30.8.13

Blautur dagur

Allt er blautt og allt er grátt,
en ekki´ í mínu sinni.
Alltaf vakna alveg sátt
og hangi ekki inni.

Þessi "kom" til mín í morgun þegar ég hugsaði út í að það væri kominn föstudagur.  Var ekki alveg viss um hvort ég ætti að byrja fjórðu línu á en eða og en síðara orðið varð fyrir valinu á endanum.
 
Notaði annars leið 13 milli heimilis og vinnu í gær.  Vetrartímataflan er komin í gagnið og í nokkra tíma á morgnana og svo aftur seinni partinn eru vagnarnir á ca. 15 mínútna fresti.  Fór með vagninum sem var við Sunnubúð rétt upp úr hálfátta.  Vagninn sem ég tók svo seinni partinn átti að vera 18 mínútur yfir fjögur en hann var þar 25 mín. yfir.  Annar tvíbbinn lét mig vita að hann ætlaði til pabba síns eftir skóla.  Hinn var á leið á fyrstu trommuæfingu haustsins.  Ég bjó til kjötsúpu og bætti í hana vænum bita af sætri kartöflu.  Súpan var gómsæt.  Kvöldið notaði ég í lestur, útsaum og sjónvarpsgláp.

29.8.13

Lítið eftir af ágústmánuði

Hjólaði milli heimilis og vinnu í gær og fannst mér ég vera furðu fljót í förum.  Kom heim nokkru fyrir hálffimm og frétti þá að strákarnir væru að fara að hjálpa til við flutninga og færu í það eftir klukkan fimm.  Þar með slapp ég við að elda í annað skiptið í vikunni.  Fór með nokkur vikublöð á stofuna til Torfa, tengdapabba systur minnar, en hann klippir strákana alltaf fyrir lítið þegar þeir mæta til hans.  Annar tvíbbinn er reyndar mun duglegri við að fara í klippingu.  Hinn er sennilega ekki búinn að fara í svoleiðis í hátt í ár.  Hann nær krúnurakaði sig sjálfur rétt fyrir síðustu jól og aftur einhvern tímann í febrúar en núna er hann kominn með mikinn lubba.
 
Bókasafnið sendi mér tölvupóst um að skiladagur á skammtímalánsbók nálgaðist og þar sem ég var búin að lesa þessa bók ákvað ég að drífa í að skila henni og þremur öðrum lesnum bókum.  Skammtímalánsbókin var sú sem ég byrjaði á eitt kvöldið og gat ekki lagt frá mér fyrr en ég var búin að lesa hana upp til agna.  Fimm bækur voru ólesnar heima og ein bókaklúbbsbóka að auki.  Engu að síður slæddust nokkrar bækur í pokann af safninu.  Hafði hugsað mér kannski 1-3 en við nánari talningu voru þær sex.  Samt fór ég ekki beint að lesa þegar ég kom heim aftur heldur settist niður með saumana mína.  Upp úr sjö rambaði ég inn á óruglaða íþróttarás þar sem leikur Stjörnunnar og Vals í pepsídeild kvenna var að hefjast.  Horfði reyndar bara á fyrri hálfleikinn en leikurinn endaði 4:0 fyrir Stjörnustelpum og þar sem Breiðablik tapaði sínum leik eru þær bláklæddu búnar að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í ár, hafa ekki tapað neinum leik í deildinni í sumar.
 
Síðustu dagar móður minnar heitir bókin sem ég byrjaði á rétt fyrir háttinn í gær er hún eftir Sölva Björn Sigurðsson.  Las ekki nógu mikið til að mynda mér neina skoðun en hún virkar ágætlega á mig það sem af er.

28.8.13

Á hjóli í dag

Í gær fór ég með strætó milli heimilis og vinnu.  Var mætt klukkan ellefu til að virða lögbundna hvíld eftir maraþon-vinnudag á mánudaginn.  Allt gekk miklu eðlilegra fyrir sig í vinnunni amk frá mínum bæjardyrum séð.  Var komin heim upp úr hálffimm.  Þá kíkti ég aðeins í tölvuna áður en ég bjó mér til kaffi.  Settist með kaffibollann inn í stofu og tók fram saumana mína í smá stund eða þangað til tími var kominn til að útbúa kvöldmatinn.  Saumaði svo aðeins meira eftir mat.  Við Oddur horfðum svo á "Castle" í sjónvarpinu.  Hinn tvíbbinn afrekaði það annars að fara aleinn og sjálfur og kaupa á sig skó eftir skóla í gær.

27.8.13

Langur dagur í gær

Beygjur og bogar lífinu í
ber oft mikið á.
Tíminn tifar og breytir því
takk er svarið þá.

Þar sem ég þurfti að reka erindi upp úr hádeginu í gær fór ég á bíl í vinnunna fyrsta daginn eftir langt og gott sumarfrí.  Vorum fjórar á deildinni en ein er í fríi og önnur var á leið í aðgerð og má ekki koma aftur fyrr en eftir tvær vikur.  Um hálfeitt fékk ég að skreppa frá.  Hitti annan lögfræðinginn minn á sýsluskrifstofunni.  Þar lögðum við fram móttillögur að samning og svo þarf ég að halda áfram að bíða enn um sinn.  Það er ekkert víst að þessum tillögum verði tekið án e-a breytinga en ég get vel haldið áfram að vera þolinmóð.  Skilnaðurinn mun ganga í gegn að lokum.  Var mætt aftur í vinnuna um tvö þá var orðið ljóst að þessi fyrsti vinnudagur yrði langur og furðulegur.  Án þess að fara of mikið út í þessa sálma þá var ég ekki búin fyrr en um miðnætti en þá var líka sagt við mig að muna ellefu tíma regluna.  Þannig að það er enn um klst. þar til ég þarf að vera mætt til vinnu.

26.8.13

Sumarfríið búið í bili

Í
smáa
letrinu las
ég um rauðan tígul
breytti svo
spaða
í
 
Strákarnir ákváðu að fara til pabba síns um helgina og þar með slapp ég við alla eldamennsku.  Nýr bæklingur frá Margaretha kom með póstinum.  Það er alltaf gaman að skoða hann.  Haustbæklingurinn er frekar mikið jóla-jóla.  Byrjar á jólaverkefnum og endar á þeim líka.  Sá auðvitað eitthvað sem gaman væri að gera en lét ekki freistast samt að þessu sinni.
 
Á laugardaginn sá ég á status einnar frænku minnar (amma hennar og nafna var systir hans pabba) að hún ætlaði að vera með opið hús.  Ég ákvað fá mér bíltúr og athuga hvort ég rataði ekki til hennar.  Vel var tekið á móti mér og stoppaði ég við í rúma tvo tíma.  Hitti m.a. systur hennar og mömmu.
 
Skrapp í verslunarleiðangur upp úr hádegi í gær og svo gerði ég nokkuð sem ég hef ekki fyrr gert í sumar.  Fór á bílnum út að Hlíðarenda til að fylgjast með heimaleik í Pepsí-deild karla, Valur - Þór/KA 2:2.  Um leið og leiknum var lokið brunaði ég upp í kirkjuna mína til að taka þátt í fyrstu messu haustsins.  Alls voru 17 í kirkjunni og af þeim 3 sem ekki voru með nein hlutverk.  En gott og gaman að hitta söngfélagana.

23.8.13

Síðasti virki frídagur í bili

Föstudagur enn á ný
að líða þessi vika.
Næstu skref ég undirbý
ætla ekki´ að hika.

Mér tókst það enn og aftur.  Þessi staka kom til mín eldsnemma í morgun.
aumur á tvíbbunum í gær.  Annar var óvart seinn fyrir þrátt fyrir að eiga ekki að mæta í skólann fyrr en hálfellefu. Skutlaði honum því yfir á Skólavörðuholtið en með þeim orðum að skutl verða fá sem engin eftir að ég byrja að vinna aftur og á meðan ég er á samgöngusamning þar.  Hinn tvíbbinn átti ekki að mæta fyrr en upp úr eitt en ég var hvort eð er að skreppa í innlit til Hlíbbu minnar svo hann fékk far í skólann líka.

Var komin til Hlíbbu fyrir hálftvö, með saumana mína að sjálfsögðu.  Var ekki búin að stoppa lengi þegar systurdóttir hennar leit inn.  Sú hjálpaði frænku sinni að setja kaffi á borð og sem við vorum að setjast við borðið kom dóttir Hlíbbu, Jóna Mæja, aðeins við.  Hún hafði rétt tíma til að fá sér tíu og knúsa mömmu sína áður en hún þurfti að rjúka aftur.  Hún var að leggja af stað í fimm tíma ferðalag með tveimur vinum vestur á firði til að tína aðalbláber.  Frænkan fór líka á undan mér svo ég kom fyrst og fór síðust.

Tvíbbinn sem ég skutlaði seinna í skólann var kominn heim á undan mér.  Dagurinn fór að öðru leyti í lestur, tölvu, sjónvarpsgláp og að sjálsögðu meiri útsaum.

22.8.13

Rólegheit og lestur

Ég fór ekki út fyrir hússins dyr í gær þar sem ég átti ekkert erindi eitt eða neitt.  Var eitthvað að "dunda" í tölvunni og að sjálfsögðu tók ég aðeins í nálina.  Ákvað svo að fara að undirbúa mig fyrir háttinn frekar snemma eða rétt fyrir tíu.  Slökkti á tölvunni og dró fram eina af bókunum sem ég náði í af safninu sl. föstudag; Stöðvið brúðkaupið eftir Stephanie Bond.  Gat ekki lagt bókina aftur frá mér fyrr en hún var búin og þá var klukkan að slá tólf á miðnætti.

21.8.13

Andagift

Andinn kom yfir mig flínkur og fær.
Fagnandi tók honum mót.
Hugsanir villtust af vegi í gær,
varlega íhuga rót.

Orðin á sveimi í huganum hátt.
Held að ég þurfi að skrifa.
Hvernig allt hagast er ég sátt
hugsa að af muni lifa.

Lestur og ísaumur róa mig mikið
magnað hvað tíminn fer hratt.
Æskilegt nú væri fyrir vikið
að vita að stundum er bratt.


Efsta vísan "þvældist" fyrir mér þegar ég ætlaði að fara að sofa e-n tímann eftir miðnætti.  Það endaði með því að ég sendi mér hana í sms.  Hinar tvær bættust við bara núna áðan.  Gærdagurinn var annars þannig séð nokkuð venjulegur og gerðist fátt markvert.  Er alveg að vera búin að ná að klára að "nota" neðri helminginn af útsaumsmunstrinu og ég tel mig vera búin að "bjarga" málunum varðandi uppábrotsstaðina þar sem táknin eru að verða illlæsanleg.  Strákarnir byrja í skólanum á morgun og eru þeir bara nokkuð spenntir.  Þeir eiga þó eitthvað eftir að verða þreyttir fyrstu dagana þar sem illa gengur að snúa sólarhingnum við.  Oddur þarf reyndar ekki að byrja fyrr en upp úr hádeginu á morgun.

20.8.13

Frænkunöfnuhittingur

Seinni partinn á sunnudaginn var hringdi systurdóttir mömmu og nafna mín í mig.  Hún er þessa dagana stödd á Íslandi og var að athuga hvort við gætum ekki hist áður en hún færi aftur um miðja vikuna áleiðis til Kína þar sem hún verður að kenna ensku næsta vetur. Ég var enn á Hellu er hún hringdi en við ákváðum að vera í sambandi upp úr hádegi daginn eftir (í gær).  Eftir nokkur sms fyrst um tólf og svo um þrjú slógum við því föstu að hún kæmi til mín upp úr fjögur.  Upphaflega hugmyndin hafði verið að fara í smá göngu en það varð lítið úr henni í þetta sinn.  Var búin að hita kaffi er nafna mín kom færandi hendi með flott sjal/trefil frá Kína og við settumst niður inni í stofa með bollana.  Áður en við vissum af var komin tími til að finna til kvöldmatinn.  Við hjálpuðumst að við það og útbjuggum hinn fínasta kjúklingapottrétt með kjúklingafillet í bitum, lauk, papriku, sveppum og sætri kartöflu.  Út í þetta settum við svo krukku af karrýmauki.  Einnig suðum við bygggrjón meðfram þessu.  Í eftirrétt bauð ég upp á ostaköku og hellti upp á kaffi úr nýmöluðum kaffibaunum.  Þegar við vorum búnar að ganga frá eftir matinn settumst við aftur inn í stofu og allt í einu var klukkan orðin tólf á miðnætti.  Frænka mín kvaddi mig fljótlega og sagðist koma aftur heim í febrúar.  Yndislegur hittingur og það var margt spjallað og spekúlerað, við frænkur náum einstaklega vel saman og höfum alltaf gert þótt árin á milli okkar séu 14.

Annars gleymdi ég alveg að tala/skrifa um upplifunina á tónleikunum í Selinu við Stokkalæk sem ég sagði frá í gær.  "Sögutónleikarnir" byrjuðu klukkan fjögur og um hálfsex var gert smá kaffihlé áður en sögunni var framhaldið til klukkan sjö.  Ég skemmti mér mjög vel á þessum viðburði og þóttist mikið heppin að mamma bauð mér með sér.  Söngvararnir voru flottir og upplesturinn, leikurinn og látbragðsleikurinn afar skemmtilegt og þótt ég þykist vita að ýmislegt var fært í stílinn af því að "sagan er betri" svoleiðis þá fannst mér þetta fróðleg og afar merkileg saga.

19.8.13

Ein saga sögð

Þrátt fyrir að í þorpinu væri hátíð, hin árlegu töðugjöld, þá hélt ég mig "heimavið" í foreldrahúsum á laugardaginn.  Pabbi fór í örnefnaleiðangur nokkru fyrir hádegi en ég sat með saumana mína sunnan við hús og var Bríet að dunda sér við eitt og annað í kringum mig.  Mamma settust líka stund hjá mér.  Bríet fór svo í bæinn með foreldrum sínum er þau komu við um kvöldið eftir velheppnaðar hreindýraveiðar.

Sat ekki úti við í gær en kepptist við að sauma og er ég að hamast við að klára þá parta sem lenda í brotunum á munstrinu því þeir eru að hverfa og brotin jafnvel að rifna.  Ætla nú aðeins að reyna að tjasla þessu saman en geri líka ráð fyrir að þurfa kannski að grandskoða fyrirmyndina til að finn út úr nokkrum sporum.

Annars bauð mamma mér á tóknleika með sögulegu ívafi í Selinu við Stokkalæk seinni partinn í gær.  Mamma var einu sinni kaupakona í þessari sveit og kynntist hinn stórmerkilegur Kristínu Oberman sem átti íslenska móður og hollenskan föður sem var háttsettur í sínu heimalandi og var á tímabili landsstjóri á Súmötru.  Þar fæddist Kristín og ólst upp en hún kom til Íslands 16 ára rétt eftir stríð var í heimavist í tvö ár í Reykholti og fór svo í húsmæðraskóla.  Á sveitaballi kynntist hún fyrri eiginmanni sínum og eignaðist með honum tvö börn.  En hann var ofbeldisfullur og þegar hún var næstum búin að missa seinna barnið (það var fætt fyrir tímann vegna ofbeldis) fór Kristín frá manninum og réði sig sem ráðskona á Stokkalæk eftir að hafa séð auglýsingu um stöðuna þar sem tekið var fram að það mætti hafa með sér barn.  Það var ekki fyrr en ráðningatími hennar var liðinn og hún farin að taka sig saman aftur að bóndinn hafði sig í að biðja hennar.  Saman áttu þau svo 5 börn.  Fyrir rúmum tíu árum kom Guðrún Ásmundsdóttir leikkona með hóp af fólki að Stokkalæk.  Þá bjuggu þar annað fólk sem var búið að breyta staðnum í áttina að því sem hann er nú í dag.  Guðrún rak augun í innrammaðan pappírsmiða upp á veg sem unga fólkið hafði fundið í húsinu.  Á miðann hafði Kristín m.a. skrifað að á þessum stað hefði hún lifa 23 hamingjuríkustu ár ævi sinnar.  Guðrún varð forvitin um þessa konu og þegar hún fór að kynna sér sögu hennar vildi hún endilega gera eitthvað úr henni.  Hún notast við minningar frænku Kristínar sem og Mömmu og svo fékk hún sópran, tenór og baríntón, píanóleikara,  leikkonu, látbragðsleikkonu, eina vinkonu sína, tvö börn og tvær fiðluspilandi konur til að setja þetta upp með sér.  Afraksturinn var settur upp um helgina og bauð mamma mér á seinni tónleikana.  Það kom reyndar á daginn að mamma þurfti ekki að borga okkur inn, henni var boðið fyrir sinn þátt í þessari sögu.  Það mætti fullt af fólki og settist Kristbjörg Kjeld við hliðina á mér.

Pabbi vildi helst að ég gisti eina nótt enn en ég ákvað að drífa mig í bæinn í gærkvöldi.  Var komin heim um ellefu og strákarnir komu heim skömmu síðar.

17.8.13

Laugardagur

Ja hérna, ég fékk allt i einu smá fiðring í fingurna og löngun til að skrásetja gærdaginn áður en helgin er liðin.  Gærdagurinn var semsagt mjög skemmtilegur.  Um morguninn kom andinn yfir mig og ég póstaði föstudagsferskeytlu bæði á bloggið og fésbókina án þess að liggja mikið yfir vísunni sjálfri.  Um eitt skutlaðist ég með Odd upp í Tækniskóla og skildi hann eftir þar.  Hann mætti á skólasetninguna og ætlaði svo að fara í klippingu.  Næst setti ég bensín á "mömmubíl" hjá Atlantsolíu við Flugvallarveg.  Þá lá leiðin í Kringlusafnið þar sem ég skilaði átta bókum og tók með mér sjö í staðinn.  Á leiðinni út í bíl mundi ég skyndilega eftir rafkrúna naglasettinu sem ég keypti fyrir mömmu um daginn og gleymdi að taka með mér austur um síðustu helgi.  Ég kom því aftur við heima og sótti þetta.  Var tilbúin að öllu öðru leyti og allt annað komið út í bíl svo ég kvaddi Davíð Stein aftur og lagði af stað út úr bænum.  Var búin að hringja á einn stað á Selfossi um hádegi til að athuga hvort tekið yrði á móti mér og var mætt þangað áður en klukkan sló hálfþrjú.  Þáði kaffi, pönnsur og fleira og átti gott spjall við gestgjafann enda flaug tíminn út í buskann.  Hélt ferðinni áfram austur á Hellu á sjötta tímanum og var pabbi frekar hissa að sjá mig því ég hafði ekkert látið vita þegar ég lagði í hann.  Hann átti þó alveg eins von á mér.  Settist niður með saumana í smá stund en annars var ég nú bara að leika mér í tölvunni, leggja spila kapla eða spila "ólsen-ólsen upp og niður" við yngri systurdóttur mína.

16.8.13

Þannig er nú það

Þó að skýin fyrir sólu fara
förum ekki´ að skæla.
Hlæjum hærra, syngjum bara!
Hættum líka´ að pæla.

Ég neita að láta verðrið reyna að ráðskast með skapið í mér.  Það er best að brosa  amk út í annað sama á hverju gengur.

Annars notaði ég gærdaginn svipað og undanfarna daga, mest í útsaum þó.  "Lost no more"-verkefnið kallar stöðugt á mig og það er einfaldlega svo gaman að vinna í myndinni að tíminn hverfur mér alveg.  Fylgdist aðeins með heimsmeistaramótinu í frjálsum en upp úr fjögur fór ég og sótti eldri systurdóttur mína.  Hulda átti tíma í fótaaðgerð um fimm og þar sem foreldrar hennar voru að leggja í hreindýraveiðferð tók ég að mér að skutla frænku minni.  Var svo tilbúin að skutla henni heim til einnar vinkonu hennar er hún vildi bara fá far að Egilshöll.  Þær vinkonur ætluðu að taka strætó.

Framundan er enn ein helgin og svo síðasta vikan mín í sumarfríi.  Mun samt eiga eftir um átta daga frí þegar ég mæti í vinnu annan mánudag.

15.8.13

"Friður sé með yður!"

Tók daginn nokkuð snemma í gær svona miðað við að vera í sumarfríi.  Sinnti ýmsum skyldum fyrir hádegi en greip líka í bók og saumana mína.  Annar tvíburinn kom fram um hádegisbil og ég tilkynnti honum um áætlanir mínar.  Hinn tvíburinn var ekki enn vaknaður er ég brá mér af bæ.  Tók saumana mína með upp í byggðina við Úlfarsfell og var komin til Lilju vinkonu á slaginu klukkan eitt.  Mundaði nálina nær strax og svo föndruðum við (hún var í perluvinnu), drukkum kaffi og spjölluðum vítt og breitt.  Tíminn æddi áfram og þegar ég kvaddi tæpum fjórum tímum seinna fannst mér sem aðeins klukkutími væri liðinn.

Hafði pastarétt með sætum kartöflum, kúrbít, papriku, lauk, sveppum, kasew-hnetum og graskersfræjum í matinn.  Setti engan ost út í og í raun blandaði ég pastanu ekki saman við fyrr en við mæðgin vorum búin að borða.  Kvöldið fór svo í sjónvarpsgláp og útsaum.  Horfði m.a. á vináttulandsleikinn milli Íslands og Færeyja og var hálf svekkt yfir að fleiri færi væru ekki nýtt.  Þetta eina mark var svo þar að auki á grensunni ef svo má segja/skrifa.

14.8.13

Rólegheit

Í gær var sannkallaður letidagur.  Fór óvenjulega seint á fætur en klukkan var samt ekki orðin hálfellefu þegar ég var komin á stjá.  Ekkert fréttnæmt gerðist.  Saumaði út, las, hringdi í pabba og mömmu, eyddi drjúgum tíma í tölvunni (en var svo búin að slökkva á henni fyrir tíu í gærkvöldi) og horfði á sjónvarpið.  Það var rétt svo að ég hafði mig í að útbúa kvöldmatinn sem ég hafði þó frekar lítið fyrir; ofnsteikt bleikja með kartöflum og maísbaunum í bráðnu smjöri.

13.8.13

Hittingur

Gærdagurinn var góður.  Morguninn notaði ég í ýmsar skyldur og fleira.  Skrapp í búðina upp úr hádegi og svo settist ég út á svalir í tæpa tvo tíma og las alls kyns tröllasögur.  Á meðan ég sat þarna úti og í einni pásunni á milli tröllasaga datt mér í hug að senda sms á "tvíburahálfsystur" mína og spyrja hvort hún yrði heima um kvöldið.  Það varð úr að ég var mætt til hennar um átta og við byrjuðum á því að fá okkur klukkustundar göngutúr um hverfið.  Dóttlan hennar hjólaði með okkur.  Á eftir fengum við okkur kaffi, tókum fram saumana okkar og áttum áfram gott spjall (höfðum að sjálfögðu spjallað margt og mikið á göngunni).  Við fundum báðara fyrir því að hafa ekki hist nokkuð lengi enda liggur skipulagður saumaklúbbur niðri yfir hásumarið.  Klukkan var líka langt gengin í tólf þegar ég dreif mig loksins heim.

12.8.13

Veðurblíða

Við mæðginin tókum okkur upp rúmlega átta á föstudagskvöldið og drifum okkur út úr bænum.  Vorum komin á Hellu rétt fyrir tíu.  Annar tvíburinn setti strax upp tölvuna sína sem var með í för.  Ég horfði á sakamálamynd á RUV áður en ég fór í háttinn.

Upp úr hádegi á laugardeginum skrapp ég á sveitamarkaðinn á Hvolsvelli.  Tilgangurinn var aðallega að heilsa upp á Lilju vinkonu og systur hennar sem voru með bás þarna.  Á meðan ég stoppaði hjá þeim gaf bandarísk fjölskylda sig á tal við okkur, hjón og sonur (sennilega rúmlega tvítugur).  Þau voru ekki búin að vera nema nokkra daga á landinu en ungi maðurinn var þegar byrjaður að tala smá íslensku og vildi fá að vita hvernig við segðum frasa eða orð á íslensku.  Svo skrapp ég til mömmu þeirra systra og fékk mér kaffi og gott spjall.

Þegar ég kom til baka var móðurbróðir minn og fjölskylda kominn í heimsókn og nokkru seinna bættust bróðursonur pabba og hans kona í hópinn.  Mamma var búin að búa til kartöflusallat og marinera slatta af kjötmeti.  Við hjálpuðumst að við að skera niður í sallat og svo var grillað.  Dagurinn var semsagt frábær í alla staði.

Sat sunnan meginn við húsið með saumana mína í gærdag.  Borðuðum svo kvöldmatinn frekar snemma og við mæðgin drifum okkur í bæinn áður en sólin lækkaði of mikið á lofti til að pirra eða valda vandræðum.  Var samt ekki komin nógu snemma til að ná öllum leið Vals og Stjörnunnar en ég sá allan seinni hálfleikinn og sá mína menn ná stigi eftir að hafa lent manni og marki undir mjög snemma leiks.  Eftir leikinn horfðum við Oddur á "Sönnunargögn", þáttinn frá sl. fimmtudegi.

9.8.13

Engin "föstudagsferskeytla" heldur núna

Lífið er svo ljúft og veðrið hefur engin áhrif á það.  Í gær skrapp ég á sýsluskrifstofuna til að nálgast plögg.  Annars fór dagurinn í lestur og útsaum.  Hafði kvöldmatinn óvenjusnemma, lifrarrétturinn var tilbúinn vel fyrir hálfsex.  Hafði nefnilega rekið augun í það að heimaleikur kvenna hafði færst fram um einn og hálfan tíma, til 17:45 í stað 19:15.  Ég var semsagt búin að borða um hálfsex og mætt á völlinn þegar leikurinn var nýhafinn.  Leikar enduðu 2:1 fyrir mínum stelpum og eru þær nú í öðru sæti á eftir Stjörnunni.

Er heim kom gekk ég frá í eldhúsinu, hafði ekki haft vit á að úthluta strákunum því verkefni.  Stuttu seinna hringdi síminn, frænka mín og jafnaldra (afi hennar var föðurbróðir minn).  Hún sagðist hafa verið að hugsa svo mikið til mín að hún lét loksins verða af því að hringja til að athuga hvort ég myndi vera heima og eiga kaffi á könnunni ef hún kæmi.  Magnað hreint, því mér hefur oft orðið hugsað til þessarar frænku minnar og nú er ísinn semsagt brotinn.  Kaffið var að klárast að renna niður trektina þegar hún kom.  Margt var spjallað og ég minntist örugglega tvisvar eða þrisvar á það hversu vænt mér þótti að hún hafði samband.  Nú er boltinn hjá mér og ég mun pottþétt halda honum á lofti.

8.8.13

Hressandi veður úti núna

Það er líkt og það ætli að hausta snemma í ár en ég hef samt enga trú á því.  Það á örugglega eftir að rætast úr veðrinu aftur.  Svona veður gefur manni líka ástæðu til að "liggja" í bókum og/eða sauma út.

Skrapp í Elkó fyrir mömmu í gær að kaupa rafknúið naglasnyrtisett á útsölu.  Kom við í fiskbúð á leiðinni heim og keypti ýsu sem ég hafði í soðið um kvöldið og bleikju sem ég frysti í bili.  Annars fór dagurinn í lestur, útsaum og tölvuna.

Var eitthvað að spá í að skreppa á Fram - Valur í gær og get alveg séð eftir því að hafa ekki drifið mig því mínir menn unnu á útivelli 0:4.

7.8.13

Veðurblíða

Notaði gærmorguninn í að ljúka við að lesa eina af bókasafnsbókunum.  Upp úr hádegi fór ég svo á safnið og skilaði sex bókum.  Svo "rötuðu" átta bækur ofan í pokann í staðinn.  Skrapp í verslunarleiðangur og gekk Oddur frá vörunum þegar ég kom með þær heim.

Bjó til kaffi og fékk Odd til að setja fyrir mig stól út á svalir.  Settist svo út með bók (Rof eftir Ragnar Jónasson) og kaffi og sat alveg örugglega í uþb tvær klst. var nokkuð rauð á hálsi og upphandleggjum er ég kom svo inn.  Hafði lasagnia í kvöldmatinn, bjó til meira kaffi og eftir Castle stóðst ég ekki mátið og horfði á frímynd vikunnar af SkjáFrelsi, "Life of Pi".  Ég er nefnilega nýbúin að lesa bókina, hún var ein af þessum sex bókum sem ég skilaði á safnið  í gær.  Mögnuð bók og myndin var mjög góð.

6.8.13

Var á Hellu um helgina

Ég kom heim um ellefu í gærkvöldi og voru strákarnir sofnaðir.  Þeir fóru með þremur vinum sínum í bústaðaferð í Grímsnesið upp úr hádegi á laugardaginn og komu heim um hádegisbil í gær.  Ég fór með mági mínum og eldri systurdóttur minni austur til pabba og mömmu rétt fyrir hádegi á laugardaginn.  Helgin fór í lestur og útsaum.  Við mamma sátum sunnan meginn við hús í nokkra tíma á sunnudaginn og var ég að sjálfsögðu með saumana mína í höndunum.  Ég fór svo á bílnum hennar mömmu (hún er úlnliðsbrotin á hægri og keyrir sennilega ekki alveg í bráð) og lagði í hann langt gengin í tíu í gærkvöldi, kannski heldur of fljótt því sólin blinaði mig á kaflanum frá Rauðalæk og alveg nokkuð framhjá Vegamótum.  En ég komst heil heim og það er fyrir öllu.

2.8.13

Nýt þess að vera í sumarfríi

Þrátt fyrir að hafa  ekki farið að sofa fyrr en langt gengin  í tvö í nótt (var að lesa nema hvað) var ég vöknuð upp úr átta og komin á fætur um níu.  Þetta heitir að nýta tímann þótt sumt af honum fari auðvitað í einhverja vitleysu.  Er ekki enn farin að grípa í saumana og hef reyndar ekki snert þá síðan í fyrradag en það sem slær mig mest er að ég er búin að vera á fótum í þrjá tíma og ég var loksins að renna á fyrstu könnuna.

Strákarnir komu hingað heim eftir vinnu seinni partinn í gær eftir að hafa verið hjá pabba sínum síðan um helgina.  Þeir ákváðu að taka sér frí í dag og er annar þeirra ennþá sofandi.  Mér skilst að þeir fari í útilegu með nokkrum vinum á morgun og fram á mánudag.  Spurði þá hvort þeir þyrftu ekki að undirbúa sig og útbúa nesti og þh.  Eitthvað voru svörin dræm svo ég fylgist bara spennt með hvað gerist.

Hafið það sem allra best um helgina!

1.8.13

Komin heim í bili

Síðast liðinn mánudag átti ég bókað flug frá Reykjavík til Egilsstaða klukkan hálfellefu fh.  Ella, æskuvinkona mín, tók á móti mér og við byrjuðum á að skreppa heim til hennar  og fá okkur kaffi.  Síðan skruppum við í Bónus og vínbúðina þar sem ég keypti argentíska hvítvínsbelju.  Um kvöldið var vinkona mín með rosagóðan fiskrétt og hvítvínið var afar ljúffengt með.

Á þriðjudeginum vorum við komnar á fætur um níu.  Fengum okkur morgunmat og kaffi á eftir.  Ég var með saumana mína með, hafði reyndar gripið í þá strax daginn áður.  En á ellefta tímanum ókum við að Selskóg og tókum stóra hringinn þar.  Það voru nokkrir dropar en alveg logn og þetta var góður göngutúr.  Skórnir voru "þægir" mest alla leiðina en voru aðeins farnir að bíta mig í hægri hælinn í restina.  Er við komum til baka bjó Ella til handa okkur grænan búst úr appelsínusafa, spínati, engifer og lime.  Síðan horfðum við saman á frímynd Skjás Eins, "The man with the ironfists".  Eftir myndina og nokkurt kaffiþamb renndum við aðeins yfir á Seyðisfjörð og rúntuðum aðeins þar um.  Það var magnað að sjá spegilsléttan Löginn þegar við komum aftur til baka.  Um kvöldið kom uppeldisstjúpsystir Aðalsteins og maðurinn hennar.  Slegið var upp í grillveislu og drukkið hvítt, rautt og bjór frameftir kvöldi sem leið alltof hratt.

Í gær vorum við vinkonur aftur á fótum um níu.  Aðalsteinn var ekki farinn í vinnuna og drakk með okkur kaffi áður en hann fór.  Rétt fyrir hádegi löbbuðum við tvær upp á klett að hringskífu.  Þetta var ekki langur göngutúr en góður.  Það var búið að vera rok um morguninn en það lyngdi akkúrat á meðan við vorum á labbinu.  Fengum okkur aftur grænan drykk í hádeginu og svo greip ég í saumana mína.  Seinni partinn skruppum við yfir í Hússmiðjuna á Reyðarfirði og heimsóttum Aðalstein í vinnuna.  Valdís, dóttir Ellu, hitti okkur líka þar.  Í gærkvöldið kláraði ég úr beljunni og við vinkonurnar spiluðum nokkrar umferðar af 10.000  (farkle).  Fórum ekki eins seint að sofa og kvöldin á undan en náðum samt ekki að skríða upp í fyrir miðnætti.

Ég skrapp í sturtu upp úr átta í morgun og skreið svo upp í aftur í smá stund.  Fékk mér morgunmat um níu og hellti upp á.  Var búin að drekka einn kaffibolla áður en Ella kom fram.  Við spjölluðum svo yfir kaffibollum þar til kominn var tími til að skila mér á flugvöllinn.  Vélin fór í loftið rétt fyrir tólf og það er uþb klst. síðan ég lenti í Reykjavík.  Hitti Guðbjörgu frænku mína á flugvellinum en Oddur Vilberg sonur hennar var að koma frá Egilsstöðum með sömu flugvél og ég.

Fríið mitt er ekki hálfnað og ég veit ekki hvort það verða reglulegar færslur á blogginu næstu þrjár vikurnar, það verður bara að koma í ljós.