31.7.06


Loksins tókst mér að setja eina af myndunum af "Sköpuninni", sem ég lauk við að sauma um daginn, hér á bloggið mitt (ég tók þrjár myndir til öryggis). Við hengdum hana upp inni í hjónaherbergi og það er stíll yfir henni. Gott að horfa stund á hana áður en svefninn sigrar á kvöldin og mjög gott að líta á hana þegar maður vaknar á morgnana! Reyndar þyrfti ég aðeins að laga innrömmunina hjá mér.
- Smá ferðalag -

Strákarnir sváfu mjög vel í nýju rúmunum sínum. Davíð Steinn var svo myndarlegur að búa um þegar hann fór á fætur. Um miðjan dag áváðum við að skella okkur í smá bíltúr. Tókum með okkur nesti og fórum hluta af Krýsuvíkurleið austur. Stoppuðum góða stund á Bakkanum og fengum sýnikennslu í hústjalds-tjöldun. Á heimleiðinni stoppuðum við í Þrastarlundi. Erfiðlega gekk að fá stæði er við komum heim. Alls staðar var fullt af bílum vegna tónleikanna á Klambratúninu. Það endaði með því að Davíð lagði upp á gangstétt.

30.7.06

- Strákarnir komnir heim -

Stefnt var að því að vera á Hellu upp úr hádeginu í gær. Nóttina áður höfðu tvíburarnir farið í smá útilegu með afa sínum og ömmu en þau voru komin til baka um tólf. Davíð var rétt ný vaknaður og ég vildi að seinna rúmið væri komið saman áður en við renndum austur. Klukkan var fjögur þegar við mættum, með gömlu hjólin og annan gamla hjálminn með okkur. Strákarnir tóku vel á móti okkur höfðu beðið í amk þrjá klukkutíma (við vorum samt búin að láta vita að við tefðumst). Eftir kaffihressingu skrapp ég yfir til Steina föðurbróður. Davíð Steinn kom stuttu seinna og spurði, frá ömmu sinni, hvort Steini vildi ekki koma yfir í kvöldmat. Steini kom gangandi. Það var lagt á borð fyrir sjö og borðað inni í stofu. Seinna um kvöldið lánaði mamma mér bílinn sinn til að skutla frænda mínum heim. Davíð Steinn var mjög þreyttur og við héldum helst að hann væri að verða lasinn. En drengurinn sofnaði í klukkutíma fyrir mat, sat örstutt til borðs með okkur, fór aftur að sofa og vaknaði hinn hressasti um hálftíu. Líklega var þetta bara spennufall hjá honum. Við komum heim rétt fyrir miðnætti. Þá átti bara eftir að búa um strákana og þeir að velja sér rúmstað, en það gekk fljótt og vel.

29.7.06

- Stutt í fríið -

á ég bara eftir að vinna á mánudaginn og þá er ég komin í þriggja vikna frí. Davíð er formlega byrjaður í sínu fríi, það hófst um leið og hann hætti að vinna í gærkvöldi. Hann var svo heppinn að fyrirtækið sem hann var akkúrat að vinna hjá bauð starfsmönnum og aukamönnum upp á bjór og pizzur. Þar að auki þekkir hann nokkra sem vinna hjá þessu fyrirtæki. Davíð var eiginlega búinn að lofa mér því að skila bílnum heim en vinnan hans náði alveg að gleðinni svo minn maður drakk bara lítið og stoppaði lengi. Ég var pínu leið yfir að hann skyldi ekki láta mig vita þessa ákvörðun sína, var hálft í hvoru að bíða eftir að hann hringdi í mig alveg þar til klukkan varð níu í gærkvöldi. Á svona stundum ætti maður að virkja 6. eða 7. skilningarvitið sitt til að koma í veg fyrir allan misskilning og gleymsku.

Ég sagði örugglega frá því, fyrr á árinu, að ég fór í beinþéttnimælingu. Niðurstöðurnar voru m.a. sendar kvensjúkdómalækninum mínum. Sá ákvað að fylgja þessari mælingu aðeins eftir og hringdi hingað heim fyrr í vikunni. Ég var ekki heima (var á frænkuvaktinni) og fékk skilaboðin daginn eftir. Til að gera langa sögu stutta þá þarf ég að fara í smá blóðprufu og hitta lækninn til að fara yfir málin en það má bíða þar til eftir sumarfrí.

Davíð byrjaði á því að setja saman seinna rúmið um níuleytið á fimmtudagskvöldið. Klukkan hálftólf fór ég í háttinn eftir að hafa fullvissað mig um að maðurinn vildi ekki aðstoð. Það var komið vísir að rúmi. Um hálffjögur hrökk ég upp við hamarshögg og hnerra. -"Þetta var svo lítið!" sagði Davíð. Í ljós kom að hafði verið að klára einhver vinnumál í millitíðinni og ætlaði svo að halda áfram. Það er nú ekki alveg saman hvort nóttin heitir rétt um helgi eða næstum í miðri viku svo ég tók málin í mínar hendur og dró manninn í rúmið.

Tvíburarnir eru í smá útilegu með afa sínum og ömmu á Hellu. Þau skruppu rétt út fyrir þorpið og gistu á Heiðarlandinu í nótt.

Vona að helgin verði öllum góð og allir fari vel með sig!

26.7.06

- La unua esperanto letero -

Já, ég skrifaði fyrsta bréfið á esperanto í gærkvöldi. Það var ekkert langt, eitt A 4 blað í aðra hverja línu. Þetta var bráðskemmtilegt. Ég gat sagt frá að það styttist í seinna sumarfríið mitt og hvert við ætlum að fara. Ég er ekki frá því að ég gefi mér tíma til að skrifa annað bréf fljótlega því það er um að gera að æfa sig.

Sat líka góða stund við saumana. Var að velta því fyrir mér hvort ég ætti að vaka eftir beinni útsendingu frá Rock Star Supernova en skynsemin varð ofan á, sem betur fer. Hefði líklega verið frekar mygluð í morgun og það hefði verið heldur slæmt.

Annars er ég búin að vera á frænkuvaktinni milli hálffimm og hálfsjö undanfarna daga. Hulda er úti að hjóla með vinum en þessa stundina er Bríet að horfa á ávaxtakörfuna.

25.7.06

- Aðeins meira um gjafir -

Strákunum barst pakki frá "frændfólkinu" á Selfossi (foreldrum "tvíburahálfsystur" minnar). Hann hafði að geyma geisladisk með lögunum úr "Litlu hryllingsbúðinni", þessi diskur fór beint í bílinn og var hlustað á hann í bíltúrnum sl. sunnudag og á leiðinni austur í gærkvöldi og féll hann pottþétt í kramið. Takk fyrir strákana!!!

Við skutluðum semsagt strákunum austur aftur í gær. Amma á Hellu spurði strákana hvað hefði staðið inn í afmæliskortunum til þeirra frá sér og Davíð Steinn var fljótur að svara: -"Ja, ef þú manst það ekki þá þurfum við ekki að muna það heldur". Davíð tók sig til og setti gsm-númer tvíburanna í gemsann hennar mömmu. Hann notaði líka tækifærið og breytti um hringitón. Mamma var að tala í heimasímann. Þegar hún kom aftur byrjaði gemsinn hennar að kalla með málrómi tengdasonarins: -"Edda, það er síminn til þín"! Mömmu brá ekkert smá en gat alveg hlegið að þessu.

Í kvöld á svo að klára að setja saman hitt rúmið og koma drengjaherberginu í betra horf! Ég þarf líka að byrja á bréfi til Esperanto-vinkonu minnar og senda henni...

Farið vel með ykkur!

24.7.06

- Afmælishelgi að baki -

Ég fór austur og sótti strákana á föstudaginn. Var á ferðinni öfugu megin við slysið svo ég var tvo tíma á leiðinni. Davíð varð eftir heima, hann ætlaði að nota tímann til að taka niður kojurnar og setja saman rúm sem strákarnir voru að fá í afmælisgjöf. "Stopparðu ekki eitthvað fyrir austan?" spurði Davíð. Hann hélt að þetta myndi taka 2 til 3 tíma. Ég hvatti manninn til að fá einhvern með sér í þetta verk. Fyrir austan tóku strákarnir og Hulda frænka vel á móti mér. Sú síðast nefnda ætlaði að verða samferða okkur í bæinn og spurði hvort hún mætti ekki gista eina nótt hjá okkur.

Við komum í bæinn um hálftólf og þá var bara kominn vísir að einu rúmi og Davíð var að vinna einn í þessu. Svipurinn sem kom á strákana var óborganlegur (það stóð skrifað stórum stöfum á andlitin: "Hvar eigum við eiginlega að sofa?") og ég fékk hnút í magann þeirra vegna. Svefnmálinn leystust farsællega. Oddur Smári bjó um sig í stofunni og Hulda og Davíð Steinn sofnuðu í hjónarúminu. Við færðum þau svo yfir þegar annað rúmið var tilbúið milli þrjú og fjögur. Notuðum dýnuna úr hinu rúminu og krakkarnir hefðu þess vegna getað sofið öll saman.

Laugardagurinn var m.a. notaður í að kaupa ný hjól handa strákunum. Besti vinurinn fann á sér að þeir væru komnir heim og leit inn og þeir voru svo að leika úti með honum um kvöldið. Við vorum að spá í að fara í bíó en frestuðum því. Þess í stað hefði verið upplagt að nota tækifærið og setja upp hitt rúmið. En við notuðum tímann í annað.

Í gær rann svo upp 10 ára afmælisdagurinn, þá fengu strákarnir loksins afhenta 1. gemsana sína. Þeir fengu þá reyndar í jólagjöf en við vorum búin að ákveða að þeir fengju ekki gemsa fyrr en í fyrsta lagi þegar þeir yrðu 10 ára. Hvað þeir eru búnir að vera spenntir í marga, marga mánuði. Við fórum í sund, á pizza hut (ég fékk mér samt ekki pizzu), í bíltúr, í afmælisveislu (frændi þeirra verður 6 ára um næstu helgi og var að halda upp á það) og sáum svo nýju superman myndina í bíó. Ævintýralegur dagur! Frábær helgi og ég vona að strákarnir hafi skemmt sér vel, maður verður ekki 10 ára nema einu sinni. Þeir fá svo að halda veislu fyrir vinina í vikunni áður en skólinn byrjar.

20.7.06

- Brakandi blíða -

Það er loksins komið sumar og "bara heitt úti" eins og ein sem hafði skroppið út í hádeginu sagði. Yndislegt, en ég bráðna ef ég sit lengur en 10 mínútur á svölunum í einu og það væri skynsamlegast hjá mér að athuga hvort ég eigi ekki sólarvörn einhvers staðar í fórum mínum.

Ein esperantobókin sá til þess að við hittumst aftur í gærkvöld. Esperanto-norska vinkona mín er búin að vera með bók frá mér í láni síðan í haust. Þegar hún ætlaði að fara að glugga í hana í fyrradag, fannst bókin hvergi hjá henni. Vinkonan hafði samband við mig um kvöldið. Ég kannaðist ekki við að hafa tekið bókina því ég vissi að hún ætlaði með hana með sér til Noregs. Þegar ég svo athugaði málin fann ég auðvitað bókina í esperanto-möppunni minni. Ég rölti því yfir í Norðurmýrina í gærkvöldi, las tvo kafla með vinkonu minni og horfði svo á endursýningu á Rockstar supernova áður en ég fór heim aftur.

Við hjónin skruppum í IKEA seinni partinn í gær og keyptum m.a. náttborð. Mig langaði reyndar meira í hvítu útgáfuna af þessu borði en hún virtist uppseld og ég lagði ekki í að bíða eftir nýrri sendingu ef það myndi nú taka okkur önnur tvö ár að fara í náttborðaleiðangur aftur.

18.7.06

- Byrjuð á nýrri -

Kom heim rétt fyrir sex í gær eftir að hafa hitt esperanto-vinkonu mína og lesið með henni. Einhvernveginn var allur vindur úr mér og ég lagði mig um stund. Svo var klukkan allt í einu byrjuð að ganga átta og Davíð ekki búinn að láta vita af sér. Hann skilaði sér heim nokkru seinna. Fengum okkur í svanginn, vöskuðum upp og ég renndi á könnuna. Davíð varð svo að vinna og kom sér fyrir fyrir framan tölvuna. Um tíu kveikti ég á kvöldfréttunum og tók til við að undirbúa saumun á þessari mynd. Ég ílegndist svo fyrir framan skjáinn næstu tvo tímana eða svo og var þá búin að "kanta" jafann, taka miðju og byrjuð að sauma.

17.7.06

- Frábær helgi að baki -

Við Davíð vorum komin austur á Hellu um hálfeitt á laugardaginn var, á undan Helgu, Ingva og Bríeti sem komu reyndar bara stuttu seinna. Mamma var með mat handa öllu liðinu. Svilarnir voru svo sendir með eldri krakkana þrjú í sund en við systur og pabbi hjálpuðum mömmu við afþurrkun og þrif sem þarf að gera tvisvar á ári. Hulda fór með strákunum í karla-klefann. Hún er ekkert feimin við að segja það sem henni finnst. Og henni fannst Davíð vera með lítið typpi. Oddur Smári kom pabba sínum til bjargar og var fljótur að benda frænku sinni á að hann sjálfur væri líka með lítið typpi. Ja, þessi börn...

Seinni part dagsins komu svo gestir sem mamma hafði boðið í mat með okkur öllum hinum. Ingvi grillaði, ég skar niður í sallat og mamma átti tilbúið kartöflusallat (bjó það til fyrr um daginn) í ísskápnum. Það tóku allir vel til matar síns. Helga sá svo um eftirréttinn, heilsuvöfflur úr spelti og hrásykri (engin mjólk né hvítt hveiti og hvítur sykur). Þetta voru mjög góðar vöfflur. Á eftir skruppum við systur aðeins yfir til Steina frænda. Helga var með smá verkefni handa honum og það vildi svo vel til að hann var akkúrat búinn með síðasta verkefnið sitt og það lá ekkert fyrir. Hann var að gera upp nær 200 ára gamalt skatthol sem brann í vetur. Helga færði honum borðstofuborð og 4 stóla þegar hann hafði samþykkt að taka að sér að lagfæra það. Klukkan var um eitt eftir miðnætti þegar við Davíð kvöddum og héldum heim á leið, strákalaus.

Í gær svaf ég frameftir morgni. Við Davíð horfðum á formúluna og ég kláraði myndina sem ég er búin að vera að sauma sl. ár. Ég pressaði hana á eftir og Davíð hjálpaði mér við að ramma hana inn og hengja hana upp (tók mynd af myndinni og mun setja inn hér máli mínu til sönnunar fljótlega). Reyndar hengdum við upp fullt af fleiri myndum í gær og nú er að koma mjög skemmtilegur svipur á íbúðina.

Rétt fyrir átta vorum við hjónin komin í Kaplakrikann til að fylgjast með leik FH og Vals í Landsbankadeildinni. Það var frítt inn á leikinn og ég taldi manninn minn á að koma með mér. Hann var á báðum áttum í fyrstu þar sem hann hélt að við myndum tapa enda hafa FH-ingar verið mjög sterki á heimavelli sl. ár. En leikurinn var jafn og skemmtilegur og endaði með glæstum sigri okkar manna.

15.7.06

14.7.06

- La malgranda flava kokino -

Það var ekki liðinn hálfur mánuður frá því ég skilaði öllum bókum og þar til ég heimsótti safnið aftur. En ég tók mér eingöngu bækur um Esperanto. Tvær þeirra hef ég verið með áður en ég fann líka lestrar og málfræðibækur sem Þórbergur Þórðarson tók saman. Í bók I eru léttir textar og ævintýri, eins og; Litla gula hænan, sætabrauðsdrengurinn, um fjölskylduna, líkamann og fleira og fleira. Í bók II er málfræði og smá orðasafn aftast. Svo tók ég bók númer IV og sem er sögð framhald af fyrstu lestrarbókinni. En ég fann hvergi bók merkta númer III sem er svolítið dularfullt. Gæti reyndar leitað á GEGNI...

11.7.06

- Skeytasending -

Í dag sendi ég hugskeyti til "föðursystur" minnar; Til hamingju með daginn, Svala mín! ;)

10.7.06

- ...og dagarnir bruna... -

Loksins tókst mér að fá Davíð í að laga til og koma "tölvu-skrifstofu-herberginu" í stand. Það er bara búið að taka mig tæp tvö ár eða svo. "Góðir hlutir gerast svo sannarlega hægt!" Það var slökkt á tölvunni um hádegisbil á laugardag og ekki kveikt á henni aftur fyrr en í gær. Tiltektin og þrifin, bara í þessu eina herbergi, tók okkur rúma fimm tíma. Stoppuðum aðeins í korter á þessu tímabili til að fá okkur kaffi.

Skrapp til Esperanto-vinkonu minnar seinni partinn í dag. Námið er farið að skila árangri og mér finnst það alltaf jafn skemmtilegt og spennandi. Á meðan vinkonan var erlendis í fríi um daginn tók ég mig til og safnaði saman nokkrum orðum og bjó til vísir að orðabók í báðar áttir.

Annars gengur lífið sinn vanagang, alltof hratt á köflum auðvitað, en ég er að hamast við að nýta tímann og njóta lífsins í leiðinni. Það gengur bara ljómandi vel! Farið vel með ykkur!

5.7.06

- Fríið búið í bili -

Það voru úrvinda feðgar sem slöguðu upp úr Herjólfi klukkan rúmlega tvö aðfaranótt sl. mánudags. Á leiðinni yfir heiðina þurfti ég að stoppa einu sinni til að hleypa öðrum tvíburanum út að fá sér ferskt loft. Hann var hálfsjóveikur greyið en það lagaðist þegar hann hafði tæmt magann. Við vorum komin í ró fyrir fjögur. Ég fór á fætur aftur um þremur tímum seinna til að mæta aftur í vinnu eftir tveggja vikna frí. Um sjöleytið í gærkvöld fóru bræðurnir með móðurforeldrum sínum í "sveitina".

Pabbi og mamma áttu erindi í bæinn og ég fékk pabba til að hjálpa mér að koma þvottavélinni fyrir á sinn stað aftur. Það þurfti nefnilega að bora aftur í gólfið til að festa pallinn sem vélin stendur upp á.

Dóttir "föðursystur" minnar er fimm ára í dag. Vá, eru virkilega fimm ár síðan...? Til hamingju með stelpuna Svala mín!

3.7.06

Edda Geirdal, Kjartan, (á efri myndinni) Jenný Geirdal og Geirlaug í símanum! (á neðri myndinni) - Fyrri partinn í júní skruppum við Davíð á leik Grindavík og Vals. Eftir leikinn kíktum við í heimsókn til vinafólks okkar og áttum með þeim notalega kvöldstund. Ég var búin að "hóta" því að setja sönnunargögn á bloggið mitt og ákvað að standa við það þótt nokkrar vikur séu liðnar síðan þetta var. Takk fyrir kvöldstundina Kjartan og Geirlaug!
- Þeir eru á leiðinni -

Eftir ca. einn og hálfan tíma kemur Herjólfur til Þorlákshafnar. Það tekur því ekki fyrir mig að reyna að leggja mig í tæpan klukkutíma. Ég er hvort er eð orðin spennt yfir að fá feðgana heim bráðum. Ég var komin á fætur fyrir tíu í morgun. Tók því nokkuð rólega til að byrja með en náði samt að gera smávegis af því sem var á dagskránni hjá mér. Sótti þvottinn minn til Helgu systur og skrapp í smá upprifjunar-Esperanto milli þrjú og fjögur. Við ætlum að taka smá törn aftur (og ég sem varð að skila Esperanto-æfinga og orðabókunum í fyrradag). Við tókum eftir því að við eigum orðið miklu auðveldara með að lesa texta á tungumálinu, hnjótum ekki um annað til fimmta hvert orð eins og fyrst. Þetta er mjög jákvætt og ýtir vel á eftir manni. Ég verð sífellt heillaðri af þessu tilbúna tungumáli.

Eftir hálftíma get ég lagt í hann....!!!

2.7.06

- Það var strembið en tókst -

Já, mér tókst að skila öllum lánsbókum á safnið án þess að fá mér nýjar bækur í staðinn. Á föstudaginn fór ég með tvo poka í Kringlusafnið. Í ljós kom að það voru 4 bækur eftir heima sem komnar voru á tíma. Þær bækur tók ég til í gærmorgun. Las eina af þessum bókum Þriðja bónin saga móður hans eftir Ingibjörgu Hjartardóttur. Margslungin saga. Auðlesin og mjög spennandi.

Skrapp í sund um miðjan dag og synti 600 metrana. Slakaði svo á um stund í 40°C heitum potti. Það var svoooo notalegt. Eftir sundið skilaði ég fyrrnefndum bókum og flýtti mér út af safninu áður en ég freistaðist. Sennilega hefði ég ekki getað þetta nema af því að ég vissi að ég á þrjár ólesnar bækur hér heima sem eru í minni og Davíðs eigu. Meiningin er samt sú að slaka aðeins á lestrinum og nota auka tímann til annars.

Upp úr átta í gærkvöldi var ég mætt í Tangana í Mosfellsbæ til eins kórfélaga míns. Við vorum nokkur sem mættum á svæðið og skemmtum okkur alveg fram á nýjan dag. Kristinn las part úr pistlinum frá því í Stykkishólmi og var reyndar búinn að bæta smávegis við hann. Upplesturinn klikkaði ekki að vanda en Kristinn tók eftir því að hann skrifaði mikið um "vínmessurnar". Þótt mörg okkar hefðum heyrt mest af pistlinum áður þá eyðilagði það alls ekki fyrir okkur. Sumt er einfaldlega alltaf hlægilegt, sama hversu oft maður heyrir það.

1.7.06

- Á frænkuvaktinni -

Síðast liðna tvo daga brúaði ég bilið fyrir systur mína og passaði stelpurnar í tæpa tvo tíma á fimmtudag og í rúma þrjá tíma í gær. Fékk að nota þvottavélina þar í leiðinni en það er verið að ljúka við að mála þvottahúsið og lakka yfir gólfið hér í Drápuhlíðinni. Hafði minnst að segja af Huldu frænku hún var úti að leika á fimmtudaginn og í gær, síðasta daginn hennar í leikskólanum, fékk hún að fara heim með vini sínum. Við Bríet sóttum hana um sexleytið. Er við komum heim hitti Hulda annan vin fyrir utan. Ég fékk hana samt til að koma fyrst inn að borða áður en hún var rokin út aftur.

Verið er að venja Bríet af bleyju á daginn og það gengur mjög vel. Sú stutta virðist vera alveg tilbúin amk. nær hún að hætta við að pissa á sig og klára að pissa í koppinn. Bríet er annars mjög dugleg við að fá mann til að leika við sig. Í gær sló hún í mig dulunni sinni eftir að hafa fleygt sér í fangið á mér. Ég sagði: "Nei, Bríet hættu þessu!" Henni fannst þetta bara fyndið og hélt áfram að vingsa dulunni. "Þetta er vont, hættu Bríet!" Það endaði reyndar með því að ég hætti að leika við hana um stund og sagði henni að skammast sín. Þá hætti sú stutta og fór. Ekkert heyrðist frá henni í nokkra stund svo ég fór að athuga með hana. Þá stóð hún og hallaði sér yfir baðið og virtist ekki vera að gera neitt nema að handfjatla duluna sína. Hún var að skammast sín!