30.9.13

Skemmtileg helgi að baki

Sat með saumana mína fyrir framan skjáinn aðeins fram yfir miðnætti á föstudagskvöldið.  Morguninn eftir fór ég á fætur fyrir átta og var komin í Skautahöll Reykjavíkur um hálfníu.  Þar var hópur yngri systurdóttur minnar að hita upp og svo var Bríet fyrst á svellið.  Horfði á allar hinar í aldursflokknum en var samt komin heim fyrir hálftíu.  Um klst. síðar ákvað ég að drífa mig yfir til norsku esperanto vinkonu minnar.  Hún átti ekki von á mér en var ekki upptekin svo ég þáði hjá henni kaffisopa og svo dembdum við okkur í les- og þýðingaæfingar.  Þetta gekk mjög vel hjá okkur og ég benti henni einnig á að við hefðum verið óvenju duglegar og fljótar að koma okkur að verki.  Frá Inger dreif ég mig í Krónuna og verslaði inn fyrir vikuna.  Gat ekki séð að til væri nein lactosa-frí mjólk svo ég kom við í Hagkaup í Skeifunni til að kaupa nokkra lítra fyrir Davíð Stein.  Ég stoppaði ekki lengi við heima því ég var mætt á heimaleik hjá stelpunum mínum, klukkan hálftvö, sem tóku á móti Selfossstúlkum í Olísdeild kvenna á laugardaginn.  Leikurinn var bara spennandi fyrstu tuttugu mínúturnar en eftir það var alveg ljóst hvorum meginn sigurinn myndi lenda.  Það var bara spurning um hversu stór sigurinn yrði.  Hálfleikstölur voru 12:7.  Selfossstelpur skoruðu fyrsta markið í seinni hálfleik en svo skoruðu þær ekkert í rúmar fimmtán mínútur á meðan "mínar stelpur" röðuðu inn mörkum.  Lokatölur urðu 28:14.
 
Í gærmorgun var ég komin á stjá mun fyrr en á laugardagsmorguninn og var ég komin í Skautahöllina á slaginu átta.  Rétt seinna byrjaði fyrri hópurinn í flokki 12-14 ára að hita upp.  Hulda var í seinni hópnum og fyrst að þeim á svellið.  Sá allar átta stelpurnar keppa.  Þær voru margar sem duttu og sumar oftar en einu sinni.  Hulda datt ekki en það voru tvö stökk sem hún lenti ekki alveg óaðfinnanlega.  Eitthvað vantar hana enn upp á tæknina en tjáningin og túlkunin er í góðu lagi og þar skarar hún framúr.  Hún endaði í öðru sæti með 28,33 stig en sú sem vann fékk 28,76 og þar af rúmum fjórum heilum hærri fyrir tækni.  Var komin heim aftur um níu.  Skutlaði Oddi Smára í Árbæjarkirkju fyrir hálfellefu og ákvað að drífa mig í messu þar.  Skólalúðrasveit Árbæjar og Breiðholts spilaði tvö lög í messunni og önnur tvö fyrir utan kirkjuna eftir messu.  Þegar þessu var lokið pikkuðum við Davíð Stein upp í Mjóddinni og brunuðum austur á Hellu í heimsókn til pabba og mömmu.  Stoppuðum þar bæði í kaffi og kvöldmat og vorum svo komin heim rétt fyrir tíu.

27.9.13

Tap á heimavelli

Sat með sauma höndum í
svo róin yfir færðist.
Söngur hljómar dirrin dí
dálítið mér lærðist.

Nei, leið mín lá nú ekki á völlinn í gær.  Sat með saumana mína fyrir framan imbann og fylgdist með stelpunum okkar lenda í miklum vandræðum með þær svissnesku og úrslitin 0:2  :-( .  Gestirnir voru mun líklegri allan tíman til að bæta við mörkum heldur en okkar stelpur að skora.  Þær áttu reyndar nokkuð góða möguleika í flestum föstum leikatriðum en allt kom fyrir ekki.
 
Merkilegt annars hversu tíminn þýtur áfram.  Ég hamast við að njóta hans í botn og pæli lítið í því að ég eldist með hverri mínútunni enda ekkert svo gömul enn.  Vona bara að línur í ákveðnu máli fari að skýrast og skerast.  Lífið verður sífellt betra og ég hlakka til allra verkefnanna og áhugamálanna framundan.
 
Góða helgi!

26.9.13

Lestur er bestur

Það gengur bara nokkuð vel að lesa bækurnar af safninu.  Hef þegar lokið við fjórar og það er ekki komin vika síðan ég sótti þær á safnið.  Feluleikur var svo spennandi á köflum að ég varð stundum að leggja hana frá mér en það leið ekki langur tími áður en bókin/sagan togaði það mikið í mig að ég bara varð að lesa meira og komast að hvernig hlutirnir myndu fara.  Í gærkvöldi kláraði ég líka bókina Snákar og eyrnalokkar eftir Hitomi Kanehara.  Þessi saga fékk japönsk bókmennta verðlaun árið 2004.  Letrið er stórt en þrátt fyrir hispurslausa og á tíðum svolítið grófa frásögn þá lét sagan mann ekki í friði.  Ólgan mikil undir niðri og þegar bókin var búin langaði mig svo að vita meira.  En mikið er ég fegin að þessi saga var ekki hendi næst þegar ég tók þátt í alþjóða lestrarviku á Facebook og skrifaði 5. setninguna á bls. 52 í statusinn minn.  Ég er ekki með bókina við höndina en ég setningin byrjaði eitthvað á þessa leið:  "Ég saug á honum tærnar..."
 
Notaði strætó á milli heimilis og vinnu í gær en fór svo á bílnum á kóræfingu í gærkvöldi.  Mættum átta fyrir utan kórstjórann.  Það vantaði amk sex.  En við vorum að æfa rödduð lög úr brúnu bókinni og söng kórstjórinn með eina tenórnum sem var mættur.  Æfingin var skemmtileg og notaleg og tíminn fljótur að líða.  Reyndar fengum við að fara aðeins fyrr heim.  Horfði á Kiljuna á plúsnum og saumaði nokkur spor í stóru myndinni í leiðinni.

25.9.13

"Hafgolufólk"

Á mánudaginn var byrjaði ég á bók eftir Önnu Dóru Antonsdóttur sem heitir Hafgolufólk.  Sagan er um fjölskyldu eina og er eitt barnabarnið að tína upp ýmsan fróðleik um móðurforeldra sína og börnin þeirra og e-r barnabörn.  Það er skemmst frá því að segja að ég hætti ekki að lesa fyrr en ég var búin með bókina.  Núna er ég langt komin með Feluleikur eftir James Patterson og Michael Ledwidge.  Heilmikil spennusaga og ég er mest hissa á að vera ekki búin að klára bókina.  Það er reyndar ekki mikið eftir af henni en ég notaði tímann líka í útsaum, tölvuleiki og sjónvarpsgláp.  Er að vinna í því að fylla í "göt" og sauma þá staði sem eru fyrir utan síðasta og "stærsta" ósaumaða munstursvæðið.  Það er alveg að hafast og þá þarf ég ekki að fletta munsturblaðinu í sundur nema til að athuga með hvaða litum ég á að sauma með.  Er farin að þekkja sum táknin það vel að ég þarf ekki alltaf að fletta þeim upp.  Geri það þó nokkuð oft að fullvissa mig um að ég hafi rétt fyrir mér.
 
Fékk að fara aðeins fyrr úr vinnu í gær til að sinna ýmsum málum.  Það er sennilega að nást lending í skilnaðarmálinu og ég fór m.a. að athuga um leiðir til að borga mismuninn til að fá að halda íbúðinni og búa áfram í Drápuhlíðinni.  En ég ætlaði líka að nota tækifærið og gefa blóð en að þessu sinni verða víst að líða fimm mánuðir frá síðustu gjöf svo ég má ekki gefa fyrr en eftir 24. næsta mánaðar.  Kom líka við í hannyrðaversluninni Erlunni til að athuga hvort þar væru til fleiri stjörnumerki til að sauma út.  Mig vantar Bogmanninn til að sauma handa frænda mínum.  Því miður var bara til einn Hrútur svo ég þarf að athuga hvort ég geti fundið þetta ákveðna merki eftir öðrum leiðum.  Steingleymdi því að ég ætlaði líka að leysa út tvo lyfseðla en það kemur ekki að sök og er ég búin að sjá til þess að ég þarf ekki að leysa þá út alveg strax.  Er farin að velta því fyrir mér hvort það fari ekki að styttast í þessu hormónadæmi hjá mér, þau svör fást líklega ekki nema hjá kvensjúkdómalækninum mínum.  En þetta mál verður ekki skrifað mikið um á þessum vettvangi þótt það sé í raun og veru ekkert feimnismál.  Það er örugglega takmarkað hversu margir hafa áhuga á akkúrat svona málum þó ég sé alveg einstakt tilfelli.  :-)

24.9.13

Hjaltadætur

Notaði hjólið á milli heimilis og vinnu í gær.  Ég var rétt lögð af stað heim þegar fóru að koma dropar út lofti.  Ætlaði að hjóla leiðina sem ég fer oftast en á gangstéttinni, mín meginn, á miðri Sóleyjargötunni var kyrrstæð bifreið og engin leið framhjá henni án þess að fara út á götu.  Umferðin þarna er nokkur en ég komst yfir á hina gangstéttina eftir smá stund og ákvað svo að hjóla yfir brúna fyrir neðan BSÍ.  Ég var ekki lengi alla leið heim og slapp að mestu við að blotna því það varð aldrei ausandi rigning.  Stuttu eftir að ég kom heim bauð ég öðrum tvíbbanum að skutla honum eftir sendingu á pósthúsið.  Eftir kvöldmat og frágang í eldhúsinu kvaddi ég tvíburana og skrapp svo í heimsókn til vinkonu sem á líka pabba sem heitir Hjalti.  Stoppaði hjá henni í uþb tvo tíma og horfði m.a. á fyrsta þáttinn af nýrri þáttaröð,  "Broen".

23.9.13

"Harmsaga"

Seinni partinn á föstudaginn hringdi mágur minn í mig og spurði hvort ég væri upptekin kvöldið eftir.  Ég sagðist ekki vera búin að ráðstafa laugardagskvöldinu svo hann bauð mér tvo miða í leikhúsið sem ég þáði með þökkum.  Annars var ég ekki komin heim fyrr en á níunda tímanum á föstudagskvöldið og eyddi ég restinni af kvöldinu með saumana mína fyrir framan skjáinn.
 
Á laugardagsmorguninn, upp úr hálfellefu, kom norska esperanto vinkona mín til mín.  Ég bauð henni að koma með mér í leikhúsið um kvöldið og hún þáði boðið.  Fengum okkur krækiberjabúst í hrísmjólk með smá banana í líka og svo lögðumst við aðeins yfir esperantobækurnar.  Vinkonan kvaddi í bili rétt upp úr tólf.  Rúmum klukkutíma seinna labbaði ég yfir á Valsvöllin og sá "stelpurnar mínar" sigra ÍBV 27:20 í Olísdeild kvenna (handbolta).  Eftir leikinn lá leiðin í Kringlusafnið.  Skilaði öllum 6 bókunum sem ég var með í láni en það fóru 12 bækur með mér heim.  Inger kom aftur til mín nokkru áður en kominn var tími til að fara í leikhúsið svo við urðum samferða upp úr sjö heiman að frá mér.  Leikritið, Harmsaga, eftir Mikalel Torfason var sýnt í Kassanum á bak við Þjóðleikhúsið.  Tveir leikendur voru á sviðinu allan tímann í einnoghálfan tíma og fóru fram og aftur í tíma í sögu hjóna í tilvistarkreppu.  Hann fluttur út en vonar að þau eigi eftir að finna út úr þessu og ná saman aftur.  Það var mikill kraftur í leikurunum og flott hvernig þau gátu skipt yfir í annað tímabil nánast á stundinni.  Á einum stað í verkinu dönsuðu þau mjög flottan dans svo unun var á að horfa.  Ég var afar lukkuleg með að hafa boðist þetta óvænta leikhúsheimsóknardæmi.
 
Í gær var ég mætt í kirkjuna um hálfeitt.  Við hituðum upp fyrir tónlistarmessu á þremur korterum og Árni Heiðar var búin að fá til liðs við sig trommu- og bassaleikara.  Búið var að auglýsa að sverðgleypir myndi vera á svæðinu og sýna listir sínar en hann boðaði forföll.  Messan tókst bara vel en það hefðu mátt vera fleiri kirkjugestir.  Þeir voru samt e-ð um tuttugu.  Fékk mér kaffi og kleinu niðri í sal eftir messuna.  Var heima í rúman hálftíma áður en ég trítlaði yfir á Valsvöllinn á síðasta heimaleik í Pepsídeild karla.  Því miður urðu úrslitin KR í hag 1:2 og tryggðu þeir sér titilinn í leiðinn þrátt fyrir að eiga eftir að spila tvo leiki.

20.9.13

Handboltatímabilið hafið

Maður orðlaus alveg verður
að fylgjast sumu með.
Margur hann er illa gerður
aðrir minna´ á peð.
_____  _____  _____  _____

Vetrarsportið hafið er
handboltinn lifi.
Vildi vita hvernig fer
Valsklukkan hún tifi.

Jamm, ég skellti mér á völlinn í gær og tók þá ákvörðun að splæsa á mig árskorti á alla heimaleiki í vetur.  Kortið er rautt, semsagt í aðallitunum og ég fékk kort númer 68.  Tær snilld alveg hreint og "mínir menn" unnu fyrsta leikinn með fimm marka mun.  Hlynur Morthens fór hamförum í markinu, varði vel í fyrri hálfleik, tók pásu framan af síðarhálfleik (hleypti hinum markverðinum að) og varði svo sjö af átta síðustu skotum Haukanna.  Á síðustu mínútunum fengu Valsmenn á sig tvær brottvísanir með stuttu millibili en það kom ekki að sök og átti Hlynur stóran þátt í því.  27:22 var lokaniðurstaðan.  Nú þarf ég endilega að setja áminningu á næstu heimaleiki í Olísdeild karla og kvenna.  Ég var líka búin að sjá að heimaleikirnir skarast ekki á við kóræfingar svo ég er staðráðin í að vera dugleg að mæta á völlinn í vetur.

19.9.13

Hjólið skilið eftir í skúrnum

Nei, ég nennti ekki að fara á hjóli til vinnu í morgun.  Fór með gula stóra bílnum númer 13.  Ég hef þá alltaf þann möguleika að labba heim aftur...   ...eða taka vagninn bara til baka.
 
Saumaði aðeins í stóru myndinni fyrir kvöldmat í gær.  Lokaði einu "gati" á jafanum.  Það er magnað hversu lítið er í raun eftir af myndinni, eiginlega bara tvö tré, smá himinn og svo útlínurnar.  Samt er óvíst hvort ég leggi áherslu á klára myndina á þessu ári.  Reyndar er það svo að hún kallar alltaf á mig að vinna í sér en það er mjög misjafnt hversu mikið ég sauma í hvert sinn.
 
Var mætt við óháðu kirkjuna rétt fyrir hálfátta.  Nokkrir voru komnir en þar sem allt var slökkt í kirkjunni og bíll kórstjórans var ekki fyrir utan biðu menn í bílunum alveg vissir um að kirkjan væri lokuð og læst.  En rétt eftir að ég lagði bílnum sást hreyfing inni og svo stóð kórstjórinn í útidyragættinni eitt spurningamerki í framan.  Hann var víst löngu kominn, hafði labbað en það var enn svo bjart að hann hafði ekki kveikt nein ljós.
 
Kom heim aftur upp úr hálftíu.  Annar strákurinn var í playstation-leik í stofunni og ég leyfði honum að vera þar alveg til tíu.  Þá fékk ég að taka yfir sjónvarpstækið.  Stillti á plúsinn og horfði á Kiljuna á meðan ég kláraði afmælisgjöfina að öllu öðru leyti en því að ég á eftir að sauma skammstöfun mína og ártal.  Þetta var ekki lengi gert og alveg sex vikur í þetta afmæli.

18.9.13

Hjólandi

Strákarnir þáðu farið í skólann í gærmorgun þrátt fyrir að vera komnir í skólann rúmum tuttugu mínútum áður en tímarnir byrjuðu enda stíla ég inn á að vera á bíl þá tvo daga í viku sem strákarnir eru báðir að mæta klukkan 08:10.  Vinnudagurinn leið afar hratt enda nóg að gera alveg fram á síðasta klukkutímann.  Kom við á Hlemmi á heimleiðinni og keypti mér miða í strætó 2x9stk.  Bræðurnir voru báðir heima þegar ég kom heim og báðir í stofunni og líkt og á mánudaginn var annar að spila og hinn að fylgjast með.  Ég kveikti á tölvunni og gleymdi mér aðeins á vafrinu og í leikjunum því allt í einu var klukkan orðin sex.  Kvöldmaturinn var tilbúinn hjá mér rétt fyrir sjö og þegar ég var búin að borða settist ég með saumana mína fyrir framan skjáinn.  Saumaði smávegis myndinni sem ég hef verið að vinna að í ár áður en ég tók til við afmælisgjöfina.  Lagði samt handavinnuna frá mér þegar Castle byrjaði.  Lilja vinkona kom um hálftíu og horfði á restina af Castle með okkur.  Horfðum á sjónvarpið og spjölluðum inn á milli alveg til klukkan var að verða hálftólf þá eftir lét ég henni stofuna.  Hún labbaði svo af stað í HÍ á sama tíma og ég hjólaði í vinnuna.

17.9.13

Hraðferð á logninu

Við mæðgin komum öll heim á svipuðum tíma upp úr fjögur í gær.  Bræðurnir lögðu undir sig stofuna fram að kvöldmat og spiluðu e-n "playstation"-leik, eða hvort annað spilaði og hinn fylgdist með.  Ég kveikti á tölvunni sem Lilja lánaði mér og fór vítt og breytt um netheima þar til tími var kominn til að finna til matinn.  Eftir matinn settist ég fyrir framan skjáinn, tilbúin með bók á stofuborðinu en fór að vinna að nýjasta saumaverkefninu (afmælisgjöf).  Ég snerti ekki á bókinni fyrr en þegar ég skreið upp í rúm á tólfta tímanum en ég get verið stolt af saumaafrakstrinum því ef ég held svona áfram klára ég verkefnið á innan við viku.  En ég tók heldur ekki fram það saumaverkefni sem ég hef mest unnið við á árinu "Lost nomore".  Það er örugglega líka bara gott að taka sér smá pásur frá því inn á milli.

16.9.13

Hvert fór helgin?

Skrapp á völlinn bæði á föstudag og laugardag.  Valsstrákarnir tóku á móti Blikum um hálfsex á föstudaginn og niðurstaðan var 1:1.  Þeir eiga nú eftir að spila fjóra leiki, fara í Kaplakrikann og sækja FH heim í kvöld og til Eyja n.k. fimmtudag, fá KR í heimsókn á sunnudaginn og í lokaumferðinni fara þeir í Ólafsvík.  Ég er svolítið hugsi yfir að alltaf þegar ég mæti á heimaleikina endar leikirnir oftast jafnt og stundum tapast þeir.  Þá tvo heimaleiki sem ég komst ekki á sigruðu þeir :-/.  Fljótlega eftir að ég kom heim af leiknum hringdi norska esperanto-vinkona mín í mig.  Það var búið að vera nokkurra vikna hlé hjá okkur en við vorum sammála um að fara að taka upp þráðinn.  Mætti til hennar upp úr hálfellefu á laugardagsmorguninn.  Hún byrjaði á því að bjóða mér upp á kaffi á meðan hún setti upp hafragraut.  Gáfum okkur smá tíma til að kíkja á tungumálið og glugga í orðabækur eftir að við höfðum nært okkur á grautnum.  Ég drakk meira kaffi og hluti af þessum tíma fór í almennt spjall.  Það gerir ekkert til við verðum bara duglegri næst.
 
Frá Inger lá leiðin í Krónuna út á Granda.  Tvíbbinn sem yfirleitt gengur frá vörunum var í kattarpössunarleiðangri og sinnti köttunum langt fram eftir degi.  Hann var farinn áður en ég hafði varið í esperantoið og var ekki kominn er ég fór á völlinn um fjögur.  Síðasta umferðin í Pepsídeild kvenna var spiluð um helgina.  Valsstelpurnar tóku á móti Selfossi, unnu 4:0 og náðu að halda öðru sætinu.  Ein í gestaliðinu er uppalinn Valsari, var í árgangi með tvíburunum.  Hún hefur örugglega verið lánuð til Selfoss svo hún fengi að spila og var hún inná allan leiktímann.  Oddur Smári var kominn heim af leiknum þegar ég kom heim.  Setti upp kartöflur og steikti slátur handa okkur mæðginum og kvöldið fór svo í imbagláp.
 
Gærdagurinn fór í lestur, tauþvott, útsaum, tölvuna og sjónvarpsáhorf.  Strákarnir fór saman að gefa köttunum um hádegi og fóru svo þaðan yfir í spilakvöld í Kópavogi.  Létu vita um hálfsjö að þeir yrðu frameftir svo ég var ekkert að hafa fyrir að útbúa kvöldmat.  Bjó svo vel að eiga til afgang frá því seinni partinn í vikunni.  Myndin af  "Týnda sauðnum" gengur mjög vel og með sama áframhaldi klára ég öll hálf og heil spor á næstu vikum.  Annars byrjaði ég á nýju verkefni í gær sem ég ætla að vera fljót að klára og gefa í afmælisgjöf eftir einnoghálfan mánuð eða svo.  Meira um það síðar.  Það varð svo úr að ég sótti strákana í Kópavoginn um tíu í gærkvöld og það var það eina sem ég hreyfði bílinn í gær.

13.9.13

Helgin framundan

Hið innra logar ljósið bjart,
leiðbeinir og passar.
Dökkblátt myrkrið sýnist svart
í stofu nokkrir kassar.

Mér tókst það enn og aftur, nema hvað, að hnoða saman sæmilegri ferskeytlu.  Þessi hér að ofan er alveg glæný.
 
Annar tvíbbinn fór beint að læra þegar hann kom heim upp úr hálfsex og var að læra alveg þar til hann fór í háttinn um ellefuleytið.  Hann sagði mér svo í morgun að hann hefði hrokkið upp um klukkan eitt í nótt því hann vissi að eitt dæmið væri rangt reiknað og gat hann lagað það og sent lausnirnar frá sér aftur.
 
Samkvæmt plani hefðu Vals"strákarnir" átt að taka á móti "strákunum" úr Breiðabliki í gær en þessi leikur var færður aftur um einn dag svo ég er á leiðinni á völlinn í kvöld eða um hálfsex.  Í ísskápnum eru nokkur box af afgöngum sem við mæðginin getum valið úr svo ég slepp örugglega við að elda í kvöld.  En leikurinn í kvöld er næstsíðasti heimaleikurinn og það er aðeins einn heimaleikur eftir hjá stelpunum.  Já, það er stutt eftir af fótboltatímabilinu hér á landi.

12.9.13

Bókasafnsferð og raddþjálfun

Strákarnir voru á leið í matarboð til pabba síns eftir skóla í gær og fóru svo í ellefubíó þannig að ég hitti þá ekkert í gær.  Þeir voru nefnilega ekki komnir á fætur þegar ég lagði af stað í vinnuna.  Ákvað að skreppa á bókasafnið og skila nokkrum bókum.  Hefði getað skilað 10 en ein varð eftir heima.  Aldrei þessu vant kom ég með færri bækur heim eða fjórar þannig að það eru einungis 6 bókasafnsbækur hjá mér núna.  Eina þeirra er langt komin með en skilafresturinn ekki fyrr en seinast í mánuðinum.  Framlengdi skiladegi á bókinni sem varð eftir heima en ég er viss um að næsta ferð á safnið verði innan tveggja vikna og þá fari sú bók til síns heima.
 
Fékk mér afgang af fiskinum frá því í gær áður en ég fór á kóræfingu.  Guðbjörg Tryggvadóttir, raddþjálfari, söngkennari, stjórnandi sönghópsins Veiranna (Veirurnar) og fl. tók á móti okkur og kenndi okkur ýmislegt um raddbeitingu auk þess sem hún rifjaði upp með okkur það sem hún var búin að fara í áður.  Tveir tímar liðu afar hratt en ég var þreytt í baki og maga eftir þessi átök.  Raddböndunum hafði ég hins vegar náð að beita nokkuð rétt allan tímann svo þau voru í lagi.  Annars hélt ég á tímabili að ég væri hreinlega komin upp í sópranröddina svo hátt náði ég á skalanum án þess að hafa fyrir því.

11.9.13

2:1

Samgöngusamningurinn við vinnuna mína gerir ráð fyrir að nota megi einkabílinn allt að tvisvar sinnum í vinnuvikunni.  Ég er búin að velja þriðjudaga og föstudaga því þá eiga tvíburarnir báðir að byrja í skólanum um tíu mínútur yfir átta og þeim er alveg sama þótt þeir séu mættir rúmum tuttugu mínútum fyrr og nota sér farið.  Annar er svo búinn í skólanum upp úr tíu á þriðjudögum en hinn er í nokkuð stóru gati eftir morguntímana.  Sá síðar nefndi stefndi að því að skreppa heim í gatinu og ég bað hann um að nota tækifærið og taka úr uppþvottavélinni.  Hann hringdi svo í mig rétt fyrir hádegi og sagði að þar sem það hellirigndi og hann var bara á peysunni yrði hann í skólnum fram að og framyfir eftirhádegistímana sem voru búnir um fjögur.  Það varð úr að ég kippti stráknum með heim eftir vinnu.
 
Var tilbúin með kvöldmatinn fyrir hálfsjö.  Steikti þorskhnakka upp úr eggi, byggflögum og sesamfræjum krydduðu með "Best á lambið".  Með þessu var ég með soðnar kartöflur og gular baunir í bræddu smjöri.  Rétt fyrir sjö kom ég mér svo fyrir með saumana mína fyrir framan imbann og fylgdist með leik Íslands og Albaníu.  Á eftir horfðum við strákarnir svo á Castle.  Lilja vinkona kom upp úr hálftíu en hún ætlar að fá að gista hjá mér einu sinni í viku næstu vikurnar.  Strákarnir fóru inn til sín upp úr tíu en við Lilja horfðum á fréttir og spjölluðum svo til klukkan að ganga tólf.

10.9.13

Óvæntur saumaklúbbur

Á áttunda tímanum í gærkvöldi hringdi ég í tvíburahálfsystur mína til að kanna hvort það væri í lagi að kíkja í heimsókn.  Það var tekið vel í þá hugmynd. Spjölluðum aðeins í símann og minntumst á Lilju sem er með okkur í saumklúbb.  Það leit nefnilega út fyrir að erfitt yrði að finna tíma sem við gætum allar hist í vetur, Lilja upptekin á mánudags- og þriðjudagskvöldum, ég á kóræfingu á miðvikudagskvöldum og Sonja upptekin annað hvert fimmtudagskvöld.  Í því hringdi gemsinn minn svo ég kvaddi og sagðist koma fyrir níu.  Á línunni í gemsanum var Lilja og í ljós kom að hún var hætt við að festa öll mánudagskvöld.  Ég spurði hana hvort ég ætti bara ekki að taka hana með í fyrirhugaða heimsókn og það varð úr.  Allar vorum við með útsaumsverkefni, ekki byrjaðar að huga að neinni jólakortager (fyrir utan eina og hálfa jólakortið sem ég er búin að sauma) en við vorum mismunandi stemmdar í handavinnuna.  Það gerði reyndar ekkert til, þurftum mikið að spjalla upp og vinna upp liðnar vikur enda leið kvöldið alltof hratt.

9.9.13

4:4

Það var góð byrjun á helginni úrslitin í leiknum við Sviss.  Ég verð að viðurkenna að ég átti oft í vandræðum með að horfa á leikinn framan af og grúfði mig oftar en ekki yfir saumana mína en seinni helmingurinn af seinni hálfleik var magnaður og þvílík mörk frá Jóhanni Berg.  Hann byrjaði auðvitað vel strax á annarri mínútu en svo var það Kolbeinn sem gaf tóninn skömmu eftir að Sviss skoraði sitt fjórða mark úr vítaspyrnu.
 
Strákarnir voru annars hjá pabba sínum um helgina svo ég gat gert það sem mér sýndist þegar og ef ég vildi ;-).  Mætti til Nonna í Kristu klukkan tíu á laugardagsmorguninn og hann var búinn að klippa mig rúmum tuttugu mínútum seinna.  Restin af deginum fór í alls konar dúllerí.
 
Í gær var messað í óháðu kirkjunni og þar eð þetta var fyrsta messan sem byrjar klukkan tvö mætti Stopp-leikhópurinn á svæðið og sýndi leikritið um sálina hennar ömmu Rósu.  Leikritið var sýnt í stað predikunar en presturinn sagði samt nokkur orð á eftir.  Eftir messuna var vöfflukaffi á neðri hæðinni.  Ég skrapp svo í smá verslunarleiðangur áður en ég fór heim.
 
Helgin leið alltof hratt en ég held að ég hafi náð að njóta hvers augnabliks af henni og það er vel.

6.9.13

Vinnuvikulok

Orðin á sér láta standa
en það er allt í lagi.
Leysi vel úr öllum vanda
viss um mína hagi.


Kom hjólandi heim úr vinnu milli fjögur og hálffimm seinni partinn í gær.  Til stóð að minnka aðeins þvottinn sem hefur safnast upp og ég fór fljótlega að sinna þeim verkefnum.  Var með kvöldmatinn tilbúinn um sex og það fannst öðrum tvíbbanum sérlega gott því hann var svo að fara í fyrirpartý og þaðan á MR-ball.  Kvöldið hjá mér fór í sjónvarpsgláp, útsaum  og smá tölvumál.  Rétt rumskaði um eitt er ballfarinn kom heim og svo aftur um þrjú er ég varð heyrði e-n fá sér vatn.  Mig grunaði að það væri títtnefndur ballfari og reyndist það rétt hjá mér.  Báðir strákarnir áttu að mæta í skólann rétt upp úr átta í morgun og ég ákvað að vera á bíl og skutla þeim.  Það þurfti ekki að vekja neinn en er hrædd um að sá sem var á útstáelsinu og svaf stopult í nótt verði þreyttur þegar líða fer á daginn en hann er í skólanum alveg til fjögur í dag.

5.9.13

Fyrsta kóræfing vetrarins

Hjólaði milli heimilis og vinnu í gær.  Skrapp svo í smá leiðangur með annan tvíbbann en það kom reyndar ekkert út úr þeim leiðangri.  Stráksi ætlaði í klippingu en það var ekkert laust seinni partinn í gær.  Kom við í fiskbúð á heimleiðinni og keypti laxastykki og þorskhnakkastykki.  Setti þorskinn í frost og var með lax í kvöldmatinn.
 
Tæmdi vatnið úr þvottavélinni og stillti á suðuprógramm.  Er nú búin að komast upp með að þvo ekki þvott í næstum viku enda sést það á þvottakörfunni.  Verð eitthvað að reyna að vinna á þessu á næstunni og fá líka þefnæma tvíburann til að athuga hvort einhver lykt sé úr þvottavélinni okkar.
 
Mætti í kirkjuna rétt fyrir hálfátta á fyrstu kóræfingu vetrarins ásamt  10 öðrum kórfélögum og kórstjóranum.  Æfingin stóð yfir í tvo tíma með smá kaffihlé um miðbik hennar.  Æfðum m.a. fullt af täze (tese) sálmum úr sálmabókinni (740-750) og nokkur rödduð lög úr brúnu bókinni okkar.

4.9.13

Vinnuvikan hálfnuð

Ástæða nágrannaspjallsins í fyrradag var óþægileg lykt í þvottahúsinu (eitthvað sem ég slepp alveg við að finna þar sem ég er ekki með neitt lyktarskyn).  Til að prófa eitthvað urðum við ásáttar um að byrja á því að hreinsa þvottavélarnar með sveppaeyðandi efni.  Ég var á bílnum í gær og fór í svona efnaleiðangur eftir vinnu.  Efnið fékkst ekki í Lyfju eða Lyfjaveri en þeir áttu von á því seinni partinn í vikunni.  Ég var hins vegar svo heppin að fá efnið afgreitt í Lyfjavali í Álftamýrinni.  Þannig að eftir kvöldmat dreif ég mig niður í þvottahús með brúsann.  Byrjaði á því að hreinsa sigtið og strjúka innan úr gúmmíhringnum við trommluna.  Sprautaði efninu í sápuhólfið, trommluna og inn í gúmmíhringinn.  Stillti þvottavélina á 40 og lét hana taka inn á sig vatn og "þvo" í  nokkrar mínútur áður en ég slökkti á prógramminu.  Skv. leiðbeiningum á að láta þetta liggja svona yfir nótt en ég hafði ekki tíma til að sinna þessu í morgun þannig að frekari meðhöndlun verður að bíða þar til vinnudegi er lokið.

3.9.13

Í frænkuheimsókn

Því miður komst ég ekki á heimaleik Valsstelpna í gær en þær tóku á móti HK/Víkingi og unnu með 6 mörkum gegn engu.  Hafði nefnilega lofað íbúanum í kjallaranum að vera heima seinni partinn fyrir smá spjall.  Nágranninn kom rétt upp úr sex þegar leikurinn var nýlega hafinn og þótt spjallið væri ekki langt þá hafði ég mig ekki í að drífa mig út á völl, hefði líklega náð flestum jafnvel öllum mörkunum.  Í staðinn settist ég niður með saumana mína í smá stund.  Hitaði kjötsúpu frá því á föstudaginn og voru tvíburarnir afar glaðir með það.  Stuttu eftir mat hringdi ég í frænku mína sem hafði samband óvænt um daginn og kíkti á mig.  Hún sagðist ekki vera upptekin svo ég dreif í að ganga frá í eldhúsinu og skrapp svo í heimsókn til hennar.  Kvöldið leið hratt og ég kvaddi á ellefta tímanum.  Kom við í Hagkaup í Skeifunni eftir örfáum nauðsynjum og var svo heppin að annar tvíbbinn gekk frá vörunum áður en hann fór í háttinn.  Sjálf fór ég aðeins í tölvuna áður en ég fór í háttinn og las svo aðeins fram yfir miðnætti.

2.9.13

Í krækiberjamó

Í berjamó með pabba mætti,
mikið tíndum við.
Á morgunmatinn ekki hætti
ég held mínum sið.

Við mæðginin tókum okkur saman seinni partinn á föstudaginn, eftir að ég var búin að sinna þvottahúsmálum, og brunuðum austur á Hellu.  Vorum þar um kvöldmatarleytið.  Tvíburarnir voru með tölvurnar sínar og ég með saumana og nokkrar bækur.  Var komin á fætur upp úr níu á laugardagsmorguninn og eftir morgunútvarpsfréttir klukkan tíu fórum við pabbi saman í berjaleiðangur.  Við fórum rétt austur fyrir þorpið og tíndum alveg til klukkan að verða tólf.  Þá fórum við heim, fengum okkur eitthvað að borða, hlustuðum á hádegisfréttir og drifum okkur svo af stað aftur.  Í þetta sinn skoðuðum við á einum stað aðeins lengra áður en við fórum upp í hraunið ofan við Gunnarsholt.  Í hrauninu tíndum við helling og vorum að til klukkan að verða hálffjögur.  Þegar búið var að hreinsa og vigta reyndust þetta vera alveg um 20 kíló en ekki milli 20 og 30 eins og ég hélt fram á fésbókinni.
 
Til stóð að systir mín og hennar fjölskylda og ein vinkona myndu koma á laugardeginum en Helgufólk lagðist flest í hálsbólgu svo ekkert varð úr komu þeirra.
 
Gærdagurinn var verulega blautur svo við pabbi fórum ekki í neinn berjaleiðangur.  Kannski eins gott því ég var komin með og er henn með e-s konar berjastrengi, samt ekki eins slæma og þá sem ég fékk þegar ég fór með pabba fyrir tveimur árum en strengi samt.  Tók því rólega í gær.  Las, lék mér í tölvunni og saumaði út.  Er núna að keppast við að fylla í hin og þessi "götin" á jafanum og er alltaf jafn spennt að vinna í þessu verkefni.  Fljótlega eftir kvöldmat kvöddum við mæðginin pabba og mömmu (afa/ömmu) og vorum komin í bæinn upp úr hálftíu.  Við vörutalningu kom í ljós að ég þyrfti ekki að skreppa eftir vistum í búðina svo ég settist með saumana mína fyrir framan skjáinn og gleymdi mér næstum því.  Fór ekki í háttinn fyrr en upp úr miðnætti.