27.2.07

- Lestrarprestur -

Tommi og Teddi næstum sjö ára sonur hans kíktu aðeins við í gærkvöldi. Við vorum búin að frétta að strákurinn væri duglegur að lesa og spurðum hvort hann væri alger lestrarhestur. -"Ekki hestur, prestur", sagði strákurinn þá.
Mér tókst að koma mér í rúmið rétt rúmlega tíu í gærkvöldi og leggja frá mér bókina Heppin eftir Alice Sebold um hálftíma síðar. Ég vaknaði svo um hálfsex í morgun, spennt fyrir fyrsta rope yoga tímanum í tæpt ár. Var mætt í Rope Yoga setrið fyrir sex en tíminn byrjar ekki fyrr en 6:15. Guðni Gunnarsson sér sjálfur um námskeiðið og á rúmum sjötíu mínútum náði hann að fara yfir allar tíu æfingarnar á bakinu, góðum teygjum og slökun í restina (reyndar var líka slökun í upphafi tímans). Reyndi að passa mig að nota ekki handleggina of mikið, nema til stuðnings, minnug allra aumu vöðvanna fyrir ári síðan. Það kemur svo í ljós á morgun hvort ég verð styrð um allan líkamann eða bara frá mitti og niður úr. Eini gallinn við þetta námskeið er að það virðist ekki gert ráð fyrir að maður fari í sturtu eftir tímana. Námskeiðið er frá 6:15-7:25 þriðjudaga og fimmtudaga og á laugardögum klukkan 8:50-10:00 næstu átta vikurnar. Það er semsagt of knappur tími til að fara heim í sturtu áður en maður mætir til vinnu virku dagana. Hvað er þá til ráða? Líklega verður endirinn sá að ég dríf mig úr námskeiðinu í vinnu og fer í snögga sturtu þar áður en ég hef vinnudaginn.

26.2.07

- Annasöm helgi að baki -

Á föstudagskvöldið var, var árshátíð hjá starfsfólki Óháðu kirkjunnar. Tvíburahálfsystir mín sótti okkur Davíð stuttu fyrir átta. Kokkar frá Sómasamlokum buðu upp á flott hlaðborð með ýmisskonar forréttum, kalkún og lamb í aðalrétt og svo var einhver eftirréttur í boði sem ég smakkaði ekki á. Aldrei þessu vant (amk þau skipti sem við höfum mætt) mætti Ómar Ragnarsson ekki á svæðið. En skarðið hans var vel fyllt. Kristinn var með nokkra góða brandara og smá annál, Víglundur kom með gítarinn og dreifði nýjasta textanum við lagið "Gvendur á Eyrinni" og Adda settist við píanóið og spilaði undir fjöldasöng í nokkrum öðrum lögum. Kvöldið var hið allra skemmtilegasta.
Helga systir hringdi um hálftíu á laugardagsmorguninn og sagðist mundu skila tvíburunum (sem höfðu gist hjá henni) fljótlega. Hún kom með báðar stelpurnar með sér og gaf sér sér tíma til að fá sér kaffi sopa. Rétt fyrir tólf skutlaðist ég með karatestrákinn á æfingu. Seinsei Poh Lim var með æfinguna en hann verður með æfingabúðir um næstu helgi svo líklega verður hann með einhverjar fleiri æfingar í vikunni. Það er verið að auglýsa eftir starfskrafti í ræstingar í Þórshamri og sá sem sá um þessi mál er hættur. Poh fékk stórukrakkana til að þrífa gólf, glugga og fleira og sagði að það væri góð karateæfing.
Davíð og Oddur Smári fóru á boltamót sem sá fyrrnefndi tók þátt í. Minn maður slasaðist á ökkla í upphituninni en var samt með. Það fór ekkert sérlega vel með fótinn á honum og er hann draghaltur maðurinn. Samt vill hann ekki láta kíkja á hann. Ég skildi Davíð Stein eftir einan heima um fimm og var mætt skömmu síðar að fagna vinnufélaga mínum sem var að halda upp á útskrift úr viðskiptafræði í Hálskólanum. Haldið var upp á þetta í Kaffi Reykjavík milli fimm og sjö þennan dag. Þetta var hið skemmtilegasta mannamót.
Í gær var svo messa í Óháðu kirkjunni. Það var alveg full kirkjan. Bjöllukórinn spilaði í upphafi og aftur í lok messu, fermingarfeðginin Örn Árnason og Sólrún Arnardóttir lásu fyrri og síðari ritningalestur, Bjartur Logi tók lagið rétt fyrir predikun og kristniboðinn Ragnar sá um predikunina. Venjulega eru messur ekki lengri en 40-50 mín en þessi stóð yfir í um 70 mínútur og var verulega skemmtleg.
Eftir messu verslaði ég í Krónunni og ákvað að hafa læri í sunnudagsmatinn. Keypt líka fullt af mjólk, álegg, brauð, ávexti og smotterí fleira. Karfan var samt innan við tíu þús. kr.

23.2.07

- Föstudagur -

Helgin er nýliðin og nú er önnur að skella á. Með sama áframhaldi verða aftur komin jól áður en maður nær að snúa sér marga hringi.
Seinni partinn í gær skutlaði ég Oddi Smára og Degi á frjálsíþróttaæfingu. Davíð Steinn kvartaði undan verk í ökkla og sagðist ekki treysta sér á æfingu. En hann notaði þennan tíma mjög vel og fór langt með að skrifa ritgerð um Tröllaskaga. Hann var reyndar svo séður að vera búinn að kíkja yfir efnið og afla sér heimilda svo þetta gekk ágætlega hjá honum. Þetta var erfiðara hjá Oddi Smára. Hann hafði bara ákveðið hvað hann ætlaði að skrifa um, Ísafjörð, en var sama og ekkert búinn að lesa sér til um staðinn. Hann byrjaði fljótlega eftir að hann kom heim úr æfingum og hélt áfram eftir kvöldmat. Klukkan var að verða tíu þegar hann hætti, óánægður með að hafa ekki náð að skrifa tvær blaðsíður.
Ég vissi ekki að ef maður gúgglar "Lafði Rós" kemur bloggsíðan mín fyrst í upptalningunni. Í síðustu viku hafði samband við mig maður sem var búinn að taka að sér veislustjórastöðu á árshátíð og var að leita að þessu efni. Því miður var ég ekki með söguna því ég fékk hana lánaða frá einum kórfélaga mínum á sínum tíma og athugaði ekki að taka afrit af henni til eignar.
Hulda frænka varð 7 ára í gær. Vá, mér finnst svo stutt síðan ég var að passa hana á morgnana. Í dag á Sandra Ósk sjö ára afmæli en ég var að passa hana seinni veturinn sem ég var með Huldu, þ.e. þegar þær voru á öðru árinu og að bíða eftir leikskólaplássi.

21.2.07

- Meiri þeytingur og kóræfing -

Strax um fjögur fór ég á bókasafnið. Bækurnar voru komnar á síðasta skiladag. Ég skilaði þeim flestum en framlengdi þrjár. Sótti mér svo slatta af bókum í viðbót. Reyndar segir "Gegnir" að ég sé ekki með neina bók í útláni sem stendur en það stenst ekki. Líklega er bara bilun í kerfinu. Ég var komin heim upp úr hálffimm en gat ekki stoppað mjög lengi þar sem búið var að boða til stjórnarfundar með útgáfunefnd í foreldrafélagi DKR á sjötta tímanum. Fundurinn var ekki mjög langur og náði ég að skreppa heim í tæpan klukkutíma áður en kominn var tími til að sækja karatestrákinn (eða "red ninja" á æfingu). Hann var sá eini sem mætti á æfingu í öskudagsbúning. Þegar ég var búin að skila stráknum heim sá ég að það tók því ekki að fara inn, það var stutt í að kóræfingin byrjaði. Að þessu sinni kom Kópavogskirkjukórinn í heimsókn til okkar. Tveir tímar voru mjög fljótir að líða enda mjög gaman á æfingunni. Þar sem stjórnendur voru tveir var okkur skipt upp í karla og kvennaraddir eftir upphitunina. Hálftíma seinna sungum við einn kafla yfir saman áður en við fórum í kaffi. Við sungum hinn kaflann yfir eftir kaffi áður en við skiptum aftur liði og fengum nýjan kafla í hendurnar.

20.2.07

- Þeytingur -

Hálftíma eftir að ég kom heim í gær skutlaðist ég með söngfuglinn á kóræfingu. Á heimleiðinni kom ég við í Suðurveri og keypti örfáar vatnsdeigsrjómabollur. Ég var ekki búin að vera lengi heima þegar kominn var tími til að skutla karatestráknum á æfingu en ég hafði boðist til þess. Ég fór aftur heim og undirbjó kvöldmatinn á hálftíma. Þá var kominn tími til að sækja söngfuglinn. Skutlaði honum heim og fór svo upp í Þórshamar og beið eftir karatestráknum. Eftir kvöldmat vöskuðum við Davíð upp og ég bjó til kaffi. En ég stoppaði ekki lengi heima, eftir uppvask og einn kaffibolla skrapp ég til tvíburahálfsystur minnar. Tveir og hálfur tími þar voru ekki lengi að líða, með sauma við hönd og á spjalli við vinkonu sína.

19.2.07

- Helgin komin og farin -

Já, tíminn lætur ekki bíða eftir sér frekar en fyrri daginn. Strákarnir biðu tilbúnir úti, með töskur (föt til skiptanna) þegar ég kom heim rúmlega fjögur sl. föstudag. Ég rétt skrapp inn með smá dót (sem betur fer því strákarnir höfðu skilið eftir opið inn í íbúð og ljós alls staðar). Ég varð ekkert smá glöð þegar ég sá að það var kominn miði frá Margaretha um að vörurnar væru komnar. Ég hafði reyndar ákveðið að koma við þar fyrst ég yrði í nágrenninu. En fyrst fórum við mæðginin og keyptum öskudagsbúninga á bræðurnar. Eftir þau viðskipti sótti ég vörurnar. Því næst lá leiðin upp í Grafarvog þar sem ég skildi strákana eftir en þeir fóru austur með afa sínum og ömmu skömmu síðar.

Ég skrapp heim að skipta um föt og gat ekki stillt mig um að kíkja á handavinnudótið. fermingamyndin og flestar hinna sem ég pantaði voru í pokanum (ein var reyndar ekki með þar sem ég pantaði hana nokkrum dögum seinna)en svo fann ég þessa líka, mundi ekki eftir að hafa pantað hana en ekki kvarta ég yfir að fá nóg af sauma verkefnum. Eftir að hafa skoðað dótið dreif ég mig í púlstofuna í Lágmúlanum þar sem ég eyddi næstu þremur tímum með skemmtilegu fólki. Vann alla fjóra púl-leikina sem ég spilaði en þann síðasta bara vegna þess að mótherjinn setti svörtu kúluna ofan í aðeins of snemma.
Þegar ég kom heim byrjaði ég strax að undirbúa saumun á fermingarmyndinni. Saumaði hringinn í kringum jafann og tók miðjuna. Ég féll aftur í þá gryfju að taka miðjuna eins og hún var merkt á munstrinu og var búin að sauma of mikið til að breyta því. En miðjan á munstrinu gerir ekki ráð fyrir nafninu sem er saumað undir eftir á. Þetta hlýtur samt að bjargast eins og í fyrra. Ég greip í saumana öðru hvoru alla helgina, mislengi í einu. Er búin með stjakann og gulu geislana (en ekki það hvíta í miðjunni og blómabreiðuna hægra meginn við stjakann og alla skugga á kirtlinum sem stúlkan klæðist. Haldið þið ekki að ég nái að ljúka við þessa mynd fyrir 1. apríl n.k? (Þ.e. ef ég verð þá ekki handlama).
Á laugardagskvöldið fórum við hjónin í fertugsafmæli. Mikið fjör og mikið gaman. Kvöddum um eitt-leytið því ég þurfti snemma á fætur morguninn eftir.
Í gærmorgun var ég komin austur á Hellu rúmlega átta. Var með kórbúninginn hans Davíðs Steins með mér. Gat stoppað í rúman hálftíma. Strákurinn var mættur í kirkjuna rétt fyrir tíu og pabbi hans sótti hann svo um tvö í klifurhúsið en þangað fóru kórdrengirnir eftir messu. Honum var svo boðið í afmæli til bekkjarsystur sinnar seinni partinn. Hann hélt endilega að afmælið byrjaði klukkan sex og fór ekki fyrr en þá og mætti því klukkutíma seinna í afmælið en allir hinir. En það gerði lítið til.
Ég dreif mig á handboltaleik ÍR - Valur (23:35) góð úrslit miðað við að staðan var 5:0 fyrir ÍR þegar sjö mínútur voru búnar af leiknum.
Davíð fór í vinnuna eftir að hafa sótt strákinn og hann kom ekki heim fyrr en um sex í morgun. ÉG er farin að halda að þessari törn ætli aldrei að ljúka.
Bolla, bolla.

15.2.07

- Kóræfing í Kópavogskirkju -

Oddur Smári valdi það að sleppa því að fara í sturtu eftir karateæfinguna í gær til að þurfa ekki að ganga heim líka. Ég var á stjórnarfundi v/Drengjakórsins milli fimm og rúmlega sex. Svo beið ég eftir að kóræfingin væri búin hjá Davíð Steini. Hann skaust svo fyrir mig inn í karateheimilið til að segja bróður sínum hvar bíllinn væri. Reyndar byrjaði hann á því að tilkynna Oddi Smára að þeir þyrftu að ganga heim. Sé alveg fyrir mér undrunarsvipinn sem hefur komið á karatestrákinn. Ég skutlaði tvíburunum heim og dreif mig svo í Kópavoginn. Þar tók kirkjukór Kópavogskirkju og stjórnandinn þeirra á móti okkur. Mæting var mjög góð og við byrjuðum á því að prófa að syngja þessa tvo kafla sem við erum búin að vera að æfa; Kyrie eleison og Agnus dei. Síðan skiptu kórstjórarnir okkur niður. Adda fór fram með alla strákana og við stelpurnar urðum eftir hjá Sigrúnu. Við æfðum raddirnar í köflunum sundur og saman og vorum svo áhugasamar að fylgdumst ekkert með tímanum. Allt í einu stóð Adda hjá okkur og spurði hvort við ætluðum ekki að taka okkur kaffipásu. Eftir pásuna æfðum við áfram aðskilin, sópran og alt saman og tenór og bassi saman, í c.a. 15 mín. Síðan sungum við kaflana saman aftur og þvílíkur munur. Við komum víst alveg ótrúlega miklu í verk í gærkvöldi. Næsta miðvikudag ætlar Kópavogskirkjukórinn að heimsækja okkur í óháðu kirkjuna.

14.2.07

- Góð hugmynd eða hvað? -

Það er nokkuð víst að þann 17. mars n.k. (á sjálfan afmælisdaginn minn) fer ég á árshátíð. Mér datt sí svona í hug að það væri alveg frábær hugmynd að halda upp á fertugs-afmælið mitt við það tækifæri. Það eru aðeins tveir gallar. Í fyrsta lagi þá verð ég bara þrjátíuogníu ára (en ég get haldið upp á það afmæli að ári í staðinn). Og í annan stað þá má ekki bjóða vinum og vandamönnum á árshátíðir (en það má bjóða maka og við Davíð getum alveg haldið upp á þetta tvö innan um slatta af vinnufélögum og þeirra mökum). Eða hvað? Kannski er þetta ekki svo góð hugmynd eftir allt saman.
Þegar ég hafði skutlað drengjunum í frjálsar í gær hitti ég norsku esperanto vinkonu mína. Við notðuðum klukkutímann mjög vel. Lásum þrjá kafla í Jen via mondo og gerðum öll verkefni sem tilheyrðu þeim köflum. Ég hugsa að það líði ekki á löngu áður en við getum farið saman á kaffihús og spjallað saman á esperanto. Það verður líklega bæði fróðlegt og skemmtilegt.

13.2.07

- Ég er bókaormur -

Þegar ég skilaði af mér bókum á safnið um mánaðamótin nóvember/desember sl. sá ég smá kompu auglýsta á 300 kr sem nota skyldi sem lestrardagbók. Ég var með klink á mér og keypti mér eitt stykki. Fyrsta færslan inn í bókina er skráð 8 desember. Það var bókin Týnd eftir Karin Alvtegen. Núna eru alls komnar 47 færslur. Ein af þeim bókum sem ég hef nýlokið er bókin Slepptu mér aldrei eftir Kazuo Ishiguro. Þetta er mjög grípandi og um leið sláandi bók. Skáldsagan er sögð í fyrstu persónu af liðlega þrítugri konu sem starfar sem hlynnir. Hlynnir að gjöfurum. Hún rekur sögu sína frá því hún man eftir sér. Hún ólst upp, ásamt fullt af öðrum börnum, á heimavistarskóla. Aldrei er talað um foreldra enda kemur í ljós að þessi börn eru klónuð með það í huga að nota líffærin úr þeim til ígærðslu. Ég mæli með þessari bók, hún er að mínu mati mjög góð.

12.2.07

- Saumaverkefni framundan -

Ég er að bíða eftir miða frá Margaretha. Mamma bað mig um að sauma fermingarmynd handa stúlkunni sem hún "passaði" nokkra vetur í röð. Ég átti reyndar munstrið til en datt í hug að það væri gaman að gefa munstrið með myndinni. En þetta var ekki það eina sem ég pantaði, ó, nei. Ég kolféll fyrir þessari, þessari og þessari. Þrátt fyrir að eiga líka fullt af myndum í jólakort ósaumuð þá freistaðist ég í tvær litlar páskamyndir líka. En fyrst á dagskránni er fermingamyndin og verð ég sennilega að sitja nokkuð mikið við þegar þetta kemur því stúlkan fermist á pálmasunnudag, 1. apríl næst komandi. Hugsanlega verð ég að finna mér jafa og nota afganginn af garninu frá myndinni sem ég saumaði í fyrra. Þetta kemur í allt í ljós mjög fljótlega.

11.2.07

- Helgarmál -

Davíð og Oddur Smári eru á karatemóti í Breiðablikshúsinu í Smáranum. Strákurinn er að keppa í kata og pabbinn að fylgjast með, styðja og hvetja. Við Davíð Steinn erum að sinna heimilisverkunum því þau urðu útundan í gær.

Hitti norsku esperanto-vinkonu mína um ellefu í gær. Þáði kaffi hjá henni og svo glugguðum við í nokkur blöð sem eru á esperanto og hún fær gefins. Tókum okkur góðan tíma og klukkan var að verða hálfeitt þegar ég kvaddi. Þá fór ég beint upp í Þórshamar og fylgdist með seinni helminginn af karatetímanum hjá Oddi Smára. Þegar við komum heim var félagi strákanna mættur á svæðið. Þeir fóru fljótlega, allir þrír, í Kringluleiðangur. Bræðurnir voru búnir að spara vasapeningana sína og lögðu í púkk til að kaupa sér nýjan tölvuleik.

Davíð fór á skrifstofuna og ég dreif mig í heimsókn til einnar vinkonu minnar. Við vorum ekki búnar að hittast síðan í október svo það var mál til komið. Ég hafði saumana mína með mér og stoppaði hjá henni í hátt í þrjá tíma. Það var mjög notaleg stund.

Framundan er messa. Mæting upp í kirkju um eitt, messað klukkan tvö, smá kaffisopi á eftir og komin heim upp úr þrjú. Svo er aldrei að vita nema ég skreppi á handboltaleik. Valsstrákarnir eru að fara í Framheimilið. Sjáum til, sjáum til.

9.2.07

- Vapaskapað upupp ápá ppmápálipi -

Eftir kvöldmat í gær fékk ég Odd Smára til að hjálpa mér við uppvaskið og þurrka. Ég veit ekki hvernig það byrjaði en allt í einu vorum við farin að tala saman og syngja á p-máli og við héldum það út allan þann hálftíma sem við vorum að verki. Strákurinn talar reiprennandi p-mál og var ekki í vandræðum með að syngja á því líka. Hann var mjög fljótur að læra þetta mál á sýnum tíma. Við Davíð ætluðum að nota þetta okkar á milli þegar við urðum vör við að strákarnir voru farnir að skilja enskuna en það virkaði ekki lengi, eiginlega bara mjög stutt.

8.2.07

- Skómál -

Ég
er ekki að fara að skrifa um að skór tali sérstakt mál, he, he, hemm. Heldur hefur Davíð Steinn verið að kvarta undan þreytu í fótum og hælsæri og ekki treyst sér í frjálsar íþróttir síðustu tvö skipti. Ég er nýbúin að kaupa nýja inni-íþrótta-æfingaskó á strákana en ég hafði grun um að útiskór stráksa væru farnir að kreppa að. Þannig að þegar ég var búin að skutlast með Odd Smára og vininn á æfingu sótti ég hinn tvíburann. Við enduðum hjá Steinari Waage og fundum á hann mjög góða skó með innbyggðu innleggi (eða er það illegg?). Strákurinn er kominn í stærð 36. Á eftir skutlaði ég honum heim og dreif mig svo að sækja Odd Smára. Var komin um leyti sem æfingin var að klárast en þurti að bíða í tuttugu mínútur eftir stráknum. Samt fór hann ekki í sturtu. Hann hefur greinilega verið að spjalla mikið við vininn.

Það er alveg að koma helgi, aftur og nýliðin. Það verður nóg að gera og gerast m.a. er messa og svo er keppni í kata hjá Oddi Smára. Sú keppni er á sunnudagsmorguninn svo ég er hrædd um að ég komist ekki á hana. Veit ekkert hvað þetta tekur langan tíma en hann á að mæta klukkan tíu og ég á að mæta upp í kirkju um eitt. Kannski sleppur þetta en ég veit að Davíð getur alveg farið með strákinn. Það er samt skemmtilegra að fara bæði, eða öll.

7.2.07

- Dagarnir þjóta -
Tíminn líður alltof hratt. Í gær hitti ég kennara drengjanna í foreldraviðtali í skólanum. Strákarnir voru viðstaddir viðtalið við sinn kennara. Annar kennarinn hafði aðeins eitt að segja, fylgjast betur með þegar skipt væri um efni eftir frjálsan lestrartíma (strákurinn hverfur alveg inn í sögurnar sem hann les og heyrir þar af leiðandi oft ekki þegar kennarinn segir bekknum að taka upp aðrar bækur). Ég lýsti yfir ánægju minni að kennd væru vinnubrögð í skólanum.
Davíð Steinn treysti sér ekki á frjálsíþróttaæfingu en hann tók vel í að vaska upp fyrir mig í staðinn. Ég skrapp og las smá esperanto með norsku vinkonu minni. Kom heim um sex rétt á undan Oddi og Davíð kom ekkert löngu seinna. Það var amk borðaður matur á slaginu sjö og þá voru allir heima. Eitthvað hafði Davíð Steinn verið utan við sig í uppvaskinu því hann vaskaði bara upp það sem var í stóra vaskinum. En ég lét það óátalið, gerði bara smá grín að stráknum.
Davíð fór aftur í vinnu um níu leytið og ætlaði að koma heim upp úr miðnætti. Klukkan var víst orðin fjögur þegar hann skilaði sér. Törnin virðist ætla að halda áfram og það er spurning hvort ég ætti ekki að panta helgarpláss í bústað mjög fljótlega...

5.2.07

- Bústaðarferð -

Um helgina
skruppum við í sumarbústað í landi Efri Reykja, ekki langt frá Laugavatni. Við ætluðum að vera komin þangað milli fjögur og fimm en vorum að leggja af stað úr bænum um það leyti. Byrjuðum á því að kíkja við á Bakkanum hjá tengdó. Síðan lá leiðin í KFC og Krónuna á Selfossi. Klukkan var rétt nýorðin átta er við komum í bústaðinn. Eitt af því fyrsta sem gert var var að láta renna í heita pottinn. Ég komst í hann um miðnætti og slakaði vel á.

Helga systir og Bríet komu eftir hádegi á laugardag. Hulda var í "sveitinni" hjá afa og ömmu og "Ingvadóttir" (eins og Bríet segir að pabbi sinn heiti) var að vinna. Helga fékk Davíð til að hjálpa sér með smá skólaverkefni. Við hin fórum m.a. í pottinn. Helgin var eiginlega alltof fljót að líða en mikið sem þetta var afsalppandi og gott að kúpla sig svona út. Ég las amk þrjár bækur og tók aðeins í saumana mína. Var líka með nótur og esperanto bækurnar með mér en gaf mér ekki tíma fyrir þær.

Á föstudaginn var komu bræðurnir með vitnisburð úr prófunum. Þeim gekk vel í öllu og lítur þetta mjög vel út. Lægsta einkunn hjá báðum er 7,5 (í leikfimi hjá Oddi Smára og í stafsetningu hjá Davíð Steini en hann hefur bætt sig alveg ótrúlega í því fagi). Annars voru þetta áttur, áttakomma fimm, níur, níukomma fimm og Davíð Steinn fékk tíu fyrir verkefnabókina í náttúrufræði. Meðaleinkunnin er 8 (7,9667 hjá Oddi Smára og 8,1 hjá Davíð Steini) og ég er að springa úr stolti.

Eftir einn og hálfan tíma verða afhent verðlaun fyrir kertasölu í drengjakórnum. Söluhæsti drengurinn fær bikar, fimm efstu fara í óvissuverð fljótlega og þeir sem seldu meira en 80 pakka fá 2000 kr. Davíð Steinn er í þriðja sæti og kemst í óvissuferð þriðja árið í röð. Hann seldi samtals 125 kaffi- og kertapakka. Sá sem seldi mest seldi 74 en það munaði bara tveimur pökkum á fyrsta og öðru sætinu.