31.8.06

- Æfingar byrjaðar -

Það var fyrsta kóræfingin undir stjórn afleysingakórstjórans í gærkvöldi. Mestur tíminn fór reyndar í spjall. Þegar nokkuð var liðið á æfinguna bað Arngerður okkur um að kynna okkur. Við í alt og sópran byrjuðum, þar sem við sátum í fremri röð. Þegar kom að aftari röðinni kynnti bassinn sig: -"Ég heiti Kristinn, stundum kallaður Kiddi" sá sem var næstur hefur til þessa sungið tenór en er að færast yfir í bassann. Hann sagði: -"Ég heiti Kristinn..." Hann komst ekki lengra því sá fyrrnefndi greip fram í fyrir honum: -"Ég var búinn að segja það, þú mátt ekki segja eins og herma eftir mér." Við sprungum auðvitað úr hlátri en sá síðarnefndi heitir líka Kristinn og er oftast kallaður Kiddi.

29.8.06

- Tannréttingar framundan -

Einhverra hluta vegna skolaðist tíminn sem strákarnir áttu hjá tanngómssérfræðingnum til í dagbókinni hjá mér og ég sendi feðgana degi fyrr, í gærmorgun. Í morgun fékk ég að hafa bílinn, sótti strákana í skólann upp úr níu og var mætt með þá á réttum tíma og réttum degi til sérfræðingssins. Til að gera langa sögu stutta þurfa báðir strákarnir að fá góma. Það var tekið mót af þeim í morgun. Annar strákurinn fær lausan góm og þarf að mæta vikulega til til að herða á fjöðrum. Hann þarf samt ekki að hafa góminn nema í 3-4 mánuði. Hinn fær góm sem er skrúfaður fastur upp í hann og eigum við foreldrarnir að hreyfa skrúfu um eitt smá bil daglega í þrjár vikur. Gómurinn verður ekki tekinn burt fyrr en að sjö mánuðum liðnum.

Á svo ekki að kjósa Magna aftur og aftur og aftur og aftur eftir keppnina í nótt?

27.8.06

- Ein í smá stuði -

Hluta af gærdeginum hjálpaði Davíð mér að taka saman tölur fyrir ársskýrslu foreldrafélags DKR. Þetta er smá handavinna. Við erum ekki alveg búin að leggja saman allar tölur því það fór töluverður tími í að sortera þær í gær. Aðalfundurinn er ekki fyrr en seinni partinn í september en það er stjórnarfundur á morgun og þá langar mig til að leggja fram drög að ársskýrslu. Það er gott að geta leitað til Davíðs með þessi mál og hann telur það ekkert eftir sér. Ég hef reyndar ekki oft þurft að leita til hans vegna gjaldgeramála f. DKR sl. vetur, en samt amk einu sinni áður.

Þessi ætti að heita "Tindurinn eini" eða eitthvað í þá áttina. Annars er þessi staður í alfaraleið, átti bara ekki mynd af honum.

Strákarnir fjórir sem ég gat um hér að neðan: Ólafur Þór, Oddur Smári, Davíð Steinn og Einar Ólafur.

- Ein úr ferðalagssafninu -

Frá vinstri: Davíð Steinn, Jónína Freyja, Dagbjört Nótt, Oddur Smári og Einar Ólafur.

Við fengum gistingu í Kelduhverfinu síðustu nóttina okkar í ferðalaginu hjá frændfólki feðganna. Þetta var skemmtilegur sólarhringur. Tvíburarnir kynntust þarna tveimur drengjum á sínu reki og þeir náðu strax svo vel saman að maður vissi ekki af þeim allan tímann. Þeir spiluðu saman um kvöldið og hlógu mikið og voru úti að leika morguninn eftir.

24.8.06

þau vilja ekki
láta nota sig
fela sig
fyrir mér
orðin
það var eitthvað
sem ég ætlaði
að segja
það verður
að bíða
þangað til mun
ég hugsa
lesa sauma
eða
eitthvað

23.8.06

- Ýmislegt -

Það vill brenna við að drengirnir á heimilinu gleymi að loka hurðinni fram í hol á eftir sér þegar þeir fara út og þar að auki skilja þeir yfirleitt playstation-tölvuna eftir í gangi ef þeir hafa fengið að leika sér í henni. Þegar ég kom heim seinni partinn á mánudag var einmitt opið fram á gang og tölvan í gangi. Ég áminnti strákana og bað þá um að bæta úr þessu í framtíðinni (og það ekki í 1. skipti). Þegar ég kom heim um hálffimm í gær var opið fram á gang og tölvan í gangi. Hvernig í ósköpunum get ég fengið strákana til að muna eftir þessum atriðum?

Á mánudagskvöldið þurrkaði Oddur Smári upp með pabba sínum. Í gær vildi drengurinn fá að þvo upp leirtauið og bað mig um að þurrka með sér. Ég gat þá séð til þess að hann þvæði ekki upp úr ísköldu vatni. Ég var ekki búin að þurrka upp nema nokkra hluti þegar Davíð Steinn kom og bað um að fá að taka við af mér. Nú sé ég mest eftir því að hafa ekki munað eftir að mynda þennan tímamótaatburð; "bræður saman í uppvaski"!

Það var skólasetning í gær og strákarnir komu heim með lista yfir gögn og bækur sem nota á í vetur. Ég dreif mig í "Office one" í Borgatúni og fékk næstum allt sem var á listanum. Það vantaði eiginlega bara eitt: Skólakompa 2, hún var uppseld. Ég kíkti þá í Mál og Menningu við Laugaveg og fann tvö síðustu eintökin (hélt ég). Svo sögðu bræðurnir mér í dag að þetta hefðu ekki verið réttar bækur.

Skólinn hófst samkvæmt stundartöflu í morgun. Davíð Steinn og hans bekkur eru með nýjan kennara og fluttu þar að auki í nýja skólastofu. Þrír eru hættir í bekknum en þrír komnir í staðinn. Oddur Smári og hans bekkur eru með sama kennara og í sömu skólastofu. Tveir komu nýjir í bekkinn en einn er hættur. Stundartöflurnar eru svolítið ólíkar og þeir eru ekki endilega búnir á sama tíma í skólanum dags daglega. Það verður spennandi að sjá hvernig komandi vetur verður.

21.8.06

- Húrra fyrir mér -

Mér tókst að klára brúðarmyndina um helgina og á bara eftir að pressa jafann ramma inn myndina og hengja hana upp á góðum stað. Það er bara stutt síðan ég sá fyrir mér hvar myndin á að vera. Nú er smá spennufall hjá mér, ekkert stórt saumaverkefni í gangi, en reyndar er alveg kominn tími til að fara að huga að jólakortagerð og ég á meira að segja efni í nokkur til að sauma.

Annars var ég á röltinu heim á leið um fjögur leytið. Leiðin lá framhjá Blóðbankanum og mér datt í huga að droppa þar við og gefa smá. Þetta er í 15. sinn sem ég gef en það er rúmt ár síðan síðast. (og ég sem ætlaði að ná 20 skiptum fyrir fertugt).

19.8.06

- Enski boltinn að byrja aftur, landsleikur of fleira -

Liðið mitt, Liverpool, á fyrsta leikinn og spilar útileik við Sheffield United sem kom upp í úrvalsdeild sl. vor. Flestir leikir umferðarinnar verða spilaðir milli tvö og fjögur en Man. Utd og Chelsea spila sína leiki á morgun. Klukkan fjögur er svo landsleikur í kvennaboltanum, Ísland - Tyrkland. Það er bein útsending en líka frítt á völlinn. Þar að auki er menningarnæturhátíðin í allan dag og fram eftir. Göngugarpurinn lýkur göngu sinni um strandvegi landsins í dag. Sá er búinn að standa sig frábærlega.

Seinni partinn í gær skruppum við mæðginin á Grettisgötuna. Ég á tveimur jafnfljótum og þeir á hjólum. Við systur skruppum í Bónus til að útvega hressingu og náðum í Bríet í leikskólann á heimleiðinni. Já, sú stutta er byrjuð á Njálsborg og líkar lífið þar vel. Eftir að krakkarnir voru búnir að fá eitthvað í gogginn fóru þau út aftur. Við strákarnir kvöddum um hálfsex og þegar við vorum komin langleiðina heim spurðu þeir hvort þeir mættu heimsækja vinkonu sína síðan úr leikskóla en hún býr e-s staðar í norðurmýrinni. Ég bað þá bara um að vera komna heim um sjö. Þeir komu reyndar miklu fyrr því vinkonan var ekki heima.

En næsta hálftímann eða svo ætla ég að sauma smá. Ég er langt komin með myndina þótt ég hafi tekið mér pásur inn á milli. Tók hana meira að segja með í ferðalagið um daginn og greip í hana amk 3 sinnum.

Eigið góða helgi og farið vel með ykkur!

18.8.06


-Haldið upp á 2x10 -

Seinni partinn í gær buðu tvíburarnir bekkjabræðrum sínum með sér í keilu til að halda upp á það að þeir urðu tíu ára í sl. mánuði. Strákarnir fengu nokkra spilapeninga á meðan beðið var eftir að allir mættu. Davíð var með blað og skráði og skipti strákunum niður á brautir. Það var spiluð ein umferð á þremur brautum og notuðu drengirnir ýmsar aðferðir. Einhver uppgötvaði líka að það væri betra að vera í keiluskóm því strax eftir að hann var kominn í skó náði hann fellu. Í miðri keppni ákvað Davíð að þeir sem næðu fellu fengju 100 kr í verðlaun einnig verðlaunaði hann fyrir bestu taktana. Þetta hleypti ennþá meira fjöri í leikinn og það sem sumum datt í hug að prófa... Á eftir fengu allir gosglas (nema tveir sem vildu heldur vatn) og pizzusneiðar og nokkra spilapeninga í viðbót. Um hálfníu voru flestir farnir. Aðeins tvíburarnir, sem voru á hjólum, og tveir drengir, sem ætluðu að ganga heim og voru að spila "pool" voru eftir þegar við Davíð kvöddum.

Rétt fyrir níu komu strákarnir heim og var annar þeirra hágrátandi og allur í skrámum. Hann hafði látið sig vaða niður brekkuna frá Keiluhöllinni og kastaðist svo af hjólinu þegar hann reyndi að bremsa á of mikilli ferð í lausamöl. Grey strákurinn verður sennilega eitthvað stirður næstu daga.

17.8.06


- Fjölskylduferð í Viðey -

Í gærkvöldi fórum við út í Viðey með óháða söfnuðinum. Allir tóku með sér nesti, t.d. samlokur eða eitthvað á grillið og svo bauð séra Pétur upp á kúmen-svartbaunaseyði, mjög gott, mmmmmm! Krakkarnir léku sér í fjörunni og fundu ýmislegt þar, kuðunga, krabba og snigla. Í restina voru sungin nokkur lög saman og spilaði Pétur undir á gítar. Veðrið var ekki dónalegt og ferðafélagarnir frábærir. Viðeyjarferð er árviss atburður í óháða en þetta er í fyrsta sinn og ég er nokkuð viss um að við eigum eftir að fara aftur og aftur...

16.8.06

- Ferðasaga, annar kafli -

Að kvöldi annars dags ferðalagsins tjölduðum við rétt við Klaustur. Svo stutt var niður á klöpp að stinga varð hælunum lárétt niður. Á fimmtudagsmorguninn skelltum við okkur í sund á Klaustri áður en haldið var áfram. Gáfum okkur góðan tíma og skoðuðum nokkra fossa og fleiri fyrirbæri á leiðinni austur. Klukkan tíu um kvöldið vorum við komin á Egilsstaði. Eftir smá umhugsun ákváðum við að tjalda á Skipalæk við Fellabæ þar sem við höfðum bækistöðvar næstu dagana.

Morguninn eftir fórum við í kaffi til vinkonu minnar sem er nýflutt þangað austur. Hún sýndi okkur húsið og garðinn. Í einu grenitrjánna tók ég eftir allstóru geitungabúi sem vinkona mín hafði ekki vitað af. Gáfum okkur góðan tíma í kaffiþamb og spjall og áður en við kvöddum bauð hún okkur að koma aftur um kvöldið og grilla með þeim og fleiri gestum. Við keyrðum hring um Reyðarfjörð og Fáskrúðsfjörð. Ætlun Davíðs var að fara með okkur í göngutúr aðeins upp með Breiðdalsá og sýna okkur helli sem hann lék sér stundum í með einum frænda sínum heitnum þegar þeir voru pattar. Veðrið var hins vegar ekkert spes, þokusuddi, svo við frestuðum þessu. Enginn var inni við á bænum þar sem tengdapabbi ólst upp svo við ákváðum að þyggja grillboðið og drifum okkur í Bónus á Egilsstöðum. Kvöldið var mjög skemmtilegt.

Á laugardeginum gerðum við aðra tilraun inn á Reyðarfjörð. Nú var veðrið með besta móti. Það var tekið vel á móti okkur í Þernunesi. Dóttursonur bóndans og báðir hundarnir á bænum fóru með okkur í göngutúrinn upp með ánni. Ævintýralega skemmtileg ferð þar sem var frekar fyndið að fylgjast með tilburðum tvíburanna þegar þurfti að vaða yfir. Þeim fannst kalt og óþægilegt að vaða og þegar þeir misstu skóna sína út í sagði ég þeim að fara í þá aftur. Þá gekk þeim betur að vaða. Hellirinn fannst en heldur þótti Davíð hann hafa minnkað. Þegar við komum til baka fengu tvíburarnir að sjá þegar eina kýrin var mjólkuð. Reyndar fengu þeir að prófa að tutla hana líka. -"Hvernig fannst þér það"? spurði ég Davíð Stein og það stóð ekki á svarinu: - "Svolítið eins og að koma við typpið á sér!" Okkur var boðin gisting sem við þáðum og sunnudeginum fengu strákarnir lánaða veiðistöng til að prófa að renna í einn hylinn fyrir neðan neðsta fossinn í ánni. Dóttursonur bóndans fylgdi okkur aftur. Ég tók með mér tvær tómar hálfslítra gosflöskur og fyllti þær af krækiberjum. Þetta var yndislegur tími og þegar okkur var boðið að vera áfram langaði okkur helst til að þyggja það. En við kvöddum seinni partinn á sunnudeginum og fórum að huga að tjaldinu.

15.8.06


- Í garðinum hjá tengdó -

Fyrsta stopp ferðalagsins, eftir að höfuðborgin hafið verið kvödd, var hjá tengdó. Þau voru búin að bjóða okkur í grillveislu og var veðrið svo gott að það var hægt að borða úti. Við vorum mætt um fimm og vorum ekkert að flýta okkur. Rúmum þremur tímum seinna héldum við ferð okkar áfram. Gerðum orstutt stopp á Selfossi til að strákarnir gætu þakkað fyrir afmælisgjöfina. Því næst ætluðum við að fá lánaðan svefnpoka á Hellu. Við fengum pokann lánaðan en pabbi bauðst líka til að tjalda tjaldvagninum í heimkeyrslunni og það varð úr að við þáðum það. Afinn svaf svo þar með tvíburunum og eldri dótturdóttur sinni en við Davíð fengum að sofa inni. Við fórum reyndar mjög seint að sofa því við notuðum tækifærið og horfðum á Rock Star Super Nova ásamt Helgu systur. Davíð kaus líka Magna nokkrum sinnum. Daginn eftir komu gestir til foreldra minna, suma gestanna hafði ég ekki hitt lengi þannig að við vorum ekkert að flýta okkur af stað. Kvöddum ekki Hellu fyrr en um miðjan dag.

Stoppuðum að sálfsögðu við Seljalandsfoss og kíktum bak við hann. Við fórum líka út í Dyrhólaey og sáum "Lunda" og "Skunda" m.a.

Feðgarnir á bak við Seljalandsfoss

14.8.06

- Erfitt að komast í gírinn -

Það er svolítið skrýtið að vera komin heim aftur. Við lögðum af stað í hringferð með áherslu á austfirðina þann 1. ágúst sl. Vorum fyrstu nóttina á Hellu, næstu nótt tjölduðum við rétt við Klaustur og fimm næstu nætur var tjaldið á Skipalæk við Fellabæ. Svo vorum við eina nótt á Raufarhöfn og þá síðustu í Kelduhverfinu, (Garði II). Seinasti dagurinn á ferðalaginu varð nokkuð langur, kvöddum frændfólk feðganna um hádegisbil, stoppuðum nokkrum sinnum á leiðinni og skoðuðum ýmislegt eða fengum okkur hressingu svo klukkan var að verða tvö eftir miðnætti þegar við komum heim.

Föstudagurinn var bara letidagur. Ég tók dótið mitt úr bílnum en feðgarnir fóru á ættarmót á laugardeginum og voru fram á sunnudag. Ég fór ekki með því ég hafði verið beðin um nokkuð sem ekki var hægt að neita. Flaug austur á Egilstaði um miðjan dag á laugardag og var svaramaður æskuvinkonu minnar er hún gekk í það heilaga síðdegis sama dag. Fámenn, látlaus og notaleg athöfn og grillveisla í heimahúsi fyrir rétt rúmlega tuttugu manns á eftir. Ég og foreldrar brúðarinnar fengum svo að gista í sumarhúsi tengdamömmunnar. Þetta var bara yndislegt allt saman!

Aðeins aftur að ferðalaginu. Við tókum yfir tvöhundruð myndir, sumarhverjar nokkuð skemmtilegar og það er aldrei að vita nema ég birti eina og eina mynd og segi svolítið meira frá ferðalaginu í leiðinni.

Í gærkvöldi var svo fyrsta messa eftir sumarfrí. Það vantaði aðeins 6 (þar af eru líklega 2 að taka sér pásu fram yfir áramót) í kórinn (vorum 11) því við vorum öll svo spennt yfir að hitta afleysingaorganistann. Arngerður María, eða Adda eins og séra Pétur kallaði hana, var mjög ánægð með mætinguna. Hún er búin að leysa af í tveimur kirkjum í sumar og kallaði það bara gott ef það mættu 5 til að syngja í kórum þeirra kirkna. Messuhaldið gekk vel og það var gott að byrja aftur.

Ég er á leiðinni á fyrsta fund vetrarins með stjórn foreldrafélags DKR. Áður en ég veit af verður allt komið á fullt aftur...

1.8.06

hugsað upphátt
orðin fjörleg fylla kollinn
finna sína leið
þankagangur tekur tollinn
tel ég vera sneið
óróleg eða róleg regla
ruglingslegt á köflum
Loksins búið náttborð að negla
núna dóti stöflum