29.11.05

- Vika liðin -
eða hér um bil

Sl. föstudag leysti ég Davíð af um hádegi. Oddur Smári var með magapest og ég var svona með það á bak við eyrað að koma heimilinu í þokkalegt horf svo það væri ekki allt eftir um helgina. Reyndin varð sú að ég lagðist með tærnar upp í loft og las góða bók: "Nóttin hefur þúsund augu" eftir Árna Þórarinsson. Þetta var hin besta skemmtun og mæli ég eindregið með þessari bók!

Sama kvöld hringdi æskuvinkona mín í mig til að kanna hvort ég yrði vant við látin á laugardeginum. Ég hélt nú ekki. Ég hagræddi bara dagskránni hjá mér og var svo að "skottast" með henni fram eftir degi, eða til fjögur. Eftir það dreif ég mig í Esperanto-stund.

Á sunnudaginn urðum við Davíð að skipta okkur. Oddur Smári tók þátt í karatekeppni í Smáranum en Davíð Steinn söng með Drengjakórnum, undirbúningsdeildinni, unglingakórnum, skólakór Austurbæjarskóla og Módettukórnum í aðventumessu í Hallgrímskirkju. Davíð sá um karatemálin en ég var "að kirkjast" allan daginn því ég söng með kirkjukórnum mínum eftir hádegi. Þetta var mjög notalegur dagur og helgin alveg frábær!!!

23.11.05

- Hálfnuð -

Var með lifur í kvöldmatinn í gær og notaði aðra uppskrift heldur en síðast. Davíð er ekkert sérlega hrifin af svona mat en hann fékk sér samt tvisvar á diskinn svo þetta hlýtur að hafa heppnast vel.

Um kvöldið skrapp ég til þeirrar vinkonu minnar sem á allt af öllu til kortagerðar. Var þar fyrir viku líka. Að þessu sinni gerði ég einungis þrjú kort en ég var líka að prófa mig áfram með nýtt útlit. Kvöldið leið alltof fljótt en mér tókst að líta upp úr kortagerðinni um ellefu.

Fljótlega eftir að ég kom heim hlustaði ég á heimalestur tvíburanna. Þeir áttu svo að ganga frá skóladótinu en einhverra hluta vegna varð lestrarbók Odds Smára eftir á borðinu. Þegar ég bað hann um að ganga frá henni sagði hann orðrétt: -"Hvað er þetta kona, afhverju gleymdir þú að rétta mér þetta áðan?" Rétt fyrir fimm þurftum við svo að rjúka af stað. Annar var á leið á kóræfingu en hinn á knattspyrnuæfingu. Í bakaleiðinni kom ég við í fiskbúð.

Ég settist aðeins niður til að líta yfir bókhaldstölur og reikninga. Þetta er ákveðið verkefni sem ég tók að mér fyrir stuttu og það er best að vinna þetta jafnóðum og fylgjast vel með svo ekki safnist upp. Er eiginlega alger græningi í þessum málum en þetta lærist fljótt (hef svo sem ágætis reynslu þar sem heimilisbókhaldið er yfirleitt á mínum snærum). En nú er mér ekki lengur til setunnar boðið, það er margt sem bíður afgreiðslu hér heima (bókhaldsmálin eru þó frá í bili!)

22.11.05

-Smá stund hér -
...og smá stund þar...

Ef maður skrásetur ekki reglulega tínist sumt niður. Ég er samt ekki að "tala" um að það þurfi að skrá allt niður, en stundum er svo mikið að gera og margt af því langar mann til að segja frá eða bara eiga til að ylja sér við minningarnar seinna.

Á laugardagsmorguninn skruppum við strákarnir á Kjarvalsstaði til að hitta foreldra og bekkjarsystkyni annars tvíburans. Við mættum fjórar, allar með tvö börn, svo allt í allt vorum við 12. Eldri börnin byrjuðu á því að fara í skemmtilegan ratleik um safnið og svo var sest niður á kaffiteríuna. Þar gátu krakkarnir teiknað eða lesið ef þau vildu. Morguninn leið hratt og komið var fram yfir hádegi þegar hópurinn leystist upp. Áður var samt ákveðið að hittast þarna reglulega því staðurinn býður upp á svo margt.

Tvíburunum var boðið í afmæli til fyrrum bekkjarbróður síns úr Ísaksskóla eftir hádegi á sunnudag. Afmælið byrjaði um tvö og átti að vera til c.a. sex eða svo. Hluta af tímanum notuðum við Davíð til að versla inn og "rákumst í leiðinni á" nokkrar jólagjafir. Davíð hefur aldrei keypt jólagjafir svona snemma enda komst hann í jólaskap, rúmum mánuði fyrir jól, he, he.

Annars er allt í þokkalega góðum gír.

21.11.05


Fræðatröll

Þú ert vanafastur, tilfinningaríkur innipúki.
Fræðatröllið er forvitið að eðlisfari og er köllun þess í lífinu að komast að sannleikanum. Fræðatröll má gjarnan finna í dimmum skúmaskotum bókasafna þar sem þau rykfalla og sussa á aðra gesti safnsins. Fræðatröllið klæðist gjarnan flaueli - nema þegar það er í tísku. Hringitónninn í síma þess er stefið úr þættinum Nýjasta tækni og vísindi, sem það grætur stöðugt að sé ekki lengur á dagskrá.

Hvaða tröll ert þú?

20.11.05

Ljúfur morgunn líst mér á
langar til að kúra.
Samt ég ætla kaffi' að fá
og drífa mig að skúra.

Margar bækur bíða eftir
betri athygli að fá.
Stuttur tíminn heftir, heftir
honum ekki má lá.

Í mér einhver blundar þrá
ég verð að kryfja málið.
Öðruvísi mér áður brá
úúú, stórt er orðið bálið.

19.11.05

- Í vikulokin -

Þið eruð örugglega að gefast upp á mér þið sem hafið verið svo dugleg að heimsækja síðuna mína. Ég þori ekki að lofa neinu nema því að ég er svo sannarlega ekki hætt á þessum vettvangi.

Það var frábært á óperunni og skemmtum við mæðginin okkur vel. Við sátum efst uppi á svölum en sáum samt þokkalega. Óperan var flutt á ensku og fannst strákunum sniðugt að sjá að efst í loftinu var tjald þar sem lesa mátti íslenska þýðingu á því sem fram fór. Annar strákurinn sat grafkyrr á meðan verkið var flutt, hinn þurfti aðeins að spyrja og spá. Báðir fylgdust þeir samt vel með því sem fram fór á sviðinu. Eftir á voru þeir spurðir af einum óperugesta hvernig þeim hafði fundist óperan. Oddur Smári velti strax fram þeirri spurningu hversvegna drengurinn hefði dáið þegar hann hafði sagt til aðaldraugsins? Davíð Steini gafst kostur á því að hitta Ísak og hina óperusöngvarana eftir sýningu en hann var of feiminn til að þekkjast boðið.

Á sunnudagDavíð um að fara með strákunum í keilu sem var á vegum foreldrafélgas Þórshamars. Ég var að syngja með kórnum mínum við messu þar sem látinna var minnst og þar að auki einn drengur skírður. Kirkjan var alveg full og stundin mjög notaleg þrátt fyrir mistök í einu laginu (Tears in heaven sem var flutt í styttri íslenskri útgáfu).

Skutlaði Davíð Steini á kóræfingu seinni partinn á mánudag og fór sjálf á fund í foreldrafélaginu á meðan. Er við komum heim aftur hjálpuðumst við strákarnir að við að gera brauðtertu (sem við tókum með okkur á bekkjarskemmtun seinna í vikunni). Um kvöldið kom norska vinkona mín yfir til mín í Esperanto-stund. Davíð var að keppa í pílu með strákunum úr vinnunni sinni en við Inger héldum okkar striki hérna meginn. Bráðum getum við farið að tjá okkur betur á þessu skemmtilega tungumáli. (Esperanto estas lingvo).

Þriðjudagskvöldin eru yfirleitt föndurkvöld og að þessu sinni skrapp ég til annarar föndurvinkonu minnar sem er nýbúin að fá mest af sínu föndurdóti sent frá London þar sem hún bjó í nokkur ár. Hún á ýmislegt til og svo mikið. Spennandi! Hún bauð mér að nota það sem ég vildi og áður en ég vissi af var ég komin á kaf í jólakortagerð. Bjó til amk 8 jólakort og er ég sérstaklega ánægð með tvö þeirra; upphleypt tvö kerti og greinar á hvítu korti. Ég litaði kertin og greinarnar með einhvers konar krít.

Ég sótti Huldu frænku á leikskólann strax klukkan fjögur á miðvikudag og tók hana með mér, fyrst heim og svo á skólaleikrit 4HP. Davíð Steinn og bekkjarfélagar hans voru að sýna söngleikinn Mjallhvít og dvergarnir 12. Hann lék skógarálf og veiðimann vondu drottningarinnar. Þetta var hinn besta skemmtun og stóðu krakkarnir sig alveg frábærlega vel. Leiksýningin tók um klukkustund og svo var boðið upp á kaffi og alls konar góðgæti. Ég stoppaði stutt við heima eftir bekkjarkvöldið því það var kóræfing og við erum komin á fullt með jólatónleikaprógrammið sem verður að mestu leyti nokkrar Ave Maríur (bæði kór og einsöngur) og jólalög.

Á fimmtudagskvöldið bjuggum við strákarnir til aðra brauðtertu sem við tókum með okkur á bekkjarskemmtun 4BH í gærkvöldi. Odds bekkur sýndi líka söngleikinn Mjallhvít og dvergarnir 12. Hann lék dverginn Kát og prinsinn. Þetta var líka alveg frábær skemmtun og gaman að fá tækifæri til að sjá svona tvær útgáfur af sama leikritinu.

Þetta var það helsta og framundan er alveg nóg. Ætla samt að reyna að skrásetja reglulega það er mun betra heldur en að vera með langa, langa romsu!

12.11.05

- Aftur komin helgi -

Jæja, á ég nokkuð að vera að tjá mig um æðubunuganginn í tímanum, heldur bara reyna að njóta augnabliksins út í æsar. Og segja svona frá því helsta!?!?!

Á miðvikudaginn tók ég að mér smá frænkuvakt eftir að hafa skutlað Davíð Steini á kóræfingu. Strax eftir passið skutlaðist ég með Odd Smára á fótboltaæfingu og fór svo beint upp í kirkju til að aðstoða við auka kertapökkun (það selst greinilega vel). Davíð sótti Odd af æfingu og sá um matinn. Þeir feðgar þurftu að koma við í verslun á heimleiðinni þannig að við Davíð Steinn urðum aðeins á undan heim. Rúmum klukkutíma eftir að ég kom heim var ég farin aftur á kóræfingu. Það gekk vel. Verið var að æfa fyrir jólatónleika og næstu messu sem er víst á morgun.

Það sem er framundan er m.a. ferð í Óperuna í kvöld. Er búin að bjóða strákunum með mér á síðustu sýningu á: "Tökin hert".

Oddur Smári er svo búinn að bjóða bróður sínum með sér í keilu (sem er á vegum karatefélagsins) á morgun og hver veit nema við getum svo skroppið á handboltaleik seinni partinn sama dag...?!?!

9.11.05

- Jólakortagerð -
-yndislegt kvöld-

Ég var mætt til "tvíburahálfsystur" minnar upp úr klukkan hálfníu í gærkvöldi. Hafði sagt við Davíð, er ég fór að heiman, að ég ætlaði mér að vera komin heim um ellefuleytið. Í upphafi kortakvöldsins var ég ekki viss um að hugmyndaflugið væri með í för en ég hrökk fljótlega í gang. Við "tvíburahálfsysturnar" spjölluðum mikið allt kvöldið og tvisvar var ég búin að búa til hin glæsilegustu kort sem reyndust svo snúa öfugt. Það var auðvelt að bjarga því og við hlóum bara að þessu. Ég leit á klukkuna upp úr tíu og sá að ég hefði alveg nógan tíma í að halda smá stund áfram. Næst þegar ég leit á klukkuna var hún að verða hálftólf en þá var ég líka búin að búa til 12 kort og nú vantar mig bara rétt rúmlega 20 kort.

8.11.05

- Skottið farið -

Oddur Smári fór í klippingu í gær og lét m.a. klippa af sér skottið. Hann bað samt um að fá að eiga það til minningar.

Eftir kvöldmat skruppum við mæðginin í stutta kertasöluherferð og gekk bara þokkalega miðað við að við vorum aðeins tæpan klukkutíma og að Rauði Krossinn var nýbúinn að vera á ferðinni.

Þegar strákarnir voru farnir í rúmið og Davíð var sestur við tölvuna skrapp ég yfir til norsku vinkonu minnar í esperantotíma. Tók jólakortin sem ég er búin að gera með mér til að sýna henni. Mér telst til að ég sé búin að búa til 30 kort, rétt tæplega hálfnuð...

7.11.05

- Skemmtileg helgi að baki -

Örfréttir. Notaði laugardagsmorguninn nokkuð vel í ýmsan undirbúning. Komst samt ekki yfir allt. Ingvi skutlaði Huldu til okkar um leið og hún var búinn í ballettíma og þá brunuðum við af stað. Stoppuðum á einum stað á Selfossi til að skila af okkur kertapakka og "hvíla okkur".

Komum á Hellu seinni partinn og vorum ekki búin að vera lengi þegar við Davíð Steinn, ég og Hulda fórum í kertasöluleiðangur. Rak inn nefið til föðurbróður míns örstutta stund í leiðinni, ætlaði að gefa mér betri tíma daginn eftir. Það fór þó á allt annan veg. Komst samt í óvenju margar heimsóknir þessa helgi miðað við þann stutta tíma sem ég hafði.

Krakkarnir voru mjög góð saman og bar varla skugga á leikina allan tímann. Ég skrapp með þau í sund eftir hádegi á sunnudag. Helmingurinn af þeim tíma sem við vorum "í sundi" fór í hárgreiðslu og flókalosun hjá Huldu. Hún stóð sig mjög vel miðað við hvað hún er hársár og náði að greiða heilmikið sjálf. Slökuðum vel á hjá pabba og mömmu (afa og ömmu) eftir sundið.

Klukkan var fimm þegar ég skilaði Huldu heim til sín eftir skemmtilega og viðburðarríka helgi. Rétt eftir kvöldmat fórum við mæðginin í kertasöluherferð í götunni okkar. Höfðum c.a. einn og hálfan tíma og seldum nokkuð vel, bæði af kaffi og kertum.

4.11.05

- Föstudagskvöld -

Við Davíð Steinn erum nýkomin inn úr smá kertasölu-leiðangri. Salan gekk bara nokkuð vel en það er ljóst að vinsælusti liturinn er hvítur í ár. Við seldum samt nokkra pakka af jólarauðum, vínrauðum og fílabeinshvítum líka, og við erum bara rétt að byrja.

Fyrr í kvöld fór ég með Oddi Smára á karateæfingu, horfði á allan tímann og skemmti mér vel. Þetta þyrfti ég að gera reglulega en ég sé samt ekki að ég komist aftur alveg á næstunni. Ég mun þó örugglega fylgjast með þegar hann tekur næstu gráðu (1/2 appelsínugult belti) eftir c.a. mánuð eða svo.

Í gærkvöldi fórum við Davíð bæði á foreldrafund. Það var nokkuð vel mætt á fundinn og greinilega mikill kraftur og samstaða í hópnum. Eftir að ég kom heim settist ég niður með saumana mína (er langt komin með að sauma þriðja jólakortið, mynd af jólasveini með brúnan poka á bakinu og grenigrein í fanginu). Þetta var mjög afslappandi og notalegt en ég fór heldur seinna að sofa en ég ætlaði mér.

Á miðvikudaginn aðstoðaði ég við að pakka kaffi sem sumir strákarnir ætla að bjóða til sölu með eða í staðinn fyrir kerti. Við vorum að pakka alveg þangað til kóræfingin var búin. Það var svo kóræfing hjá mér seinna um kvöldið. Við æfðum m.a. jólalög fyrir tónleikana og eitt mjög fallegt lag sem syngja á í næstu messu (annan sunnudag).

Framundan er annasamur en mjög skemmtilegur tími sem ég hlakka til að takast á við. Góða helgi og farið vel með ykkur!

2.11.05

- Það er kominn nóvember -

Helga systir er árinu eldri í dag. Til hamingju með daginn! Dagarnir láta ekki bíða eftir sér frekar en fyrri daginn og ég er með hálfgerð fráhvarfseinkenni, ég kemst svo sjaldan í að skrásetja og kíkja á bloggvini mína og ættingja. En það koma dagar, ég er viss um það.

Alltaf nóg að gera á öllum vígstöðvum og ég gæti alveg þegið fleiri klukkustundir í sólarhringinn eða jafnvel fleiri daga í vikuna, mánuðinn, árið.... En kannski er rétt að kvarta ekki of mikið yfir annríkinu því ég veit um fleiri sem hafa enn meira að gera heldur en ég og kvarta ekki.

Á laugardagskvöldið var kíkti bróðursonur hans pabba í heimsókn. Konan hans var í konuteiti (hann notaði reyndar annað orð, he he) og mér fannst það vel til fundið hjá honum að kíkja til okkar á meðan.