barnaby-þátt á DR1 með Oddi.  Vafraði svo aðeins á netinu þar til úrslitaleikurinn á EM byrjaði. Leikurinn varð aldrei spennandi, Frakkar voru með þetta allan tíman og þetta minnti bara á útreiðina sem strákarnir okkar fengu í síðasta leik milliriðilsins bara nú voru það Danir sem virtust engin svör eiga.

26.1.14

Þorraveisla

Ég var mætt til norsku esperantovinkonu minnar um ellefu í gærmorgun.  Það kom í ljós að þau hjónin höfðu ekki farið í laugardagsæfingar sínar og voru bara að skríða framúr þannig að ég rétt missti af því að vekja þau, he, he.  Við fengum okkur dýrindis hafragraut með kanel og agave-sýrópi út á og svo kaffi.  Var reyndar búin að fá fyrsta kaffibollann á meðan við biðum eftir því að grauturinn yrði tilbúinn.  Grúskuðum svo góða stund og pældum í ýmsum esperanto orðum og setningum.  Fékk sms um að hringja í "föðursystur" mína á meðan á grúskinu stóð.  Í smá stund helltist einhver sorg yfir mig.  Ákvað að bíða með að hringja þar til ég færi.  Kvaddi um hálfeitt og hringdi um leið og ég kom út í bíl.  Fékk þá þær fréttir að tengdamamma vinkonu minnar væri látin einungis rétt rúmum tveimur vikum eftir að tengdapabbinn var jarðsettur.  Sendi vinkonu minni kraft og knús í gegnum símann.

Áður en ég fór heim skrapp ég í Krónuna við Granda og verslaði inn.  Hafði ekki gert svona vikuinnkaup í tvær vikur, aðeins skroppið í Sunnubúðina stöku sinnum eftir helstu nauðsynjum.  Oddur Smári tók við pokunum þegar ég kom heim og hann gekk frá vörunum.  Hann var svo á leið í hinn spilahópinn sinn síðar um daginn en Davíð Steinn þurfti að nota daginn til að læra.  Það varð úr að ég fór ein austur til foreldra minn þar sem ég hitti einnig fyrir systur mína, mág og aðra dóttur þeirra.  Innan við tveimur tímum eftir að ég kom austur var sest að þorraveislu.  Mér finnst súrmatur góður og gerði þessari veislu góð skil.  Tók svo að mér að vaska upp eftir matinn.  Horfði á fréttir með pabba en í miðjum klíðum bað systurdóttir mín mig um að strauja perluverkefni sem hún hafði lokið við.  Ég dreif það af og var svo heppin að fá annað verkefnið gefins, höfrung.  Ég var ekkert að flýta mér í bæinn aftur.  Tók smá kaplakeppni við pabba, tíu, tuttugu, þrjátiu-kapallinn og gekk hann upp hjá mér einu sinni.  Klukkan var byrjuð að ganga tíu þegar ég kvaddi og hlustaði ég m.a. á tvær keppnir í 16 liða úrslitum í spurningakeppni framhaldsskólanna.  Hafði einmitt heyrt fyrstu tvær viðureignirnar á leiðinni austur.

25.1.14

Handboltaveislan senn á enda

Oddur var samferða mér í skólann í gærmorgun þegar ég fór á fyrsta skipti á lánsbílnum í vinnunna í vikunni.  Vinnudagurinn leið frekar hratt og öll dagleg verkefni kláruðust fyrir tvö.  Engin önnur verkefni láu fyrir svo um þrjú stilltum við á beina útsendingu á leik Íslands og Póllands um fimmta sætið á EM 2014 í Danmörku.  Klukkutíma síðar stimplaði ég mig úr vinnunni en fór samt ekki fet fyrr en þessi magnaði leikur var búinn.  Þá lá leiðin á bókasafnið í Grófinni þar sem ég skilaði þremur bókum en tók sjö aðrar heim með mér.  Fjöldi bókanna markast sennilega af því að ég á aðeins eina jólabók eftir ólesna.  Fljótlega eftir að ég kom heim byrjaði fyrri umspilsleikurinn, Frakkland - Spánn.  Horfði á hann að sjálfsögðu. Oddur kom heim úr ræktinni og Bónus um svipað leyti.  Hann hafði skroppið að versla þar sem það var spilakvöld hér í gærkvöldi.  Fimm af sex í hópnum voru byrjaðir að spila um sjö.  Ég sat sem fastast í stofunni og horfði á allan handboltann.  Allir leikir gærdagsins voru spennandi og nokkuð skemmtilegir og ég efast ekki um að úrslitaleikurinn á morgun milli Frakklands og Danmerkur verður skemmtilegur og spennandi.

24.1.14

Fimmta sætið!

Loksins var hringt í mig af verkstæðinu og mér sagt að lánsbíllinn væri tilbúinn.  Ég var svo heppin að ein samstarfskona mín bauð mér far upp að Bíldshöfða eftir vinnu.  Þar þurfti ég að borga sex stafa tölu fyrir varahluti og viðgerð.  En mikið var gott að komast á bíl aftur.  Það fyrsta sem Oddur spurði mig að er ég kom heim var hvort ég væri búin að fá bílinn aftur og hann rak upp heróp þegar ég játaði því.  Hafði lifur í kvöldmatinn, vafraði aðeins um á netinu en sat svo fyrir framan sjónvarpsskjáinn allt kvöldið.  Tók ekki upp saumana mína.  Aftur á móti las ég nokkra kafla áður ég fór að sofa og gleymdi mér aðeins of lengi því klukkan var langt gengin í eitt þegar ég slökkti ljósið.

23.1.14

Líður á mánuðinn

Kóræfing var felld niður vegna leiksins sem tapaðist svo.  Strákarnir okkar ekki alveg 100% með enda skipti engu máli hver úrslitin yrðu, þriðja sætið í milliriðlinum var orðið staðreynd fyrir leik.  Þá er bara leikurinn um þriðja sætið eftir og svo spurningin um hvaða lið verður næsti evrópumeistari.  Danir eru svo sannarlega með lið sem getur unnið, hafa ekki tapað neinum leik í þessu móti.

Nokkru fyrir leikinn hringdi Davíð Steinn í mig og sagði að þeir bræður yrðu báðir hjá pabba sínum aðeins fram á kvöldið.  Þar með slapp ég við eldamennskuna þann daginn og fékk ég mér bara samloku í kvöldmatinn.  Lifrina, sem ég hafði tekið út úr frysti um morguninn, setti ég á disk inn í ísskáp og verður hún notuð í kvöld..

Saumaði ekkert og las ekki heldur neitt sem er frekar óvenjulegt.  Nú er ég bara að vona að ég fari að heyra frá verkstæðinu og að ég megi sækja lánsbílinn þangað fljótlega.

22.1.14

Mikil hraðferð á öllum dögunum

Bíllinn er enn á verkstæði og ég nýti mér strætó mjög vel á meðan.  Samgöngusamningurinn við vinnuna kveður á um að ekki eigi að nota einkabíla oftar en tvisvar í viku milli heimilis og vinnu.  Það stefnir nú allt í það að ég noti stóra gula bílinn amk fjórum sinnum þessa vikuna.  Kom heim í gær rétt upp úr klukkan fjögur.  Eins og oftast áður byrjaði ég á því að kveikja á tölvunni og vafra svolítið um í netheimum.  Um hálfsex setti ég upp kartöflur og steikti þorskbita upp úr grófmöluðu bankabyggi krydduðu með best á fiskinn.  Með þessu hafði ég gular baunir í heitu, bráðnu smjöri.  Um hálfsjö settist ég fyrir framan skjáinn inn í stofu.  Horfði á fréttir og skipti svo yfir á íþróttarás RÚV og fylgdist með leik Svía og Póllands.  Grey Svíar, það var hreinlega valtað yfir þá og markvarsla þess pólska sem leysti Szmal af hreinlega með ólíkindum.  Eftir leikinn og EM-stofuna horfði ég á Castle, og svo Whitechappel eftir tíufréttir.

21.1.14

Jamm og jæja

Leikurinn var á dagskrá áður en vinnutíminn var liðinn.  Við vorum svo heppnar að allt sem lá fyrir var búið svo við gátum horft á í gegnum RÚV.is  Við vorum tvær sem fórum ekki heim fyrr en að leik loknum.  Kom heim rétt fyrir fimm og fannst eins og ég væri ein heima svo þegar ég fór að heyra ískur í skrifborðsstól úr öðru stráka herberginu brá mér svolítið.  Ég kannaði málið og þá reyndist annar strákurinn vera löngu kominn heim.  Hinn kom stuttu seinna en bara til að taka sig til áður en hann tók strætó til pabba síns.

Annars tók ég fram "Lost no more" saumamyndina mína fram í gærkvöldi í fyrsta skipti síðan í nóvemberbyrjun.  Saumaði reyndar ekki mjög mikið en ég er að komast í gang aftur.  Snerti ekki á myndinni sem á eftir að sauma útlínur í.  Horfði á hluta af seinasta handboltaleik dagsins, Dicte og CSI áður en ég skreið upp í rúm til að lesa nokkra kafla í einni af jólabókunum fyrir svefninn.

20.1.14

Saumi, saum.

Tók því rólega í gær.  Lúrði samt ekki jafn lengi í bælinu og á laugardaginn.  Var svo sniðug að setja Odd í verkefni sem átti að vera löngu búið.  Fékk hann til að minnka matarborðið strax með því að segja að ef hann gerði það ekki innan klukkustundar yrði hann að ryksuga.  Auðvitað virkaði það og því dæmdist það á mig að fara svo yfir gólfin í kjölfarið.  Að öðru leyti fór dagurinn í sjónvarpsgláp og saumaskap.  Sá þetta líka flotta hlaup hjá Anítu Hinriksdóttur þar sem hún sló Íslandsmetið sitt og setti einnig evrópumet unglinga í leiðinni.  Af nýjasta saumaverkefninu er það annars að frétta að ég er búin með alla krossa og á bara eftir að sauma útlínur, skammstöfun ártal, strauja og ramma inn.  Tveir rammar fylgdu með myndunum.  Var svo ekki í stuði til að elda og sendi soninn sem var heima með pening út í Sunnubúð til að kaupa sér 1944.  Sjálf fékk ég mér haframjöl og rúsínur.

19.1.14

"Alltaf í boltanum..." ;-)

Ég fór framúr um átta í gærmorgun en aðeins til að skreppa á salernið og bera á mig gelið.  Skreið svo upp í aftur til að leyfa gelinu að þorna inn í húðina.  Þegar ég var viss um að ég væri orðin þurr hjúfraði ég mig undri sængina aftur og ætlaði aðeins að dúra lengur.  Ég er eiginlega ekki alveg á því að segja hversu lengi ég dúraði.  Ég steinsofnaði nefnilega og fór að dreyma alls kyns vitleysu sem mig rétt rámar í.  En ég trúði því varla sjálf þegar ég fékk meðvitund aftur og leit á klukkuna því það er langt síðan ég hef sofið svona langt fram á morguninn, eiginlega alveg fram á dag.  Það mætti halda að ég væri orðinn unglingur aftur því klukkan var greinilega byrjuð að ganga eitt þegar ég vaknaði aftur.  Það tók mig góða stund að átta mig á þessu öllu saman og á meðan lá ég áfram í rúminu alveg hissa á sjálfri mér.  Náði þó að koma mér á fætur áður en klukkan varð eitt.

Það sem eftir var af laugardeginum fór í alls kyns dútl á meðan ég beið eftir fyrsta leik "strákanna okkar" í milliriðli á EM í Danmörku.  Var búin að taka fram saumana mína, enn þetta nýjasta verkefni, hella upp á og koma mér vel fyrir fyrir framan skjáinn.  Oddur Smári var farinn nokkru áður í hinn spilahópinn sinn en Davíð Steinn var enn heima þótt það væri pabbahelgi.  Hann rétt missti svo af strætó um hálfsjö og kom heim aftur og beið þar til pabbi hans sótti hann upp úr átta.  Hann var því svo heppinn að fá steikt slátur í matinn með mér.  Spilasonurinn kom ekki heim fyrr en á tólfta tímanum.

18.1.14

Værukær

sjálfsögðu var strætó notaður milli heimilis og vinnu í gær.  Annan daginn í röð vorum við búnar tiltölulega snemma.  Öll endurnýjun búin og þótt dagurinn í dk hafi verið í stærra lagi (helmingi fleiri kort en dags daglega) þá lukum við öllum verkefnum fyrir hálfþrjú.  Þegar ég kom heim fann ég bræðurna og nokkra vini þeirra í stofunni.  Eftirlét þeim þann vettvang þar sem ég vissi að þeir færu svo um sjö til að halda spilakvöld heima hjá einum af spilavinunum fjórum.  Vafraði um á netinu og slakaði bara á.  Fékk svo yfirráð yfir stofunni í þann mund sem fréttir á RÚV byrjuðu.  Fylgdist eitthvað með á íþróttarásinni en leikurinn sem var sýndur var aldrei neitt spennandi.  Tók fram saumana og er enn með athyglina á nýjasta verkefninu.  Horfði svo á Barnaby áður en ég slökkti á imbanum.

17.1.14

Vinnuvikan búin

Í fyrsta skiptið síðan um miðjan desember vorum við búnar með öll verkefni amk einum og hálfum tíma áður en klukkan varð fjögur í gær svo við gátum farið allar saman í kaffi seinni partinn, þ.e. þær af okkur sem ekki voru farnar heim.  Við gátum líka leyft okkur að sitja lengur.  Um þrjú var hringt í mig frá verkstæðinu.  Panta þarf varahlut að utan en sá sem hafði samband við mig sagði að ég gæti sótt bílinn og notað í styttri ferðir ef ég bara kæmi honum aftur á verkstæðið á þriðjudaginn.  Ég tel hins vegar að best sé að bíða eftir því að gert verði við bílinn og sækja hann svo.  Ég á alveg að komast af í nokkra daga án þess að hafa bíl við höndina.

Ekki náðu strákarnir okkar að vinna Spánverja í gær.  Leikurinn var svolítið kaflaskiptur en inn á milli náðust frábærir kaflar.  Það var bara ekki nóg því þess á milli voru mistökin of mörg sem ekki má gegn svona góðu liði.  Ég fylgdist svo spennt með hvernig leikur Norðmanna og Ungverja færi og eftir hann var ljóst að við færum í milliriðil með aðeins eitt stig en í fjórða sætinu fyrir ofan Ungverja vegna betri markatölu.

Á Skjá einum var að byrja önnur þáttaröðin af Scandal upp úr níu og ég missti ekki af því.  Við Oddur horfðum svo á Criminal Minds eftir tíu fréttir á RÚV.

16.1.14

Bíllaus í bili

Ákvað að samþykkja beiðni tvíburans sem var heima um að fara á bílnum til vinnu í gærmorgun.  Hann var bæði með tösku og íþróttatösku með sér og var feginn á fá far í skólann.  Vinnudagurinn leið afar hratt og þegar ég hugsa út í það þá fljúga dagarnir hreint áfram á hraða ljósins að mér virðist.  En strax eftir vinnu ákvað ég að skjótast upp í Brimborg og láta athuga og eða skipta um viftureim og skoða annað nýrra og að mér fannst furðulegra mál.  Fyrir nokkrum dögum fór að bera á því að það væri eins og sjálfskiptingin snuðaði eða að vélin hefði ekki alltaf afl í að drífa bílinn áfram.  Maður frænku minnar fékk hjá mér lyklana, bauð mér að fá mér kaffi og lét taka bílinn inn til skoðunnar.  Hann kom aftur með þær fréttir að best væri að skilja bílinn eftir og skoða þetta betur næsta dag.  Hann skutlaði mér heim og ég sem hafði ætlað að koma við í fiskbúð á heimleiðinni varð að upphugsa eitthvað annað í kvöldmatinn.  Það var nú svo sem ekkert erfitt, var bara búin að hlakka til að fá fisk.  Rúmlega sjö fór ég svo gangandi á fyrstu kóræfingu ársins.  Suma kórfélaga mína var ég að hitta í fyrsta skipti síðan fyrir jól og svo voru að byrja mæðgur í kórnum sem skiptust í hvor sína kvenröddina.  Eftir tveggja tíma kóræfingu með smá kaffipásu á milli labbaði ég aftur heim.  Veðrið var hið yndislegasta og göngufærið slapp enda búið að sanda og salta gangstéttirnar í Lönguhlíðinni og á Háteigsveginum.

15.1.14

Jafntefli við Ungverja..... ....aftur :-/

Notaði almenningssamgöngur, stóra gula bílinn, milli heimilis og vinnu í gær.  Var komin heim fyrir hálffimm.  Byrjaði á því að kveikja á tölvunni en var svo búin að stilla mér upp fyrir framan sjónvarpsskjáinn um fimm, afar spennt fyrir leiknum.  Sennilega voru strákarnir okkar heppnir að ná þó stiginu eins og leikurinn spilaðist en ég var samt svekkt fyrir þeirra hönd.  Á köflum var ég svo spennt að ég varð að grípa í eitthvað og þá var nærtækast að taka fram saumana og halda á fram með nýjasta verkefnið.  Eftir leikinn bauð ég syninum sem var heima að komast í playstation leikjatölvuna í tæpa tvo tíma.  Vafraði um á netinu í millitíðinni en endurheimti svo sjónvarpið til að horfa á Castle, tíu-fréttir og Whitechappel.

14.1.14

Engar holur

Báðir strákarnir urðu samferða mér í skólann í gærmorgun.  Tíminn flaug afar hratt og fyrr en varði var klukkan hálfþrjú.  Þá fékk ég að fara.  Sótti annan strákinn í skólann og hinn heim og fór með þá í árlegt tanneftirlit.  Þeir virðast vera með jafnsterkar tennur og hún mamma þeirra, engar holur.  Annar tvíburinn fékk samt áminningu um að hann mætti bursta tennurnar betur.  Eftir tannsa skutlaði ég strákunum heim en skrapp og sjálf til að dæla á lánsbílinn með Atlantsolíulyklinum mínum.  Kom við á einum öðrum stað áður en ég fór heim.  Þá voru bræðurnir farnir í bókaverslunarleiðangur með pabba sínum.  Annar þeirra er búin að semja um annan samverutíma heldur en aðra hvora helgi en hinn skilað sér heim um áttaleytið.  Sá hafði látið mig vita í tíma þannig að ég slapp alveg við alla eldamennsku í gær.  Fylgdist með eitthvað af handboltaleikjunum sem sýndir voru í gær og greip í saumana mína, sömu sauma og ég er nýbyrjuð á.

13.1.14

Íslenskur sigur í fyrsta leik á EM

Tók því nokkuð rólega í gærmorgun en fór þó ekkert svo seint á fætur.  Var komin í kirkjuna rétt fyrir eitt til að hita upp fyrir fyrstu messu ársins.  Í stað predikunar var Stopp-leikhópurinn með leikrit um "Langafa prakkara".  Mjög skemmtilegt og það var gaman að sjá hversu mörg börn voru mætt til messu.  Þau lifðu sig líka inn í leikritið og höfðu leikararnir á orði eftir messu að áhorfendur hefðu verið virkilega skemmtilegir.  Ég fór annars beint heim eftir messu því leikur Íslands og Noregs sem fór 31-26 fyrir okkar mönnum var að byrja klukkan þrjú.  Á meðan ég fylgdist með leiknum undirbjó ég mig undir nýtt saumaverkefni.  Klippti jafann sem því fygldi í tvennt og handsaumaði í kringum hann.  Klippti allt garn í tvennt og festi betur í spjaldið, valdi aðra myndina úr mynstrinu, tók miðju og byrjaði.  Ég ætla samt ekki að gleyma mér alveg í þessu verkefni því ég held að það sé skynsamlegast að klára stóru myndina "Lost no more" áður en ég sný athyglinni of mikið að nýjum verkefnum.

12.1.14

EM í handbolta karla að byrja í dag

Ég var komin á fætur um níu og fór út úr húsi korter fyrir tíu.  Þegar ég var komin út var ég mest smeik um að vera of seint á ferðinni, að ég þyrfti að skafa þannig að ég yrði ekki mætt þangað sem ég var að fara klukkan tíu.  Lánsbílinni var fyrir aftan heilsugæsluna og þegar til kom var ég mjög snögg að hreinsa af framrúðunni.  Ég var því mætt á réttum tíma í klippingu.  Við klipparinn minn vorum sammála um að hárið á mér liti út eins og ég hefði ekki mætt í klippingu í rúmlega tvo mánuði en ekki einungis fyrir sex vikum.  Hann þynnti og þynnti og klippti og klippti og þegar hann var búinn stóð hárið ekki lengur út í allar áttir.

Næst lá leiðin vestur í bæ til esperanto-vinkonu minnar.  Ég var heldur fyrr á ferðinni en ég hafði áætlað en hún var heima, hafði ekki farið í sína reglubundnu laugardagsæfingu.  Þegar við snérum okkur að esperantobókunum ákáðum við að tjá okkur um stund á esperanto.  Það gekk alveg sæmilega en við héldum það ekki mjög lengi út áður en við vorum farnar að spjalla á mínu móðurmáli.

Áður en ég fór heim kom ég við í Krónunni og verslaði.  Oddur Smári var farinn til að spila með hinum vikulega spilahópnum.  Davíð Steinn kom fram stuttu seinna, alveg nývaknaður.  Hann bað mig um að skutla sér í Kringluna og ég fór bara með honum alla leið í Skífuna.  Þar fann ég dvd-mynd sem mig langar til að eiga og ákvað að splæsa á mig.  Ég man ekki til þess að ég hafi séð hana en ég veit um fólk sem á hana og horfir á myndina einu sinni á ári:  "Love acually". 

11.1.14

Laugardagur

Aðeins annar tvíburinn var samferða mér í gærmorgun.  Á töflu hins tvíburans eru íþróttir fyrsti tími á föstudögum en hann getur mætt á öðrum tíma fyrr í vikunni svo hann svaf aðeins lengur.  "Afmælisvinnudagurinn" leið mjög fljótt en það var ekki hægt að safnast saman í síðdegiskaffitímanum.  Tvær hætta klukka tvö á föstudögum og tvær af okkur hinum fjórum þurftu að fara aðeins fyrr úr vinnunni.  Ég lagði bara á borð rétt fyrir tvö og bauð fólki að fá sér þegar og ef vildi.  Afganginn skildi ég svo eftir handa helgarvöktunum.

Hér var haldið vikulegt sex manna spilakvöld í gærkvöldi og að þessu sinni var bæði stofan og holið undirlögð.  Ég brá á það ráð að hringja í tvíbura hálfsystur mína og athuga hvort hún veri nokkuð upptekin.  Hún sagði að ég væri velkomin svo ég dreif mig yfir til hennar um átta leytið.  Var með saumana mína með mér og á rúmum tveimur tímum kláraði ég útsaum á fyrsta saumaða jólakorti ársins sem ég byrjaði á tveim kvöldum fyrr og var ekki búin að snerta á síðan þá.  Öflug ég!

10.1.14

Fjórtán ára starfsafmæli í dag

Skólinn byrjaði aftur í gær eftir jólafrí og áttu báðir bræðurnir að mæta strax í fyrsta tíma, klukkan tíu mínútur yfir átta.  Ég var búin að nota strætó þrjá daga í röð og ákvað að fara á bílnum og skutla strákunum í leiðinni.  Þurfti reyndar að vekja annan strákinn svo hann svæfi ekki yfir sig og kæmist með.  Sá svaf fast, alveg eins og steinn.  Kannski það fylgi nafniu?

Eftir vinnu lá leið mín í Lyfjaver við Suðurver þar sem ég leysti út síðasta skammtinn af geli af árslyfseðlinum.  Því næst kom ég við í Hagkaup í Skeifunni.  Þar keypti ég ostaköku, gulrótaköku, stollenbita og bakaðar baunir.  Baunirnar voru fyrir kvöldmat strákanna en það voru til nokkrar pylsur í ísskápnum sem þeir skáru niður og hituðu með baununum.  Allt hitt var fyrir afmælisfagn í vinnunni.

Um sexleytið fór Oddur Smári í fyrsta trommutíma ársins.  Hann var ekki kominn aftur þegar ég fór.  Var mætt hjá vinnufélaga um sjö, stúlku sem ég er búin að þekkja síðan á FSu-árunum þar sem ég kynntist henni í kórstarfinu þar.  Tvær aðrar mættu úr kortadeildinni á sama tíma því hún var búin að bjóða okkur í mat á þessum tíma.  Klukkutíma seinna fengum við svo kynningu sem ég ætla aðeins að bíða með að segja frá.

9.1.14

Undirbúningur eða eitthvað

Þriðja virka daginn í röð fór ég með stóra gula bílnum í vinnuna.  Vagninn var reyndar óvenju seinn en það gerði ekki mikið til, ég náði að stimpla mig inn áður en klukkan sló átta.  Vinnudagurinn var annasamur og leið afar hratt fyrir vikið.  Tók strætó heim líka.  Aðeins annar tvíburinn var heima, hinn er kominn í auka-spilahóp (eins spil og þeir eru að spila sex saman ca. vikulega).  Afgangur var af áramótamatnum svo það var létt verk að taka til matinn.  Strákurinn sem var heima fékk svo vin sinn í heimsókn.  Þeir voru búnir að ákveða að horfa á mynd saman.  Ég var alveg til í að eftirláta þeim stofuna því ég var búin að tilkynna um komu mína í efri byggðir (við rætur Úlfarsfell).  Tók saumana mína með og byrjaði útsaum á nýju jólakorti.  Annars fann ég saumað kort síðan 2012 í síðustu viku.  Einhver verður mjög heppin næstu jól.  :-)

8.1.14

Limra númer tvö

Af limru-smíðum segir fátt
samt ég þó reyni á allan hátt.
Erfið sú þraut
orðin í graut.
Áfram mig æfi svo verði ég sátt.

Þessi varð til rétt áður en ég fór á fætur í morgun, semsagt fyrir klukkan sjö, svo ég varð að essemmessa henni á mig til að gleyma henni ekki.

Strákarnir voru heima að spila í play-station tölvunni þegar ég kom heim eftir vinnu í gær.  Þeir byrjuðu strax á því að tilkynna mér að þeir ætluðu að hafa spilakvöld með fjórum vinum sínum um kvöldið og að von væri á tveimur fljótlega.  Ég var varla komin inn úr dyrunum þegar annar vinurinn kom.  Ákvað samt að halda mig við að hafa "sparimat" í kvöldmat.  Mamma og pabbi höfðu sent mig heim með afganginn af kjötinu sem við borðuðum af um áramótin.  Skar það niður í nokkrar sneiðar, sauð kartöflur, bjó til sósu og bauð upp á rauðkál og grænar baunir með.  Mundi eftir því í morgun að ég hafði líka ætlað að hafa rósakál með.  :-/

Vinirnir tveir borðuðu með okkur um sex.  Um klukkustund síðar yfirtók ég stofuna og sjónvarpið enda byrjaði spilið fljótlega.  Horfði á skjáinn og las svo inn á milli ef ekkert áhugavert var í sjónvarpinu.  Kom ekki fram úr stofunni fyrr en um ellefu en þá fór ég fljótlega í háttinn.

Ég fékk smá martröð í nótt.  Mig dreymdi að ég væri búin að taka aftur saman við xið og var að velta því fyrir mér hvað ég ætti að segja við mömmu hans og hvernig ég ætti að tala við hana.  Mikið varð ég feginn þegar ég vaknaði og komst að því að þetta var bara draumur, vondur draumur.

7.1.14

La sepa januaro du mil dek kvara

Ekki kveið ég fyrir byrjun vinnuvikunnar er ég beið eftir strætó fyrir utan Sunnubúðina um hálfátta í gærmorgun.  Og það þrátt fyrir að framundan væru fimm virkir dagar í röð.  Það er nóg að gera í vinnunni og þegar mikið er að gera líður tíminn hratt.  Vorum þrjár eftir síðustu tvo tímana.  Framleiðslan gekk vel.  Tók strætó heim úr vinnu líka.  Hugsaði bara um að sauma en það varð ekkert úr því.  Tíminn fór í netvafr, lestur og sjónvarpsgláp.  Horfði á eina frímynd á skjáfrelsi.  Annars var ég farin að halda að strákarnir væru ekkert að koma heim en ég heyrði þá koma loks er ég var að sofna um hálfeittleytið.

6.1.14

Vi estas bonvena


Já, auðvitað er ég ein í síðdegiskaffipásu og sé mér leik á borði.  Annars ætla ég að halda venjunni og skrifa nokkur orð um gærdaginn.  Svaf ekki eins langt fram á morguninn og á laugardaginn en ég byrjaði daginn samt á lestri áður en ég klæddi mig og kveikti á tölvu.  Var komin til norsku esperanto-vinkonu minnar um ellefu.  Hún bauð mér upp á dýrindis hafragraut áður en við snérum okkur að esperanto-gruflinu yfir rjúkandi kaffibollum.  Áður en ég fór yfir prófaði ég að þýða "Verði þér að góðu" úr íslensku yfir á esperanto á Gogglo Translate.  Við erum mikið búnar að skoða þessa einföldu setningu og leita í orðabókum og orðasöfnum.  Hef hingað til notast við "Bone al vi"  og ég held að það geti alveg gengið líka en yfirskrift skrifanna í dag er tillagan frá Goggle Translate.

Frá Inger skrapp ég yfir í Krónuna við Granda.  Verslaði ekki mikið en það á samt að duga fram eftir vikunni.  Áður en ég fór heim kom ég við hjá Atlantsolíu við Flugvallarveg og hálffyllti bílinn.  Er að vonast eftir smsi í vikulokin um aukaafslátt og þá ætla ég að fylla lánsbílinn.  Eftir að hafa gengið frá vörunum og vafrað aðeins um á netinu horfði ég á leik Rússa og Austurríkismanna.  Kláraði mína 10. flöskusvuntu á meðan en þá fjórðu síðan í nóvember.  Þar með á ég fjórar svuntur eins og mamma.  Gat varla horft á leik Íslands og Þýskalands, okkar menn í tómu tjóni nær allan tíman.  En kannski gott að fá svona smá skell rétt fyrir mót til að halda sér á tánum.  Upp úr átta skipti ég yfir á gólfrásina en það var sýnt beint frá Haway í opinni dagskrá.  Finnst alltaf gaman að fylgjast með gólfinu en ég náði þó að slökkva á sjónvarpinu fyrir klukkan ellefu, skreið upp í rúm og las nokkra kafla áður en ég fór að sofa í hausinn á mér.

5.1.14

Rólegheit

Ég leyfði mér að sofa út í gærmorgun og þegar ég vaknaði greip ég í bók og las í góða stund áður en ég ákvað að klæða mig og búa um.  Var sem betur fer klædd og komin á ról þegar nágranninn á neðri hæðinni bankaði upp á um hálfeitt.  Konan hans var sextug í gær og hann bað um að fá lánaða stóla hjá mér sem hann vissi af úti í skúr.  Það var auðsótt mál.  Dagurinn fór annars allur í lestur, útsaum (er langt komin með rauðu flöskusvuntu-rósina), netvafr og sjónvarpsáhorf.  Horfði t.d. á báða leikina á fjögura landa undirbúningnsmótinu í Þýskalandi í gær.  Klukkan var rúmlega eitt þegar ég skreið loksins upp í og endaði daginn eins og ég hóf hann, á lestri.

4.1.14

Lesi, lesi, saumi

Ég fór á bílnum í vinnuna í gærmorgun.  Vinnudagurinn leið afar hratt og var nóg að gera þessa átta tíma.  Úr vinnunni fór ég og renndi bílnum í gegnum snertilausa þvottastöð.  Það var komin tími til að skola af lánsbílnum.  Hafði líka hugsað mér að skila nokkrum bókum á safnið en ákvað svo að bíða aðeins með það.  Fór heim og lauk við að lesa síðustu bókina af safninu.  Horfði líka á leik Íslands og Rússlands á fjögurra landa æfingamótinu í handbolta.  Leikurinn varð óþarflega spennandi á köflum en endaði þó með sigri okkar stráka.  Tvíburarnir komu heim í smá stund og var þetta í fyrsta sinn sem ég sá þá á nýja árinu.  Þeir stoppuðu þó ekki lengi því fljótlega sóttu vinir þeirra þá og átti að fara aðeins á rúntinn.  Þeir koma svo ekki heim fyrr enn á sunnudag eða mánudag.

3.1.14

Föstudagur

Mikið  er nú ágætt að það er strax komin helgi aftur.  Vinnudagurinn í gær leið afar hratt enda erum við nóg verkefni til að vera að alveg frá klukkan átta til klukkan fjögur.  Notaði strætó báðar leiðir og byrjaði að sjálfsögðu á því að kveikja á tölvunni er ég kom heim.  Seinna skrapp ég aðeins út í Sunnubúð og keypti nokkrar nauðsynjar sem duga fram að helgi.  Kláraði gulu rósina yfir fréttunum og tók svo strax til við þá rauðu.  Eins og áður sagði var ég búin að sauma stöngulinn.  Gleymdi mér svo aðeins yfir lestri áður en ég fór að sofa seint í gærkvöldi.

2.1.14

Fyrsti vinnudagur ársins

Enn nota ég tækifærið, fyrst ég er ein, og set inn nokkrar línur á meðan ég drekk úr einum kaffibolla eða svo.
Ég var komin á fætur í gær nokkru fyrir tíu.  Fékk mér eitthvað í gogginn, lagði nokkra kapla og hlustaði á tíu-fréttir.  Eftir fréttirnar fannst mér kominn tími til að kveikja á tölvunni hans pabba svo ég gæti leikið mér á netinu, bloggað og fleira.  Eftir nokkra stund af svoleiðis skipti ég yfir í saumana.  Fór langt með að klára gulu rósina á aðra flöskusvuntuna sem ég byrjaði á daginn áður.  Er búin að sauma stilkinn á þeirri rauðu en klára sennilega útlínur á þeirri gulu fyrst.  Er byrjuð að sauma útlínurnar.  En nú fer að verða kominn tími til að halda áfram með "Lost nomore" myndina mína sem ég fékk í fertugsafmælisgjöf og byrjaði loks á fyrir rétt tæpu ári síðan.  Um þrjú skrapp ég í fyrstu heimsókn ársins, til konu sem ég er búin að þekkja síðan ég var unglingur.  Tengdaforeldrar hennar voru hjá þeim en þau þekki ég líka mjög vel því þau áttu heima við hliðina á okkur við Hólavang 22 alveg til 2000.  Gamli maðurinn sem er ekki einu sinni orðinn hvíthærður verður 94 ára í sumar og konan hans sem er löngu orðin hvíthærð (mér finnst það svo flott, eins og geislabaugur) er 7 árum yngri.  Stoppaði við í rétt rúma klukkustund áður en ég fór yfir aftur og hélt áfram að sauma.  Klukkan var að verða átta þegar ég fór að hugsa mér til hreyfings og var ég komin heim rétt fyrir hálftíu í gærkvöldi.  Strákarnir verða líklega hjá pabba sínum fram yfir helgi svo það er óvíst hvenær ég hitti þá á þessu glænýja ári.  Mér sýndist nú samt að þeir hefðu eitthvað komið heim á gamlársdag.  Held að þeir hafi verið með vinum sínum um áramótin.

1.1.14

Gleðilegt nýtt ár!

 
 
Ein af vinnufélögum mínum hafði beðið um að hún og amk ein önnur myndu geta mætt hálftíma fyrr til vinnu í gærmorgun svo hún gæti farið klukkan hálfellefu.  Okkur fannst þetta bara góð hugmynd og ég ákvað að mæta líka til vinnu um hálfátta.  Þar sem ég var ákveðin í að fara beint austur eftir vinnu fór ég á bílnum.  Ég hefði líka ekki fengið strætóferð fyrr en um átta.  Í stað þess að geta flýtt fyrir og hlaðið inn fyrstu framleiðslu dagsins lenti ég í basli með að finna út hvernig hægt væri að senda skrárnar aftur þar sem einungis sex af þeim höfðu skilað sér.  Þar fyrir utan þá voru óvanalega mörg kort í framleiðslu þennan síðasta dag ársins.  Sú sem þurfti að fara um hálfellefu kvaddi okkur þá.  Ein af okkur var í fríi, önnur fór um ellefu og við hinar náðum að klára það nauðsynlegasta og hætta klukkan hálftólf.  Ég hringdi í pabba þegar ég kom út í bíl og var komin á Hellu rétt fyrir eitt.  Fékk mér aðeins að borða, smá kaffi, fylgdist með fréttum, vafraði um á netinu, byrjaði á tveimur nýjum flöskusvuntum og las.  Dagurinn leið alltof hratt en ég var ekkert að hanga of lengi á fótum, held að klukkan hafi varla verið orðin eitt þegar ég fór að sofa.