- Stutt í tvöfalda fermingu -
Eftir vinnudaginn í dag tek ég mér fimm (virka) daga frí. Mestur hlutinn af þessu fríi er afgangurinn af sumarfríinu síðan í fyrra. Á sunnudaginn kemur munu tvíburarnir fermast í kirkju óháða safnaðarins. Allt er að verða klárt. Feðgarnir búnir að fá á sig spariföt, kerti og servíettur verða tilbúnar á föstudaginn og á morgun næ ég í "fermingadrengina" úr innrömmun. Við eigum von á ríflega 70 manns (+/- 10 eða svo) til að fagna þessum áfanga drengjanna með þeim og okkur. Það verður örugglega gott að eiga nokkra daga heima eftir veisluhöldin.
Hef lítið saumað sl. daga, samt aðeins í bláa englinum og svo er ég byrjuð að sauma hrútsmerkið. Ætla mér að klára hann fyrir 17. apríl n.k. og gefa norsku esperantovinkonu minni í 49 ára afmælisgjöf þann sama dag (170410).
Fór og hitti húðlækni í gær. Fékk í raun engin svör við útaf hverju ég er með þessi útbrot en læknirinn skrifaði upp á 100 gr af sterakremi og hálfsmánaðar skammt af "kláða-"töflum. Á að bera á mig og taka inn eina töflu á kvöldin ca. klst. áður en ég fer að sofa.
Páskarnir gengu vel fyrir sig. Séra Pétur hafði samband við mig á skírdag og spurði mig hvort ég gæti ekki fengið tvíburana með í athöfnina á föstudaginn langa. Þeir áttu að fara í fermingarkyrtla og annar þeirra að halda á kertastjaka með sjö logandi kertum og hinn að slökkva á einu og einu kerti eftir því sem presturinn las upp síðustu orð Jésú. Þetta var auðsótt mál. Eftir upplestur, sálmasöng og altarisgöngu komu bræðurnir inn. Oddur hélt á stjakanum og Davíð Steinn sá um að slökkva á kertunum með e-s konar kertakveiksklípu. Á fjórða kertinu kleip hann ekki alveg nógu fast svo það slökknaði ekki á kertinu í fyrstu tilraun. Þá hvíslaði Oddur (en samt þannig að það heyrðist um alla kirkju): "Þú hittir ekki!"
Á laugardagsmorguninn var auka kóræfing milli klukkan tíu og tólf. Mættum svo rétt fyrir sjö á páskadagsmorgunn. Leyfði tvíburunum að sofa út en strangt til tekið áttu öll fermingabörnin að ganga inn með altarismunina. Tvö fermingabörn mættu af fimmtán, 4 dansarar og nokkrir kórfélagar sáu um að bera inn á altarið og kveikja á tveimur kertum. Já, ég nefndi dansara en rétt á undan predikuninni var sýndur ballettdans sem átti að túlka sköpunina. Mögnuð túlkun og flottur dans.