31.10.13

Aðeins tveir mánuðir eftir af árinu 2013

Við Lilja urðum samferða út úr húsi í gærmorgun, ég til að taka strætó en hún fékk meðbyr upp í háskóla.  Vinnudagurinn leið hratt og örugglega.  Daglegum verkefnum var lokið upp úr eitt en þá var farið að huga að mánaðamótunum, telja lagera og svoleiðis.  Stimplaði mig út á laginu fjögur, amk samkvæmt stimpilklukkunni.  Hugsaði um það í augnablik að taka mér far með strætó heim en ákvað sem betur fer að labba frekar eins og sex síðustu skipti þá daga sem ég hef farið með strætó í vinnuna.  Pabbi hafði á orði við mig um daginn að hann væri feginn að ég væri ekki lengur að labba í myrkrinu snemma á morgnana.  Hann viðurkenndi að hann hefði oft haft smá áhyggjur af mér á þeim tíma sem ég labbaði daglega til og frá vinnu, sérstaklega á morgnana í svartasta skammdeginu.  Um sjö komu sms-skilaboð frá kórstjóranum að því miður yrði hann að fella niður æfingu kvöldsins sökum lasleika.  Ég notaði því kvöldið í að halda áfram að sauma gula rós á flöskusvuntu.  Saumaskapurinn gekk vel og ég er örugglega rúmlega hálfnuð sem gefur mér von um að hafa tíma til að sauma fleiri rósir á fleiri flöskusvuntur.  Varð svo vör við það að það er búið að skuldfæra fyrir þinglýsingargjöldum af láni sem ég er að taka til að borga Davíð út.  Kannski "dettur" lánið svo inn öðru hvoru megin við helgina og ef X-ið stendur við sitt og sækir dótið sitt í skúrinn um helgina get ég afgreitt þetta mál í næstu viku þannig að það er stutt í að ég verði ein skráð fyrir eigninni og eigi hana þá með íbúðalánasjóði og bankanum.  Ekki slæm tilhugsun það.

30.10.13

Vikan hálfnuð

Lenti í basli með útvarpsvekjarann í gærmorgun.  Þegar ég ætlaði að "snúsa" ýtti ég sennilega á takka merktan "sleep" og þá fór útvarpið í gang í fáti mínu kunni ég engin önnur ráð en að taka tækið úr sambandi.  Þannig að ég varð svo að endurstilla útvarpsklukkuna og vekjarann.  Lét hann ekki hringja aftur. Ég var á bíl í gær, eins og flesta þriðjudaga, sem kom sér afar vel því ég þurfti að reka smá erindi og var á tímabili smá "ping-pong" milli vinnu og banka.  Þegar ég hélt svo að allt væri loksins orðið klárt var hringt úr bankanum, smá vesen, en reyndar þurfti ég ekki að fara þriðju og fjórðu ferðina þangað.  Fór beint heim eftir vinnu og hellti upp á fullan kaffibrúsa.  Kaffið var alveg nýtt þegar foreldrar mínir ráku inn nefið í stutta stund.  Gáfu sér tíma fyrir einn bolla og tvö knús (hæ og bæ). Þau rétt misstu af Oddi Smára en hann hafði orðið samferða einum skólabróður sínum og kom seinna heim en oftast.  Hafði ofnbakaðar kjúklingabringur með gulum baunum og gufusoðnu blönduðu grænmeti í kvöldmatinn.  Eftir matinn settist ég með flöskusvuntusaumana mína fyrir framan sjónvarpsskjáinn.  Náði að sauma alveg helling.  Lilja vinkona kom á tíunda tímanum en hún fær afnot af sófanum flest þriðjudagskvöld.  Ég hélt áfram að sauma í smá stund, spjallaði við vinkonu mína og við horfðum á seinni fréttir áður en ég fór inn í rúm.

29.10.13

Saumaklúbbur

Notaði strætó í vinnuna í gærmorgun og labbaði svo heim seinni partinn.  Ákvað að hafa eitthvað fljótlegt í kvöldmatinn. Hafði keypt einn soðinn blóðmörskepp á laugardaginn var og ég steikti hann og sauð kartöflur með.  Strákarnir voru ekki síður hrifnir af þessu eins og kjötsúpunni kvöldið áður.  Þeir hjálpuðu mér að stækka borðstofuborðið og gera það tilbúið fyrir saumaklúbb.  Lilja kom í fyrrafallinu um hálfsjö og ég bauð henni að borða með okkur.  Við vorum svo byrjaðar að föndra um átta.  Ég klippti út nokkrar jólamyndir og var búin að búa til 3 jólakort þegar tvíburahálfsystir mín mætti um hálfníu.  Rúmum klukkutíma seinna var jólakortaafraksturinn orðin 11 stk.  Þá tók ég mig til og undirbjó flöskusvuntu útsaum.  Ætla að sauma amk eina gula rós á eina flöskusvuntu en vonandi næ ég þó að sauma tvær til fjórar, þrjár gular og kannski eina rauða.
 
Gemsinn minn er í einhverju lamasessi og það lítur út fyrir að ég þurfi að útvega mér nýjan.  Það heyrist bara eitt aumingjalegt píp í símanum hvort sem verið er að hringja, senda sms eða ég að láta vekjaraklukkuna hringja.  Davíð Steinn var svo almennilegur að lána mér útvarpsvekjarann sinn um óákveðinn tíma en áður en ég fór að sofa eftir saumaklúbbinn stóðst ég ekki mátið að horfa á 6. þáttinn um Sögu og Martin á tímarásinni.

28.10.13

Allt að ganga upp

Var mætt upp í kirkju rétt fyrir hálfeitt í gær.  Trommarinn og bassaleikarinn voru að æfa með organistanum.  Þeir tveir fyrrnefndu fengu svo smá kaffipásu á meðan kórinn hitaði upp.  Svo var æft fyrir jazzmessuna.  Hálftíma fyrir messu vorum við klár og fengum okkur kaffi og klæddum okkur í grænu "kórkjólana".  Messan gekk mjög vel fyrir sig en ég hefði viljað sjá fleiri kirkjugesti.  Kom heim um hálffjögur.  Hálftíma síðar límdist ég fyrir framan skjáinn og horfði á landsleik í kvennahandboltanum sem endaði því miður með tapi með minnsta mun.  Hafði kjötsúpu í kvöldmatinn og voru synirnir mjög ánægðir með það.
 
er búið að skrifa undir samþykki um veð í íbúðinni til að ég fái afgreitt lánið og ég er meira að segja búin að fá afhenta húslyklana af útihurð og íbúð.  Mér skildist á X-inu að hann myndi taka dótið sitt um næstu helgi og um leið það er búið og búið er að afgreiða lánsupphæðina til mín mun ég borga hann út.  Þannig að það er líklegt að í næsta mánuði eða síðasta lagi í desember muni ég eiga íbúðina ein ásamt íbúðalánasjóði og bankanum.  Ekki slæmt það!

26.10.13

Hve tíminn flýgur hratt

Fékk að hætta vinnu um tvö í gær.  Fór beint í bankaútibúið mitt til að skrifa undir gögn til að fá lán sem er búið að samþykkja.  Í ljós kom að Davíð þarf að samþykkja að ég fái lán út á veð í íbúðinni.  Náði ekki í hann í gær svo hugmyndir mínar um að fagna þessum áfanga runnu út í sandinn.  Skrapp í Kringlusafnið og skilaði þremur bókum.  Nú brá svo við að ég tók enga bók heim með mér í staðinn en ég er með þrjár frekar þykkar bækur sem ég þarf að skila eftir tæpar þrjár vikur.  Þurfti ekki að hafa fyrir því að hugsa um kvöldmat.  Strákarnir fóru nefnilega á spilakvöld og ég borðaði bara afganga.

Var mætt til norsku esperantovinkonu minnar upp úr klukkan hálfellefu í morgun.  Eftir að hún hafði boðið mér upp á að borða flauelsmjúkan hafragraut með kanel út á tókum við kaffið með okkur í stofuna og grúfðum okkur yfir nokkra esperanto leskafla.  Stoppaði samt ekki lengi að þessu sinni.  Var komin í Krónuna einum og hálfum tíma síðar.  Oddur Smári gekk frá vörunum úr þessum tveimur pokum sem ég kom með heim úr búðinni.  Um eitt hringdi ég í Böddu, 91 árs gamla mágkonu móðurömmu minnar og spurði hvort hún væri heima.  "Nú ég er að tala við þig úr heimasímanum mínum!", var svarið.  Ég var líka eiginlega að meina hvort hún væri frísk og hvort hún væri nokkuð að fara.  Líklega hefði verið best að spyrja hvernig ég sækti að henni.  Ég skutlaði trommaranum upp í efra Breiðholt og fór svo í heimsókn til Böddu minnar því hún var ekkert að fara og alveg til í að fá mig í heimsókn.  Hún hafði meira að segja á orða hve langt væri síðan síðast þegar ég knúsaði hana hæ.

25.10.13

Enn á ferðinni

Þessi föstudagspistill hefst ekki á ferskeytlu.  Ákvað frekar að ljúka við að ryðja úr mér fyrir klukkan átta.  Labbaði áleiðis heim eftir Skúlagötunni seinni partinn í gær.  Kom við í Hárhorninu hjá tengdapabba systur minnar og lét hann hafa nokkrar vikur af vikunni.  Keypti mér svo tvö strætókort á Hlemmi áður en ég labbaði Rauðarárstíginn, þvert yfir Klambratún og Lönguhlíðina heim.  Hafði ofnbakaða bleikju í matinn um hálfsjö og var svo komin upp í Grafarholt rúmlega sjö til að passa tvö systkyni á meðan að foreldrarnir voru á fundi.  Passið gekk alveg glimrandi vel og voru bæði börnin sofnuð um níu.  Horfði á íþróttarás sjónvarpsins þótt ekki væri verið að sýna frá leik Valsmanna.  Foreldrarnir skiluðu sér heim upp úr tíu og ég var komin heim til mín um hálfellefu.  Í dag stendur til að skrifa undir bankalánið og þá styttist mjög í það að ég geti greitt fyrrverandi manninn mínn út úr íbúðinni.  Ég þarf ekki að borga fyrr en í síðasta lagi 1. des. en ætla að bjóða honum að borga fyrr ef hann losar skúrinn um eða fyrir næstu mánaðamót.  Ég er sko aldeilis komin á beinu brautina og veit að ég á eftir að standa mig.   Góða helgi!

24.10.13

Æft fyrir næstu messu

Fékk mér far með stóra gula bílnum í vinnuna í gærmorgun.  Vinnudagurinn leið mjög hratt.  Lét ekki smá úrkomu aftra mér frá því að labba heim.  Annar tvíburinn sendi mér skilaboð um að hann færi til pabba síns eftir skóla.  Ég ákvað að hætta ekki á það að þvottavélin myndi stríða mér svo ég yrði aftur sein á kóræfingu.  Kórstjórinn sendi póst um miðjan dag þar sem hann tók fram að æfingin yrði bara til níu og lét fylgja með upplýsingar um það sem syngja á í jazzmessunni n.k. sunnudag.  Sumir kórfélagar misskildu víst póstinn og héldu að æfingin byrjaði ekki fyrr en klukkan níu.  Þeir kórfélagar sem mættu um níu misstu af æfingunni en settust með okkur í kaffi.

23.10.13

Útstáelsi

Bíllinn var notaður milli heimilis og vinnu í gær og þáðu tvíburarnir farið í skólann þrátt fyrir að vera þá mættir heldur snemma eða amk tuttugu mínútum fyrir fyrsta tímann.  Fór beint heim eftir vinnu og fljótlega eftir að ég kom heim kíktu mamma og pabbi, sem voru að koma úr jarðaför, við í stutta stund.  Aðalerindi þeirra var að sækja kápuna hennar mömmu sem ég hafði farið með í Saumnálina og sótt þangað þegar búið var að setja nýjan rennilás í (svartan með semelíusteinum).  Mömmu fannst þetta ekki nógu vel gert og sagðist ætla að fara og kvarta við tækifæri.  Hitt erindið var að sjá breytingarnar á íbúðinni eftir að nánast er búið að moka út kallinum.
 
Um átta skrapp ég í heimsókn til konu sem ég var að vinna með á árunum 2000-2005.  Við höfum haldið sambandi og vináttunni þótt mislangt líði á milli heimsókna og símtala.  Hún var reyndar ekki komin úr súmbatíma þegar ég mætti (misskildi eitthvað tímasetninguna) en synir hennar hleyptu mér inn og kötturinn á heimilinu tók vel á móti mér.  Það leið ekkert löng stund þar til vinkonan kom heim og áttum við notalega kvöldstund saman.  Ræddum um alla heima og geima.  Sótti mikinn styrk og ró til hennar og ég vona að ég hafi ekki stolið neinni orku frá henni.  Kvaddi upp úr tíu með loforði um að láta ekki líða of langt þar til næst.
 
En ég áttaði mig á því í gærkvöldi að ég hef ekki snert á handavinnunni minni í nokkra daga einhverra hluta vegna.  Var aðeins búin að hugsa um að taka pásu frá "Lost nomore" og sauma nokkrar flöskusvuntur en eins og fyrr segir hef ekki snert á nál óvanalega lengi...

22.10.13

Gengið heim úr vinnu

Tók mér far með strætó í vinnuna í gærmorgun.  Það er afskaplega þægilegt hversu nálægt vinnustaðnum stóri guli bíllinn stoppar.  Þarf aðeins að fara yfir götuna (Kalkofnsveg) og þá er ég nánast komin.  Vinnudagurinn leið hratt og rétt rúmlega fjögur var ég komin út.  Veðrið hjálpaði til við að ýta á eftir mér að ganga heim yfir skólavörðuhæðina.  Þetta er svona hálftíma hressandi göngutúr.  Kveikti á tölvunni er ég kom heim en fór svo fljótlega að sinna þvottamálum.  Karfan fylltist alveg um helgina svo ég þarf líklega að þvo þvotta á hverjum degi næstu daga til að vinna á óhreinatausfjallinu, en það er nú alveg í lagi.  Hafði lasanja í kvöldmatinn og hringdi svo í föðursystur mína.  Hún var reyndar ekki heima en hringdi til baka stuttu seinna.  Það varð úr að ég skrapp í heimsókn til hennar.

21.10.13

"Útburður"

Þegar ég kom heim úr klippingu á laugardagsmorguninn hellti ég upp á.  Fljótlega eftir að kaffið var tilbúið komu systir mín, mágur og eldri dóttir þeirra.  Við byrjuðum á því að fá okkur hvert í sinn bollann en um leið og búið var úr bollunum voru hendur látnar standa fram úr ermum.  Ég hélt áfram að pakka dóti frá Davíð í kassa.  Systir mín byrjaði á því að laga til í búrinu og eldhúsinu en svo fór hún í það að hjálpa Oddi Smára að laga til í herberginu hans.  Hann var byrjaður og búinn að gera slatta en það munaði mikið um hjálparhendurnar og herbergið var þrifið hátt og lágt og endurskipulagt.  Strákarnir og mágur minn fóru út í skúr með nokkra kassa og í holið safnaðist dót sem átti að fara í fatagám eða á haugana.  Tekin var matarpása um hálfeitt en svo var haldið áfram alveg til fjögur en þá kvaddi hjálparliðið því koma þurfti yngri dótturinni á skautaæfingu.  Tveimur tímum seinna tóku tvíburarnir strætó til pabba síns.
 
Í gærmorgun var ég mætt til esperantovinkonu minnar rúmlega hálfellefu.  Fengum okkur graut saman og kaffi á eftir.  Fórum yfir kaflann sem við lásum og þýddum um síðustu helgi og lásum svo og þýddum næsta kafla á eftir.  Eftir esperantogruflið fór ég í Krónuna og verslaði inn fyrir vikuna.  Á heimleiðinni kom ég við og í Löðri við Skúlagötu og Sæbraut og keypti gullþvott á bílinn.  Gekk frá vörunum er ég kom heim og bjó til kaffi.  Systir mín og mágur komu um hálftvö og á þremur tímum var pakkað meiru niður farið með alla kassa og stærri mublurnar út í skúr og eina ferð í Sorpu.  Þvílíkur munur.  Ég á reyndar eftir að yfirfara íbúðina, sortera rúmfatnað og taka enn betur til í herberginu mínu en þetta er allt á réttri leið og ég hlakka mikið til þegar dótið verður svo alfarið út úr skúrnum.  Systir mín sagðist ætla að koma aftur og taka herbergið hans Davíðs Steins í gegn.  Það herbergi var alls ekki eins mikil ruslakista en það þarf samt að gera ýmislegt og Helgu langar að gera svipaða hluti og hún gerði fyrir hinn tvíburann.
 
Ég er handviss um að ég á bestu systur og mág í heiminum.  Þannig er það nú bara!

19.10.13

Á leiðinni í klippingu rétt strax

Það komu skilaboð í símann minn í gær um að kápan hennar mömmu væri tilbúin.  Ég labbaði því eftir Skúlagötunni og Snorrabrautinniog kom við í Saumnálinni að sækja flíkina eftir vinnu.  Þaðan gekk ég eftir Flókagötu, gegnum Klamratún og Lönguhlíðina heim.  Stoppaði ekki mjög lengi heima og fór á bílnum yfir að Hlíðarenda til að tryggja það að ég myndi fara í súpupartý kórsins til Ellu eftir fyrri leikinn sem var á dagskrá.  Ég sá semsagt að Valsstrákarnir voru að vinna Akureyringa í handbolta þegar ég fór en ég missti af því að fylgjast með Valsstelpunum rúlla yfir stelpurnar í FH.  En ég sé ekki eftir því að hafa mætt í súpukvöldið því ég átti yndislegt kvöld með kórfélögum mínum og ekki klikkað pistillinn hans "Sann-Kristins" frekar en venjulega við svona tækifæri.  En ég er víst á leið í klippingu til Nonna í Kristu Quest alveg hissa á því að það séu liðnar sex vikur síðan ég var þar síðast.

18.10.13

Pabbi er 79 ára í dag

Full af fyrirheitum er
framtíðin er mín.
Hvernig svo sem annað fer
sólin bara skín.

Er búin að fá og senda þjónustufulltrúanum í bankanum undirritaðan fjárskiptasamning með yfirlýsingu yfir upphæð eingriðslu til að taka alveg yfir íbúðina.  Fæ svo að vita innan tveggja vikna hvort ég fái ekki jákvætt greiðslumat og smá lán til að brúa bilið.  Tók svo eftir því í morgun að fyrsti skammturinn af fimmtán í séreignarlífeyrinum mínum hafði verið lagður inn á reikning.  Loksins er að sjá fyrir endann á þessu öllu saman.  Reyndar gengur lögskilnaður líklega ekki í gegn fyrr en eftir ár en allir aðrir hlutir eru að komast á hreint og það sem eftir er er einungis formsatriði.  Mér er mjög létt og tilfinningin er góð.  Framtíðin er óskrifað blað en ég ætla bara að lifa lífinu lifandi og njóta augnabliksins.  Ef það er e-r framtíðarmaður eins og fleiri en einn hafa sagt til um þá verður sá hinn sami að hafa fyrir hlutunum og sanna sig áður en ég gef færi á mér.  Ég mun ekki gera sömu mistökin tvisvar en ætla ekki að útskýra þetta neitt nánar.  Ætla að passa að setja sjálfa mig í fyrsta sætið án þess að það bitni þó á sonunum, brosa framan í heiminn og halda hugrökk áfram mínu striki.

Góða helgi!

17.10.13

Engin hola

Ég mætti í árlegt tanneftirlit hjá Jónasi tannlækni um ellefu í morgun.  Það tók ekki langa stund frekar en venjulega.  Hann sá ekkert grunsamlegt, (ég hef heldur ekki fundið fyrir neinu) hreinsaði smá tannstein og svo var ég laus úr stólnum uþb tíu mínútum eftir að ég settist í hann ef það var þá svo löng stund.  Borgaði fyrir tímann og festi næsta tíma 363 daga (16.10.2014).
 
Annars  labbaði ég líka heim úr vinnu seinni partinn í gær.  Veðrið var himneskt.  Fann aðeins fyrir kálfunum er ég var að ganga upp tröppurnar heima og það varð til þess að ég fór ekki alveg strax niður í þvottahús.  Svo tók þvottavélin upp á að stríða mér þannig að ég mætti tíu mínútum of seint á kóræfingu.  Guðbjörg raddþjálfi sá um æfinguna og hún er alltaf jafn hress og alltaf að kenna okkur eitthvað nýtt og nýtilegt í sambandi við röddina og raddbeitingu.
 
Hef nýlokið við að lesa söguna Útlagi eftir Jakob Ejersbo.  Fékk hana á safninu á mánudaginn var og þar sem er 14 daga skilafrestur á henni byrjaði ég á henni strax á þriðjudaginn.  Þetta er mjög grípandi saga sögð í 1. persónu af enskri stúlku sem hefur verið búsett í Tansaníu í 12-15 ár af sínum 15-18 árum.  Sagan gerist semsagt á þremur árum.  Kaflarnir eru stuttir og grípandi og það var erfitt að leggja frá sér bókina þrátt fyrir að klukkan væri stundum orðin alltof margt eins og í gærkvöldi og fyrrakvöld.

16.10.13

Ísland í umspil

Ég er að bræða það með mér hvort ekki sé réttast að hætta að hjóla í vinnuna í bili.  Það er það skuggsýnt fyrir átta á morgnana og á bara eftir að verða dimmara og dimmara næstu vikurnar.  Þótt ljósið sem ég er með á stýrinu geti blikkað þá lýsir það nú ekki svo vel.  Tók strætó í vinnunna í gærmorgun en ákvað svo að labba heim í þessu líka himneska veðri.  Það var nánast logn sem betur fer því ég var hvorki með ennisbandið né húfu og ef hann hefði blásið eitthvað þá hefði ég fengið smá verk í eyrun.  Það er annars greinilegt að langt er síðan ég labbaði reglulega milli heimilis og vinnu.  Heimgangan tók mig um það bil 40 mínútur en hér áður var ég rúmar 25 mínútur á milli.
 
Annars er rafvirkjanám annars tvíburans farið að borga sig.  Fyrir nokkrum vikum hélt ég að það væri sprungin peran í loftljósinu í herberginu mínu.  Hinsvegar kviknaði ekkert ljós þótt ég sett nýja peru í.  Sjálf gerði ég ekkert í þessu nema að passa upp á að ljósrofinn væri stilltur á slökkt.  Í gær tók tilvonandi rafvirki sig til, skoðaði málið og lagaði svo nú get ég kveikt á loftljósinu þegar komið er rökkur.
 
Fylgdist að sjálfsögðu með leik Norðmanna og Íslendinga í beinni frá Noregi í gær og auðvitað var maður líka með hugann við leikinn milli Sviss og Slóveníu.  Okkar strákar stóðust álagið og það var gott að ná þessu stigi til að vera örugglega með amk 8. besta árangurinn í öðru sæti í riðlunum.  Það varð hlutskipti Dana að komast ekki í umspil.  Nú er bara spennandi að vita hvaða liði við lendum á móti í umspilinu.  Verða það Portugalar, Úkraínumenn, Króatar eða Grikkir?

15.10.13

Mánuðurinn að verða hálfnaður

Ég fór á bílnum í vinnuna í gærmorgun.  Dagleg störf gengu vel og svo fékk ég að fara um klukkutíma fyrr til þess að skila posanum og skreppa í bankann til að leggja inn á kórreikninginn það sem kom af seðlum í kassann.  Hluti af þeirri upphæð var reyndar peningurinn sem ég tók út á föstudaginn til að eiga örugglega skiptimynt.  Ég notaði líka tækifærið og fór með klinkið sem kemur inn á kóræfingakvöldum þótt krukkan væri bara rúmlega hálf.  Þetta gerði allt hátt í áttatíu þúsund en kortavelta sunnudagsins náði 37.500kr.  Eftir þessi erindi skrapp ég heim og náði í bókasafnspokann.  Fór með hann á Kringlusafnið og skilaði öllum bókunum.  Gerði reyndar þau mistök að telja ekki bækurnar þegar ég var búin að renna þeim í gegnum skilavélina.  Það á að vera regla og ég hefði átt að kveikja því ég var með 12 bækur sem ég var búin að lesa en á skilamiðann birtust bara 10.  Hugsaði líklega sem svo að það hefðu orðið tvær bækur eftir heima.  Fann mér sex nýja bækur og fór beint heim að athuga málið.  Sá ekkert sem benti til þess að ég hefði skilið lesnar bækur eftir heima svo ég hringdi upp á Kringlusafn og lét vita.  Sú sem afgreiddi mig fann aðra bókina en hin bókin er merkt hjá mér sem "Talið skilað".  Mér láðist að spyrja hvort hægt væri að taka bók að láni ef skilavélin hafi ekki náð að "lesa og merkja skilað".
 
Upp úr átta fann ég til kortagerðardótið mitt og fór yfir til tvíburahálfsystur minnar.  Strákarnir voru ekki komnir frá pabba sínum og ég ákvað að ef þeir væru undrandi yfir fjarveru minni þegar þeir skiluðu sér heim þá myndu þeir hringja og spyrja.  Átti 24 ónotuð tilbúin jólakort frá því í framleiðslunni í fyrra.  Var hreint ekkert viss um að sköpunarandinn væri yfir mér en viti menn mér tókst að búa til ein níu stykki.  Þótt klukkan væri langt gengin í ellefu þegar ég hætti kortavinnslu sat ég áfram um stund og drakk meira kaffi.  Klukkan var að verða hálftólf þegar ég kvaddi loksins en þessir rúmu þrír tímar virkuðu ekki lengri en hálftími eða svo.

14.10.13

Enn er hafin ný vinnuvika

Skrapp til esperanto vinkonu minnar upp úr hálfellefu á laugardagsmorguninn.  Við fengum okkur fyrst smá graut og kaffi áður en við grúfðum okkur yfir þetta heillandi tungumál.  Fórum yfir leskaflann sem við lásum síðast og lásum svo þann næsta.  Kom við í Krónunni áður en ég fór heim.  Davíð Steinn var enn heima og reyndar fór hann ekki til pabba síns fyrr en komið var undir kvöld.
Um miðjan dag skrapp ég upp í kirkju til að hjálpa til við að undirbúa kirkjukaffi kórsins eftir messu daginn eftir.  Það var ekki fyrr en stundu eftir að ég kom heim aftur sem ég skellti í tvær hjónabandssælur til að taka með á hlaðborðið.
 
Var mætt upp í kirkju áður en klukkan var orðin hálfeitt í gær.  Setti upp kaffið á tvær stórar vélar og fljótlega var svo upphitun fyrir messuna.  Eftir upphitunina var hægt að setja kaffið á kaffibrúsa og koma af stað annarri uppáhellingu.  Messan byrjaði á slaginu tvö og ég sá að synir mínir voru báðir mættir en þeir stóðu vaktina með posann og peningakassann v/hlaðborðsins.  Reyndar var sett á tvö borð eins og alltaf annað uppi og hitt niðri.  Heldur færri voru við messuna þetta árið og mættu ekki nema tæplega helmingurinn af fermingabörnunum sem þar að auki eru mun færri heldurinn en hópurinn sem var fermdur sl. vor.  En "föðursystir" mín mætti með yngra barnið sitt og var þetta messa númer tvö hjá henni.  Alls komu hátt í 90þúsund inn en hluti af því er líka að flestir kórmeðlimir borga líka þrátt fyrir að sjá um að nóg sé að bíta og brenna á hlaðborðinu.  Eftir messuna skutlaði ég bræðrunum í Mjóddina.
 
er ég búin að lesa allar tólf bókasafnsbækurnar og það er enn vika eftir af skilafrestinum.  Á eftir að lesa bókaklúbbsbókina og örfáar af bókunum sem mamma lét mig hafa síðast þegar ég fór austur.  Bækurnar að austan eru allar vasabrotsbækur úr rauðu seríunni svo þær eru fljótlesnar.  Ég er nokkuð viss um að ég mun leggja leið mína á safnið á næstu dögum.

12.10.13

Útréttingar

Ég stimplaði mig út klukkan eitt í gær.  Fyrst lá leiðin í Valitor við Laugaveg til að sækja posa sem ég var búin að panta í helgarleigu vegna kaffisölunnar eftir galdramessuna á morgun.  Kórinn sér um kaffið og rennur ágóðinn í kórsjóðinn.  Næst kom ég við hjá lögfræðingnum mínum til að skrifa undir fjárskiptasamning svo sýslumaður geti gefið út vottorð um skilnað að borði og sæng.  Svei mér þá ef hlutirnir eru ekki loksins að fara að ganga upp.  Það er alveg mál til komið enda 10 mánuðir síðan hinn aðilinn í sambandinu gekk út og hann er löngu kominn í annað samband (gott ef það var ekki byrjað áður en hann fór frá mér).  Lögfræðingur sagði að ég þyrfti ekki að mæta í boðaðan tíma hjá sýslumanni fyrst ég væri búin að skrifa undir.  Hún ætlaði að framsenda gögnin til hins lögfræðingsins og ég fæ svo afrit af skjalinu þegar það hefur verið undirritað og vottað að fullu.  Næst fór ég í bankann.  Tók út smá skiptimynt til að hafa ef borgað verður með stórum seðlum í kaffinu eftir messu á morgun.  Svo fór ég til sérfræðiþjónustufulltrúa með haldbær gögn til að sækja um smá lán og fá greiðslumat.  Hún tók við gögnunum en í ljós kom að fjárskiptasamningurinn þarf að vera undirritaður.  Ég mun því þurfa að senda henni afrit af honum þegar ég fæ mitt eintak í hendurnar.  Svo varð ég að skreppa heim og sækja hormónalyfseðlana mína.  Leysti þá út í Lyfjaveri og keypti tvö glös af alhliða vítamínum.  Samtals kostaði þetta mig á sextándu þúsund.  Að lokum kíkti ég við í til Hlíbbu í Hátúnið og stoppaði hjá henni í á annan klukkutíma.  Hún tók fagnandi á móti mér en af sér sagðist hún ekki vera mjög ánægð með heilsuleysið, svo virtist sem ellin væri alveg komin...   Auðvitað horfði ég svo á landsleikinn Ísland - Kýpur í gær 2:0.   :-)

11.10.13

Bleikur dagur

Birtir yfir úti´ og inni
allt í höndum leikur.
Þankar þykjast ennþá minni
þessi dagur bleikur.

Já, við í minni deild tókum bleika daginn mjög alvarlega og sumar voru í öllu bleiku.  Það var komið með bleikar kökur og nammi á bleikum diskum og í bleikum ílátum. Bleikar blöðrur blásnar upp. Bleikur dúkur settur á borðið í kaffistofunni. Við settum á okkur bleikan varalit og tókum svo myndir af öllu saman.  Ef okkar deild er ekki bleikasta deildin þá er ég illa svikin.

Ég stakk svo af frá öllu saman um eitt, búin að fá leyfi til að vera í sumarfríi eftir hádegi.  Er að sinna fullt af erindum og það er aldrei að vita nema ég skrifi um þau á morgun.

Góða helgi!

10.10.13

Kóræfing

Það væsti nú ekkert um hjólið mitt í bílakjallara Seðlabankans en þar var því lagt í hjólastæði á mánudagsmorguninn var og fékk að standa þar óáreitt þar til rúmlega fjögur í gær að ég hjólaði á því heim eftir vinnu.  Mætti vagni númer 13 er ég var að hjóla yfir Hverfisgötu og svo sá ég sama vagn bruna yfir gatnamót Lönguhlíðar og Miklubrautar er ég átti stutt eftir að þeim ljósum.  Það er ekki víst að ég noti hjólið meira þetta árið amk ekki milli heimilis og vinnu.
 
Strákarnir voru báðir lasnir heima í gær með einhvers konar magapest en þeir voru að hressast í gærkvöldi og ætluðu að mæta í skólann í dag.  Á morgun og mánudaginn er vetrarfrí í skólanum. Miðannarmatið er komið og eru þeir báðir að standa sig afar vel.  Oddur Smári er með A í öllu nema stærðfræði þar er hann með B og Davíð Steinn með A í öllu nema C í ensku og hluti af þeirri einkunn segir hann vera vegna þess að hópurinn fékk annan kennara eftir að önnin var byrjuð.  Reyndar er svo strákurinn ekki duglegur að mæta í íþróttir en það stendur vonandi til bóta.
 
Fann poka af frönskum kartöflum þegar ég tók frystinn í gegn um daginn og ákvað að nota hann í gær ásamt þorskflökum sem ég steikti upp úr eggi og krydduðu heilhveiti blönduðu með sesamfræjum.  Þetta var bara virkilega gott.
 
Það voru allir mættir á kóræfinguna í gærkvöldi og fengum við að takast á við nýtt lag, Tvær stjörnur, eftir Megas útsett af Einari égmanekkihversson.  Tíminn leið hratt en ekki æfðum við neina sálma sem syngja á við galdramessuna n.k. sunnudag.  Eitthvað æfðum við þó úr brúnu bókinni sem verður jafnvel notað.

9.10.13

Jafntefli

Ég fór á bílnum í gærmorgun eins og flesta þriðjudaga.  Tvíburarnir voru samferða og því mættir nokkuð fyrir fyrsta tíma.  En þótt ég mætti við vinnuna fyrir átta voru engin stæði laus á neðra planinu svo ég varð að leggja í gjaldstæði.  Er búin að láta frá mér bílastæðakortið sem gildir í Kolabortið undir seðlabankankanum.  Þrjú kort eru í gangi og eru þau öll notuð af þeim sem ekki eru með eða lengur með samgöngusamning.  Við tvær sem enn erum með samning í gildi og komum því ekki á bíl oftar en tvisvar í viku verðum bara að redda okkur ef það eru engin stæði laus.
 
Eftir vinnu fór ég með kápuna hennar mömmu og rennilásinn sem ég keypti á laugardaginn var í Saumnálina við Snorrabraut.  Þangað má ég svo sækja kápuna eftir hálfan mánuð.  Þegar ég kom heim færði Davíð Steinn mér þær fréttir að hann væri aftur kominn með magapest, í annað skiptið á innan við viku.  Oddur Smári fór á trommuæfingu og ég mætti honum þegar ég var á leiðinni á handboltaheimaleik í Olísdeild kvenna.  Sá leikur var afar spennandi en stelpurnar mínar voru heppnar að tapa honum ekki í restina.  Markvörður Gróttustelpna varði ófá skotin og það virtist sem hún væri alveg búin að lesa Hrafnhildi Skúladóttur því hún varði m.a. tvö víti frá henni.
 
Oddur Smári var eitthvað byrjaður að slappast er ég kom heim og ég fann að hann var extra heitur.  Honum var líka flökurt en ekki vildi hann fara strax að sofa.  Lilja vinkona kom rétt fyrir tíu og fékk að gista í nótt.

8.10.13

Er veturinn þá kominn?

Notaði hjólið á milli heimilis og vinnu í gærmorgun.  Svo komu upp þær aðstæður að ég var beðin um að vera lengur og þegar ég hætti í vinnu í gærkvöldi var farið að skyggja það mikið að ég ákvað að taka strætó heim.  Ljósið á hjólinu virkar nefnilega ekki og svo var ég auðvitað komin miklu fyrr heim og átti þá eitthvað eftir af kvöldinu.  Sá tími fór í sjónvarpsgláp og snerti ég ekki á nál í gær.  Í fyrrakvöld byrjaði ég aðeins á bók sem heitir "Mundu mig ég man þig" eftir Dorothy Koomson. Bókin er rétt yfir 500 blaðsíður en virkilega spennandi og þar sem hluti af vinnudeginu í gær fór í bið og ég hafði verið svo forsjál að taka bókina með í vinnuna þá kláraði ég að lesa hana í gær.  Tuttugu árum eftir hörmulegt slys þar sem tvær unglingsstúlkur og "kennaraperri" komu við sögu þar sem sá síðast nefndi lét lífið og önnur stúlkan var sýknuð en hin fékk lífstíðardóm eru þær enn að kljást við þetta mál.  Sú sem var fangelsuð fær reynslulausn.  Hin er gift tveggja barna móðir en hafði ekki sagt manninum frá þessu máli.  Báðar eru þær sannfærðar um sakleysi sitt en takast á við það á ólíkan hátt.  Það kemur í ljós alveg í lokin að þær eru saklausar en án þess að ljóstra upp hver morðinginn er þá komst aldrei upp um hann.  Og nú er aðeins ein bók ólesin af 12 en skilafrestur rennur ekki út fyrr en eftir hálfan mánuð.

7.10.13

Enn ein helgin flogin

Tók marga snúninga á laugardaginn.  Byrjaði á að mæta til esperanto vinkonu minnar upp úr hálfellefu.  Kom svo við í Krónunni en stoppaði ekki lengi heima.  Um eittleytið var ég kominn í Álafoss í Mosfellsbæ til að kaupa svartan 70cm rennilás með semelíusteinum í kápuna hennar mömmu.  Síðan lá leiðin í íþróttahús staðarins þar sem ég fylgdist með Vals-stelpunum "mínum" etja kappi við stelpurnar í Aftureldingu í Olísdeild kvenna í handbolta.  Leikurinn fór 16:41 fyrir Val, en staðan var 6:19 í hálfleik.  Eftir leikinn skrapp ég í heimsókn í plássinu þar sem ég stoppaði við í á annan tíma.  Um kvöldið horfðum við Oddur á Barnaby á DR1 og Merlín á tímaflakkinu á RUV.
 
Gærdagurinn var allur miklu rólegri.  Ég setti í eina þvottavél og fékk annan strákinn til að ryksuga. Svo notaði ég tímann í útsaum, lestur og flakk um netheima.  Hafði kjötsúpu í kvöldmatinn við góðar undirtektir bræðranna.

5.10.13

Tvær ferskeytlur og fleira

Sjá dagar styttast, nálgast jól
sumarið er liðið.
Blómin blunda öll í skjól
best að finna miðið.

Lífið eins og áin mögnuð
ég sætti mig við það.
Innri röddin rám ei þögnuð
reynslan skráð á blað.

Þessar tvær komu til mín í gær.  Önnur stuttu fyrir hádegi og hin rétt fyrir miðnætti.  Er búin að "útvarpa" þeim á fésbókinni og þegar fá nokkur "læk".  :-)  Annars var það bara heppni að ég náði að senda nokkrar línur á þessum vettvangi í gær.  Notaði þessar mínútur sem klukkuna vantaði í átta til að skrifa niður það helsta.  En svo var ég á vélinni milli átta og rúmlega tólf, reyndar með smá kaffipásu upp úr klukkan tíu.  Ein af okkur var í fríi og um ellefu voru tvær sendar í Katrínartúnið til að sitja sviðsfund.  Við hinar þrjár kláruðum allt daglegt og vorum búnar rétt fyrir hálfeitt.  Þá "lokuðum" við deildinni og fórum á eftir hinum tveim því það var hafinn starfsdagur.  Við fengum að borða í mötuneytinu uppfrá og náðum að hlusta á hluta af fyrirlestri um markmiðssetningu.  Ein af okkur fór á kynningu um víngerð og þrjár létu spá fyrir sér.  Mest fannst okkur gaman að hitta og vera innan um fólkið.  Um fimmleytið var farið niður í skála þar sem við fengum smá tilsögn í salsa og svo fengum við gott í gogginn.

4.10.13

Tap á heimavelli

Fór á heimaleik hjá Valsstrákunum í gærkvöldi.  Þeir tóku á móti strákunum úr Safamýrinni.  Valsmenn voru komnir í þægilega stöðu um miðjan síðari hálfleik, 4-5 mörkum yfir, en þá fór markvörður andstæðinganna að verja og verja og þótt Valsmarkvörðurinn væri líka að verja eitthvað þá saxaðist jafnt og þétt á forskotið og leikurinn endaði 25:26 fyrir Fram.  :-(
 
Annars ætlaði ég að hafa kjötsúpu í matinn í gærkvöldi.  Taldi mig eiga nokkra súpukjötsbita.  Á meðan ég leitaði að kjötinu notaði ég tækifærið og tók til og afísaði frystihólfið.  Ekkert fann ég kjötið en hins vegar fann ég fiskibollur sem ég vissi ekki að ég ætti og auðvitað voru þær hafðar í kvöldmatinn í staðinn.
 
Nei, engin ferskeytla í dag.  Eigið góða helgi og farið vel með ykkur!

3.10.13

Vel mætt á kóræfingu

Við vorum 16 með kórstjóranum sem mættum á æfingu í gærkvöldi og ég get svarið það að tíminn leið extra hratt.  Af þessum 15 er bara ein ný en Árni Heiðar hafði á orði að nú væri sko tækifæri til að byrja nýr því við ætlum að vera að æfa mest allt nýtt í vetur fyrir utan kannski hátíðarmessurnar.  Næsta messa verður annan sunnudag og þá mun kórinn sjá um veglegt kaffihlaðborð á báðum hæðum gegn vægu gjaldi.  Innkoman fer beint í kórsjóð og verður nýtt í eitthvað skemmtilegt og fleira fyrir kórfélaga.
 
Annars saumaði ég ekkert í gær heldur og verð að fara að taka í hnakkadrambið á mér held ég, svei mér þá.  Þó er ég ekki frá því að eins gott og róandi það er að sitja með saumana og sjá myndirnar birtast smám saman á jafanum þá er örugglega fínt að taka sér smá pásur öðru hvoru frá saumaskapnum.

2.10.13

Ekkert saumað í gær :-/

Var á bíl í gær og eftir vinnu skrapp ég í Lyfju og keypti m.a. tvær litlar flöskur af propanol.  Eina fyrir rafvirkjunarnemann og hina fyrir heimilið.  Sú sem afgreiddi mig ákvað að kíkja í reglur til að athuga hvort mætti afhenda tvær litlar flöskur í einu og það var alveg í lagi.  Tvíburinn þarf að fara með þetta og tannbursta með sér í skólann til að hreinsa e-ð sem hann er að nota í náminu sínu.  Það væri fróðlegt að vera fluga á vegg til að fá að fylgjast með því.  Svo kom ég við í fiskbúð og keypti saltfisk áður en ég fór heim.  Var alltaf á leiðinni að taka fram saumana mína og var meira að segja búin að kveikja á lampanum góða en imbinn krafðist alls tímans og var ég t.d. að horfa á annan þáttinn af "Broen" sem var á dagskrá kvöldið áður þegar ég var í saumaklúbbnum.
 
er ég alveg að fara að fara að skrifa undir skilnað að borði og sæng og samning um skiptingu eigna og skulda og er ég mikið feginn að þessu máli er að ljúka.  Ég mun halda íbúðinni og svo þarf ég bara að setja manninum tímamörk á hvenær hann á að vera búinn að hirða allt sitt og skila mér öllum lyklum.

1.10.13

"Saumó" hjá Lilju :-)

Fyrsti skipulagði saumaklúbbur haustsins var á dagskrá í gærkvöldi í byggðinni við Úlfarsfell.  Ég var mætt á slaginu klukkan átta og ákvað að nota kvöldið í að sauma útlínur í mynd sem fer í jólakort.  Hálftíma seinna mætti tvíburahálfsystir mín.  Hún vann að Toskana-myndinni en spurði jafnframt hvenær við myndum byrja á pappírsjólakortunum.  Ég held að gestgjafi kvöldsins muni nota alla lausa tíma í að skera út skemmtilegar klippimyndir sem eru að rokseljast á tveimur stöðum í bænum, m.a. jólabúðinni.  Tíminn leið afar hratt eins og venja er þegar maður er að gera skemmtilega hluti með skemmtilegu fólki og var klukkan alveg að verða ellefu þegar ég kvaddi og hélt heim á leið, afar ánægð með allt í sambandi við kvöldið.