19.5.09

- Gengið til og frá vinnu -

Þann 6. maí sl. hófst hið árlega átak; hjólað í vinnuna. Sem fyrr þá er í góðu lagi að ganga á milli. Í minni vinnu eru þrír 10 manna hópar og einn 3 manna. Ég er ekki sú eina sem geng á milli og það kom í ljós sl. föstudag að ég er í bullandi samkeppni við einn sem kemur frá Seltjarnarnesi. Þótt ég væri búin að ganga báðar leiðir alla dagana, alls um 42 km. þá var hann búinn að ganga 48 km. Leiðin sem ég fer oftast þessa dagana mælist 3 km. Styst get ég farið 2,5. Lengst hef ég farið 5 km.

18.5.09

- Heimsókn til Sólheima -

Um ellefu í gærmorgun söfunuðust við saman mörg úr kórnum mínum, organistinn og presturinn við kirkju óháða safnaðarins. Mannskapurinn deildi sér niður á nokkra bíla. Ég tók alla feðgana með og vorum við áfram bara fjögur. Lagt var af stað stuttu fyrir hálftólf og vorum við fyrst á staðinn, Sólheima í Grímsnesi, af þeim sem komu úr Reykjavík. Kórsystir mín, maki hennar og sú sem er formaður safnaðarstjórnar kirkjunnar voru mætt og sóluðu sig fyrir utan Sesselíuhús. Við byrjuðum á því að borða nestið okkar áður en við skunduðum í kirkjuna og hittum prestinn, séra Birgi Thomsen og organistann. Hún fór yfir sálmana með okkur og það var einnig ákveðið að strax eftir predikun myndi kórinn flytja "Dona Nobis". Messan hófst klukkan tvö og fór vel fram. Andrúmsloftið var mjög vinalegt og afslappað. Á eftir fylgdu presthjónin okkur um svæðið, sýndu okkur það helsta og tæptu á sögu staðarins. Áður en við fórum frá Sólheimum drukkum við kaffi á Grænu könnunni. En við vorum ekki á leiðinni heim heldur var næsti viðkomustaður Selfoss heima hjá kórsystur minni og hennar maka. Feðgarnir skyldu mig eftir þar og héldu heimleiðis. Þar var sungið, grillað og slegið á létta strengi langt fram á kvöld. Ég fékk far í bæinn með tvíburahálfsystur minni og var komin heim um hálftólf. Mjög skemmtilegur og eftirminnilegur dagur.

7.5.09

- Skráning liðinna atburða og tæpt á öðru -

Á laugardaginn var hitti ég samstarfskonur mínar úr deildinni á 19. hæð í Turninum við Smáratorg þar sem við fengum okkur "brunch" saman fyrir aðeins 3150 á manninn. Kræsingarnar voru hver annarri betri og þótt maður passaði sig á að fá sér ekki of mikið af neinu til að geta smakkað á sem flestu þá var maður orðin frekar saddur eftir fimmtu ferðina. Fór beint úr Turninum og sótti karatestrákinn af æfingu. Um tvöleytið söfnuðumst við öll saman út í bíl og brunuðum austur á Hellu í heimsókn til pabba. Ég tók með mér saumana mína og saumaði slatta í nýju verkefni sem ég byrjaði á á fimmtudeginum.
Á sunnudaginn sat ég við saumana mína í amk fimm klukkutíma enda er búinn alveg hellingur af klukkustrengnum. Tíminn flaug hratt frá mér. Það var svo sem ekkert sérstakt á döfinni og mér leið bara vel með að eyða tímanum svona.
Á mánudagskvöldið tók ég þátt í árlegu bankamóti í keilu ásamt fjórum öðrum konum sem vinna með mér. Sex kvennalið voru skráð til keppni og spilaðar voru þrjár umferðir af fimm þetta kvöld. Töpuðum fyrsta leiknum, en ekki með svo miklum mun og unnum hina tvo. Seinni umferðirnar voru spilaðar í gærkvöldi en ég gat ekki verið með því ég var á kóræfingu að æfa fyrir messuna og kirkjuvíxluhátíðina n.k. sunnudag. Þrátt fyrir tvö töp í gærkvöldi náðum við þriðja sætinu og hengdu vinnufélagar mínir bronsmetalíu um hálsin á mér er ég mætti til vinnu í morgun.