23.4.10

- Gleðilegt sumar! -

Sóttum Helgu systur um hálftvö í gær. Mágur minn og stelpurnar þeirra voru á "sumargleði" í Húsaskóla en Helga tók hluta af myndavélagræjunum sínum og við fórum í Þingvelli. Nánar tiltekið að Öxarárfossi þar sem systir mín tók myndir af þeim bræðrum og eitthvað af okkur fjölskyldunni. Er við komum í bæinn aftur klæddu strákarnir sig í jakkafötin og tilheyrandi og Helga tók af þeim myndir bæði saman og sitt í hvoru lagi. Alls tók hún 108 myndir og sumar koma mjög vel út.

21.4.10

- Síðasti vetrardagur -

Seinni partinn í gær kom ég við hjá fyrrum nágrönnum mínum í Norðurmýrinni. Á það til að droppan þangað inn öðru hverju, enda alveg í leiðinni heim. Og í gær var eitthvað sem togaði mig þangað. Stoppa aldrei mjög lengi en fæ mér þó kaffisopa og gott spjall. Davíð var heima þegar ég kom svo heim. Hann var eitthvað slappur svo ég tók að mér að skutla og sækja á æfingar. Karatestrákurinn labbaði nú á sína æfingu en ekki heim og Judóstrákurinn æfir í Þróttaraheimilinu og það er heldur langt fyrir hann að labba á milli. Kannski mun hann hjóla þetta þegar hann hefur fengið sér hjól. Uppgötvaði það svo í gærkvöldi að ég hef ekki sest niður með saumana mína sl. 4-5 daga. Verð að bæta úr því.

20.4.10

- Bráðum kemur sumar -

Það eru góðar fréttir, ef rétt er, að vetur og sumar eigi að frjósa saman. Samt er hæpið að ástandið fyrir austan verði neitt eðlilegt næstu misserin. Það er hræðilegt að sjá mynd af stöðunum sem hafa orðið verst úti vegna öskufalls úr Eyjafjallajökli. Ég hef mikla samúð með fólkinu sem býr þarna og vona að það "lifi" þessar hörmungar af, þ.e. að byggð leggist ekki alveg í eyði. Kíki alltaf reglulega í gegnum vefmyndavélarnar á milu.is og stari heilluð en þó með ákveðnum hryllingi ef útsýnið er gott á gufu- og öskustrókana.

19.4.10

- Mánuðurinn rúmlega hálfnaður -

Eins og svo oft áður þá æðir tíminn áfram eins og hann sé á akkorði. Hafði það mjög rólegt um helgina. Fékk aukaklukkutíma með Ellu vinkonu en það var ekki flogið austur á Egilsstaði fyrr en á laugardagsmorguninn. Síðustu nóttina gat hún sofið í rúmi því söngfuglinn fór í kóræfingabúðir seinni partinn á föstudaginn og kom ekki heim fyrr en í hádeginu í gær. Nokkru eftir að ég skutlaði Ellu á flugvöllinn fór ég til norsku esperanto vinkonu minnar. Hún átti afmæli og ég færði henni útsaumað hrútsmerki með nafninu hennar undir. Þegar ég kom heim voru feðgarnir, Davíð og karatestrákurinn, farnir á karatemót sem haldið var í Mosfellsbæ. Þeir komu ekki heim fyrr en milli fimm og sex. Davíð sá um að sækja söngfuglinn í hádeginu í gær og hann sá einnig um kvöldmatinn í gærkvöldi.

16.4.10

- Sögulegir tímar -

Já, við erum heldur betur að upplifa sögulega tíma. Fyrst fengum við flott ferðamannagos á Fimmvörðuhálsi. Núna gýs í Eyjafjallajökli, sem hefur ekki gosið í um 200 ár og ég er mjög hrædd um að áður en langt um líður taki Katla við. Það er rétt eins og verið sé að þjálfa björgunarsveitirnar sem og fólkið sem býr á svæðinu fyrir það sem koma skal. Rýmingaráætlunin sem framkvæma þurftir aðfaranótt miðvikudags gekk mjög vel. Menn halda vöku sinni, gera ráð fyrir hinu versta en vona að besta. Og nú er litla Ísland nafli alheimsins þar sem gosið takmarkar flugsamgöngur vegna öskunnar (sem ku vera stórhættuleg hreyflum flugvélanna). Pabba var búið að dreyma fyrir þessum gosum og fyrst hluti af draumnum/unum er komið fram getur maður alveg búist við að hinn hlutinn rætist; Miklu, miklu, stærra gos líklega í Kötlu eða á því svæði.
Annars eru tvíburarnir fermdir og tókust bæði athöfn og veisla með eindæmum vel. Fékk reyndar ekki að fara tvisvar til altaris en það var í góðu lagi. Bræðurnir tóku sig vel út bæði í kyrtlunum sem og nýju jakkafötunum sínum. Veislan var í sal Lionsklúbbsins Lundar í Auðbrekku í Kópavogi og mættu tæplega 70 gestir, ættingjar og vinir. Strákarnir voru ljúfir og kurteisir og fyndnir en þegar fór að líða á veisluna voru þeir með uppistand og reittu af sér brandarana við góðar undirtektir. Það var gott að eiga frí eftir þetta. Strákarnir fengu frí í skólanum á mánudaginn var og ég mætti ekki til vinnu fyrr en í gærmorgun, en nú er ég líka búin með sumarfríið mitt síðan í fyrra.

7.4.10

- Stutt í tvöfalda fermingu -

Eftir vinnudaginn í dag tek ég mér fimm (virka) daga frí. Mestur hlutinn af þessu fríi er afgangurinn af sumarfríinu síðan í fyrra. Á sunnudaginn kemur munu tvíburarnir fermast í kirkju óháða safnaðarins. Allt er að verða klárt. Feðgarnir búnir að fá á sig spariföt, kerti og servíettur verða tilbúnar á föstudaginn og á morgun næ ég í "fermingadrengina" úr innrömmun. Við eigum von á ríflega 70 manns (+/- 10 eða svo) til að fagna þessum áfanga drengjanna með þeim og okkur. Það verður örugglega gott að eiga nokkra daga heima eftir veisluhöldin.
Hef lítið saumað sl. daga, samt aðeins í bláa englinum og svo er ég byrjuð að sauma hrútsmerkið. Ætla mér að klára hann fyrir 17. apríl n.k. og gefa norsku esperantovinkonu minni í 49 ára afmælisgjöf þann sama dag (170410).
Fór og hitti húðlækni í gær. Fékk í raun engin svör við útaf hverju ég er með þessi útbrot en læknirinn skrifaði upp á 100 gr af sterakremi og hálfsmánaðar skammt af "kláða-"töflum. Á að bera á mig og taka inn eina töflu á kvöldin ca. klst. áður en ég fer að sofa.
Páskarnir gengu vel fyrir sig. Séra Pétur hafði samband við mig á skírdag og spurði mig hvort ég gæti ekki fengið tvíburana með í athöfnina á föstudaginn langa. Þeir áttu að fara í fermingarkyrtla og annar þeirra að halda á kertastjaka með sjö logandi kertum og hinn að slökkva á einu og einu kerti eftir því sem presturinn las upp síðustu orð Jésú. Þetta var auðsótt mál. Eftir upplestur, sálmasöng og altarisgöngu komu bræðurnir inn. Oddur hélt á stjakanum og Davíð Steinn sá um að slökkva á kertunum með e-s konar kertakveiksklípu. Á fjórða kertinu kleip hann ekki alveg nógu fast svo það slökknaði ekki á kertinu í fyrstu tilraun. Þá hvíslaði Oddur (en samt þannig að það heyrðist um alla kirkju): "Þú hittir ekki!"
Á laugardagsmorguninn var auka kóræfing milli klukkan tíu og tólf. Mættum svo rétt fyrir sjö á páskadagsmorgunn. Leyfði tvíburunum að sofa út en strangt til tekið áttu öll fermingabörnin að ganga inn með altarismunina. Tvö fermingabörn mættu af fimmtán, 4 dansarar og nokkrir kórfélagar sáu um að bera inn á altarið og kveikja á tveimur kertum. Já, ég nefndi dansara en rétt á undan predikuninni var sýndur ballettdans sem átti að túlka sköpunina. Mögnuð túlkun og flottur dans.