31.8.05

Brot minninganna
ég tíni þau upp
eitt af öðru
öll brotin
sum glitrandi fögur
önnur kámug
eða
nær gleymd
og
ég spyr sjálfa mig:
á ég að geyma þau lengur?

30.8.05

- Lítið eftir af mánuðinum -

...bara þessi dagur og morgundagurinn og þá er kominn september.

Í gærmorgun leyfði ég strákunum að sofa eins lengi og tíminn leyfði. Það var vitað mál að þetta yrði erfiður dagur. Oddur Smári var fljótur að drífa sig og það endaði með því að hann ákvað að vera ekkert að bíða eftir bróður sínum. Davíð Steinn varð samt ekkert of seinn í skólann. Morguninn leið hratt, alltof hratt. Davíð fór til vinnu um hálfníu. Ég gaf mér rúman tölvutíma en kom samt einhverju í verk (það virðist sem hægst hafi á verkgleðinni).

Helga og Bríet litu inn rétt áður en strákarnir komu heim úr skólanum. Sú stutta var nokkuð kammó við mig en passaði þó vel upp á mömmu sína. Bríet hitti Emmu, kött nágrannanas, og varð þetta líka hrifin. -"Voff, voff", sagði hún skýrt og greinilega. Þær mæðgur náðu að hitta tvíburana er þeir komu, en varla meira en svo því það var greinilega kominn tími fyrir litlu skrudduna til að leggja sig.

Skólinn byrjar rólega hjá strákunum, sem betur fer, en í gær kom þó heimanámsmiði með. Þeir eiga að lesa 2-3 bls. í bekkjarlestrarbókinni daglega nema á föstudaginn. Davíð Steinn byrjaði (á meðan Oddur Smári "bloggaði") og var greinilega, mjög, mjög þreyttur. Hann lét alveg eins og kjáni. Hann náði þó að klára verkefnið. Oddur Smári kláraði skylduverkefnið fljótt og vel og las því næst í Harrý Potter og eldbikarinn fyrir okkur. Svo fór allt í háaloft í smá stund. Það lagaðist eftir að við fengum okkur hressingu.

Strákarnir féllust svo á að reyna að klára smá-sorteringar í herberginu sínu. Þótt ég væri með þeim við verkið þá náðum við ekki að klára en það er svo lítið eftir. Síðan settum við öll á okkur svuntur og undirbjuggum matinn, höfðum alla fiskana, gufusoðna og með nýjum kartöflum og sallati, (12 stykki) sem Oddur Smári veiddi um helgina (eigum svo Davíð Steins fiska og nokkra fleiri til góða seinna). Borðuðum í fyrra fallinu vegna leiksins Valur - ÍBV 1:1

Við mæðgin komum heim af leiknum um átta og þá var löngu búið að ákveða að drífa sig í háttinn. Þeir voru nokkuð fljótir að sinna öllum kvöldverkunum svo í las fyrir þá í 15 mín (úr bók í bókaflokknum Gæsahúð). Samt voru þeir sofnaði um níu.

29.8.05

- Öðruvísi helgi -

Tvíburarnir voru sóttir fljótlega eftir skóla á föstudaginn var. Það var afi þeirra á Bakkanum sem var búinn að bjóða þeim með þeim hjónum og öðrum sonarsyni í bústað yfir helgina.

Laugardagurinn var svolítið skrýtinn hjá mér. Það var margt sem þurfti að gera og margt sem mig langaði að gera og svo fór þetta bara einhvern veginn. Davíð fór stuttu fyrir hádegi að hjálpa bróður sínum og Hugborgu að flytja. Ég bað hann um að hringja þegar þau kæmi í bæinn. Hjá mér var dagurinn svona "úr einu í annað" dagur. Kom einhverju í verk en um miðjan dag stóð ég mig að því að vera að bíða. Og ég beið og beið...
Davíð kom heim klukkan sex, án þess að hafa hringt, það gleymdist í öllum hamaganginum. Ég hefði betur drifið mig á tónleika í Kerinu og Hallgrímskirkju.

Í gær dreif ég mig enn fyrr á fætur. Von var á systurdætrum mínum sem ég hafði tekið að mér að passa í nokkra tíma. Ágætt að prufa hvernig væri að eiga stelpur! Foreldrarnir komu með þær um níu. Morguninn fór í söng og dans og fleira með stelpunum. Hélt mig passa upp á það að systurnar fengju báðar jafnmikla athygli. Samt sagði Hulda einu sinni:
-"Anna Sigga, ég vil líka fá athygli!" (ekki Anna frænka eins og hún er vön heldur Anna Sigga).

Bríet fór út í vagn rétt fyrir eitt. Davíð var að reyna að vinna hér heima svo við Hulda gátum skroppið í smá göngu. Hún hjálpaði mér með ruslið og svo fórum við með blöð og fernur í næsta gám. Löbbuðum smá hring en þegar við komum til baka fór ég með hana í Áfram fyrsti bekkur. Henni gekk mjög vel og hafði hún alveg þolinmæði í ca. hálftíma vinnu. Seinna perluðum við saman og ég var að ljúka við að strauja "perluhringinn" hennar þegar Bríet vaknaði eftir tveggja tíma lúr. Hulda var að hlusta á "Tryggur og Traustur" og fleiri diska og ég leyfði henni að loka sig af til að fá frið fyrir litlu skruddunni. Helga og Ingvi sóttu stelpurnar um fjögur og stoppuðu stutta stund. Ekki lengi samt því von var á vinkonu Huldu í heimsókn til þeirra og Helga var að fara að vinna.

Davíð vann í tölvunni til klukkan að ganga sex en svo dreif hann sig af stað til að sækja tvíburana. Ég varð eftir heima því það var messa í gærkvöldi. Þetta var önnur messa haustsins en fyrsta kóræfingin var sl. miðvikudagskvöld. Messan var svolítið öðruvísi en oftast áður. Séra Pétur var í leyfi (hann sendi okkur hlýjar kveðjur rétt fyrir messu) og tvær konur hjálpuðust að við að þjóna söfnuðinum. Sú sem stjórnaði, var að syngja sína fyrstu heilu messu eftir að hún tók vígslu. Stólræðan hennar var mjög góð, hún hélt amk. athygli minni allan tímann (ég hugsaði líka á meðan að þetta væri alveg í anda Péturs). Kórinn er vanur að syngja messu tvö en í gærkvöldi sungum við messu eitt og voru flest svörin án undirleiks. Þetta gekk alveg bærilega. Það hefur fækkað í öllum röddum nema altinum og tvær úr sópran voru í fríi svo við sungum allt einraddað. Fyrir og eftir prédikun söng Júlíus Vífill einsöng við undirleik kórstjórans. Semsagt góð messa í alla staði, og sérstaklega fyrir sálartetrið!

27.8.05

- Á bókasafninu -

Í vikunni fyrir sumarfrí fór ég á bókasafnið og fékk mér að láni 15 bækur til viðbótar við eina sem ég var hálfnuð með að lesa og ráðgátubók sem strákarnir höfðu verið að lesa. Skilafresturinn á öllum þessum bókum rann út í dag. Ég fór á safnið í gær og skilaði níu bókanna, framlengdi hinum átta, endurnýjaði skírteinið og merkilegt nokk þá sat á mér að taka mér fleiri bækur að sinni.

Af þessum níu bókum sem ég skilaði í gær langar mig sérstaklega til að mæla með bókum Rögnu Sigurðardóttur; "Borg", "Skot" og "Strengir". Þá fyrst nefndu hafði ég með mér í bústaðinn. Stíllinn, fannst mér sérkennilegur því sögusviðið, Reykjavík, var bæði kunnuglegt og ókunnuglegt. Þegar ég kom úr bústaðnum og sá að ég hafði tekið fleiri bækur eftir sama höfund gat ég varla beðið eftir að lesa þær bækur. Ég lét það samt ekki eftir mér fyrr en nú í vikunni. Það var of margt sem ég hreinlega varð að gera fyrst. Ekki er ég nú búin að öllu því sem ég ætlaði mér en taldi mér samt trú um að ég mætti nú alveg fara að gefa bókunum smá gaum og ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Ég er einnig búin að lesa "Vegurinn heim" eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur og fannst mér hún vel skrifuð og taka vel á efninu; Hver er réttur skilnaðarbarna?

Ég lifði mig inn í allar þessar bækur en það er kannski ekkert að marka mig því ég fer yfirleitt inn í bækurnar eða myndirnar sem ég les eða horfi á. Og ég á eftir að lesa 8 bækur af ýmsum toga næstu vikurnar. Ég ætla mér samt ekki að leggjast í lestu því það er auðvelt að framlengja skilafrestinn...

26.8.05

- "Morgunstund gefur gull í mund" -

Davíð var að vinna fram eftir nóttu. Hann var þó hér heima og náði næstum að ljúka við verkið. Ég læddist fram stuttu fyrir sjö. Engin hreyfing á strákunum. Fimm mínútum yfir sjö fór ég inn til tvíburanna.
-"Hey, mamma, ég átti ekki von á neinum. Mig var að dreyma svo skemmtilega"!, sagði Oddur Smári. "Má ég kúra lengur"?, bætti hann við. -"Já, í tíu mínútur". Á meðan knúsaði ég Davíð Stein, sem líka vildi kúra lengur.

Oddur Smári var glaðvaknaður eftir örstuttastund, sagðist vera búinn að klára drauminn. Seinna settist ég niður með þeim á meðan þeir borðuðu morgunmatinn. Ýmis mál, sem ekki náðist að tala út um í gærkvöld, voru rædd og vonandi gerð upp. Það er mikil samkeppni á milli bræðranna og stundum mikil þykkja. Oftast eru þeir þó góðir vinir og leika sér saman. Þeir eru amk. alltaf samferða í og úr skólanum. Nema reyndar eftir hádegi í gær. Ég var svo utan við mig, hafði ekki lesið upplýsingarnar á stundarskránum nægilega vel yfir. Odds bekkur var í skólasundi í gær. Sem betur fer var góður tími frá því síðasta tíma lauk og þar til rútan átti að fara frá skólanum. Stráksi skaust heim og bað mig um sunddótið sitt og ætlaði svo að rjúka út í skóla aftur með skólatöskuna á bakinu. Þegar ég var búin að kanna upplýsingarnar á stundarskránni sagði ég Oddi að koma aðeins inn, setja töskuna inn í herbergið sitt og fá sér smá hressingu áður en hann færi aftur.

Davíð Steinn kom heim á peysunni (hafði gleymt húfunni og jakkanum í skólastofunni of fattaði ekki að hann hefði geta beðið einhvern af skrifstofunni að opna fyrir sér). Annars var hann frekar fúll yfir að Oddur skyldi fara heim á undan honum. En við áttum svo góðan tíma saman á meðan á sundtímanum stóð. Hann las fyrir mig og við spjölluðum og svo samdi hann við mig um að fá að fara smá í playstation. Hann fékk hálftíma.

Fótboltaæfingin féll niður þannig að Oddur Smári hafði tíma til að lesa fyrir okkur bróðir sinn er hann kom heim aftur. Svo voru þeir roknir út.

25.8.05

- Passían -

Já, ég fór á tónleikana á mánudagskvöldið. Mamma sótti Davíð Stein um sex, því líkt og hina tvo dagana á undan var mæting í kirkjukjallarann þremur korterum fyrir tónleika. Davíð kom heim mátulega til að skutla mér.

Ég var mjög spennt fyrir kvöldinu. Fékk sæti aftarlega, þeim megin sem krakkarnir, kórstjórinn og mamma komu upp úr kjallaranum. Allir kórarnir sungu saman í 1. hlutanum, Mótettukórinn skiptist í tvo kóra og drengja- og unglingakórinn sungu saman þann hluta sem Bach samdi fyrir drengjakór. Strax eftir 1. hluta settust síðast nefndu kórarnir og hjá þeim tók við næstum klukkustundar bið á meðan Passían var rakin áfram af hljómsveit, einsöngvurum og Mótettukórnum (inn á milli gátu einsöngvarar og kórar sest niður, t.d. þegar e-r einsöngvarinn söng aríu). Tónleikagestir fengu í upphafi skrá til að fylgjast með og lifði ég mig inn í þennan heim. Rétt áður en fyrri hlutanum lauk (þegar guðspjallamaðurinn sagði frá því er allir lærisveinarnir flýðu Jesú) stóðu drengja- og unglingakórinn upp aftur og sungu sálm með Mótettukórnum.

Davíð sótti nafna sinn eftir hléið en við mamma sátum áfram allt til loka. Ég hélt áfram að lifa mig inn í verkið og hreyfst með allan tímann. Það var greinilegt að mikil vinna lá að baki þessari uppsetningu og finnst mér að Hörður Áskelsson hafi unnið þrekvirki. Hann gerði það samt ekki einn, allir lögðust á eitt og skiluðu sínum hlutverkum frábærlega. Það var samt eins og sá sem söng hlutverk Jesú væri stundum rámur eða kannski kaldur. En það gæti hæglega verið af því að stundum leið langt á milli söngatriða hans og oft þá söng hann bara stuttar setningar. Það hlýtur að vera erfitt að halda raddböndunum heitum í lengri tíma og þurfa svo að syngja tvö þrú orð...
Þetta kom mér svolítið á óvart!



...og óvíst að allir séu sammála þessu! ;) He, he, hemm....

- Skólasetning -

Klukkan hálfþrjú, sl. mánudag vorum við mæðginin mætt í hátíðasal Hlíðaskóla. Bræðurnir hittu þar fyrir einn bekkjarbróður sinn úr Ísaksskóla og settust hjá honum. Skólastjórnendur buðu börnin og aðstandendur velkomin, kynntu kennara árgangsins sem svo lásu upp bekkjarskrárnar sínar. Strax eftir að fyrsti kennarinn hafði lesið upp sinn bekk kom í ljós að aðeins annar tvíburinn var þar á meðal. Reyndar skiptust "skólabræðurnir" þrír niður í alla þrjá bekkina á árganginum. Ég þurfti því að klóna mig, en það gekk alveg ágætlega því skólastofur tvíburanna eru hlið við hlið aðeins gangurinn á milli. Annar drengurinn var himinlifandi en hinum leið svolítið undarlega. Þeir þekkja samt báðir einhverja í bekknum sínum. Mér líst vel á kennarana, á samt eftir að hitta annan kennarann aðeins betur.

Kennsla hófst samkvæmt stundarskrá strax á þriðjudagsmorgun. Fimm korterum fyrr (6:55), hitti ég annan strákinn minn við herbergisdyrnar þeirra bræðra (var á leiðinni inn að vekja þá).

-"Mamma, ætlaðir þú ekki að vekja mig klukkan hálfsjö"! spurði hann stórhneykslaður.

Þeir bræður urðu samferða í skólann, annar spenntur en hinn svolítið kvíðinn. Ég sat eftir heima með jafn blendnar tilfinningar. Margar spurningar flugu í gegnum huga minn og mér varð lítið úr verki (nema kannski tölvuverki...). Um eitt dreif ég mig samt út og skundaði í fiskbúð. Sú ferð tók mig hálftíma, var líklega að koma heim um svipað leyti og hringt var út úr síðasta tíma í 4. bekk.

Þegar strákarnir komu heim höfðu þeir báðir frá mörgu að segja og þurftu báðir að tala í einu. Ég tók þá það til bragðs að senda Odd Smára í PC-tölvuna í ca . 15 mínútur. Davíð Steinn hefði helst vilja fá að fara í tölvuna fyrst en hann hafði líka mikið að segja mér og þar að auki átti hann að gera smá heimaverkefni. Eftir gott spjall teiknaði hann mynd af kofanum (ég þekkti hann strax) sem þeir bræður smíðuðu hjá afa sínum og ömmu á Bakkanum í sumar. Ég var að tala við Odd meðan.

24.8.05

- Annasamur sunnudagur -

Dagurinn byrjaði snemma en var samt á rólegu nótunum fram yfir hádegi. Æskuvinkonan hafði gist og við höfðum um nóg að spjalla. Horfðum líka með öðru auganu á formúluna. Hún kvaddi fljótlega eftir að úrslit voru ljós. Nokkru seinna skutlaði Davíð okkur nafna sínum á Grettisgötuna en fór svo sjálfur með Oddi sem átti að spila tvo knattspyrnuleiki með sínum flokki við 6. flokk FH. Fjölskylduhátíð var sett á í tilefni í leik liðanna (FH - Valur 2:0) í Landsbankadeildinni um kvöldið.

Við Davíð Steinn ætluðum að hafa það náðugt hjá Helgu til fjögur en fljótlega kom í ljós að ég hafði gleymt að taka spariskóna hans með, úps... Ingvi reddaði mér alveg þar og skutlaðist með mig áður en strákurinn þurfti að skipta um föt. Við mæðgin vorum mætt í kirkjukjallarann rúmlega fjögur. Ég fór að hjálpa til að finna vesti og slaufur á strákana áður en kórstjórinn hitaði krakkana (unglinga- og drengjakórinn) upp fyrir tónleika. Knúsaði svo strákinn minn rétt áður en öll runann lagði af stað upp. Þau þurftu að bíða smá stund, svo lokaði ég á eftir síðasta manni, hringdi í Davíð og var næstum komin heim er hann sótti mig. Davíð var eins og jójó þennan dag því í leikhléinu fór hann og sótti nafna sinn.

Ég held að ég skrifi ekkert um leikinn nema ég skemmti mér vel þrátt fyrir tap og FH-ingar eru vel að titlinum komnir. "Mínir menn" hafa þá að einhverju að stefna fyrir næsta tímabil :).

Á morgun ætla ég svo að skrifa um tónleikana og skólann.
- Menninganóttin -

...við þrjár, æskuvinkonan, ég og mamma tókum strikið á Galleríið við Rauðarárstíg. Þar bar hæst myndasýning Halldórs heitins Péturssonar en einnig sitthvað fleira sniðugt. Þarna eyddum við tæpum hálftíma áður en við röltum yfir á Hlemm og Laugaveginn niður í bæ. Því miður láðist okkur að lesa dagskrána, sem þó var með í för, fyrr en of seint var að snúa við því Tríó Kristjönu Stefáns var með tónleika í Vinnustofu Péturs Gauts. En það varð að hafa það í þetta sinn. Við kíktum inn á nokkra staði og löbbuðum upp á Skólavörðustíg. Alls staðar var eitthvað um að vera. T.d. "Kvæðamaðurinn" með nær alla fjölskyldu sína með sér og fleira og fleira. Stuttu fyrir hálfellefu skyldu leiðir. Mamma ætlaði að sjá flugeldasýninguna efst frá Skólavörðuholtinu áður en hún færi austur aftur.

Æskuvinkonan og ég fórum hins vegar alveg niður í bæ og röltum aðeins um, skimandi eftir stað þar sem hægt væri að setjast niður. Höfðum það stundum sterklega á tilfinningunni að við værum ekki að fara í rétta átt, allur mannstraumurinn virtist stundum mæta okkur. Við fundum sæti inn á Café Rosenberg stuttu fyrir flugeldasýningu og þar sátum við sem fastast og spjölluðum tvær í góðri stemmingu næstu tvo tímana eða svo. Einhverju sinni varð mér litið í kringum mig og þótt gleraugun væru ekki á nefinu á mér þóttist ég kannast við einn ungan mann þarna inni, enda kinkaði hann kolli til mín er við náðum augnsambandi. Þetta var sumsé einn náfrændi minn.

23.8.05

- Síðdegispása -

Nú verð ég að hafa hraðann á og vona bara að ég fari ekki framúr sjálfri mér. Síðustu vikuna voru stífar en þó stuttar æfingar fyrir stórtónleika helgarinnar, aðeins einn dagur í frí, og á laugardagsmorguninn var æfing frá tíu til hálftólf, "generalprufa". Davíð Steinn var frekar hissa hvað þurfti að bíða lengi á milli atriða, en svona er þetta í handritinu.

Stuttu eftir að ég hafði sótt strákinn, hringdi æskuvinkona í mig. Hún var nýkomin heim úr ferðalagi og við þurftum aðeins að spjalla um það og fleira.

Upp úr klukkan tvö urðum við Davíð að skipta okkur niður. Oddur Smári vildi koma með mér og við skunduðum hratt áleiðis á Grettisgötuna til að passa systurnar. Á leiðinni hringdi æskuvinkonan aftur og spurði hvort við ættum ekki að kíkja á menninguna saman um kvöldið. Það fannst mér frábær hugmynd.

Nafnarnir voru mættir í kirkjukjallarann þremur korterum fyrir tónleika(setningarhátíðina).

Hulda var að leika sér við vinkonu og komu þær inn stöku sinnum. Oddur fór fljótlega út að leika með þeim. Bríet, sem var smá kvefuð, svaf fyrsta klukkutímann af passinu. Þetta eru svo fá skipti sem ég hef verið með hana að ég vil meina að hún hafi aðeins verið komin með matarást á mér. Það breyttist eftir þetta pass. Hún var vissulega dugleg að borða hjá mér en ég fékk líka smá knús frá henni, stór sigur! Kannski vegna þess að ég var ekki að reyna neitt að taka hana, en ég lék við hana og las fyrir hana inn á milli þess sem hún reyndi að komast í leikinn með prinsessunum (systur sinni og vinkonu hennar).

Mamma kom fyrst úr kirkjunni en nafnarnir ekkert löngu seinna og æskuvinkona mín birtist eftir matinn. Helga og Ingvi voru í veislu, höfðu ætlað að koma heim upp úr átta. Það endaði með því að Davíð bauð okkur vinkonunum og mömmu að verða eftir með krakkana á svo við gætum drifið okkur út í menninguna...
- Vika síðan síðast -
...eða næstum því...

Það er bæði gott og vont þegar líða svona margir dagar á milli skrifa. Gott, því þá skrifa ég líklega ekki of mikið um hvern atburð. Slæmt, því þá gæti eitthvað gleymst af því sem mig langar til að muna. Um helgina lenti ég í gallúp-úrtaki og ákvað að svara því. Rétt í lok spurningaflóðsins datt upp úr mér þessi líka fína speki: -"Ég man ekki hvort ég man það..."! Spyrillinn gerði sitt besta til að halda alvarleikanum, en við sprungum samt báðar aðeins...

Á fimmtudagsmorguninn var skutlaði Davíð okkur mæðginum á Grettisgötuna. Helga systir þurfti að skreppa aðeins og við tókum að okkur að passa Bríet. Strákarnir áttu erindi í Tiger og fóru af stað um leið og ég vissi að búið væri að opna (þeir fengu að fara einir með smá aur þar sem þeir voru búnir að vera duglegir að hjálpa mér). Þeir komu til baka mjög spenntir, höfðu bæði keypt sér það sem þá langaði í (vasaljós og yddara) en líka lagt afganginn saman í gjöf handa foreldrunum. Ég fékk ekki að vita hvað það var og varð að bíða fram á kvöld eftir að Davíð væri kominn heim.

Eftir passið og hádegishressingu hjá Helgu löbbuðum við áleiðis heim. Heimsóttum Barónsborg, í leiðinni. Eftir þá heimsókn skildu leiðir fljótlega. Bræðurnir vildu komast heim og fá næði til að skrifa á kort með gjöfinni. Ég athugaði hvort Fiskbúð Hafliða væri enn starfandi. Var þó ekki á hentugum tíma til þess, klukkan hálftvö, og á skiltinu stóð: lokað í hádeginu til kl. 14:00... Mér sýndist samt ekki vera neitt þarna inni.

Það var beðið eftir Davíð um kvöldið, strákarnir komnir heim af æfingu og við mæðgin byrjuð að borða er hann kom loksins. Strax eftir matinn var safnast saman í stofunni og færðu strákarnir okkur þessa líka flottu pakka og kortið sem fylgdi var skemmtilegt, skrifuðu og teiknuðu í það báðir með tilheyrandi "djóki". Í pökkunum voru tvö fín útikerti (eiga að loga í 50 klst.) í flottum kertakrukkum og einn appelsínugulur, langur kveikjari með. Við ætlum að kveikja á kertunum í kvöld!

Þetta var bara fimmtudagurinn. Skrifaði ég ekki í upphafi að ég væri ekki að romsa of miklu ef liðu margir dagar? "Ég man ekki hvort ég man það!" :) Ég á eftir að segja frá meira passi, heimsókn æskuvinkonu, menningarnóttinni, leiknum FH - Valur, skólanum og síðast en ekki síst tónleikunum í kirkjunni (drengjakórinn söng á laugardag, sunnudag og í gærkvöld)! Kannski seinna í dag...





18.8.05

- Að skipta sér niður -

Stundum (reyndar nokkuð oft) væri ágætt að geta verið á mörgum stöðum í einu. Í gærkvöld hefði ég t.d. alveg verið til í að komast í fjölskylduferð Óháða safnaðarins út í Viðey. En á sunnudag og mánudag verður Matteusarpassían eftir Johann Sebastian Bach flutt og það hefur verið æft daglega síðan á mánudag, stuttar æfinga milli kl. sjö og átta. Það er frí í kvöld en svo ætti Davíð Steinn að mæta á morgun og laugardag...

Við mæðgin skruppum í Ísaksskóla, að skila lestrarbók, í gærmorgun. Þeir voru svo heppnir að hitta annan kennarann sinn frá því í fyrravetur. Er við komum til baka hjálpaði Davíð Steinn mér að útbúa hádegishressinguna. Þeir fóru svo út að hjóla en ég mannaði mig upp í tiltekt og þrif í hjónaherberginu. Sú vinna tók mig allt í allt þrjá tíma og nú á ég bara eftir að raða betur í hillur (eins og strákarnir eiga eftir að gera).

Strákarnir fengu hressingu um fjögurleitið og þá sá ég fram á að geta farið á Valur - ÍBV 3-1 (0-1 fyrir ÍBV í hálfleik), milli kl. fimm og sjö, ef Davíð kæmi aðeins inn í málin með mér. Hann var fús til þess. Sá um að sækja kórdrenginn okkar fyrr af fótboltaæfingu og skutla honum á æfingu í kirkjuna.

Um kvöldið sat ég svo límd yfir vináttulandsleiknum, næstum allan tímann. Missti allavega ekki af íslensku mörkunum sem voru hvert öðru glæsilegra. Vinnslan á liðinu varð alltaf betri og betri og var greinilegt að strákarnir gáfu sig 100% í leikinn. Áfram Ísland!

17.8.05

- Fríið hálfnað -

Það er svoooooo gott að vera í fríi en það er samt brjálað að gera, bara öðruvísi brjálað. Ég stend mig ágætlega í að drífa mig á fætur á morgnana (mis-snemma, aldrei seinna en hálfníu samt) og reyni hvað ég get að klára einn hlut í einu. Það tekst ekki alltaf og í gær færðist ég heldur mikið í fang. Kannski var það viljandi ómeðvitað því Davíð kom þá inn í málin með mér seint í gærkvöld og það var frábært.

Annars var okkur boðið í heimsókn í skólann í gær. Allir gestir fengu kynningu um skólann fyrst og svo var farið með okkur í hringferð um bygginguna. Það er ég viss um að skólastjórnendur og þeir sem tóku á móti gestunum eiga alltaf eftir að þekkja tvíburana. Þeir kynntu sig svo kumpánlega og það gerðist eins og stundum áður að Oddur fór aðeins framúr sjálfum sér. Hann þurfti mikið að tala, gat þó setið á strák sínum í kynningunni, og var svo langfyrstur að rétta upp hendi þegar gefinn var kostur á því að spyrja. Smá dæmi:
-"Veistu í hvaða bekk ég verð?"
-"Hvað hefði gerst ef þið hefðuð ekki tekið við börnunum úr Vesturhlíðarskóla?"
Þetta er bara smá brot og svo skilst mér að hann hafi beðið um að vera ekki settur í sama bekk og Davíð Steinn (það gerðist víst frammi áður en kynningin byrjaði...) Ef þetta heitir ekki að bjarga sér.... hm??? Á skrifstofunni sá Davíð Steinn viðvörunarbjöllu og ljós sem hann þurfti aðeins að spyrja út í. Held helst að hann hefði viljað skoða það með fingrunum en hann gat stillt sig.

15.8.05

- Hádegishlé -

Morgunverkin hafa verið nokkuð drjúg þótt seint hafi verið farið af stað. Ég var búin að lofa því að vekja ekki tvíburana aftur fyrr en sumarfríið þeirra væri búið. Oddur Smári vaknaði rétt eftir átta en Davíð Steinn svaf tveimur tímum lengur. Það tók sinn tíma að stilla saman strengi og hefja sorteringar en það tókst, enda hvöttum við hvert annað til dáða. Klukkan var búin að slá tólf þegar Davíð Steinn mundaði ryksuguna og ég fór að huga að hádegishressingu.

Annars var helgin fín. Ég leyfði tvíburunum loksins að spila í playstation á laugardagsmorguninn, Davíð svaf út og ég bloggaði og fleira. Strax upp úr hádeginu drifum við okkur í sund. Tvíburarnir reyndu eins og þeir gátu að kaffæra pabba sinn á meðan ég prófaði sundtökin. Davíð tók 500 metra og fór svo með strákunum í gufubað. Semsagt bæði ærslast og slakað á.

Davíð Steinn var vaknaður fyrstur í gær. Ég dró mig framúr uppúr átta. Oddur Smári kom fljótlega fram eftir það. Að þessu sinni ákvað ég að færa Davíð hrökkbrauð og kaffi í rúmið klukkan tíu. Við vorum rétt að byrja að spá (öll saman) hvernig dagurinn ætti að vera þegar Helga systir hringdi og spurði hvort strákarnir vildu fara á Kalla á þakinu eftir hádegið. Það vildu þeir svo sannarlega, voru meira að segja búnir að spyrja um það fyrir stuttu síðan. Nafnarnir hjálpuðu með að útbúa grænmetiseggjaköku í hádeginu og við voru í miðjum rímleik er Hulda og Ingvi komu um eitt. Ég bjó til nýtt kaffi og hjálpaði strákunum að finna fín föt í leikhúsið. Hulda var flott, bleik frá toppi til táar og Ingvi mágur er orðinn mjög stæltur og massaður. (Þau hjónin hafa staðið sig vel í áskoruninni, Líkami fyrir lífið. Frábært hjá þeim! Strákarnir skemmtu sér vel í leikhúsinu og þurftu báðir mikið að tjá sig um það eftir að þeir komu heim.

Oddur Smári kom með mér í fyrstu messu eftir sumarfrí í gærkvöldi og fannst víst alveg frábært. Séra Pétur var með góða og skemmtilegaræðu, að vanda og Helgi Valur spilaði "Hallelúja" og lag sem hann samdi eftir hildarleikinn á Hagamelnum (fyrir og eftir predikun). Einnig spilaði hann ljúfa tónlist undir fyrirbænunum. Mjög notaleg kvöldstund. Oddur sagðist alltaf vilja koma með mér þegar hann mætti það, sem er gott!

En nú er ég farin að svindla á hádegishléinu sé ég, klukkan er orðin meira en eitt, svo það er best að fara að láta hendur standa fram úr ermum! (Það er auðvelt því ég er í rauðum hlýrabol...)

13.8.05

- Björgunarleiðangur -
...og ævintýraferð...

Heimilisvinnan var alveg látin sitja á hakanum í gær. Helga systir hringdi í gærmorgun og spurði hvort ég gæti reddað sér svo hún kæmist í ræktina (Hulda var lasin), annað hvort fyrir hádegi eða seinni partinn. Það var alveg sjálfsagt mál og ákvað ég að það væri betra að drífa sig strax.

Morgunhaninn minn var, aldrei þessu vant steinsofandi og því miður þurfti ég að vekja hann til þess að við mæðginin yrðum komin á Grettisgötuna fyrir tíu. Ég ákvað nota daginn í ævintýraleiðangur og sendi Davíð á óselda bílnum í vinnuna (kannski flýtir það líka fyrir sölunni).

Bríet var sofandi úti í vagni er björgunarleiðangurinn mætti á staðinn. Helga dreif sig af stað og næstu tvo tímana var rólegt. Hulda reyndi nú samt að fá frændur sína í æsingaleik og fékk smá viðbrögð rétt fyrst. Það var ekki fyrr en Bríet var komin inn (rétt áður en Helga kom heim) sem leikar æstust nokkuð aftur. Börnin fengu öll að borða og fékk ég að halda við matarást Bríetar á mér. Fljótlega og héldum við mæðgin áfram ferð.

Stoppuðum góða stund hjá mömmu tvíburahálfsystur minnar, en það er alltof langt síðan ég kom þangað síðast, hægt að telja það saman í mánuðum (fleiri en fimm...).

Vorum komin á Hellu um miðjan dag og vorum þar langt fram á kvöld. Strákarnir fóru fljótlega að leita að vini sínum. Sá var ekki heima en þeir fundu hann fyrir tilviljun þar sem hann var að hjálpa afa sínum í garðverkunum. Tvíburarnir voru fljótir að bjóða fram aðstoð sína og með ánægju. Rétt fyrir kvöldmat kom hitaskúr (reyndar alveg hellidemba) og þá komu bræður hlaupandi alveg passlega í mat. Þeir fóru út aftur um kvöldið, Oddur á undan og Davíð Steinn einhverri stund síðar (hann fékk nefnilega aðeins að komast í afatölvu og m.a. sýna ömmu sinni myndirnar á heimasíðum frændfólksins af yngstu kynslóðinni).

Strákarnir máttu vera úti til tíu og þeir voru hálfnaðir heim þegar amman fann þá holdvota frá toppi til táar. Bleytan var ekki vegna rigningar, ó, nei!. Þeir höfðu víst farið í garðslönguleik með vini sínum (og líklega tapað oftast, eða þannig, he he). Sem betur fer voru þeir með stuttbuxur og auka buxur með sér en svo fann amman tvo slitna boli af sér og tvenn pör af bleikum sokkum af Helgu. Afinn bar þá svo í bílinn því skórnir voru auðvitað alveg rennandi líka.

Semsagt ævintýraskemmtilegur dagur!

12.8.05

- Margt gert í gær -

Tók daginn snemma og notaði hann vel. Við tvíburarnir héldum áfram að vinna í sorteringu á dótinu þeirra fyrir hádegi. Leyfði þeim samt að vera eitthvað í PC-tölvunni. Á meðan annar notaði tölvutímann sinn (30 mín) var hinn í herbergisverkunum með mér. Þetta gekk miklu betur svoleiðis. Þeir voru komnir út á svipuðum tíma og daginn áður.

Oddur kom eftir klukkutíma útiveru og spurði hvort ég gæti ekki tekið með sér línuskautaæfingu (ég hafði boðið honum það áður en þeir fóru út en hann talaði þá um helgina). Ég dreif mig út með kappanum og þurfti í raun mjög lítið að gera eftir að hann uppgötvaði að þetta var svipað og að skauta á svelli, en hann hefur fengið smá leiðsögn í því! Eftir hálftíma æfingu ákváðum við mæðgin að skreppa í göngutúr í Öskjuhlíðina og þeir sýndu mér hvar þeir hafa farið með skólanum og sumarbúðunum í borg.

Fótboltaæfing strákanna féll niður svo við fjölskyldan ákváðum á skreppa á Skagann og styðja okkar menn í Landsbankadeildinni. Mér fannst Valsarar ekki alveg að vera að spila eins og þeir spila best og fyrri hálfleikurinn var hálfdaufur. En þetta hafðist. Kjartan bjargaði nokkrum sinnum mjög vel og í leikslok sagði þulurinn eitthvað á þessa leið: -"Það var Skagamaðurinn í Valsbúningnum, Garðar Bergmann Gunnlaugsson sem er maður leiksins..." Garðar átti það svo sannarlega skilið, hann skoraði bæði mörkin og var hérumbil búin að bæta við því þriðja (boltinn sleikti stöngina). En skrýtin staða á toppnum: FH 39 stig, Valur 30, ÍA og Keflavík 20 stig. Spennan er öll á botninum!

11.8.05

- Morgunverkin eru drjúg -

Já! "Morgunstund gefur gull í mund"! Í gærmorgun var klukkan mín stillt á 7:30. Davíð hafði stillt sína klukku á sex! Reyndin varð sú að hann vaknaði um fimm og fór á fætur fljótlega. Ég vissi varla af því. Náði ekki að rífa mig upp fyrr en Davíð var búinn að vera á fótum í tæpa þrjá tíma. Það var dulítið erfitt. Þess vegna var ég ekkert að vekja strákana. Við náðum að vinna aðeins í tiltektinni inni í þeirra herbergi. Þetta verkefni tekur samt smá tíma, því það er stundum "dottið" niður í Andrésblöð eða farið að leika með eitthvað sem ekki hefur verið snert lengi. Þeir bræður voru svo farnir út fyrir eitt.

Við Árný Lára vorum búnar að ákveða "hitting" og áttum við góða stund saman. Hún rétt missti af að hitta Odd Smára en Davíð Steinn kom inn um tvö, svekktur yfir því að hjólakeðjan var alltaf að detta af hjólinu hans. Ég læddi þeirri hugmynd að honum að prófa línuskautana sína, hvort hann gæti ekki fylgt hjólastrákunum eftir svoleiðis. Það gekk eftir.

Bræðurnir komu inn rétt eftir að frænka þeirra var farin. Eftir að hafa fengið sér hressingu héldum við tiltektinni áfram þar til kominn var tími til að fara á æfingu. Davíð Steinn fór þangað á línuskautunum í fyrsta skipti, og datt bara tvisar.

Um kvöldið var svo kortaklúbbur hjá Tvíburahálfsystur minni. Við mættum þrjár til hennar og áttum skemmtilegt kvöld. Ég klippti næstum út eina þrívíddarmyndaseríu og saumaði nokkur spor í jólasveinakortið.
- Litið um öxl -

Það yrði of langt mál að segja frá öllu sem hefur verið að gerast í kringum mig síðast liðna daga en ég ætla að setja upp stikkorð hér bara rétt til að minna sjálfa mig á:

29/7 Strákarnir sóttir og farið í bústaðinn
30/7 Fyrstu gestir mættir fyrir hádegi, næstu gestir um miðjan dag. Buslulaug og pottur fyllt.
31/7 Krakkar busla oft og mikið, slakað á í potti. Veður blautt á köflum. Þriðju gestir mæta. Allir borða saman og þriðju gestir og næstu gestir kveðja.

1/8 Buslað, slakað á. Fyrstu gestir kveðja.
2/8 Kíkt á Gullfoss, Strokk, safnið við Hótel Geysi og hlaðborð hótelsins prófað.
3/8 Þrumuveður eftir hádegi, slakað á spilað, buslað og horft á FH - Fram í bikarnum :-)
4/8 Rennt upp á Kjöl. Jebbinn prófaður á Hagavatnsleið (ekki farið alla leið en það var ekki jeppanum að kenna). Komið snemma heim, horft á fyrri hálfleik Vals og Fylkis. Fjórðu gestir litu inn. Þetta var síðasta kvöldið og við tímdum varla að fara að sofa.

5/8 Dagurinn tekinn últra snemma. Allir hjálpuðust að við að taka saman, ganga frá og þrífa og voru tvíburarnir mjög duglegir. Haukadalsheiðin ekin (eftir línuslóða) og einnig ekið að Hvalvatni (sáum vatnið en fórum ekki alveg alla leið því við héldum að við kæmumst ekki áfram. Vitum betur núna!)! Komum heim um sex.
6/8 Farið á Þingvöll, skundað að Öxarárfossi og einnig kíkt í Flosagjá. Hittum skyldfólk Davíðs á brúnni. Merkileg tilviljun! "Föðursystir" sótt heim er við komum aftur í bæinn um kvöldið.
7/8 Dagurinn tekinn rólega. Farið í sund eftir hádegi, rúntað um Heiðmörk "tvíburahálfsystir" heimsótt.

Vá! Þetta er orðið gott í bili.

9.8.05

- Hugað að heimilinu -

Við mæðginin erum með miklar áætlanir. Í gærmorgun (milli hálfellefu og hádegis) settumst við niður saman og skrifuðum upp hvað þyrfti að gera. Til að gera langa sögu stutta þá ákváðum við að nota næstu morgna (tvo til þrjá) til að fara í gegnum allt í herberginu þeirra. Strax eftir hádegi mega þeir svo að fara út að leika sér (ef veður leyfir) og ég huga þá að öðrum verkum.

Strákarnir voru ekkert smá glaðir að fá afhentan sinn hvorn útidyralykilinn í gær og fyrst í stað verður fróðlegt að fylgjast með hvernig þeir skiptast á um að opna (eða reyna að verða á undan heim...). get ég líka leyft mér að skreppa frá stund og stund (ef þeir vita af því) og þeir alveg komist inn (og út) ef þeir þurfa.

Það átti ekkert að sofa út í morgun. Mín klukka var stillt á tuttugu mínútur í átta og Davíðs á átta. Ég ætlaði að sjá til þess að hann mætti í vinnu á skikkanlegum tíma og fara á fætur með honum. Það fór hins vegar þannig að við vorum vakin klukkan sex með langdregnu bílflautshljóði (laaaaaaaaaangt, stutt, stutt, stutt, stutt, laaaaaaaaaangt....). Ég gat ekki sofnað eftir þetta og sendi Davíð út að huga að því hvort jeppinn væri enn þar sem við lögðum honum er við komum heim af leiknum í gærkvöldi. Davíð gerði eins og ég bað og þar sem bíllinn var á sínum stað notaði hann tækifærið og fékk sér smá göngutúr. Hann gaf sér svo góðan tíma til að sinna ýmsum tölvuverkum sem setið hafa á hakanum þannig að klukkan var farin að ganga ellefu þegar hann kvaddi.

Oddur Smári vaknaði fyrir níu og nokkru síðar vakti ég Davíð Stein. Morgunverkin fóru í að fara í gegnum föt strákanna. Taka út það sem var of lítið eða sjúskað og raða inn í hillu og skúffur þannig að hvor um sig gangi að sínum fötum vísum (þetta var allt í hrúgu áður, uhumm og svoleiðis eru sokkarnir þeirra og nærföt enn...). Þeir hjálpuðu mikið til með því t.d. að klæða sig í sumar flíkurnar. Það mæddi samt meira á Davíð Steini hann var orðinn þreyttur á þessu þegar hann var loksins búinn að máta úr næstum öllum fatabunkanum.

Fram - Valur 2:1 Já, við fórum á leikinn. Auðvitað er ég svekkt yfir úrslitunum en samt ekkert tapsár. Mér finnst einum of mikið gert úr hlutunum í kringum Danann. Valsarar áttu marga góða spretti og fannst mér Baldur Ingi og Gummi Ben. standa sig prýðilega, þeir voru sívinnandi þennan tíma sem þeir voru inná. En ég sá það strax að það vantaði mikið þar sem Sigurbjörn Hreiðarsson var ekki með (sennilega að taka út leikbann). Þegar sigurmarkið var skorað voru Valsarar eiginlega að bíða eftir að dómarinn stöðvaði leikinn þar sem einn andstæðinganna lá í vellinum. Hvort sem dómarinn sá ekki manninn sem lá eða ákvað að láta ekki Valsarana hagnast á brotinu þá stöðvaði hann ekki leikinn og því fór sem fór. Það þarf nú líka að kunna að tapa! En það verður spennandi að sjá næsta leik á heimavelli Skagamanna n.k. fimmtudagskvöld. Það er ekki öruggt hvort við förum á leikinn en...

8.8.05

- Dýrðardagar -

Ég finn það núna að það var alveg kominn tími til að komast í sumarfrí. Við komum heim úr vikudvöl í sumarbústað sl. föstudag og notuðum einnig nýliðna helgi í smá flakk og fleira.

Veðrið hefur kannski ekki alveg leikið við okkur, og þó... Við erum búin að hafa það svo gott að þegar frá líður verður veðrið örugglega gott í minningunni. Einn daginn fengum við þrumuveður en það var bara spennandi. Mikið var um gesti fyrstu dagana og þá var líf og fjör. Það var bæði heitur pottur og buslulaug við bústaðinn og vakti laugin mikla lukku hjá krökkunum. Einnig slæddist einn og einn fullorðinn með í buslufjörið.

Davið byrjaði í vinnu aftur í morgun en við strákarnir leyfðum okkur að sofa út. Það ætlum við þó ekki að leggja í vana okkar þessa síðustu frídaga þeirra heldur fara á fætur á sama tíma og heimilisfaðirinn til að nýta daginn (dagana) sem best. Meira um það seinna.

Gott er að leika lausum hala
láta ekki´ stressið fá völdin.
Ekki er gott að leggjast í dvala
en hvíla sig vel á kvöldin.

Stundum þarf verkin að vinna
vaska upp, þrífa og meira.
En börnum verður og vel að sinna
vinum og hvað þá fleira.