- Flottir drengir með góða tónleika -
Það mættu amk 220 manns til að hlusta á drengina í gærkvöldi og þeir sungu sig inn í hug og hjörtu allra held ég að mér sé óhætt að segja. Þeir sungu m.a. nokkra kafla úr verkinu Lífið og ljósið eftir Hjálmar H. Ragnarsson, það sem þeir sungu með karlakórnum á mánudaginn var. Tíminn var fjótur að líða og allt í einu voru tónleikarnir búnir, samt var örstutt hlé. Í lokin var strákunum fagnað svo vel að þeir sungu fyrir okkur aftur eitt lagið á efnisskránni: Amigos para sempre.
Davíð fór aftur í vinnuna eftir tónleikana og tvíburarnir strax í háttinn. Ég fór ekki inn í rúm fyrr en um ellefu leytið og þá til að lesa: Síðustu fréttir eftir Arthur Hailay. Ég hef lesið þessa bók einhvern tímann áður (og allar hinar;Bankahneykslið, Bílaborgin, Gullna farið, Hótel, Skammhlaup, Sterk lyf). Ég var svo spennt í lestrinum að ég var enn að lesa upp úr klukkan hálfeitt þegar ég heyrði hálföskrað "mamma", það var Davíð Steinn sem vaknaði upp af einhverri martröð. Endirinn varð sá að ég leyfði honum að koma upp í til mín og hann þurfti ekki að færa sig í sitt rúm aftur fyrr en pabbi hans kom heim um sex í morgun. Sennilega hefur þetta bara verið spennufall og ofþreyta hjá drengum því hann var eldhress í morgun.