31.5.07

- Flottir drengir með góða tónleika -

Það mættu amk 220 manns til að hlusta á drengina í gærkvöldi og þeir sungu sig inn í hug og hjörtu allra held ég að mér sé óhætt að segja. Þeir sungu m.a. nokkra kafla úr verkinu Lífið og ljósið eftir Hjálmar H. Ragnarsson, það sem þeir sungu með karlakórnum á mánudaginn var. Tíminn var fjótur að líða og allt í einu voru tónleikarnir búnir, samt var örstutt hlé. Í lokin var strákunum fagnað svo vel að þeir sungu fyrir okkur aftur eitt lagið á efnisskránni: Amigos para sempre.
Davíð fór aftur í vinnuna eftir tónleikana og tvíburarnir strax í háttinn. Ég fór ekki inn í rúm fyrr en um ellefu leytið og þá til að lesa: Síðustu fréttir eftir Arthur Hailay. Ég hef lesið þessa bók einhvern tímann áður (og allar hinar;Bankahneykslið, Bílaborgin, Gullna farið, Hótel, Skammhlaup, Sterk lyf). Ég var svo spennt í lestrinum að ég var enn að lesa upp úr klukkan hálfeitt þegar ég heyrði hálföskrað "mamma", það var Davíð Steinn sem vaknaði upp af einhverri martröð. Endirinn varð sá að ég leyfði honum að koma upp í til mín og hann þurfti ekki að færa sig í sitt rúm aftur fyrr en pabbi hans kom heim um sex í morgun. Sennilega hefur þetta bara verið spennufall og ofþreyta hjá drengum því hann var eldhress í morgun.

30.5.07

- TÓNLEIKAR DRENGJAKÓRS REYKJAVÍKUR -

VERÐA haldnir í Hallgrímskirkju í kvöld klukkan átta. Aðgangseyrir kr. 1.000.
Hvet alla til að mæta og njóta þessara björtu og fallegu radda í ca klst. Sjáumst!

29.5.07

- Ljóðavefur -

Ég lét verða af því í gær að afrita öll ljóð og vísur sem ég hef birt á þessu bloggi mínu og setja saman í sér safn. Athugið að ég afritaði þau yfir en uppsetningin hélst samt ekki eins. Njótið vel þið sem viljið. Ég veit ekki alveg hvort ég mun setja ný ljóð beint á ljóðavefinn. Það verður samt að teljast mjög líklegt. Um að gera að nota "rétta" umhverfið.

28.5.07

- Ni parolis nur esperanto -

Jes, ég var var mætt til norsku esperanto vinkonu minnar um ellefu á laugardaginn. Til stóð að æfa sig fyrir kaffihúsaferð þar sem við myndum eingöngu tala saman á esperanto. Og á laugardaginn töluðum við því bara esperanto þann rúma klukkutíma sem ég var hjá henni. Tvisvar eða þrisvar brá ég reyndar ensku fyrir mig en ég sagði aðeins tvö orð á íslensku allan tímann; -"Æ, æ"! Inger bauð mér upp á koníaksstaup með kaffinu og ég er ekki frá því að það hafi liðkað málbeinið aðeins. Við vorum með orðabækur við hendina og komumst að því að líklega verðum við að hafa þær með á kaffihúsið. Annars fannst okkur þetta ganga bara vel!

Seinni partinn á laugardaginn skrapp ég í Krónuna að versla. Þar rakst ég bókstaflega á eina frænku mína og við þekktum hvor aðra á sama sekúndubrotinu. Þetta var skemmtilegur árekstur. Á leiðinni úr versluninni hitti ég svo einn frænda minn.

Í gærmorgun
var ég mætt upp í kirkju um tíu. Það vantaði fimm í kórinn (1 alt, 1, tenór, 1 bassa og 2 í sópran) en við vorum 12 sem sungum messuna klukkan ellefu. Það gekk allt ljómandi vel fyrir sig. Nú eru bara tvær kóræfingar og tvær messur eftir fram að kórsumarfríi. Ég mun reyndar ekki mæta í göngumessuna sem verður 9. júní n.k. en æfingunum og gúllasmessunni sleppi ég ekki.

Um tvö
í gær lögðum við fjölskyldan af stað í bíltúr upp í Borgarfjörð. Keyrðum Hvalfjörðinn og komum við í bensínsjoppu í Borgarnesi til að fylla á bílinn og kaupa eitthvað til að setja á grill um kvöldið. Svo héldum við ferðinni áfram en ca 10 kílómetrum frá Borgarnesi eiga tvíburahálfsystir mín og hennar maður mjög svo kósí sumarbústað. Foreldrar hennar voru í heimsókn. Strákarnir fóru fljótlega að leika við tveggja og hálfsárs dóttur tvíburahálfsystur minnar og löbbuðum með henni um nágrenni bústaðarins. Dagurinn leið hratt. Hitinn var nægur á tímabili til að setjast út á pall. Um kvöldið var grillað og borðað saman. Frábær dagur, afslappandi og mjög skemmtilegur. Okkur var ítrekað boðið að gista en við töldum okkur ekki hafa tíma í það þar sem Davíð ætlaði að vinna í dag og svo er söngfuglinn að fara að syngja með DKR og KR (drengja- og karlakór Reykjavíkur) í Hallgrímskirkju núna klukkan fimm seinni partinn.

26.5.07

- Lokaheimsóknin -

Ég hugsaði ekki út í að segja frá því að ég fór með Davíð Stein til tannfræðinsins í eftirskoðun í gærmorgun. Við fengum gefins myndir af munni hans og tönnum fyrir og eftir góminn, og þvílíkur munur. Vinstra meginn, framan frá séð, var allt í lagi en hægra meginn var tvöfalt krossbit. Núna er þetta allt orðið jafnt og flott.

Oddur Smári
hringdi í mig í gemsann um tvö í gær. Það var tilviljun að ég heyrði í símanum því ég hafði gleymt að taka hann upp úr töskunni. En á svipuðum tíma og strákurinn hringdi þurfti ég að ná í svolítið í töskuna. Stráksi byrjaði á því að spyrja hversvegna ég hefði verið svona lengi að svara. En svo spurði hann hvort hann mætti gista heima hjá vini um nóttina. Ég sagði að það væri í lagi ef mamma hans segði já. "-Hennar!" sagði þá Oddur Smári, "-Ég kem heim um sjö í síðustu máltíðina og sæki tannburstann minn ef ég má gista..." Þessi tvö og reyndar þrjú önnur (Davíð Steinn er þar á meðal annað hvort sem söngvari eða bakrödd) eru að hugsa um að stofna hljómsveit saman. Þau vinirnir komu bæði fyrir sex og fékk hún að borða hjá okkur. Ég var með bygggrjón og ommilettu (eggjaköku) með grænmeti og afgang af soðinni ýsu. Bekkjarsystir og vinkona Odds byrjaði á að tilkynna að hún borðaði yfirleitt ekki mikið á kvöldið. Sennilega vildi hún hafa vaðið fyrir neðan sig ef henni fyndist maturinn ekki góður. Hún borðaði mest af því sem henni var skammtað á diskinn af ommilettunni en svo var hún svo hrifin af bygggrjónunum (sem hún kallaði reyndar baunir) að hún fékk sér aftur og aftur á diskinn uns ekkert var eftir í skálinni. Strax eftir matinn kvöddu vinirnir og fóru heim til hennar með einn tannbursta með í för.

25.5.07

- Enn ein vikan næstum liðin -

Á meðan Davíð Steinn var á aukaæfingu og að syngja beint í Kastljósinu fórum við hin í Laugardalinn til að fylgjast með leik Vals og KR 2:1. Ég ætlaði mér að spara röddina þar sem það er stutt í næstu messu en stemmingin var góð og ég gleymdi mér alveg. Þannig að ég er svolítið rám í dag. Ég hef morgundaginn til að jafna mig.


Í fyrradag skilaði ég af mér þremur bókum. Safnið í Grófinni var lokað vegna breytinga en það var móttökuhilla í anddyrinu sem á stóð: Ykkur er velkomið að skila hér. Ég nýtti mér það því ævisaga Kristjáns Eldjárns heitins var á síðasta auka-skila-degi. Mér leist ekkert á blikuna þegar ég skráði mig inn í Gegni í gærmorgun og sá að það var óbreytt staðan á útlánunum (20 í láni en átti að vera 17). Ég tók ekki sjensinn á því að þetta mundi ekki breytast í einhverja daga og að þá fengi ég sekt vegna ævisögunnar svo ég sendi fyrirspurn á safnið. Fyrirspurninni var ekki svarað en seinni partinn var búið að laga útlánsstöðuna mína. Hluti af þessum 17 bókum eru bækur sem ég tók fyrir strákana, 5 stykki. Annars er ég að spá í að bjóða þeim upp á að eignast sitt eigið bókasafnsskírteini. Þeir gætu farið í Kringlusafnið því þeir eru hvort sem er að skreppa í Kringluna öðru hvoru.

Ég er langt komin með tvær ólíkar en spennandi bækur. Fylgsnið eftir Dean R. Koontz og Ellefu mínútur eftir Paulo Coelho. Ætla ekkert að skrifa nánar um þær en mæli eindregið með þeim.

Hafið það gott nú um komandi hvítasunnuhelgi.

24.5.07

Heilræði í bland við bull

Glaðlega geislarnir dönsuðu saman
gullinbrúnir og heitir.
Að horfa á var virkilega gaman
vorið yl í kroppinn veitir.

Nú birtir meira dag frá degi
dimman er varla til.
Takið eftir því sem ég segi
svo allt fari eins og ég vil.

Alltaf er gott að meta lífið
og brosa oft og mikið.
Munnvikin allir upp hífið
ekki frá neinu vikið.

Verum jákvæð verum kát
verum mikið saman.
Setjum lífið í mót og mát
meira þó að framan.

Þetta er orðið hið mesta bull
og best er því að hætta núna.
Ekki er ég neitt að ráði full
ætla að leika fullkomnu frúna.

23.5.07

- Ný ríkisstjórn -

Ó, nei ég ætla ekki að tjá mig um kosningar, stjórnmál eða neitt í þeim moll. Kannski á ég það samt einhvern tímann eftir en sem stendur sé ég það nú ekki fyrir mér. Ó, nei, ó nei mér ég fann bara ekki skárri titil í þetta sinn...
Þegar ég var hjá norsku esperantovinkonu minni hringdi ein frænka mín í mig. Hún sagðist hafa verið að reyna að ná í mig í nokkurn tíma en þó ekki hringt í gemsann fyrr. Málið var að hún var með fatasendingu af yngri stráknum sínum (sem er á sextánda ári) til strákanna minn. Hún hringdi aftur til mín um kvöldið og spurði hvort hún mætti skjótast með þetta. Það var velkomið. Hluti af þessari fatasendingu voru náttföt, en annar tvíburinn er einmitt nýbyrjaður að sofa aftur í svoleiðis og hefur undanfarin kvöld farið í rúmið í heldur litlum náttfötum. Minn varð því mjög glaður með á fá öll þessi náttföt. Frænka mín stoppaði í góðan klukkutíma og áttum við skemmtilegt spjall saman.
Kvöldið var fljótt að líða. Ætlaði mér að reyna að fara frekar snemma í háttinn því ég átti morgunvaktina í morgun. En klukkan náði á slá hálftólf áður en ég fór upp í og þá las ég nokkrar blaðsíður áður en ég slökkti ljósið, bað bænirnar mínar og lagði af stað í draumalandið...

22.5.07

- Smá hér og smá þar -

Hef ég skrifað um það áður, hversu fljótur tíminn er að líða? Ó, já alveg örugglega. Samt verð ég alltaf jafn hissa þegar dagarnir vikan er komin á skrið og dagarnir þjóta áfram. Mér er fullkunnugt um að það borgar sig ekki að reyna að halda í við tímann. Stundum verð ég þó að reyna bara til að komast að því að það er einfaldlega ekki hægt og maður missir þá bara af einhverju í staðinn.

Á föstudaginn bað ég Davíð um að vinna nú ekki alla helgina. Hann fór um ellefu á laugadaginn og vann til sjö. Það kvöld talaði hann um að efna loforð sem við nafna sinn á sunnudeginum. Öll sváfum við til klukkan hálftíu á sunnudagsmorguninn. Ég bjó svo til kaffi sem við hjónin smökkuðum til áður en ég fyllti á sérstaka ferða-hita-kaffibolla sem við tókum með okkur. Klukkan var komin fram yfir hádegi þegar við lögðum í hann. Við vorum ekki fyrr komin út í bíl en hringt var í Davíð vegna vinnunnar. Hann lofaði að kíkja á smá mál seinna um daginn (og við sem ætluðum á leik...). Eftir að hafa tekið bensín lá leiðin út úr bænum. Beyðum af leið við Bláfjallaafleggjara og svo inn á leiðina inn að Kleifarvatni. Þar stoppuðum við góða stund. Fórum reyndar lítið sem ekkert út úr bílnum (nema strákarnir því þeir fóru amk þrjár ferðir út og suður...) því það hellirigndi. Næsta stopp var við Fúlapoll en Davíð hafði einmitt lofað nafna sínum að fara þangað einhvern tímann aftur er við stoppuðum við þann poll í ágúst sl. Svo var ekið áfram áleiðis til Grindavíkur og þar í gegn og ekki stoppað aftur fyrr en hér fyrir utan heima. Þá var klukkan þrjú. Davíð sagðist myndu koma aftur upp úr hálffjögur og fara með mér á leikinn í Árbænum (Fylkir - Valur 1:2). Það teygðist nú eitthvað á þessum smáfundi og endirinn varð sá að við fórum ekkert á leikinn. Davíð fór svo aftur í vinnuna upp úr tíu um kvöldið og kom ekki heim fyrr en um sjö í gærmorgun.

Mætti á stjórnarfund um leið og ég skutlaði söngfuglinum mínum á kóræfingu í gær. Nú er lokatörnin hjá drengjunum, æfing á morgun aftur og aukaæfing á fimmtudag með Karlakór Reykjavíkur. Kórarnir syngja svo saman um fimm á annan í hvítasunnu en klukkan átta miðvikudagskvöldið 30. maí verða drengirnir með vortónleikana. Báðir þessir atburðir verða í Hallgrímskirkju og það kostar 1.000 kr. inn á vortónleikana. Helgina eftir hvítasunnu verða þeir svo eina nótt í Stykkishólmi og eftir það er loksins komið sumarfrí hjá drengjunum. Við í stjórninni fundum svo í vikunni eftir vorferðina til að undirbúa næsta vetur.

Rétt fyrir hálffimm í dag sktulaði ég þríburunum á næstsíðustu vetrar-frjálsíþróttaæfinguna. Fylgdist með Davíð Steini koma út á peysunni (semsagt ekki í yfirhöfn) en hafði ekki rænu á að senda strákinn inn eftir flíspeysu. Auðvitað var svo útiæfing. Hann var bara svo ljónheppinn (enda í ljóninu) að fá lánaða slíka peysu á æfingunni. Ég skrapp í fiskbúð áður en ég fór til norsku esperanto vinkonum minnar. Nú fer að styttast í esperanto kaffihúsaferðina okkar.

Á morgun mun ég skreppa á safnið og skila af mér amk þremur bókum. Skilafresturinn á ævisögu Kristjáns heitins Eldjárns rennur einmitt út á morgun.

19.5.07

- Ævisögulestri lokið -

Ég átti bara rúmlega hundrað blaðsíður eftir og ákvað að ljúka við að lesa bókina sem fyrst. Var að enda við að lesa síðustu 40 blaðsíðurnar. Bókin er vel skrifuð og samansett. Stundum skellti ég upp úr en undir lokin táraðist ég. Ég hefði ekki viljað missa af því að lesa þessa bók upp til agna.

18.5.07

- Föstudagur enn á ný -

Helgin er framundan, vikan að baki. Gærdagurinn heppnaðist vel. Við mæðgin vorum mætt í Hallgrímskirkju um hálffimm. Hálftíma síðar opnaði drengjakórinn tónleika kórsins frá Þrándheimum og söng þrjá kafla úr ákveðnu verki (alveg stolið úr mér í augnablikinu). Kór Þrándheimar var stofnaður fyrir 900 árum og syngja þeir í 4 röddum, "drengir" á öllum aldri, sennilega frá níu ára og vel upp úr. Eftir eins og hálftíma tónleika var boðið upp á hressingu í öðrum hliðarsalnum og þar söng norski kórinn þrjú mun léttari lög en voru á efnisskránni.

Annars var ég að koma heim af safninu. Varð að framlengja örfáum bókum, þar á meðal einni sem ég er búin að framlengja áður. Fékk fimm daga framlenginu á Ævisögu Kristáns Eldjárns sem Gylfi Gröndal skrifaði. Ég ætti alveg að hafa það. Auðvitað nældi ég mér í fleiri bækur og segi ég kannski frá þeim á þessum vettvangi síðar.

Góða helgi!

17.5.07

- Uppstigningardagur -

Það er ekki frí hjá öllum í dag. Davíð fór í vinnuna um ellefu í morgun. Hann ætlar samt að mæta á tónleika drengjakórs Þrándheims í Hallgrímskirkju klukkan fimm í dag. Drengjakór Reykjavíkur syngur nokkur lög með þeim og á eftir eru kaffiveitingar í boði foreldrafélagsins (þ.e. allir leggja í púkk og koma með eitthvað með sér).

Annars eru strákarnir ekki heima þessa stundina og ég er ekki búin að sjá þá síðan rúmlega sjö í gærkvöldi. Eftir kóræfingu sá ég að Oddur Smári hafði reynt að ná í mig. Hann náði í pabba sinn. Til stóð að gista hjá Degi vini þeirra og hafði verið ákveðið að gista n.k. föstudag. Eitthvað annað kom upp á og þeim var boðið að gista í nótt í staðinn. Þeir komu ekki einu sinni heim að sækja tannburstana sína. Oddur Smári hringdi í mig um hádegið og spurði hvenær þeir ættu að koma heim. Ég var hjá norsku esperanto vinkonu minni og sagði að þeir yrðu að koma heim í síðasta lagi um tvö. Davíð Steinn á eftir að læra og hann þarf að fara í sturtu og vera mættur upp í kirkjukjallara um hálffimm.

Ég er ein heima sem stendur en ég á von að tvíburunum fljótlega, amk í kringum tvöleytið. Hmm, hvernig væri að grípa aðeins í saumana....??? Það er góð hugmynd.

Verð samt fyrst að segja aðeins frá tveimur bókum sem ég hef nýlokið við að lesa. Útisetan eftir Guðrúnu Bergmann. Dulræn, seiðandi og mjög grípandi. Fjallar um stúlku sem er dóttur-dóttir seiðkarls. Hann fær boð um að hún eigi að þjálfast sem eftirmaður hans. Ég varð algerlega heilluð af þessari skáldsögu. Hin bókin er Felustaðurinn eftir Terezza Azzopardi. Yngsta systirin af sex segir söguna. Pabbinn er forfallinn spilafíkill og veðjar um allt milli himins og jarðar. Þegar von er á þeirri yngstu heldur hann að honum sé að fæðast sonur og er svo glaður að hann tapar aleigunni. Þegar Dolores er örfárra vikna er hún skilin ein eftir í eldhúsinu í augnablik. Það kviknar í, henni er bjargað en vinstri höndin er ónýt eftir og einnig brenndist stór hluti af höfðinu svo það vex ekki hár á hana. Þetta var svolítið sorgleg skáldsaga en það var eitthvað við hana sem hélt mér við efnið.

16.5.07

- Þeytingur út og suður -

Var komin heim upp úr tvö í gær. Ég átti hálft í hvoru von á einni frænku minni í heimsókn svo ég náði ekki að sofna neitt þótt ég fleygði mér um stund. Upp úr fjögur var kominn tími til að skutla strákunum í frjálsar. Dagur var ekki kominn tuttugu mínútur yfir svo við renndum við heima hjá honum. Þar var enginn heima. Ég ákvað að byrja á því að skutla tvíburunum. Fékk gemsanúmer mömmu Dags hjá Davíð en hún svaraði ekki heldur. En Dagur svaraði á endanum og ég skutlaðist eftir honum, hann var bara um tuttugu mínútum of seinn á æfingu.

Þegar ég hafði komið strákunum af mér rak ég eitt erindi fyrir foreldrafélag drengjakórsins. Síðan lá leið mín í fiskbúð. Ég var eiginlega ákveðin í að kaupa saltfisk en það breyttist í ýsulasanja. Úr fiskbúðinni fór ég í tvö bakarí (það var ekki til heilt heilhveitibrauð í því sem ég fór fyrst í) og endaði í Sunnubúðinni áður en ég kom heim. Þá var klukkan langt gengin í sex.

Ég hefði þurft að harðsjóða eins og átta stykki egg til að skipta niður í tvær brauðtertur en einhvernveginn hafði ég mig ekki í það. Strákarnir komu heim í mat upp úr sjö og voru svo úti til hálftíu. Davíð skrapp heim á milli átta og níu en fór svo aftur í vinnuna og var að vinna langt fram á nóttina, það er að verða mjög gömul saga. Sat með saumana mína fyrir framan skjáinn langt fram á kvöld.

Eftir kóræfingu í kvöld verð ég að útbúa þessar brauðtertur því drengjakórinn er að syngja nokkurlög með drengjakór Þrándheims á smá tónleikum um fimm á morgun og eftir sönginn verður boðið upp á ýmislegt góðgæti. Mín mun bretta upp ermarnar í kvöld.

15.5.07

þankagangur
hugsanir á fleygiferð
eins og heimurinn
í kring
hvernig er hægt
að hægja
á þessu öllu?
hugsanir í óreiðu
eins og umhverfið
í kringum mig
hvernig er best
að taka til
í þessu?
hugsanir og minningar
hönd í hönd
til að ylja sér við
í góðu tómi
það kann ég

14.5.07

- Úr einu í annað -

Jæja, þá eru kosningarnar afstaðnar, söngvakeppninni lokið, enski boltinn kominn í sumarfrí og íslenski fótboltinn farinn að rúlla. Minn maður var frekar fúll að það skyldi vera klippt á síðustu tölur í söngvakeppninni bara af því að það voru að koma fyrstu tölur í þingkosningunum. Hann vildi meina að sjónvarpið hefði tekið að sér að sýna frá söngvakepnninni og þar með talið atkvæðagreiðslunni og þá áttu þeir að klára útsendinguna þaðan áður en þeir skiptu yfir í kosningasjónvarpið. Hann var það fúll að hann skipti yfir á Stöð tvö og horfði á útsendinguna þeirra á meðan hann jafnaði sig. En okkur fannst RÚV með betri dagskrá og horfðum við á þá útsendingu á meðan við nenntum. Ég gafst upp um tvö en Davíð hélt áhorfi áfram til klukkan fjögur.
Þrátt fyrir að hafa farið í háttinn á undan svaf ég lengur út í gærmorgun. Mætti svo í messuundirbúning um hálfeitt. Það var létt messa því annar kór, Sönghópurinn Norðurljós (en Adda stjórnar honum líka og verður kórinn með tónleika í Óháðu kirkjunni n.k. sunnudag) var á staðnum sem söng eitt lag fyrir predikun, annað eftir predikun og svo eitt lag í staðinn fyrir eftirspilið. Í okkar kór vantaði bara þrjá en þeir voru allir út tenór og þar sem það var bara einn mættur var ákveðið að syngja skírnarsálminn einraddað. Þetta fannst bassanum frekar slappt og tóku upp á því að syngja sína laglínu í rödduðu útsetningunni. Það fór svo að hluti af altinum elti bassann. Ég held að þetta hafi ekki komið neitt að sök. Rétt áður en skíra átti barnið hurfu afinn og foreldrarnir með það inn á skrifstofu prestsins. Þau voru ekki komin fram aftur þegar við vorum búin að syngja fyrstu tvö erindin í skírnarsálminum og sr. Pétur var tilbúinn að skíra. Hann spurði alla viðstadda hvort nokkur væri óskírður.
Er heim kom kveikti ég á enska boltanum og horfði á seinni hálfleikinn í leik Man. Utd og West Ham. Við Davíð drifum okkur í Laugardalinn eftir þann leik og horfðum á Val og Fram. Rétt misstum af Valsmarkinu og komum súr heim með jaftefli "í vasanum". En svona er þetta bara og vonandi verður þetta til þess að okkar strákar í Landsbankadeildinni verði meira á tánum og nýti betur sín fær því þeir áttu amk að skora 2 önnur mörk í leiknum.
En hvernig líst ykkur á útkomu kosninganna? Ég verð að segja það að mér finnst þetta skrýtin skilaboð sem kjósendur eru að senda þingheimi. Fólk vill breytingar en samt ekki of miklar. Það verður spennandi að fylgjast með næstu daga.

10.5.07

- Aumur háls -

Um miðjan dag í gær ákvað ég að boða forföll á kóræfingu. Hálsinn var sár og aumur og ég vissi að ef ég myndi mæta þá myndi ég taka þátt í æfingunni og hugsanlega tefja fyrir batanum. Nokkru eftir að ég afboðaði mig kom sms frá formanni kórsins um að kóræfing félli niður og að mæting í kirkju næsta sunnudag væri klukkan hálfeitt. Þannig að ég missti ekki af kóræfingunni.
Skutlaði Davíð Steini á kóræfingu rétt fyrir fimm og hafði svo samband við Davíð. Hann var alveg til í að sækja drenginn rétt fyrir sjö svo ég var tilbúin með matinn þegar feðgarnir komu heim. Oddur Smári hringdi og bað um leyfi til að borða hjá bekkjarsystur sinni svo hann kom ekki heim fyrr en rúmlega átta. Þá átti minn drengur eftir að læra.

9.5.07

- Mega góður plokkari -

Áður en ég fór heim í gær kom ég við í verslun og fiskbúð. Var komin heim á slaginu klukkan þrjú. Sat um stund úti í bíl og hlustaði á Brodda Broddason segja fréttir klukkan fimm, eða það sagði hann sjálfur. Ég leit aftur og aftur á klukkuna til að fullvissa mig um að hún væri nú bara þrjú.
Oddur Smári kom heim rétt á eftir mér. Hann kvartaði um í maganum og það lagaðist ekkert þótt hann fengi sér eitthvað að borða. Hann var því eftir heima þegar ég skutlaði Davíð Steini og Degi í frjálsar. Eftir það skutl fór ég beint til norsku esperanto vinkonu minnar. Í síðustu viku gaf hún mér biblíuna á esperanto og hafði ég gleymt henni hjá henni. Ég setti hana strax niður í esperantopokann til að gleyma henni ekki aftur. Við lásum m.a. Faðir vorið á esperanto, en það er að finna í einni af kennslubókunum sem við eigum.
Úr ýsunni, sem ég keypti í fiskbúðinni, útbjó ég plokkfisk. Mér finnst samt svolítið skrýtið að búa til plokkfisk úr nýjum fiski en ekki afgöngum. Sauð upp á fiskinum, skar niður stóran lauk og mýkti í olíu á pönnu. Setti fiskinn út í og bætti við þremur dósum af osti með svörtum pipar. Með þessu bauð ég upp á kartöflur og rúgbrauð með smjöri eða kæfu. Plokkarinn var þrælgóður og ég er viss um að það er lauknum og piparostinum að þakka!

8.5.07

- Kórsöngur á Grand Hótel -

Ég slakaði á í svona hálftíma eftir að ég kom heim í gær. Svo sá ég til þess að Davíð Steinn klæddist kórbúningnum sínum og skutlaðist með hann á Grand Hótel. Þar var verið að halda upp á dag hjúkrunar og hafði verið óskað eftir að drengjakórinn mætti á svæðið og syngi 2-3 lög. Þrjátíu drengir mættu. Friðrik hitaði þá upp en svo þurftu þeir að bíða smávegis eftir að komast að. Þeir sungu þrjú lög og fengu mjög góðar móttökur. Eftir sönginn máttu þeir svo fara heim.

Davíð fór í vinnu seinni partinn á sunnudaginn og hann var enn að um sex í gær. Hann var ekki laus fyrr en um sjö leytið. Eftir Heros-þáttinn slökkti ég á sjónvarpinu og sagði Davíð að nú væri mál að fara að sofa. Ég þurfti að fara á fætur upp úr fimm í morgun þannig að þetta (klukkan tíu í gærkvöld) var mjög góður tími til að fara í háttinn. Ég vaknaði, útsofin, á undan klukkunni um fimm í morgun og er enn sprellhress.

6.5.07

- Ein af níu vöskum sjálfboðaliðum -

Ég var sótt næstum heim að dyrum um hálfníu í gærmorgun og var fjórða inn í bílinn. Sótt voru fimm í viðbót sem höfðu gefið kost á sér í þessa ferð. Leiðin lá austur fyrir fjall í annað sumarbústaðaland fyrirtækisins. Þar biðu okkar þrír bústaðir til að taka í gegn. Komum austur um hálfellefu og byrjuðum á að fá okkur kaffi. Svo skiptum við okkur niður í þrjá hópa. Í einum hópnum voru tveir sem sáu m.a. um að skipta um þrjár rúður í einum bústaðnum. Í öðrum hópnum voru þrír sem sáu um að þrífa stærsta bústaðinn og var ég í síðasta hópnum, sem taldi fjóra, og þrifum við hina tvo bústaðina. Gerðum matarhlé um eitt en þrifunum lauk um fimm. Þá dembdu flestir sér í heita pottinn og létu líða úr sér. Að lokum var grillað og borðað áður en haldið var heim á leið aftur. Þetta var sem sagt mjög öflugur hópur að verki. En það hefði verið betra að vera fleiri þá hefði t.d. verið hægt að dytta að fleiru utanhús eins og að bera á.

Þurfti að ræsa Davíð Stein um níu í morgun því hann var enn steinsofandi og átti að vera mættur í upphitun fyrir messu klukkutíma síðar. Það tókst alveg. Við hjónin og Oddur Smári mættum svo í kirkju rétt fyrir ellefu. Drengjakórinn, unglingakórinn og barnakór Austurbæjarskóla og Hallgrímskirkju sáu um messusönginn og tókst krökkunum virkilega vel upp. Á eftir fengu þau pizzu, gos, ís og helíum fylltar blöðrur. Nokkrir strákar náðu að gera gat á blöðrurnar án þess að sprengja þær, gleyptu loftið í sig og töluðu svo nokkur orð með furðulegri rödd, mjög fyndið. Þetta var annars síðasta messa drengjakórsins í vetur en það er nóg af verkefnum framundan hjá þeim áður en þeir fara sjálfir í sumarfrí. Meira um það smátt og smátt seinna.

4.5.07

orðapokinn

ég
fór á
orðaveiðar
en þau svifu í burtu
var með tóman poka
til að tína þau ofan í
eftir margar tilraunir
var pokinn galtómur

3.5.07

- Helgin nærri -

Davíð Steinn hringdi í mig um þrjú og var hann með grátstafinn í kverkunum. Hann hafði fengið slæman hnikk á bakið í leikfimi og fann mikið til. Pabbi hans skrapp heim, gaf honum verkjastillandi og setti heita og kalda bakstra á bakið til skiptis. Svo skutlaði hann og Oddi Smára og Degi í frjálsar. Davíð Steinn náði að sofna.

Annars ætlaði ég að segja frá svolitlu krúttlegu sem Davíð Steinn spurði mig um daginn. Ég var að minnast á eitthvað fólk sem minnti hann á tvíburavinina sem þeir eignuðust um tveggja ára aldurinn. Hann hafði orð á því að það væri orðið mjög langt síðan hann hafði hitt þau og spurði hvort ég og mamma þeirra værum ekki vinkonur ennþá? Þetta fékk mig til að slá á þráðinn. Náði sambandi í þriðju tilraun. Hin tvíburamamman var glöð að heyra í mér. Hún var reyndar svolítið upptekin en tók niður númerið mitt og ætlar að vera í sambandi mjög fljótlega. Við náðum ekkert að spjalla að ráði en það var samt eins og við hefðum verið að tala saman síðast í gær.

2.5.07

- Allt að komast á venjulegt skrið -

Þar sem Davíð var að vinna næstum út í eitt síðustu daga og strákarnir í bústað með afa sínum og ömmu þá lék ég lausum hala og notaði tímann eins og mér hentaði best hverju sinni. Ég las, saumaði út, horfði svolítið á imbann, skrapp til norsku esperanto vinkonu minnar tvisvar á þessu tímabili og sitthvað fleira.
Strákarnir komu ekki fyrr en um sex í gær og voru þeir mjög ánægðir með ferðina. Þeir höfðu gert margt og mikið með frænda sínum og föðurforeldrum þessa daga og upp úr átta í gær voru mínir farnir að geyspa hástöfum. Þeir fóru í háttinn um hálftíu og voru sofnaðir rétt seinna.
Valsstrákarnir í meistaraflokknum töpuðu úrslitaleiknum í Lengjubikarnum í framlengdum leik við FH í gær. En Liverpool sló Chelsea út í meistaradeildinni í framlengdum leik og vítaspyrnukeppni. Ég sá hvorugan leikinn en fylgdist með á textavarpinu.