29.1.09

- Í mútum eða ekki í mútum -

Karatestrákurinn minn heldur þessa dagana að hann sé í mútum. Hann er óvanalega hás og röddin einhvern veginn dýpri en venulega en ég hef ekki heyrt röddina hans verða neitt skræka svo ég hef sagt honum að líklega sé hann bara með vott af hæsi og kvefi. Þar fyrir utan styttist líklega í múturnar hjá tvíburunum. Ég er samt að vona að söngfuglinn fari ekki í mútur fyrr en eftir eitt og hálft ár svo hann geti verið einn vetur enn í drengjakórnum. Sjáum bara hvað setur.

Er á leið í saumaklúbb til "tvíburahálfsystur minnar" og á von á því að þar verði nálarnar mundaðar vel fram eftir kvöldi. Hef hug á því að leggja kapp á að klára fermingamyndirnar, af drengjunum tveimur, sem fyrst. Er langt komin með þær en á örugglega nokkra klukkutíma vinnu eftir enn.

Að venju arkaði ég í vinnuna í morgun en seinni partinn fékk ég far heim. Davíð Steinn var á frjálsíþróttaæfingu og Oddur Smári hafði drifið sig í klippingu og kom ekki heim fyrr en um sex. Ég notaði tækifærið og moppaði og skúraði yfir gólfin í eldhúsinu og stofunni og skúraði einnig dúkinn inni á baði. Þegar Oddur Smári kom heim fékk ég hann til að ryksuga yfir holið.

Var með lifur í kvöldmatinn og var hún borðuð með bestu lyst af öllum fjölskyldumeðlimum.

28.1.09

- Ágætis gönguveður -

Veðrið á arkinu í morgun var mjög milt og einstaklega hentugt til að hugsa um lífið og tilveruna. Fannst ég vera eitthvað fljótari í förum fyrir vikið en þegar ég athugaði með tímann þá hafði ég bara verið mínar 30 mínútur á leiðinni. Seinni partinn kom ég við í vínbúðinni við Austurstræti og var komin langleiðina upp í Skipholt þegar Davíð pikkaði mig upp. Eins gott kannski, því Hlíðablóm er ekki lengur við hliðina á American Style og hefur ekki verið þar síðan á aðfangadag. Maðurinn minn skutlaði mér í Hlíðablóm við Háaleytisbraut og beið eftir mér á meðan ég lét skreyta smá afmælisgjöf. Ég náði því samt að ganga 2x30 mínútur í dag.

27.1.09

- Færsla númer 1200 -

Ég er nýkomin heim eftir viðkomu í 12 Tónum (með reikning v/seldra hljómdiska) og Sundhöllinni, þar sem ég synti fyrst ca 300 metra áður en ég lét líða úr mér í heita pottinum. Söngfuglinn er í frjálsum, karatestrákurinn á kúmíte-æfingu og Davíð að vinna þar til kominn er tími til að sækja "þríburana". Það er heldur of fljótt að fara að huga að kvöldmatnum og réttast væri að setjast stund í "húsbóndastólinn" með góða bók...

26.1.09

- Helgin liðin -

Davíð er í pílu og strákarnir sofnaðir. Ég arkaði neðan úr bæ og á skrifstofuna í Ármúlanum eftir vinnu í dag og sótti bílinn eins og þrjá undanfarna mánudaga. Skutlaði strákunum á æfingar og sótti þá aftur. Oddur Smári er nú vanur að labba á sína æfingu en það var svo mikið vatnsveður um það leyti sem hann átti að fara að leggja í hann að ég ákvað að skutlast með hann.

Í gær leysti Adda af á orgelið í messu í Óháða söfnuðinum. Kári var búinn að undirbúa okkur vel. Til stóð að við syngjum Bæn ("Ég krýp og faðma fótskör þína, frelsari...") í röddum sem stólvers en sérann bað um óskalag, "Í bljúgri bæn" með sveiflu á flygilinn eins og Öddu er einni lagið. Við eigum þá hinn sálminn bara til góða. Stúlka um einsárs var skírð og það kom maður frá krisniboðinu og sagði frá sinni reynslu. Predikunarstóllinn var ekki notaður því hann var fullur af dóti úr skrifstofu prestsins en verið er að laga, breyta og snurfusa kirkjuna þessa dagana. Eftir messu og gott spjall við "tvíburahálfsystur mín" skrapp ég á bókasafnið og skilaði tveimur bókum. Kom heim með fjórar af safninu og er því með níu í láni allt í allt.

Helgin var annars frekar fljót að líða. Hitti norsku esperanto vinkonu mína milli ellefu og tólf á laugardaginn. Frá henni labbaði ég svo upp í Þórshamar og horfði á restina af karateæfinguna hjá Oddi. Við löbbuðum svo samferða heim. Davíð var búinn að taka til handa okkur snarl. Á eftir skruppum við í verslunarleiðangur en um kvöldið fórum við til tengdó í þorraveislu.

22.1.09

- Stutt í helgina -

Það er meira hvað tíminn flýgur áfram. Ég væri alveg til í að hægt væri að hægja aðeins á eða þá fá fleiri tíma í sólarhringinn (fleiri mínútur í klukkutímann) svo ég gæti sinnt öllu sem ég bæði þarf að gera og einnig öllum vinum og ættingjum sem og áhugamálunum. Væri það ekki afar ljúft? Ég sé þetta alveg fyrir mér; átta tímarnir búnir um hádegið, þá færu fjórir til sex tímar í heimilið og það væru samt eftir nokkrir tímar í áhugamálin og fjölskylduna og maður fengi samt nógan tíma til að sofa og hvíla sig vel fyrir næsta dag...
Farið alltaf vel með ykkur!

21.1.09

- Langur dagur -

Annasömum degi er senn að ljúka. Lagði af stað að heiman korter yfir sjö í morgun og fór lengri leið en venjulega. Samt var ég aðeins fimm mínútum lengur á leiðinni til vinnu. Klukkan fjögur fór ég hins vegar stystu leið heim og flýtti mér meira en vanalega til að hafa smá tíma heima áður en Davíð kæmi heim og lánaði mér bílinn rétt fyrir fimm. Söngfuglinn var með smá óþægindi í hálsinum en hann ákvað samt að drífa sig á kóræfingu. Á meðan að drengirnir æfðu héldum við stjórnarfund, fórum yfir nokkur mál, og ákváðum næstu skref.

Davíð var tilbúinn með matinn þegar við mæðginin komum heim og ég hafði tíma til að fá mér að borða með feðgunum áður en ég fór á kóræfingu. "Minn kór" æfði fyrir næstu messu, sem er n.k. sunnudag og skoðaði tvö ný lög. Tveir tímar liðu ógnarhratt enda var mjög gaman.

Nú er spurning hvort ég kíki ekki í bók og fullkomni þar með ágætis dag?

Farið vel með ykkur!

20.1.09

- Ótitlað -

Eftir einn og hálfan tíma verð ég mætt upp í keiluhöll á 90 mínútna æfingu. Ég hlakka til. Sagt er að æfingin skapi meistarann og vissulega næ ég ágætis skotum inn á milli en það virðist mjög tilviljunarkennt. Stundum þegar mér finnst ég sé að ná tökum á þessu, miða út atrennuna, legg af stað á hæfilegum hraða, hef auga á þeim stað á brautinni sem ég vil að kúlan fari, sveifla arminum og passa að hann sé beinn þegar ég sleppi kúlunni þá endar kúlan í annarri hvorri rennunni eða tekur aðeins eina til þrjár keilur niður. Og stundum þegar ég hugsa ekkert, mæli ekkert út, miða ekkert og skýt kúlunni einhvern veginn þá næ ég fellu. En þetta er gaman og minnir mig á dagana þegar við Davíð fórum í keilu reglulega með vinafólki okkar. Það voru fjörugir og skemmtilegir keilutímar þar sem stundum gerðust hin ótrúlegustu atvik.

Annars er ég að hamast við að lesa þessa dagana og þar er ég með nokkur járn í eldinum eins og oft áður. Í augnablikinu er ég reyndar bara að lesa tvær bækur en ég fór á safnið á sunnudaginn var og skilaði næstum því öllum bókunum sem voru skráðar á mig, öllum nema bókinni: Hnífur Abrahams eftir Óttar M. Norðfjörð. Davíð las hana eftir að hafa klárað jólabókina sína Myrká eftir Arnald Indriðason (ég á enn eftir að lesa þá bók). Og ég er enn að lesa bókina sem við fengum í jólagjöf 2007, Sagnfræðingurinn eftir Elizabeth Kostova, þ.e. ég hef verið að lesa hana með hléum allt sl. ár og er rétt hálfnuð. Það er ekki vegna þess að söguefnið sé leiðinlegt heldur eru þrír söguþræðir í bókinni og inn á milli bara verð ég að stoppa og spá í hvað er búið að gerast hvar. Inn á milli verð ég að lesa eitthvað annað. Um helgina kláraði ég Arfur Nóbels eftir Lizu Marklund og las einnig Áður en ég dey eftir Jenny Downham. Allt eru þetta skemmtilegar bækur að mínu mati en ég mæli sérstaklega með síðast nefndu bókinni. Maður fer allan tilfinningaskalann á meðan á lestri stendur og sagan skilur heilmikið eftir sig. Það er örugglega óþarfi að taka það fram að að ég kom ekki tómhent heim af safninu...

Farið vel með ykkur!

19.1.09

- Sex ár -

Í dag eru liðin sex ár síðan ég stofnaði þetta blogg og sett inn fyrstu færsluna. Margt hefur gerst á þessum tíma og sumt af því hefur verið skráð samviskusamlega. Það er auðvitað aldrei hægt (eða mjög erfitt amk) að skrá allt nákvæmlega niður dag eftir dag en það á samt að vera hægt að setjast niður með reglubundnu millibili og skrásetja það helsta. Sennilega er þetta fiskurinn/fiskarnir í eðli mínu. En nóg um það. Ég ætla bara að taka eitt skref í einu og sjá til hvort ég finn mig í skrifunum aftur.

Nítjándi desember 2008 er dagurinn þar sem heimurinn minn stöðvaðist um stund. Mamma hringdi í mig um morguninn til að segja mér að ömmubróðir minn væri dáinn. Ég þakkaði henni fyrir að láta mig og spjallaði smá við hana en var svo utan við mig að það leið klukkutími eftir samtalið uns ég hringdi aftur í hana til að votta henni samúð mína. Um kvöldið var ég nýkomin í heimsókn til gamallrar konu þegar pabbi hringdi í mig að segja mér að bróðir hans hefði verið að deyja. Ég mundi eftir því að votta honum samúð mína. Sagði gestgjafanum fréttirnar en hún er tengdamamma bróðursonar hans pabba. Stoppaði hjá henni til ellefu og við spjölluðum um fólkið okkar, lífið og dauðann og allt þar á milli. Þegar ég kom heim fleygði ég mér í fangið á manninum mínum en hann hafði fengið fréttirnar af andlátinu á undan mér. Föðurbróðir minn var orðinn 88 ára og líkami hans orðinn mjög hrörlegur og hann var búinn að reyna margt á sinni löngu ævi, m.a. missa 3 af börnum sínum, svo hann var örugglega hvíldinni feginn. En mikið skelfing skilur hann eftir sig mikið tómarúm...

En lífið heldur áfram með öllum sínum kostum og kynjum. Ein vinkona mín eignaðist sitt annað barn á tólfta tímanum á gamlárskvöld (sennilega síðasta barnið sem fætt er á nýliðnu ári, 2008). Við kíktum á fjölskylduna á sunnudaginn fyrir rúmri viku, strax eftir að ég var búin að syngja með kórnum mínum í fyrstu messu ársins 2009 hjá óháða söfnuðinum. Ég fékk að "máta" prinsinn en honum fannst ekkert varið í að vera hjá mér fyrst hann fékk ekkert að drekka. Feðgarnir fengu að spila íþróttaleiki á leikjatölvu við feðginin og þeir skemmtu sér konunglega. Við mömmurnar fylgdumst með og röbbuðum saman.

Ég er líka búin að mæta í fyrsta saumaklúbbinn á árinu hjá tvíburahálfsystur minni sem og fyrstu keiluæfingu ársins. Þannig að það er alltaf nóg að gerast í kringum mig.

Síðastliðinn fimmtudag lagðist mamma inn á sjúkrahúsið í Fossvogi og fékk settan í sig nýjan hnjálið í vinstri fótinn. Allt gekk vel og fljótlega eftir að ég kíkti til hennar á föstudagskvöldið sá ég hana fara framúr og rölta um með aðstoð göngugrindur. Hún var svo send á Selfoss á laugardaginn var og þar á að kenna henni að nota hækjur á meðan fóturinn og hnéð er að jafna sig.

En nú er kominn tími til að sækja strákana. Farið alltaf vel með ykkur!

16.1.09

- Gleðilegt ár -
Það er mánuður síðan ég skrifaði hérna inn síðast og margt hefur gerst á þessum tíma. T.d. logga ég mig frekar stund inn á fésbókina heldur en að setjast niður og ausa úr mér. Gallinn við þetta fyrirkomulag er sá að þá er ég ekki að halda utan um hið daglega líf mitt. N.k. mánudag verða liðin sex ár síðan ég stofnaði þessa bloggsíðu og mér finnst bæði gott og gaman að glugga í eldri færslur svo ég þarf að fara að taka mig saman í andlitinu og skrifa reglulega. Sjáum hvað gerist næstu daga.