28.2.06

- Handlama og hálfgert skrýmsli -

Ég er óvinnu- og varla "pikkfær". Hægri þumall í spelku, roði á handarbaki, hiti í kinnum og augun hálfsokkin. Var á slysó í gær vegna verkja á handarbaki rétt við þumalinn (þá var í lagi með andlitið á mér). Núna bíð ég eftir hringingu frá heimilislækni og reikna með því að þurfa að fara á heilsugæsluna seinna í dag. Sem betur fer er stutt að fara. Ég má bara ekki vera að þessu. Hugsið til mín allir ættingjar og bloggvinir. Líklega verður fátt um bloggfærslur á næstunni...

26.2.06

- Sunnudagur framundan -

Fyrir sólarhring síðan lögðu tvíburarnir upp frá Valsheimilinu ásamt 26 öðrum drengjum úr 6. flokknum, 3 fararstjórum og þjálfaranum. Ákvörðunarstaður var Laugavatn þar sem áttu að vera eins konar æfingabúðir, tvær æfingar í gær og í þessum skrifuðum orðum eru drengirnir líklega á lokaæfingu helgarinnar. Þeir eiga svo eftir að skreppa í sund og fá sér eitthvað í svanginn áður en hugsað verður fyrir heimferð. Ég vona bara að tvíburarnir skrifi eitthvað sjálfir um þessa upplifun sína!

Gærdagurinn fór í heimilisstörf, esperantotíma og afmælisheimsókn. Davíð var að vinna hér heima en við áttum þó kvöldið saman, alveg þar til ég gafst upp fyrir Óla lokbrá löngu fyrir miðnætti.

Framundan er m.a. Liverpool - Man. City, jazzmessa, heimkoma tvíburanna og afmæliskaffið hennar Huldu frænku. Hún varð sex ára sl. miðvikudag. Þann morgun hringdi ég í hana fyrir hálfníu og fékk að syngja afmælissönginn...

24.2.06

- Smá sprettur og tónleikar -

Ég sótti Odd Smára í skólasund og fór með honum í Jóa útherja til að kaupa á hann nýja fótboltaskó. Útréttingarnar gengu eins og í sögu. Sótti svo Davíð Stein og annan dreng til og skutlaði þeim öllum þremur á æfingu. Davíð Steinn var búinn að læra og gera sig kláran í æfingaleik. Hann hafði einnig tekið til í tösku fyrir bróður sinn og smurt handa honum hrökkbrauð fyrir mín orð. 6. flokkur Vals tók á móti 6. flokki KR á Framvellinum og spiluðu saman nokkra æfingaleiki. Ég gaf mér smá tíma til að horfa á byrjunina. Mamma drengsins sem ég skutlaði ætlaði að sækja alla strákana. Hún hafði samband eftir að ég var komin heim og spurði hvort hún mætti bjóða tvíburunum að borða með þeim. Þegar ég sagði henni að við Davíð værum að fara á tónleika um kvöldið bauðst hún til að lofa strákunum að vera aðeins lengur. Ég þáði þetta allt með þökkum og slapp þar af leiðandi við að hugsa fyrir kvöldmat.

Tónleikarnir byrjuðu um hálfátta og stóðu yfir í einn og hálfan tíma. Ég skemmti mér alveg ágætlega. Sögumaður var Jóhann Sigurðarson og fór hann vel með það hlutverk (Davíð fannst hins vega íslenska þýðingin ekki alveg nógu góð), í sönghlutverkunum voru: Friðrik Ómar, Margrét Eir, Matti og Jónsi og komust þau öll mjög vel frá sýnum hlutverkum. Ég var mjög hrifin af tónlistarflutningnum nema mér fannst hann heldur hávær á kvöflum (fann til í hlustunum). Tvíburarnir voru háttaðir og komnir upp í rúm þegar við komum heim. Þeir voru ekki sofnaðir svo við náðum að knúsa þá aðeins fyrir dugnaðinn.

Spennandi helgi framundan.

23.2.06

- Í keilu með DKR -

Upp úr hálffimm í gær röltum við mæðgin út. Oddur Smári gekk af stað á karateæfingu en við Davíð Steinn skunduðum af stað ("á kóræfingu") í Keiluhöllina. Hátt í 40 drengir mættu og fengum við 6 brautir að spila á. Þegar leikirnir voru komnir í gang fékk ein mamman mig til að taka einn leik. Þar sem von var á öðrum hópi fengum við að spila á tveimur brautum (til að vera fljótari). Það þarf varla að taka það fram að ég vann minn leik og hún sinn. Þótt strákunum gengi þokkalega þá var klukkan langt gengin í sjö þegar hægt var að bera fram pizzur handa hópnum. Við mæðgin skiluðum okkur heim um hálfátta.

22.2.06

- Vinahópur númer "6" -

Á mánudaginn kom miði heim úr skólanum með Davíð Steini. Einn úr vinahópnum er fluttur til Svíþjóðar en er í stuttri heimsókn hér þessa dagana. Ég ákvað strax að tala við forráðendur allra í hópnum og finna dag sem hentaði öllum, þ.e. athuga hvort annaðhvort föstudagurinn eða þriðjudagurinn myndi ganga upp. Fyrst hringdi ég í forráðamann drengsins og hann sagði að báðir dagarnir myndu alveg henta. Við ákváðum að stinga upp á föstudegi. Sú dagsetning gekk hins vegar ekki upp en allir urðu sammála um þriðjudaginn. Oddi var boðið í afmæli einmitt á sama tíma, milli fimm og sjö. Um hálffimm í gær hringdi forráðamaður þess sem býr í Svíðþjóð og boðaði forföll. Það varð bara að vera svo. Stúlkurnar tvær í hópnum mættu báðar alveg á slaginu fimm. Rétt seinna skutumst við fjögur út í Sunnubúð til að kaupa það sem á vantaði. Er við komum til baka þvoðum við okkur um hendurnar og tókum svo til óspilltra málanna. Við notuðum þessa uppskrift (mínus glassúr) (tvöfölduðum hana) og allir höfðu nóg að gera og börnin unnu vel saman. Ég er viss um að ég hafi samt skemmt mér langbest. Skúffukakan fór inn í ofn um sex og þegar búið var að taka allt af borðinu og dúka það spiluðu krakkarnir ólsen-ólsen. Ég hellti upp á kaffi og setti bolla, diska og gaffla á borðið. Forráðamenn komu stundvíslega klukkan hálfsjö, nema Davíð hann var örlítið seinni. Kakan ku hafa smakkast ágætlega og áður en gestirnir kvöddu var henni skipt niður í þrjá hluta og fengu bekkjarsystur Davíðs Steins því hluta af bakstrinum með sér heim.

21.2.06

- Andvaka -

Það munaði engu að ég snéri mér á hina hliðina þegar vekjarinn hringdi rétt um hálfsex í morgun. En sem betur fer toguðu böndin í mig. Ég var sofnuð um ellefu í gærkvöldi en hrökk upp rúmlega eitt. Maðurinn var ekki kominn í rúmið og þegar ég fór fram á salerni fann ég hann inni í tölvuherbergi. Hann hafði aðeins gleymt sér. Aldrei þessu vant ætlaði ég aldrei að sofna aftur svo þegar vekjarinn hringdi fannst mér ég vera nýsofnuð. Jógað gekk samt vel gerðum allar kviðæfingarnar 16 sinnum. Okkur bauðst meira að segja að fá lóð á fæturnar en þetta er enn nógu erfitt samt, amk lak af mér svitinn. Svo gerðum við 5 æfingar af 9 fyrir fætur, bak, og hliðar, 12 sinnum hverja æfingu. Að lokum gerðum við fjórar fyrstu (af átta) flæðisæfingarnar sex sinnum, lærðum þá fimmtu og gerðum hana nokkrum sinnum. Núna eru bara 3 tímar eftir af þessu námskeiði.

Sl. föstudag bauð ég Davíð með mér í matarboð í Óháðu kirkjunni. Vorum mætt um hálfátta, fengum nóg að borða (og það var fullt á boðstólum fyrir svona "matargikk" eins og mig). Ómar Ragnarsson var með skemmtiatriði að venju og honum lá svo mikið á hjarta (var með skemmtilegt innleg) að það komust ekki aðrir að.

Annars var helgin svolítið köflótt. Davíð gerði það fyrir mig að taka sér frí frá vinnu á laugardag (vann sunnudaginn í staðinn) en ákvörðunin kom það seint að það varð frekar lítið úr deginum. Skapið á mér lét ekki að stjórn og það endaði með því að ég dreif mig út í þriggja tíma göngu. Yndislegt veður en alveg óþarfi að láta skapið hlaupa með sig í gönur (það gerist samt stundum á bestu bæjum).

Um ellefu á sunnudagsmorgun sóttum við mæðginin eina vinkonu mína sem ég var búin að lofa að fara með í ferðalag austur í sveitir. Mér fannst konudagurinn henta mjög vel til þess. Fyrsta stopp var við Litlu kaffistofuna þar sem sett var bensín á bílinn og keyptir drykkir í leiðinni, var að öðru leyti með smurt nesti og "nýja skó". Tókum hring um Selfoss. Rétt eftir að við komum í Rangárvallarsýsluna beygðum við útaf þjóðveginum til vinstri og keyrðum hring um holtin. Strákarnir fengu pissustopp rétt áður en við komum að Ketilstöðum. Næsta stopp var aðeins fyrir ofan Galtalæk. Þar röltum við aðeins um og fengum okkur af nestinu. Því næst fórum við yfir Ytri Rangá og vorum þá komin á Næfurholtsveg. Rétt er að koma því að að veðrið hefði varla geta verið betra, pínu svalt, bjart og logn. Næsta stopp var í pabba-landi, Freysteinsholtum á jörðinni Heiði. Þar var rölt um og klifrað í klettum. Síðan lá leiðin upp að Keldum, kirkjunni þar sem ég fermdist ein saman á hvítasunnu fyrir bráðum 24 árum. Bæði bærinn og kirkjan voru harðlæst en ég gaf mér tíma til að kíkja á legstaði ættingja minna. Næst lá leiðin framhjá Stokkalæk, Hofi og fleiri bæjum og þegar við komum aftur að þjóðvegi númer eitt beygðum við til hægri og brunuðum til Hellu. Tókum rúnt um svæðið en stoppuðum svo í nokkra tíma hjá pabba og mömmu. Þar var tekið vel á móti okkur. Þau vissu að okkar var von og var mamma búin að setja heilt læri í ofninn. Yndislegur dagur og skemmtum við okkur öll mjög vel!

17.2.06

- Hvert æðir tíminn? -

Þetta er færsla númer 800 og enn einn föstudagurinn runninn upp. Helga systir bað mig um að sækja Huldu á leikskólann í gær þar sem Bríet var með hita. Þannig að þegar ég var búin að skutla tvíburunum á fótboltaæfingu sótti ég frænku mína og stoppaði hjá Helgu þar til tími var kominn til að sækja strákana. Það var notaleg klukkustund.

15.2.06

- Á rómantísku nótunum -
....eða næstum því...

Tvíburarnir voru í afmælisboði milli fjögur og sex-hálfsjö í gær. Rétt fyrir fimm kom ég mér fyrir uppi í rúmi undir teppi með bók í hönd. Stillti símavekjarann á sex og las svo í nokkra stund, ekki mjög lengi þó. Lagði bókina fljótlega frá mér og svo vissi ég ekki meir af mér. Allt í einu fór ég að heyra torkennileg hljóð, sem þrengdu sér inn í drauminn sem mig var að dreyma. Ekki var þetta vekjarinn, því klukkan átti enn eftir rúmar fimm mínútur í sex, heldur var þetta heimasíminn. Systir mín var á línunni og við spjölluðum saman í um hálftíma.

Strákarnir komu heim um það leyti sem við systur kvöddumst, alveg pakksaddir eftir veisluna. Ég útbjó samt pastarétt handa okkur Davíð sem við borðuðum bara tvö saman. Fattaði það svo í morgun að ég gleymdi að kveikja á kerti. Fengum okkur gott kaffi eftir mat og drakk ég allavega einum ef ekki tveimur bollum of mikið. Svo horfðum við saman á enska boltann, Liverpool - Arsenal 1:0. Strákarnir fóru að sofa í hálfleik. Nafnarnir halda með Arsenal, Oddur Smári með Man. Utd. og ég er Púllari. Leikurinn var mjög skemmtilegur og ég var farin að halda að lýsendurnir heyrðu til mín. Þótt Púllari sé var ég ekki sammála vítaspyrnudómnum sem Arsenal fékk á sig og þegar Lehman varð spyrnuna frá Gerrard sagði ég strax: -"Réttlætinu fullnægt!" Rétt seinna heyrði ég Valtý Björn segja: "Nú segja örugglega einhverjir: réttlætinu fullnægt!" Arsenal-liðið lét aðeins bíða eftir sér eftir hlé og kom Ljungberg langsíðastur og var að girða sig í brók. -"Hann var örugglega á kamrinum" sagði ég og rétt seinna heyrði ég Valtý Björn segja: "-Það er engu líkara en hann hafi verið á klósettinu..."

14.2.06

- Febrúar hálfnaður -

Og æskuvinkona mín árinu eldri í dag. Er búin að senda henni SMS (lesist eins og Spaugstofumenn segja það) og vefkort og mun hugsa til hennar í allan dag.

Laugardagurinn var helgaður heimilinu að mestu eins og ég ráðgerði. Skrapp að vísu yfir í Norðurmýrina í tæpa tvo tíma til að bjóða nýjan frænda velkominn í heiminn.

Það er vel hægt að kalla sunnudaginn kirkjudag, því ég fór í tvær messur. Fyrst í Hallgrímskirkju um morguninn. Drengjakórinn leiddi messuna og Hulda og Bella vinkona hennar fóru fyrir sunnudagaskólabörnunum með kerti undir síðasta sálmi fyrir prédikun. Rúmlega eitt var ég svo mætt í upphitun fyrir messu í Óháðu kirkjunni. Messan þar hófst klukkan tvö og það kom okkur kórfélögunum verulega á óvart hversu margir komu inn eftir að messan var byrjuð. Einhver taldi 10 manns sem komu á tímabilinu 14:05-14:20. En messan gekk vel og var séra Pétur með mjög góða ræðu.

Seinni partinn í gær hafði ég hálftíma til að kíkja yfir heimaverkefni strákanna. Skutlaði þeim svo á æfingar og fór sjálf á stjórnarfund í foreldrafélagi DKR. Sá fundur stóð yfir á meðan drengirnir voru á æfingu. Kórstjóri og undirleikari kíktu á fundinn í restina og sagði sá fyrrnefndi að blaðamaður Moggans hefði komið í heimsókn, mjög áhugasamur um starfsemi kórsins.

Í gærkvöldi rölti ég yfir í Norðurmýrina í smá esperanto-kennslustund. Vorum heldur þreyttar framan af en okkur óx ásmeginn er leið á tímann. Passaði mig á að vera komin heim fyrir hálfellefu svo ég færi snemma að sofa.

Mætti svo eldhress í rope-yoga rúmlega sex í morgun.

11.2.06

- Morgunstund -

Klukkan er rétt að slá hálftíu. Við mæðginin erum búin að fá okkur morgunmat og þeir sitja límdir fyrir framan morgunsjónvarpið. Framundan er helgin. Dagurinn í dag verður helgaður heimilinu.

Á fimmtudagskvöldið skrapp ég til einnar vinkonu minnar en við vorum ekki búnar að hittast síðan fyrir jól. Það var ljúft og gott kvöld. Hún var að sýnar mér allar ósaumuðu myndirnar sínar og þær eru margar, fylla tvær skúffur. Ég var alveg komin að því að bjóða henni fram aðstoð mína við að klára þessi verkefni. En kannski er bara langbest að skreppa til hennar öðru hvoru með mína sauma.

Í gærkvöldi fékk ég óvænt góða heimsókn. Æskuvinkona mín og bekkjarsystir úr grunnskóla var stödd í bænum. Rúmir tveir tímar voru augnablik að líða.

ég faðma
sjálfa mig
loka
augunum
og
hugsa knús
til allra

9.2.06

- Ég fékk aukaorku í morgun -

Já, ég verð alltaf sannfærðari og sannfærðari um að rope yoga er að gera mér mjög gott. Í morgun fórum við létt yfir kviðæfingarnar en einbeittum okkur svo að fóta(hliðar)æfingunum. Náðum svo að gera eina flæðiæfingu í restina.

Þegar ég kom heim í gærdag voru tvíburarnir og einn vinur þeirra að gera tilraunir með heitt og kalt vatn úti í garði. Veit ekki alveg að hvaða niðurstöðum þeir komust en fannst þetta skondið tiltæki hjá þeim. Rétt fyrir fimm kvöddu þeir vininn og ég skutlaði þeim á kór- og karateæfingar. Þar sem ég þurfti að bera svolítið undir kórstjórann ákvað ég að fresta matargerð þar til við kæmum heim eftir æfingar. Svo það var borðað í seinna lagi í gærkvöldi. Hafði nú samt tíma til að fá mér örlítinn kaffidreitil með Davíð áður en ég fór á kóræfingu.

Við vorum að æfa fyrir messu (reyndar eins og drengjakórinn svo það verður tvöföld messa hjá mér n.k. sunnudag.) En einnig gafst tími til að renna yfir nokkur "gömul" og " " lög.

8.2.06

- Smá strengir -

Ég er með strengi á ólíklegustu stöðum og samt teygði ég vel eftir allar æfingarnar í gær. Held helst að ég hafi tekið svona vel á því í flæðiæfingunum hafi því strengirnir eru einmitt á því svæði. Skrýtið samt, að mér fannst þessar æfingar aðeins minna mál heldur en sumar kviðæfingarnar. En þetta er bara gott mál. Næ þessu örugglega úr mér í tímanum í fyrramálið.

Rölti upp í Perluna rétt fyrir átta í gærkvöldi á fund með foreldrum barnanna í bekknum hans Davíðs Steins. Það mættu aðeins um tíu en fundurinn var bæði fróðlegur og skemmtilegur. Það voru stofnaðir vinahópar innan bekkjarins. Fjórir í hóp sem verður skipt strax upp eftir að búið er að hittast. Ætlunin er að ná 3 "fundum" á næstu þremur mánuðum. Og reglurnar eru einfaldar; Það má ekki nota myndbönd, tölvur eða tölvuleiki og þetta á ekki að kosta neitt! Ég bauð mig fram sem hópstjóra amk í fyrstu umferðina og held að þetta geti orðið virkilega skemmtilegt. Meira um þetta seinna.

Ég er að lesa Ævinlega eftir Guðberg Bergson og er stórhrifin þótt ég sé ekki komin langt með bókina.

7.2.06

- Vikan komin á skrið -

Það má varla blikka augunum og það er kominn nýr dagur. Á sunnudagsmorguninn (klukkan níu) mættum við öll með Oddi Smára í Fylkishöllina til að fylgjast með honum í karatekeppni. Keppt var í kata í fjórum aldursflokkum, 1994-1997. Oddur fékk heldur hærri einkunnir heldur en á fyrstu keppninni sinni í nóvember sl. en hann var samt ekki ánægður. Hann kann þetta allt saman en við sögðum honum að hann þyrfti bara að vera duglegur að æfa sig í annan tíma heldur en í karatetímunum og þá myndi hann örugglega fá betri einkunnir.

Í gærkvöldi fór ég til norsku vinkunu minnar og setti upp hjá henni esperantokúrsinn sem ég er nýbúin að finna á netinu. Esperanto-tíminn okkar var extra langur en við erum alltaf að finna okkur betur og betur.

Á rope-yoga námskeiðinu í morgun gerðum við allar 10 kviðæfingarnar ca. 20 sinnum og lærðum svo 3 flæðiæfingar af átta. Strax í annarri kviðæfingu var farinn að leka af mér svitinn. Ég er búin að ná þokkalegum tökum á önduninni og mörgum af æfingunum 10 en á svolítið í land með amk tvær æfingar. Önnur þeirra er svokölluð skíðaganga og kviðurinn minn virðist ekki vera nægilega sterkur til að gera þá æfingu 100%. En þetta kemur vonandi. Hreinsunin er farin að skila sér í auknum salernisferðum og þá get ég verið sátt. Ef ég verð dugleg að passa mig á kaffinu (hámark 2 bollar á dag, stundum minna og stundum kannski 1-2 auka)er ég viss um að ég get haldið bjúgnum í góðum skefjum.

Tvíburarnir skráðu sig í orkuátakið á netinu í gær. Það var reyndar svokallað tölvubann í gær og þeir ætluðu ekki að láta vita að þeir væru búnir að skrá sig. Sögðust hafa leyft vini sínum að nota tölvuna þeirra til að skrá árangur og báðu mig um leyfi til að skrá sig í átakið á morgun (í dag)! Ég eyðilagði þetta plat þeirra með því að bjóða þeim að skrá sig á átakið í gærkvöldi með aðstoð pabba síns. Ég var svo sem ekkert að skamma þá fyrir þetta hliðarspor, benti þeim bara á að "upp komast svik um síðir" svo það væri betra að segja alltaf satt og rétt frá.

3.2.06

- Föstudagskvöld -


Í gær hlóð ég niður esperantonámskeiði sem ég fann link á á þessari síðu. Á þessu námskeiði getur maður æft framburðinn og réttritunina ásamt mörgum öðrum þáttum. Fínt hjálpartæki!

Við mæðginin drifum okkur í sund seinni partinn í dag. Ég synti svo sem ekki mikið (fyrst 200 metra og svo 100 metra í samfloti með strákunum). Já, þeir syntu eina ferð fram og til baka. Davíð Steinn er mun hraðsyndari en Oddur Smári kemst yfir þótt hægt fari. Ég mátti ekki skipta mér af sundtækninni hans, en mér fannst hann nota hálfgerða kafsundstækni þótt hann kæmi alltaf uppúr kafi eftir hvert sundtak. En hann er amk hættur að synda alveg meðfram bakkanum.

Góða helgi!

2.2.06

- Rope yoga námskeið hálfnað -

Þrátt fyrir rétt rúmlega fimm stunda svefn í morgun dreif ég mig í yoga. Hef tekið eftir því að þá daga sem ég byrja á yoga er ég í stuði allan daginn og mjög létt yfir mér og fíflast stundum hægri og vinstri, he he (ekki það að ég sé neitt þung alla hina dagana þótt það komi fyrir). Í morgun gerðum við allar 10 kviðæfingarnar og allar 9 hliðaræfingarnar á hvorri hlið. Mér tókst að telja og anda rétt í þeim flestum (gerðum hverja æfingu 12 sinnum) það var samt tími til að teygja aðeins og slaka pínu alveg í restina.

Gærdagurinn var vægast sagt annasamur en ég notaði þessar fáu "milli mínútur" skynsamlega. Það var foreldrafundur í drengjakórnum á meðan að þeir voru á æfingu. Verið var að segja frá því sem er framundan og ræða tilvonandi utanlandsferð. Rétt í restina undir dagskrárliðnum önnur mál rétti ein móðir upp hönd. Hún fékk orðið: "Íslendingar töpuðu með einu marki 28:29!" Þetta hefur greinilega verið mikill baráttuleikur, en slæmt var að missa Einar Hólmgerisson, ég fer ekki ofan af því að sum handboltaliðin hreinlega æfa "alveg óvart gróf brot" og virðast oft komast upp með það.

Oddur Smári var kominn fyrstur heim eftir karateæfingu, Davíð kom rétt fyrir átta og ég var mætt á kóræfingu á slaginu hálfníu. Það var létt yfir mannskapnum og við fengum að spreyta okkur á mörgum lögum. Rúmir tveir tímar, með 15 mín kaffipásu inn á milli, voru ótrúlega fljótir að líða.