28.2.08

- "Ég held ég gangi..." -

Ég lét færðina ekki aftra mér frá því að arka af stað í vinnuna í morgun. Það var líka búið að moka flestar þær gangstéttir sem ég valdi að ganga. Reyndar var ekki búið að moka Klambratúnið en ég fór engu að síður þar þvert yfir og kannski var það erfiðasti kaflinn. Á tímabili reyndi ég að skokka og hitta í för eftir einhvern og það var örugglega broslegt tilsýndar. Ég var nákvæmlega 30 mínútur á leiðinni. Var eitthvað lengur á leiðinni heim seinni partinn þótt ég færi beint yfir Skólavörðuhæðina. Færið var líka pínu strembið.

Það var kóræfing í gærkvöldið, fámenn en góð. Bassinn var sá eini sem var fullskipaður. Davíð hafði skutlað mér á æfinguna til að geta haft bílinn. Hann var alveg tilbúinn til að sækja mig eftir æfingu þar sem ég var ekki viss um að ég nennti að ganga meira þann daginn. Reyndar ákvað ég svo þegar til kom að skunda heim og byrjaði á því að kútveltast niður kirkjutröppurnar (það var búið að snjóa yfir svellið í tröppunum og ég var þar af leiðandi búinn að gleyma svellinu). Mér varð ekkert meint af byltunni en var ósköp feginn að ekki sást til mín. Var ekki nema um tíu mínútur á leiðinni heim.

Annars var ég að enda við að búa til smá kjötbollufjall og ég veit að allir karlarnir mínir verða glaðir með það. Þrátt fyrir að ég fylgi engri sérstakri uppskrift og að bollurnar eru aldrei eins hitta þær alltaf í mark hjá manni mínum og sonum.

Þessi mánuður er senn á enda, aðeins aukadagurinn, hlaupársdagur, eftir. Þá rennur upp afmælismánuðurinn minn, vííííí. Þar sem ég mun fylla fjórða tuginn hef ég verið spurð að því hvað ég ætli að gera í tilefni þess áfanga. Ég er í raun enn að hugleiða málið og kannski verð ég að spá í þetta endalaust og fram yfir sjálfan afmælisdaginn. Það er ekkert að því að verða fertugur ("held ég", he he. Enn nokkrir dagar í afmælið) og svo er bara spurning hvort og hvernig maður vill fagna því. Kannski ég láti þetta verða svona óvissuafmæli? Kannski (ef einhverjir fleiri eiga eftir að spyrja mig hvað ég ætli að gera á afmælisdaginn) svara ég einfaldlega -"Ég ætla að verða fjörutíu ára!"

27.2.08

- Vikan hálfnuð -

Þrátt fyrir að golan blési framan í mig megnið af gönguleiðinni í vinnuna fór ég þvert upp og yfir Skólavörðuhæðina. Ég var svolítið móð er ég toppaði hæðina en ég var ekkert lengur á leiðinni en undanfarna daga. Gönguhitinn sat í kinnum mínum alveg fram að hádegi. Fór næstum því sömu leið heim núna seinni partinn og þá viðraði mun betur til göngu. Ekki að það hafi verið svo slæmt í morgun en ferðin heim sóttist betur. Mætti söngfuglinum milli Lönguhlíðar og Rauðarárstígs en hann var á leið á kóræfingu. Hann er enn pínu haltur og á hökunni á honum er marblettur með munstri af hlaupabrettinu sem hann skall á í fyrradag. Og núna er karatestrákurinn að leggja af stað á sína æfingu.

26.2.08

- Aðeins lengri leið en svipaður tími -

Ég tók sveig hálfhring í kringum Skólavörðuhæðina í morgun en samt var ég bara hálftíma á leiðinni. Á heimleiðinni kom ég við hjá esperanto vinkonu minni. Hún hafði látið esperantista fara yfir þýðingarnar okkar. Það var svo sem ekki mikið sem var að, einhver rauð strik samt og ábendingar um orðanotkun. Við létum ekki deigan síga og demdum okkur í að þýða enn eitt ljóð eftir sama höfund.

Davíð Steinn kom lemstraður heim eftir frjálíþróttaæfingu í gær. Hann fór í þrekæfingar og var að fara að nota hlaupabrettið, ætlaði víst að skokka en brettið var stillt miklu hraðar en hann hélt. Stráksi missti jafnvægið, datt fyrst á hnén, skall svo með andlitið í brettið og náði einhvern veginn að snúa á sér jarkann. Það fossblæddi víst úr vörinni á honum en hann braut engar tennur og komst haltrandi í skólann í morgun. Hann sleppti samt frjálsum í dag.

Í gærkvöldi byrjaði ég að undirbúa nýtt útsaumsverkefni, fermingardrenginn að þessu sinni. Það eru að vísu tæp tvö ár uns mínir fermast en það er líka ágætt að gefa sér góðan tíma í þessi saumaverkefni.

Gleymdi annars alveg að geta þess, í síðustu færslu, að ég er búin að heimsækja blóðbankann í 20 skipti síðan ég var tvítug. 19. skiptið varð nokkuð endasleppt því ekki var hægt að "finna" eða stinga í æðina, en það skipti telur samt með því inni á spjaldinu eru blóðþrýstings- og púlstölur mínar frá því þá. En ég kom við í blóðbankanum seinni partinn á fimmtudaginn var og þá gekk allt eins og í sögu. 20. gjöfina má ég svo gefa að fjórum mánuðum liðnum.

25.2.08

- Fram og til baka -

Já, ég labbaði báðar leiðir í dag og tók tímann á mér í morgun. Ég fór alveg örugglega stystu leiðina, þvert yfir Skólavörðuhæðina og tók vel á því upp í móti í morgun. Gekk reyndar frekar hratt þar sem ég fann fyrir lærakulda. Ég var 29 mínútur á leiðinni og lærin á mér voru annan eins tíma að þiðna. En mikið sem þetta er hressandi í alla staði. Maður kemur vel vaknaður í vinnuna og notar einnig þennan göngutíma til að brjóta heilann um hin ýmsu málefni.

Annars var helgin ekki lengi að líða. Davíð Steinn í kóræfingabúðum í borg frá hálftíu til hálffimm á laugardaginn. Ég skutlaði honum á svæðið og skrapp um hádegisbilið aftur til að ganga með hópnum yfir í McDonalds í Skeifunni og borga hádegishressingu á línuna. Um kvöldið bauð ég Davíð með mér á árshátíð. Strákarnir voru heima og pössuðu sig sjálfir. Svo gerðist það sama og gerðist á árshátíðinni fyrir tæpu ári síðan. Upp úr klukkan hálftólf hringdi síminn hjá Davíð ég athugaði minn síma í leiðinni og sá að ég hafði misst af símtali. Á línunni var Oddur Smári sem spurði pabba sinn strax hvort mamma væri ekki þarna hjá honum. Ég fékk símann og stráksi sagði nákvæmlega það sama og í fyrra: -"Mamma, ætlaðir þú ekki að hringja í okkur og bjóða okkur góða nótt?"

Þessa dagana er ég að lesa Hrafninn sögulega skáldsögu eftir Vilborgu Davíðsdóttur. Og ég er alveg heilluð af henni, frásagnarstílnum og efnisviðnum. Ég er nýlega búin að framlengja fimm af þeim átta bókum sé ég fékk að láni í kringum 20. janúar sl. Þremur var ég búin að skila og ég á bara eftir að lesa ofangreinda bók og eina til af þessum fimm ég var að falla á skilatíma og komst ekki í bókasafnið þegar tíminn var kominn. Sem betur mátti ég og átti ég eftir að framlengja frestinum.

20.2.08

- Drógum okkur í smá hlé -

Síðast liðinn föstudag fórum við öll fjögur í sumarbústað. Vorum farin út úr bænum áður en klukkan sló fjögur, komum við í Bónus í Hveragerði og vorum komin í bústaðinn um sex. Það er skemmst frá því að segja að helgin var notaleg og ég nýtti hana hérumbil í botn, þ.e. mér tókst að gera allt sem ég ætlaði mér nema að fara í göngur. Sat með esperanto-bækurnar mínar og þýddi eitt ljóð eftir Björn E. Hafberg yfir á esperanto á föstudagskvöldið (vantaði tvö orð til að klára þýðinguna). Allir voru með bækur með sér og lásu löngum stundum en við fórum líka með spilið sem Davíð Steinn gaf bróður sínum í jólagjöf, Astrópíu, og spiluðum það í amk fimm tíma á laugardeginum. Þegar við hættum um sjö leytið vorum við ekki alveg hálfnuð með spilið. Strákarnir fóru í pottinn smá stund eftir mat. Ég var líka með saumana mína og tók þá fram amk einu sinni. Þá var ég líka með krossgátu- og sudokublöð sem ég sat einnig yfir þeim. Fórum öll í pottinn um hádegisbil á sunnudag og sumir gerðust mjög kaldir og lögðust út í næstu skafla til að kæla sig niður inn á milli. Lokuðum bústaðnum á eftir okkur seinni partinn á sunnudeginum og vorum komin í bæinn um kvöldmatarleytið.
Á meðan söngfuglarnir voru á æfingu sl. mánudag var foraldrafundur í FFDKR. M.a. var verið að ræða ferðina sem farin verður í vor og frekari fjáraflanir. Í lokin á kóræfingunni var kertasala drengjanna gerð upp. Söngfuglinn minn setti sér markmið í nóvember um að verða söluhæstur, eða amk verða enn og aftur einn af fimm söluhæstu. Honum tókst, með góðri aðstoð frá bróður sínum og "þríburanum", að ná báðum markmiðunum því hann var söluhæstur og krýndur kertasölukóngur 2007. Fékk áletraðan bikar og allt. Sá varð glaður.
Í gær kom ég við hjá esperanto vinkonu minni og við kláruðum þýðinguna saman og þýddum eitt til. Þetta er hrikalega gaman og tók ég með mér annað ljóðahefti eftir sama höfund heim.
Ein af bókunum sem ég hef verið að lesa er Leyndarmál býflugnanna eftir Sue Monk Kidd í þýðingu Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Þessi bók heillaði mig gersamlega og fór ég allan tilfinningaskalann á meðan á lestri hennar stóð, allt frá því að verða öskureið og yfir í að skella upp úr. Mæli eindregið með þessari bók.

12.2.08

- Og tíminn flýgur áfram -

Það voru foreldraviðtöl ásamt börnum hjá bekkjarkennurum í skólanum í gær. Hvorugur kennarinn hafði yfir neinu að kvarta og ekki kvörtum við þegar strákunum gengur svona glimrandi vel. Annar þeirra er með 8,83 í meðaleinkunn og hinn með 8,93. Báðir eiga þeir félaga bæði innan bekkjar sem utan og vini af báðum kynjum. Í dag var skipulagsdagur. Bræðurnir sváfu út en gemsinn minn hringdi óvænt um hálftíu í morgun. Ég var stödd á miðjum fundi en ég dró mig í hlé stutta stund og karatestrákurinn kom sér beint að efninu. Hann var að læra og þurfti að fá að vita hversu lengi ég hefði haft hann á brjósti. Hann sendi mér svo SMS og spurði hversu lengi þeir mættu vera í tölvum í dag.

Ég átti pantaðann tíma í klippingu um fimm í dag svo ég fór beint í Kringluna eftir vinnu, með leið 13. Er með minn eiginn klippara í Kristu, Nonna. Hann kann á hárið á mér. Komst strax að og pantaði svo annan tíma, eftir rétt rúmlega mánuð, um leið og ég gerði upp. Mjög ánægð með árangurinn.

Framundan er annríki á annríki ofan, með smá afslöppun inn á milli. Skrifa kannsi um það næst eða seinna.

8.2.08

- Andvaka -

Hrökk upp fyrir hátt í klukkustund síðan eftir þriggja tíma svefn. Ég er langt því frá útsofin en þar sem hann Óli Lokbrá virtist ekkert vera á leiðinni ákvað ég rísa stund úr rekkju og skrá niður hugsanir og viðburði (aðallega það síðarnefnda)

Búið er að farga Fíat, eða amk koma bílnum á förgunarstaðinn. Vaka sá um þann hluta fyrir okkur. Davíð á bara eftir að fara á staðinn, borga flutninginn, fá kvittun og framvísa þeirri kvittun svo hann fái skilagjald fyrir bílinn og geti afskráð hann endanlega. Ég þrammaði í og úr vinnu bæði þriðjudag og miðvikudag en í gærmorgun lagði ég af stað og tók ekki nema örfáskref áður en ég ákvað að snúa við og biðja manninn um að skutla mér. Mokaði tröppurnar á meðan ég beið eftir að Davíð kæmi út. Hann fékk að sópa af bílnum og hann gerði það vel. Það er skelfilegt hversu margir ana út í umferðina með snjófarg á toppnum og víðar, kannski bara rétt mokað eða skafið af framrúðunni og hliðarrúðunni bílstjórameginn. Ég sá amk tvo svoleiðis fararskjóta á arkinu seinni partinn í gær.

er ég annars búin að fá nokkuð skothelda afsökun fyrir því að þurrka ekki af nema á nokkurra vikna fresti kannski. Raddþjálfinn okkar, Laufey, kom á kóræfingu sl. miðvikudagskvöld og kenndi okkur það að hljómarnir berast betur ef það er ryk í lofti. Þetta var annars mjög fróðleg, gagnleg og afar skemmtileg kóræfing. Reyndar skemmti ég mér yfirleitt alltaf á kóræfingum. Framundan er tvöföld messuhelgi en söngfuglinn syngur með DKR í Hallgrímskirkju á sunnudagsmorguninn og svo er messa í óháða klukkan tvö þann sama sunnudag. Drengjakórinn var annars að fá góðan styrk frá Baugi sl. miðvikudag. Sjá einnig smá fréttaklausu á heimasíðu DKR.

Jæja, núna ætla ég að fara að leita að draumalandinu. Farið vel með ykkur!

5.2.08

- Gangandi vegfarandi á ný -

Í gær var ég heima með veiku barni og hálfslöpp sjálf. Ekki með pest eða neitt svoleiðis. Skrapp fótgangandi að skila bókum á Kringlusafnið. Ein bókin var komin á tíma og svo var ég að æfa mig fyrir komandi daga, vikur og jafnvel mánuði eða ár. Já, mín fór gangandi til vinnu í morgun og þótt ég væri hálftíma á leiðinni var ég ekkert köld, þreytt eða hrakin. "Þríburamamman" sá um að skutla strákunum í frjálsar og er Davíð að sækja þá í þessum skrifuðum orðum. Svo ég þurfti alls ekki að hlaupa heim. Gaf mér meira segja tíma til að koma við hjá fyrrum nágrönnum og sambýlingum okkar af efri hæðinni á Hrefnugötunni. Þar var vel tekið á móti mér.

Las helling um helgina (Harry Potter og dauðadjásnin, Konfekt og kærleikur (smásögur í anda Hitchcocks) og Afturelding eftir Viktor Arnar Ingólfsson) Magnaðar bækur. Er líka langt komin með 4. júlí eftir James Patterson og Maxine Paetro.

En ég skrapp líka í kaffi til Önnu Önfjörð frænku minnar og átti gott spjall við hana. Hún er fjórtán árum yngri en ég en ég finn ekki fyrir þessum aldursmun og við getum spallað saman um allt milli himins og jarðar. Enda var tíminn frekar fljótur að líða.

2.2.08

- Laugardagur -

Jæja, þá er líklegt að Fíat sé hættur að þjóna mér, amk í bili. Ég var á heimleið á fimmta tímanum í gær og ætlaði að leggja af stað á ljósunum á Lönguhlíð við Háteigsveg þegar gírkassinn gaf sig. Það var brjálað að gera hjá Vöku og Króki. Vaka ætlaði að skjóta mér inn á milli verkefna en Davíð fékk að lokum dráttarbíl frá fyrirtæki í Garðabæ. Ég þurfti samt að bíða í rúman klukkutíma, örstutt frá heimilinu mínu. Davíð kom rétt fyrir hálfsex og var nokkrum mínútum á undan bílnum sem flutti Fíatinn á verkstæði fyrir okkur. Við fáum svo að vita eftir helgina hvort gírkassinn er ónýtur (nýr kassi kostar bara hálfa millijón) og eða hvort það borgar sig að gera við bílinn. Á eftir dráttarbílsævintýrinu skutlaði Davíð mér í Billjardstofuna fyrir aftan Lyfju í Lágmúla þar sem ég hitta slatta af vinnufélögum og spilaði nokkra leiki við nokkra af þeim.

Í morgun hitti ég esperantovinkonu mína á Kjarvalsstöðum. Það sló í gegn hjá okkur og er ég nokkuð viss um að við munum hittast þar aftur, og aftur næstu laugardaga. Lærdómurinn gekk vel og allt í einu var klukkan orðin hálfeitt. Við gáfum okkur samt tíma til að kíkja á verkin hennar Nínu sem og inn í salinn þar sem sýnd eru verk eftir Færeyinginn Sámuel (1906-1979) sem kenndi sig við eyjuna sem hann ólst upp á (M-eitthvað).