29.11.07

- Umhleypingar -

Það er eins og hann geti ekki ákveðið sig hvort á að skella á harður eða mildur vetur. Þótt það hafi verið nokkuð milt í veðri framan af vikunni hefur færðin verið háskaleg, amk þeim sem eru meira gangandi. Reyndar er ég ekki lengur í þeim hópi en ég fór þó fótgangandi héðan og upp í Keiluhöll sl. þriðjudagskvöld. Það var síður en svo auðveld ganga en ég slapp við að detta og hafði mjög gott af þessari göngu (báðar leiðir). Á leiðinni í keiluna lenti ég í smá ógöngum, var hálfnuð upp að Perlu áður en ég valdi réttari leið sem var reyndar dimm og drungaleg og kom ég beint ofan á Keiluhöllina. Ég komst samt niður án þess að snúa við. Spilaði tvær umferðir í keilu með hressum vinnufélögum sem höfðu misjafnan kaststíl og sá skrítnasti var ekki endilega sá sem gaf minnst af sér, þvert á móti varð sá kastari frekar ofarlega í báðum umferðum. Fór svo aðeins aðra leið heim og tókst að forðast svellið að mestu.

Í gærkvöldi var kóræfing og æfðum við fyrir aðventukvöldið þann 9. n.k. Aðeins vantað tvo í kórinn sem telur nú alls 18 manns. Fyrr um daginn var söngfuglinn að æfa fyrir jólatónleikana með sínum kór. Þeir tónleikar verða 6. des. n.k. klukkan 20:00 í Hallgrímskirkju. (Um að gera að auglýsa svona óbeint á ská!) Nú svo ég ég haldi áfram þá er geisladiskur DKR Vængir komnir út og hægt að nálgast hann í Guðbrandsstofu í Hallgrímskirkju eða kaupa af kórfélögum. Það verður líka hægt að kaupa hann á jólatónleikunum en þá er opinber útgáfudagur disksins.

Jæja, tíminn er floginn frá mér enn eina ferðina. Ekki nóg með að vikan sé langt komin heldur er mánuðurinn að klárast og aðventan alveg að byrja. Farið vel með ykkur!

26.11.07

- Gosi, messa, Gosi -
og fleira

Um hádegisbil á föstudaginn var fékk ég mig lausa úr vinnu til að skreppa á ráðstefnu á vegum jafnréttisstofu. Ráðstefnan var haldin í Sunnusal á Hótel Sögu og var sett af Jóhönnu Sigurðardóttur klukkan eitt og stóð yfir til klukkan fjögur. Fundastjóri var Mörður Árnason. Þarna voru nokkrir áhugaverðir fyrirlestrar og seinasta hálftímann voru pallborðsumræður.

Rétt fyrir hálfsex, sama dag, löbbuðum við mæðginin út í skóla en bekkurinn hans Davíðs Steins var um það bil að fara að sýna leikritið Gosa fyrir pabba, mömmur, afa, ömmur, systkyni og frændsystkyni. Strákurinn var á nippinu að fá hálsbólgu og kvef. Hann lék Jakob smið og var með einsöng snemma í leikritinu. Hann stóð sig mjög vel, sem og öll hans bekkjarsystkyni og var þetta hin besta skemmtun.

Ég skrapp yfir til esperanto-vinkonum minnar á laugardagsmorguninn. Davíð skutlaði karatestráknum á æfingu og ætlaði að kaupa á hann nýjan búning, en það var enginn við til að afgreiða. Ekki heldur þegar ég koma að sækja strákinn. Davíð tók þátt í pílumóti á vegum KR frá því um hádegisbil, komst upp úr riðlinum en var sleginn út í 16 manna úrslitum. Klukkan var langt gengin í níu þegar hann kom heim.


Í gærmorgun var maðurinn minn kallaður út vegna e-s konar bilunar. Ég var farin á æfingu og upphitun fyrir messu áður en hann kom aftur. Það var svokölluð þjóðlagamessa í gær og var leikið undir á píanó, bassagítar og nokkrar eggjahristur. Þetta gekk bara vel og var stórskemmtilegt.

Um hálfsex í kvöld var svo leiksýning í bekknum hans Odds Smára. Leikritið var um Gosa
en líkt og í leikritinu sl. föstudag fléttuðust margar persónur úr öðrum leikritum og ævintýrum inn í. Karíus og Baktus, Ronja ræningjadóttir, Birkir og nokkrir rassálfar, Dóróthea, tveir vinir úr Móglí (Balí og hinn), slatti af perónum úr leikfangasögu ("Toy-story"), og fleiri persónur. Oddur lék þann sem plataði Gosa í leikhúsið og einnig grís. Hann og bekkjarfélaga hans stóðu sig virkilega vel og var alveg jafn gaman á þeirra sýningu eins og sýningunni á föstudaginn. Það er verst að mig langar eiginlega að fara á þriðju leiksýninguna sem verður á morgun en þá er "þríburinn" og hans bekkjarfélagar að sýna leikritið um Gosa.

Ég skrapp svo yfir til tvíburahálfsystur minnar og bjó til nokkur jólakort milli níu og ellefu í kvöld. Er alveg að verða komin með nóg fyrir jólakort þessa árs, komin með um 50 stykki og á einnig örfá saumuð jólakort

20.11.07

- Stopul skrif -

Ég er skelfilega léleg við skrifin þessa dagana. Þá sjaldan sem ég hef tíma þá kemur andinn ekki yfir mig. Reyndar tók ég því nokkuð rólega sl. sunnudag. Ætlaði að nýta daginn vel í heimilið en tók upp á því að grípa í eina af Arnaldsbókunum hans Davíðs; Grafarþögn og gat ekki látið hana frá mér fyrr en ég var búin með bókina. Jú, jú, heimilið fékk sinn skerf af athygli en alls ekki alla þá sem ég hafði hugsað mér. Var sennilega í of víðum ermum. Tók mig svo til seinni partinn og lagði í tvo pizzabotna sem ég skipti svo niður til helminga þegar komið var að því að fletja út þannig að hver og einn fjölskyldumeðlimur fékk að setja saman sína eigin pizzu. Var með tvær tegundir af botnum, notaði heilhveiti og létt ab-mjólk í annan og gróft spelt og volgt vatn í hinn. Ég bjó til mína pizzu úr helmingnum af síðarnefnda botninum og hafði túnfisk, rækjur, lauk og sveppi en sleppti alveg ostinum. Hún var samt svo matarmikil að ég á enn eftir einn fjórða af henni (borðaði einn fjórða í gærkvöldi).

Fyrri partinn á laugardaginn var vorum við öll fjölskyldan í Laugardalshöllinni. Strákarnir voru að keppa í frjálsum. Það var bara ágætt en ég skil samt ekki hvernig þeim datt í hug að skrá sig til keppni í hástökki því þeir felldu báðir byrjunarhæðina. En þeir áttu að skrá sig í þrennt eða allar fimm greinarnar (hástökk, kúluvarp, þrístökk, 60m og 800m) og slepptu þrístökki og 800m. Karatestrákurinn mætti svo beint á æfingu úr höllinni.

12.11.07

- Margt var brallað um helgina -

Á meðan feðgarnir og nafnarnir skemmtu sér konunglega í æfingabúðum byrjaði helgin á rólegu nótunum hjá okkur mæðginunum. Hjálpuðumst að við að finna til matinn á föstudagskvöldið og fengum okkur smá popp með "Heillanornunum". Ég tók daginn nokkuð snemma á laugardagsmorguninn og undirbjó tiltekt og þrif. Skrapp aðeins til esperanto-vinkonu minnar stuttu fyrir hádegi og karatestrákurinn lofaði að fara fótgangandi á æfingu. Hann fékk að ráða framhaldinu af deginum. Við skruppum í sund og svo í heimsókn til frændfólks. Stráksi komst í mjög skemmtilegan tölvuleik með frænda sínum og ætlaði helst ekki að vilja koma heim. Við kvöddum þó um sex og versluðum inn á heimleiðinni. Eftir kvöldmat og Spaugstofu skruppum við út í rúmlega klukkutíma kerta- og kaffisöluleiðangur. Það gekk ágætlega.

Ákvað það á síðustu stundu í gærmorgun að fara í messu í Hallgrímskirkju því drengjakórinn var að syngja. Þeir komu beint úr æfingabúðum og stóðu sig vel að vanda við að leiða sönginn í messunni. Var mætt í óháðu kirkjuna um eitt til að æfa fyrir messu þar sem látinna var minnst. Kórstjórinn var búinn að breyta sálmunum frá því á æfingunni en engu að síður sungum við "Ave Maria" eftir Nyberg sem stólvers. Ég hafði orð á því stuttu áður en messan byrjaði að við skyldum bara hugsa til raddþjálfans og senda henni barkakýlin okkar eins og við gerðum fyrir hana á sl. æfingu. Allt small saman í messunni. Uþb 80 kirkjugestir voru mættir og þegar við sungum stólversið þá hljómaði það svo vel að það sáust tár á hvarmi hér og þar. Gaman að þetta skyldi allt ganga upp og það þótt við værum að syngja einn alveg nýjan sálm við messuna, þ.e. sálm sem ég minnist ekki eftir að hafa æft áður.

Á meðan þessu fór fram fóru feðgarnir í fjallgöngu upp á Úlfarsfell með mörgum af bekkjarfélögum Davíðs Steins og foreldrum þeirra. Þeir komu heim um hálffimm og voru þeir mjög ánægðir með klifrið. Um sexleytið skruppum við á Nings og mættum í Borgarleikhúsið nokkru fyrir átta á Laddi-6tugur. Við skemmtum okkur öll á sýningunni sem með hléi stóð í tvo og hálfan tíma.

9.11.07

- Aftur kominn föstudagur -

Þessi vika er senn liðin og hún sem var að byrja. Hvernig stendur á þessum hraða?

Einn mágur minn bauð mér á starfsmannaútsölu í Hagkaup í Smáralindinni á þriðjudagskvöldið var. 40% afsláttur var af fatnaði, 20% af matvöru og 15% af ýmsum sérvörum. Ég þáði að sjálfsögðu gott boð og nýtti mér það óspart. Sjálfsagt hefði ég geta nýtt það betur ef ég hefði beðið tvíburana um að taka sér frí úr frjálsum fyrr um daginn til að máta skó og fleira. En ég keypti nokkrar jólagjafir, matvörur og einhverjar hinseginn gjafir líka. Takk fyrir þetta boð, Tommi minn!


Á miðvikudagskvöldið mætti Laufey raddþjálfi á kóræfingu. Fyrstir í röðinni voru bassarnir og á meðan æfðum við hin aðeins fyrir messu n.k. sunnudag. Við gleymdum tímanum aðeins og allt í einu var kominn tími til að fá sér kaffi. Eftir kaffi fóru tenórarnir til raddþjálfans (ég var ekki með í þeim hópi...). Þegar þeir voru búnir var spurt hvort ekki mætti þjálfa allan kórinn saman, frekar heldur en að taka amk klukkutíma í viðbót (2x30) fyrir kvenraddirnar. Okkur fannst það bara tilvalið og við sungum fyrir hana Ave Maria eftir Nyberg og þegar hún var búin að taka okkur smávegis í gegn var hún farin að fá gæsahúð því við hljómuðum svo fínt saman.

Um sex í gær mættum við Davíð Steinn í Bæjarbíó í Hafnarfirði (hann tók sér frí úr frjálsum) því honum sem þátttakanada Frostrósa-verkefnisins í fyrra var boðið að koma og sjá frumsýningu myndbands sem gert var um tónleikana. Það var bara gaman og ég held að þeir eigi von á því að fá disk frá FROST fyrir jólin.

Núna eru feðgarnir og nafnarnir komnir austur í Hlíðardalsskóla þar sem drengjakórinn verður í æfingabúðum fram á sunnudagsmorgunn. Við mæðginin sem erum eftir heima ætlum að reyna að selja fleiri kerti eða kaffi um helgina en gerum örugglega eitthvað meira en það. Oddur Smári fer reyndar á karateæfingu um hádegisbil á morgun en við finnum okkur tíma í dundur og sölu.

6.11.07

- Fjórir frídagar liðnir -

Strákarnir voru í vetrarfríi frá 1. nóvember og þar til í morgun að bjöllurnar gullu í skólanum á ný. Á föstudaginn var ég komin heim fljótlega upp úr hádeginu. Stefnan var að gera allt klárt í að yfirgefa borgina við fyrsta tækifæri og bruna yfir fjallið og í sumarbústað nokkurn á sömu slóðum og við höfum farið tvisvar sinnum áður á árinu, en samt höfum við aldrei prófað akkúrat þennan bústað. Davíð skilaði sér heim upp úr þrjú og þá var nokkurn veginn allt að verða klárt. Hlóðum bílinn og drifum okkur af stað. Komum við í Bónus í Hveragerði á leiðinni. Þegar við mættum í bústaðinn biðu fyrstu gestirnir eftir okkur. Dótinu var hent inn og tekið var til við að finna til mat ofan í svöng börn og fullorðna. Fleiri gestir bættust við þegar leið á kvöldið. Nóg pláss var í bústaðnum, þrjú herbergi og kojur í tveimur þeirra og þar að auki heilt svefnloft uppi. Tveir af gestunum laumuðu sér út um sjö á laugardagsmorguninn og sáust ekki aftur fyrr en undir kvöld þá búnir að veiða heilar tvær rjúpur. Ég fór í smá gönguferð með krökkunum fjórum og í þeirri ferð hittum við á bekkjarkennara annars tvíburans. Börnin og amman fóru svo í heita pottinn í smá stund fyrir kvöldmat. Helgin leið frekar fljótt við ýmiskonar dútl og dundur. Gestirnir hurfu á braut um miðjan dag á sunnudag en við lokuðum á eftir okkur á hádegi í gær og skruppum á Selfoss og á Bakkann á heimleiðinni. Og svo var kortagerð í Hafnarfirðinum í gærkvöldi og ég bjó til ellefu stykki á tveimur tímum.

2.11.07

- Afmæli og vetrarfrí -

Helga systir er árinu eldri í dag. Litla systir mín sem eitt árið á unglingsárunum óx mér yfir höfuð en ég náði að jafna það með tíð og tíma með því að vaxa 1-2 cm á ári alveg fram að tvítugu.

Annars er vetrarfrí í mörgum skólum þessa dagana. Í gær voru tvíburarnir beðnir um að fara og láta klippa sig, fengu 1500 kr. hvort (voru búnir að fá annað eins rétt fyrir síðustu helgi). Hárflikk er hérna næst okkur en þar kostar 2400 kr. á haus. Oddur Smári var að spá í að fara heim og ná í meiri pening úr sínu veski en hætti við það. Davíð Steinn fór á Hárhornið
til tengdapabba systur minnar, komst strax að og fékk mun ódýrari klippingu. Sá óklippti var með alls konar fyrirslátt því hann einfaldlega nennti ekki að labba þessa leið. Hann á samt einn möguleika eftir, þ.e. pabbi hans á líka eftir að láta snyrta á sér hárið...

Góða helgi og farið vel með ykkur!

1.11.07

- Nýr mánuður -

Ég er viss um að tíminn er eitthvað að stríða mér. Það bara stenst ekki að október sé búinn, það sem var september fyrir ca tveimur vikum síðan...

Fyrstu fréttirnar eru þær að í gær mættu þrír tenórar á kóræfingu og tveir nýjir bassar svo ég mátti syngja í minni rödd, altinum, aftur. Æfingin gekk þokkalega en það á eftir að koma í ljós hvernig nýju strákunum reiðir af, þ.e. hvernig þeim líkar félagsskapurinn og efnið. Vona bara að það gangi upp.

Annars er alltaf jafn mikið að gera hjá mér, svo mikið að ég hef ekki tíma til að lesa, sem er leitt. Það á vonandi eftir að lagast e-n tímann. Reyndar hef ég varla tíma til að sakna þess að lesa ekki, amk ekki þessa dagana, hvað sem seinna verður. Svo kannski er best að vera ekkert að kvarta. Njóta bara nú-sins (augnabliksins), vitandi það að allt er breytingum háð og ekkert ástand er viðvarandi nema maður vilji það 100% sjálfur og þá á það jafnvel ekki rétt á sér. Hmm, þetta var kannski of djúpt fyrir mig. Ég tek líka eftir því að það eru ekki að fæðast nein ljóð eða stökur sem segir mér að bráðum sé kominn tími til að setjast niður, slaka á og hvíla hugann.

Farið vel með ykkur!