30.4.03

- Miðviku/föstudagur -

Af átján virkum dögum í þessum apríl mánuði eru sex af heim eiginlegir og hálfgerðir föstudagar. T.d. í dag, af því að það er frí á morgun þá finnst manni að það sé föstudagur. Svo segir maður örugglega á föstudaginn: "Um helgina!" þegar maður er að tala um frídaginn...

Eldavélin og þvottavélin eru farnar að virka aftur. Öryggið er komið á sinn stað. Helga systir býður samt í mat í dag!

29.4.03

- Þriðjudagur -

Þar sem ég bý er mjög gamalt kerfi. Gamaldags rafmagnstafla. Upphaflega var gert ráð fyrir að í húsinu væru tvær íbúðir en kjallarinn sameiginlegur (þvottahús og geymslur). Stór hluti af kjallaranum var samt einhvern tímann seldur þriðja aðila sem standsetti íbúð þar og leigir hana svo út. Rafmagnstaflan er að sjálfsögðu í kjallaranum akkúrat í þeim hluta þar sem íbúðin er. Þegar ég kom heim til mín, með Huldu með mér, byrjaði ég á því að setja í þvottavél. Því næst setti ég upp kartöflur og gerði grænmetispottinn tilbúinn. Þá datt mér í hug að það væri sniðugt að búa til kaffi og setti upp hraðsuðukönnuna. Tók fram pönnu, setti smá olíu og svo svínagúllas, kryddaði og kveikti undir. Lækkaði undir kartöflupottinum. Rétt seinna datt suðan niður, hraðsuðukannan virtist ekki ætla að fara af stað og ekkert hitnaði undir pönnunni. Ég áttaði mig fljótlega á að það hlyti að hafa sprungið öryggi.

Leigjendurnir í kjallaranum voru ekki komnir heim, millihurðin inn í þvottahúsið læst og lykillinn í skránni að innan. Ég fór upp og spurði hvort þau hefðu lykil að kjallaranum. Veit að þau eru með geymslu í ganginum. Þau eru bara með lykil að útidyrahurðinni en ekki hurðinni inn í íbúðina. Þau buðu mér að nota eldavélina hjá þeim og fékk ég að gufusjóða grænmetið uppi. Ákvað að sleppa því að steikja lauk, sveppi og papriku og elda gúllasið bara í örbylgjuofninum. Kartöflurnar voru næstum soðnar, ég skrældi þær og setti þær á fullan hita í örbylgjuofninn í um tvær mínútur (eftir að kjötið var tilbúið). Svo þetta slapp til. Kjötið var að vísu aðeins seigara en ef ég hefði steikt það á pönnu en það sögðu allir namm, namm við matnum og fengu sér tvisvar á diskana. Eftir matinn ætlaði ég að hengja upp úr þvottavélinni. Hún var þá stopp líka svo ljóst var að farið hafði öryggi fyrir eldavél og þvottahús.

Þegar íbúarnir í kjallaranum voru komnir heim bankaði ég upp á hjá þeim þvottahúsmegin. Öryggið var svo sprungið og ónýtt að hitinn frá því hafði eyðilagt skrúftappann eða hylkið utan um öryggið. Þar fyrir utan átti ég ekki 25W öryggi í staðinn fyrir það ónýta. Úlala... Maðurinn uppi ætlar að redda þessu í dag. Sem betur fer er matur hjá Helgu systur og strákarnir sluppu við að fá hafragraut í morgunmat!

Ég hringdi í Önnu frænku í gærkvöldi. Hún var til í að skreppa yfir, aðeins að dreifa huganum fyrir próf sem hún átti að mæta í í morgun, næst síðasta prófið. Það var gaman að fá hana eins og endranær, eiginlega orðið of langt síðan síðast og hún flýgur til Noregs þann 19. maí svo það þarf að nýta næstu vikur mjög vel. Hún verður þó líka hér á landi næsta vetur...

28.4.03

- Mánudagur -

Og helgin er flogin. Hún var nýtt alveg ágætlega í þrif og tiltekt. Strákarnir fóru í afmæli til bekkjarfélaga síns eftir hádegi á laugardag. Davíð fór í sorpu og tæmdi úr skottinu það sem hefur verið að safnast fyrir þar og dreif sig svo í að láta umfelga hjá sér. Hann hafði á orði að hann hefði nú eiginlega ekkert þurft að vera með vetrardekkin undir í vetur, kannski í þrjá til fjóra daga. Ég viðraði sængurföt strákana og setti nýtt á. Þurrkaði af í hjónaherberginu og helminginn af stofunni og setti í tvær þvottavélar. Þetta var svo sem ekki slæmt miðað við að ég var hálf-þunn eftir óbeinu-reykingarnar í billiardsalnum á föstudagskvöldið.... Í gær fór ég yfir gólfin,lauk við afþurrkunina og þvoði svolítið meira.

Fórum í lúdó við strákana í gærkvöldi áður en þeir fóru í háttinn og horfðum svo á James Bond "Die another day"!


Find your inner Smurf!

26.4.03

- Laugardagur -

Jæja, enn ein helgin að hefjast og hún verður sko flogin áður en maður veit af. Var í einhverju óstuði í gærkvöldi og þegar ég fór að spjalla við Helgu systur á msn-inu datt henni í hug að við gætum farið aftur í pool! Það fannst mér vera fín hugmynd. Strákarnir voru að fara að sofa (um hálftíu) og ég vissi að Davíð mundi alveg þyggja það að fá að vera í tölvunni í ótakmarkaðan tíma. Ég kyssti drengina góða nótt, kvaddi manninn og sótti systur mína. Mér gekk ekki eins vel og síðast en við spiluðum lengur. Um miðnætti var bjöllu hringt og við vorum að spá í hvort við ættum að fara að hætta eða hvort verið væri að loka barnum. Nei, nei, ekkert svoleiðis, heldur var þetta óþolinmóður kúnni sem var að bíða eftir afgreiðslu og að komast að á billiard- eða poolborð. Reyndar má vera eins lengi og maður nennir um helgar og það er víst algengt að það sé verið að spila til þrjú (eins og á sveitaböllunum...) Svo við systur spiluðum áfram í um klukkutíma í viðbót.

25.4.03

- Hmmm, ég held ekki að þetta sé ég.... -

HarleyGuiding
Harley Cooper: Thu ert uppreisnarseggur og
villingur! Skyrd eftir Harley Davidson
motorhjli, fylgir engum reglum og gerir thad
sem thu villt. Thin veika hlid eru karlmenn,
thu hefur gifst nokkrum sinnum vegna astar, en
thad hefur aldrei gengid upp. Thu ert hins
vegar mjog skotin i nuverandi kaerasta thinum,
hann er logga alveg eins og thu. Vonandi bara
ad hann fai aftur tilfinningu i lappirnar eftir
sprenginguna...


Hvada Leidarljos karakter ertu?
brought to you by Quizilla
- Mánu-föstudagur -

Gærdagurinn var afskaplega rólegur. Strákarnir voru mikið úti að leika sér eftir hádegi. Ég las, stakk í þvottavél og hengdi svo upp þegar hún var búin, við Davíð hjálpuðumst að við að taka til í eldhúsinu en ég fann enga löngun í mér til að ráðast á rykið í íbúðinni og var ekkert að pína mig í það. Á fjórða tímanum setti ég upp læri og var að sýsla við að finna til og setja upp meðlætið og búa til sósu þegar systir mín og dóttir hennar komu. Við vorum semsagt búin að bjóða þeim í mat. Lærið heppnaðist mjög vel og sósan var hreint afbragð (þótt ég segi sjálf frá... he, he). Það var allavega vel borðað.

Strákarnir voru komnir í rúmið um hálfníu og um níu leit Bidda inn. Hún stoppaði til ellefu og þá festist ég yfir mynd kvöldsins, The boys from Brazil. Hef reyndar séð þessa mynd áður en hún er alltaf sígild.

24.4.03


What Flavour Are You? Warning: I taste like Gasoline.Warning: I taste like Gasoline.


I may not taste good, but I'm handy to have around if you want to breathe fire. I'm expensive, and sometimes cause disputes. I'm inflammatory, you see. Ha ha. What Flavour Are You?
- G L E Ð I L E G T S U M A R ! -

Jæja, þá er sumarið að ganga í garð samkvæmt dagatalinu og svei mér þá ef veðrið ætlar bara ekki að vera þokkalegt.

Helga systir bauð í mat í gær og var búin að ákveða að panta pizzur svo við höfðum ágætan tíma. Strákarnir voru í fótbolta og Hulda fór út. Sú stutta var alltaf að hlaupa of hratt og detta og í eitt skipti sem Helga fór að hugga hana hitti hún nágrannakonu sína sem var að ferma hjá sér um síðustu helgi. Ég þekki einnig þessa konu síðan á opnu húsi í kirkjunni í fyrravetur og nú bauð hún okkur systrum yfir í kaffi og kökur. Við létum ekki bjóða okkur tvisvar, tókum lásinn af og drifum okkur yfir í kaffið. Þegar Davíð kom með strákana úr boltanum hringdi ég í hann og sagði honum að það væri opið, við kæmum rétt strax.

Þótt það sé frí í dag ákvað ég að strákarnir skyldu vera farnir í rúmið vel fyrir níu í gærkvöldi. Var að byrja að lesa fyrir þá rétt fyrir hálf og las ég í fimmtán mínútur. Svo tók það strákana örugglega aðrar fimmtán mínútur að sofna þannig að klukkan var að byrja að ganga tíu þegar allt datt í dúnalogn. Davíð var að keppa í stríðsleiknum og var nokkuð æstur á tímabili, hrópaði skipanir sem ég var viss um að heyrðust yfir í næstu götu...

23.4.03

- Síðasti vetrardagur -

Jæja, þá er þessum milda vetri að ljúka og vonandi verður sumarið hlýtt og þurrt!

Það var ekki messufært í kórnum í gær og ákváðum við því bara að skreppa á kaffihús í staðinn. Fórum sjö af þeim níu sem mættu á æfingu (erum ekki orðin nema 16 eftir). Fengum ekkert borð fyrir utan Kaffi París svo við fórum á Thorvaldsens-bar. Þar var ekkert mál að fá pláss úti. Að vísu náði sólin ekki til okkar en það var svo hlýtt að ég fór úr kápunni og var bara á ermalausum bol (ekki í sandölum samt). Þegar ein afgreiðslustúlka kom til að kanna hvort hún gæti aðstoðað okkur spurði kórstjórinn eftir ákveðinni bjórtegund. "- Nei, því miður, við seljum ekki vín hér!" Það hreinlega datt andlitið af manninum. Auðvitað var stúlkan bara að stríða og hann gat fengið bjór. Ég lét það eftir mér að fá mér hvítvínsglas.

Davíð var að sækja strákana á Bakkann. Hann hringdi heim um hálfníu og bað mig um að hafa tilbúið bað handa þeim. Þeir komu heim um níu. Strákarnir fóru beint í froðu-bað og svo í rúmið. Þeir voru ekki lengi að sofna. Annars verð ég að segja frá hvað þeir eru skynsamir. Þeir voru búnir að lofa afa sínum að hjálpa honum í garðinum í gær. Svo bauð afi þeirra þeim að byrja á því að skreppa í fjöruna. En strákarnir sögðu nei við því. "Afi, við skulum byrja í garðinum. Það er ekki víst að við nennum að hjálpa þér ef við förum fyrst í fjöruna..." Ég er ekkert smá stolt af drengjunum mínum...

22.4.03

-Það styttist í næsta mánuð...-
Enginn sníður vítt og sítt úr engu!

...og þessi mánuður er bara rétt nýbyrjaður. Höfðum það rólegt framan af degi í gær. Ég fékk að sofa út en fór þó tímanlega á fætur til að setja upp matinn. Við vorum með eplamarineraða svínasteik í hádeginu (ætluðum reyndar að hafa hana í matinn á páskadagskvöld en við fórum í smá heimsókn sem drógst aðeins á langinn svo við höfðum bara afganga er við komum heim...). Um þrjú leytið tók ég til náttföt, og aukaföt fyrir strákana og svo drifum við okkur á Bakkann til tengdó. Tengdapabbi er í fríi þessa vikuna og hann var alveg til í að bjarga okkur með strákana í dag. Við stoppuðum fram á kvöldið og komum ekki heim fyrr en klukkan var farin að ganga tólf. Hittum bræður Davíðs og aðra kærustuna (hin var að lesa undir próf). Þetta var semsagt bara ágætlega notalegt.
-Formúlan-
Fylgdist með tímatökunum á laugardag. Þær eru alls ekki eins spennandi og í fyrra svo ég tók mig til og skráði niður alla millitíma á köppunum svona til að bera svo saman hvar hver var fljótastur og svoleiðis.

Keppnin sjálf var spennandi alveg frá starti og til loka. Það lá samt í loftinu að minn maður myndi loksins hala inn sigur á árinu og ég verð bara að segja það að mér fannst bræðurnir standa sig mjög vel miðað við sorgar-atburðinn í fjölskyldu þeirra. Ég tók líka eftir því að það náðu óvenju margir ökumenn að klára keppnina. Þeir fáu sem ekki luku við keppni gátu kennt bílunum um. Ég er nú ekkert svo viss um að Schumacher landi heimsmeistaratitlinum í ár. Keppnin verður a.m.k. spennandi og það á líka að vera svoleiðis...

20.4.03





Jón Bjarnason. Þú ert gríðarlegur duglegur og missir aldrei úr færi á að
kynnast kjósendum. Byggðamál eru þitt líf og yndi.



Taktu "Hvaða frambjóðandi Vinstri - grænna ert þú" prófið





17.4.03

<-Skírdagur-
Þetta heyrði ég í útvarpinu í morgun: Útvarp Reykjavík, góðan dag! Klukkan er átta. Í dag er skírdagur 17. mars... ...átti ég þá aftur afmæli eða hvað??? He he...

En æ, æ, hvað ég get verið utan við mig. Á mánudaginn marg bað ég Davíð um að muna eftir að setja jakkafötin sín í hreinsun. Í gærmorgun spurði ég hann hvort hann hefði ekki fengið miða hjá hreinsuninni. Jú, jú. En ég bara fékk aldrei þennan miða og ég mundi ekki eftir því fyrr en búið var að loka hreinsuninni að ég hafði ætlað að ná í jakkafötin. (Og tvær fermigarveislur á döfinni...). En fyrst:

-saumaklúbburinn-
Við Bidda vorum mættar til Svölu fyrir níu í gærkvöldi og þá var Sonja nýkomin. 100 prósent mæting. Við þrjár, gestirnir, byrjuðum nær strax að sauma. Svala var ekki í stuði en hún sá okkur fyrir kaffi og meðlæti. Mikið var spaugað og hlegið og ég er viss um að við höfum lengt æfina um nokkur ár er það er satt að hláturinn lengir lífið! Klukkan var langt gengin í eitt er við kvöddum...

- Tvær fermingarveislur -
Við lögðum af stað úr bænum um hádegisbil. Stoppuðum aðeins á Hellu hjá pabba og vorum svo í samfloti með þeim mömmu austur í Hvolsvöll. Einn frændi minn var fermdur í morgun og vorum við boðin þangað. Fermingarbarnið tók á móti okkur með aðra hendina í gipsi og ég get svo svarið að hann var einnig með hönd í gipsi í fyrra þegar systir hans var fermd. Veðrið var með allra besta móti og það var gaman að hitta ættingjana (og auðvitað hinn legginn). Við Davíð og strákarnir stoppuðum í tvo tíma en þá var mál að leggja af stað í næstu veislu.

Ein bekkjarsystir frænda míns er dóttir bestu vinkonu minnar síðan úr grunnskóla og fengum við boðskort í hennar veislu líka. Sú veisla var haldin á Hellu hjá móðurforeldrunum. Þótt ég hafi stöku sinnum komið í heimsókn þarna síðan vinkona mín flutti að heiman og fór sjálf að búa hefur það samt verið alltof sjaldan. Í dag rifjuðust upp fyrir mér allar skemmtilegu minningarnar frá því við vinkonur vorum unglingar og aðeins yngri... Yngri bræður fermingabarnsins, bróðurbörn vinkonu minnar og tvíburarnir náðu ágætlega saman og þegar fjörið var orðið helst til mikið inni var krökkunum sópað út. Þar undu þau sér svo vel að við Davíð vorum bara ekkert að flýta okkur og kvöddum ekki fyrr en rétt fyrir sjö...

Góður dagur og hér (hjá pabba) verður gist í nótt.

16.4.03

- Frídagur -

Útvarpið fór í gang klukkan hálfátta í morgun og ég gaf mér góðan tíma. Oddur Smári kom ekki fram fyrr en rétt fyrir átta og ég sagði honum að ég ætlaði að hlusta á fréttir áður en ég skreiddist á fætur. Steinn vaknaði um hálfníu. Hann var með hita í gærkvöldi en það hefur líklega verið svona þreytu-hiti því hann var stálsleginn í morgun. Keyrðum Davíð í vinnuna um níu og svo fór ég með strákana á Hárhornið við Hlemm til Torfa og fékk þá klippta. Varð að prútta við Odd um klippingu því helst hefði hann viljað allt hárið af eða mjög litla brodda en Davíð Steinn bað bara um venjulega páskaklippingu. Um leið búið var að skera hár strákanna fór ég upp í Hallgrímskirkju á opið hús til Dagbjartar og Magneu. Það var rekið upp heróp þegar við birtumst og fengum við hlýjar og góðar móttökur. Áður en við fórum vorum við svo leyst út með páskaeggjum. (Reyndar fengu öll börn (eða mömmur þeirra) páskaegg;-)

Eftir hádegi dreif ég mig í að ryksuga og skúra eldhúsgólfið og setja í eina þvottavél. Svo skruppum við mæðginin á bókasafnið. Þegar við komum heim aftur gaf ég þeim að drekka og fékk þá svo til að lesa fyrir mig.

Og í kvöld er saumaklúbbur í Grafarvoginum og nú er það öruggt að það verður 100% mæting! Ég hlakka til!!!

15.4.03

- Framtíðarsýn drengjanna -
(skrifað eins og þeir rituðu það í ritvinnslunni í skólanum)

Framtíð
  Fótboltamaður
davið 6-d


framtíð ég ætla að verða

finndinn
og ætla
að eiga eins mikið
af börn og
konan mín gétur fæt. Ég ætla ekki að
segja: fæddu annað barn!
svo hún fari ekki að gráta
oddur 6-d


- Rusla-drengirnir mínir -

Í gær hefði ég svo gjarnan vilja hafa video-upptökuvél við hendina. Tvíburarnir tóku upp á því að hreiðra um sig í ný-tæmdum ruslatunnunum og þóttust búa þar. Það var frekar skondið að sjá lokin lyftast og höfuðin á drengjunum birtast. Hulda frænka var samt alls ekki ánægð með þetta:
- "Mamma, komdu og taktu þá. Þeir eru að henda sér í ruslið!!!" Henni leist alls ekki á þetta og hefur líklega verið hrædd um að ruslabíllinn kæmi þá og þegar og tæki frændur hennar með sér... Þeir bræður voru svo settir í bað um kvöldið!

14.4.03

- Mánudagur -

Enn ein helgin liðin og apríl-mánuður alveg að verða hálfnaður. Oddur Smári ákvað að hætta við að hætta í handboltanum og fór á æfingu á föstudag. Sagðist hafa verið með í öllu en reyndar var ekki settur upp þrautahringurinn sem honum finnst svo erfiður.

Á laugardagsmorguninn fékk ég Davíð til að skutla mér upp í Áskirkju rétt fyrir tíu þar sem var plönuð löng kóræfing til klukkan þrjú. Æfingin gekk þokkalega og maðurinn sem opnaði fyrir okkur var svo elskulegur að hella upp á kaffi fyrir okkur. Kórstjórinn reyndist svo tímabundinn (var að fara að ferma hjá sér daginn eftir) og vildi þar að auki ekki halda okkur inni í svona góðu veðri þannig að æfingin var stytt um klukkutíma. Ég fékk sms frá Davíð um leið og ég kveikti á gemsanum. Þeir feðgar voru í sundi til þrjú. Ég labbaði því til móðurbróður míns, en hann býr við Austurbrún, og hitti konuna hans eina heima. Stoppaði samt hjá henni í rúman hálftíma áður en ég hélt för minni áfram að Laugardals-lauginni. Fann bílinn fljótt og var búin að bíða í sirka fimm mínútur þegar þeir feðgar komu. Strákarnir ráku náttúrulega upp stór augu og spurðu mig hvernig ég hefði komist þangað. Ég þóttist vera göldrótt!

Gærdagurinn var nokkuð rólegur. Strákarnir voru duglegir að leika sér úti og ég gaf mér smá tíma í að taka til hendinni heima. Ekki nærri nóg samt og verð bara að halda áfram nú í vikunni. Setti upp matinn á fjórða tímanum en um hálfsjö var ég búin að fá nóg. Sagði við Davíð, sem sat við tölvuna, að allt væri til búið til að fara að borða og svo dreif ég mig út í langan, langan göngutúr. Endaði hjá Helgu systur og um níu leytið bauð hún mér að fara með sér í pool. Ég var alveg til í það og við skemmtum okkur þrælvel. Þetta er eitthvað sem við verðum að gera saman aftur...

11.4.03

- Morgunhaninn -

Oddur kom fram upp úr klukkan hálfsjö í morgun. Útvarpsklukkan var búin að fara tvisvar í gang. Ég bað stráksa um að tala aðeins lægra og sagðist ætla að kúra smá stund lengur áður en ég færi í sturtu og á fætur.
-"Ég ætla að vaka hér yfir ykkur eins og ég sé GUÐ!", sagði hann þá
-"Ha, sagði ég syfjuð, ertu Guð?"
-"Nei, eins og....


Annars halda strákarnir þessa dagana að bekkjarsystkynin sem eru að verða sjö ára fari beint í sjö ára bekkinn á undan þeim. Oddur var eitthvað að tala um að það væru síðustu forvöð að hjálpa bekkjarsystur sinni því hún ætti afmæli núna bráðum.

10.4.03

- Kjúklingur og vöntun á lyktarskyni -

Eftir að hafa borið Huldu frænku á háhesti næstum því alla leiðina á Hrefnugötu frá Njálsborg fór ég að fást við matinn. Ég tók út kjúkling á þriðjudagskvöldið. Þegar ég tók hann úr umbúðunum brá mér svolítið því mér fannst hann heldur skrýtinn á litinn. Ég finn enga lykt og var mikið að spá í hvernig ég ætti að finna út hvort kjúklingurinn væri í lagi eða ekki. Helga systir leysti vandamálið þegar hún kom. Hún rak nefið upp að kjúklingnum og sagði svo: "Anna, þetta er reyktur kjúklingur!"

Já það getur bæði komið sér vel og illa að hafa ekkert lyktarskyn. Sennilega hef ég aldrei haft neitt lyktarskyn, er örugglega fædd með þennan galla (stundum kostur). Þegar ég var krakki var nefið á mér alltaf stíflað, annað hvort vegna kvefs eða ofnæmis. Ég var komin á unglingsárin þegar "stíflurnar" hurfu (a.m.k. til lengri eða skemmri tíma). Ég man eftir því að ef ég var beðin um að segja álit mitt á ilmvatni eða einhverju sem lyktaði vel þá þóttist ég nasa, yppti svo öxlum og sagði að þetta væri ágætt. Þar sem ég gat ekki skýrt þetta út fyrir sjálfri mér kom ég mér hjá því að skýra það út fyrir öðrum að ég hreinlega vissi ekki (og veit ekki enn í dag) hvað lykt er!!!

9.4.03

- Mið vika -

Vikuleg kóræfing var í gærkvöldi og fengum við nýtt lag. Það er úr West Side Story og svolítið langt svo ég grínaðist með að þetta væri auðvitað aukalagið okkar. Það gekk bara nokkuð vel að æfa þá parta sem teknir voru fyrir í gær. N.k. laugardag er svo löng kóræfing. Þá verður æft meira og minna frá klukkan tíu til þrjú. Það verður örugglega mjög gaman, allavega hlakka ég til.

8.4.03

- Þriðjudagur -
Sótti Huldu frænku rúmlega fjögur, í gær, og fór með hana heim til sín. Við vorum á undan mömmu hennar og tvíburunum en það kom til af því að Helga þurfti bæði að leita strákana uppi er hún sótti þá og koma svo við í fiskbúð á heimleiðinni. Oddur fékkst ekki til að koma inn úr bílnum og ég held að hann hafi verið þar úti í rúmlega klukkutíma. Bræður höfðu verið að slást og m.a. að bíta hvorn annan. Þetta eru nú meiri gaurarnir.

Lauk við að fylla út hina árlegu skattaskýrslu í gærkvöldi og sendi hana inn. Það er nú meiri munurinn að geta gert þetta svona rafrænt. Nú vonar maður bara að innan skamms verði forskráðar það margar upplýsingar fyrirfram að það þurfi bara að gera grein fyrir eignabreytingum og fara yfir allar tölur...

7.4.03

- FORMÚLAN í Braselíu -

Formúlan heldur áfram að vera spennandi. Hún var ræst af stað, sirka korter yfir fimm að íslenskum tíma, fyrir aftan öryggisbíl sem ók fyrir framan bílalestina fyrstu hringina. Brautin var rennblaut eftir miklar úrkomu og ekkert af keppnisliðunum voru með rétta gerð af dekkjum sem hentaði við þessar aðstæður. Keppendur höfðu skrifað undir plagg um að þeir vildu helst fresta keppninni. En keppnin var ekki blásin af og þegar öryggisbíllinn dró sig í hlé hófst mikill darraða-dans. Enginn bílar heltust samt úr lestinni til að byrja með. Heimamaðurinn Barrichello hafði verið á ráspól en missti svo nokkra fram úr sér strax eftir að öryggisbíllinn fór af brautinni. Eitthvað virtist vera að bílnum hans. Ein beyjan á brautinni var sérlega blaut og varasöm og þar fóru margir útaf og skemmdu bílana, m.a. heimsmeistarinn sjálfur sem á nú að vera einn sá besti við þessar aðstæður. Öryggisbíllinn kom nokkrum sinnum út. Sorglegast fannst mér að vélin í bílnum hans Barrichello skyldi gefa sig þegar hann var orðinn fyrstur aftur. Hann á bara ekki að fá að ljúka keppni á heimavelli. Í hring 55 urðu tvö alvarleg óhöpp með stuttu millibili og þar með var keppnin blásin af. Aðeins átta bílar voru eftir þá, og varla það, því rétt eftir að keppnin var stöðvuð kviknaði í einum bílnum. En formúlan virðist ætla að verða æsi spennandi þetta árið og ég ætla að reyna að sjá til þess að ég missi ekki af einni einustu keppni...

6.4.03

- Sunnudagur -

Það er eitthvað svo rólegt í kringum mig þótt klukkan sé langt gengin í eitt...

Verð fyrst að segja frá því sem Hulda frænka sagði við mig á föstudagskvöldið var. Hún hafði sofnað um fimm í tuttugu mínútur þannig að hún gat ekki sofnað strax um kvöldið (að öllu jöfnu þá er hún sofnuð fyrir sjö á kvöldin). Ég leyfði henni að horfa á Disney-myndina með mér og hafði hún mjög gaman af. Í miðri mynd leit hún á mig og sagði: "- Anna frænka, ég á mömmu!" Stelpan sofnaði upp úr tíu og mamma hennar kom heim rúmlega hálfellefu.

- KÓRAFMÆLIÐ tónleikar og fl. -
Þann 21. febrúar 1983 var stofnaður kór við Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Í gær hélt þessi kór upp á tuttugu ára afmælið. Davíð og strákarnir skutluðu okkur Biddu á Selfoss, skyldu okkur eftir við fjölbrautaskólann stuttu fyrir fjögur og fóru svo á Bakkann. Tónleikarnir hófust klukkan fjögur á hefðbundinn hátt. Kórfélagar gegnu inn og stilltu sér upp syngjandi Cum decore en það hefur verið inngöngulag kórsins frá upphafi. Kórinn söng sálmalög, ættjarðalög, dægurlög og fleira. Það var unun að hlusta á krakkana. Kórinn er mjög góður og þetta var hin besta skemmtun. Fyrir framan okkur Biddu sat "gamli" íslenskukennari minn úr FSu., Ásmundur Sverrir Pálsson með konu sinni og þriggja ára barnabarni. Litla stúlka hlustaði á kórinn allan tímann, klappaði þegar við átti og virtist njóta þess að vera þarna. Ég er reyndar ekkert svo hissa en samt er þetta óvenjulegt hjá svona ungu barni. Þegar aðeins tvö lög voru eftir var heiðursgesti tónleikanna og kórstjóra kórsins til margra ára (þar til fyrir örfáum árum) boðið að taka við og stjórna núverandi og fyrrverandi kórfélögum (sem þarna voru) syngja: "Sofðu unga ástin mín" og "Maístjarnan". Það er ótrúlegt hvað maður man bæði textann og röddina sína (alt) eftir öll þessi ár. Ég byrjaði í kórnum haustið ´85 á þriðju önn minni í skólanum og reyndi að vera með eitthvað eftir útskrift jólin ´87 en var ekki nema fram á vorið 1988.

Eftir tónleikana fór ég með Biddu þangað sem hún ólst upp og fengum við okkur kaffi og kanelsnúða. Rétt fyrir átt náði ein úr saumaklúbbnum, Svala, og einnig fyrrverandi kórfélagi í okkur og saman fórum við að Þingborg þar sem afmælisveisla kórsins var haldin. Þarna hittum við nokkra sem voru samtíða okkur úr kórnum en það vantaði samt stóran kjarna því ´67 árgangurinn frá Selfossi var að halda upp á tuttugu ára útskrift úr grunnskóla þennan sama dag og aðeins ein úr þeim hópi kom í kórafmælið. Vonandi rekast þessi afmæli ekki á eftir fimm ár! En á Þingborg spilaði léttsveit, undir stjórn Stefáns Þorleifssonar (en hann var samtíða mér í kórnum, útskrifaðist úr FSu á sama tíma og einnig úr KHÍ) nokkur lög. Boðið var upp á gómsætan pottrétt og nokkrir tóku til máls. Einnig var sunginn fjöldasöngur, kórlög sem allir þekktu. Um ellefu-leytið var orðið ljóst að enginn úr ´67 árganginum myndi kíkja við og fólk var byrjað að tínast í burtu. Við stöllurnar þrjár ákváðum þá að láta gott heita og kvöddum. Bidda gisti á Selfossi en ég fékk far með Svölu. Við sóttum manninn hennar og dóttur sem beðið höfðu á Selfossi og "drifum" okkur í bæinn. Það var ekki hægt að keyra hraðar en á 40-50 yfir heiðina því það var svara þoka og sást ekki á milli stika stundum...

Ég kom heim um hálfeitt og fann manninn minn að leika sér í tölvunni en hvar voru strákarnir??? Jú, þeir höfðu fengið að gista hjá afa og ömmu á Eyrarbakka. Davíð hafði hugsað sér gott til glóðarinnar að fá að vera einn í sínum tölvuheimi. Ég reyndar leyfði honum það bara og nú er hann enn sofandi og ég hérna ein að festa síðustu upplifanir á skjáinn...

4.4.03

- Enn einn föstudagurinn -

Hulda frænka var lasin og með hita í gær og þar sem Davíð féllst á að hætta vinnu um fjögur og sækja strákana sagði ég Helgu að við myndum ekki koma á Grettisgötuna (svo hún slapp mjög vel með eldamennsku fyrir okkur Hrefnugötuliðið í vikunni...). Tóti, gælubangsi, kom heim með Oddi úr skólanum og fær að fylgjast með fjölskyldunni og taka þátt í flestu fram á mánudagsmorgun.

Ég lofaði að sækja Huldu úr leikskólanum í dag og vera með hana og hjá henni eitthvað fram eftir kvöldi. Elda því á Grettisgötunni og sendi svo feðgana eina heim.

Framundan er spennandi helgi. Kórafmæli á morgun og formúlu-keppni á sunnudaginn...

3.4.03

- Skammarstrik Odds Smára -

Strákarnir komu heim með tvö stærðfræðiblöð í gær. Á meðan Davíð Steinn lauk við að borða byrjaði Oddur á að reikna annað blaðið og las svo heimalesturinn fyrir mig. Á meðan Oddur var að lesa byrjaði Davíð Steinn að reikna. Strákur var í stuði og lauk við báðar blaðsíðurnar. Oddur fór svo að hátta eftir að hafa lokið skyldunni og Davíð Steinn kom og las fyrir mig. Rétt áður en hann var búinn heyri ég að Oddur segir við pabba sinn: "Ég er búin að stroka út bls. 16 hjá Davíð Steini. Það á bara að reikna eina blaðsíðu í dag og hina á morgun!"

Rétt fyrir hálfátta í morgun bað ég Davíð Stein um að athuga hvernig pabba hans gengi að koma sér á fætur. Hann kom til baka skömmu síðar og sagði: "Hann er risinn upp frá dauðum..."

2.4.03

- Miðvikudagur -

Helga systir hélt að ég væri að láta hana hlaupa apríl í gær þegar ég sagði henni að hún mætti bara skutla strákunum heim eftir skólann og koma svo sjálf heim til sín. Sem sagt sleppa því að elda fyrir allt liðið. Davíð fór lasinn heim vel fyrir hádegi (í gær) (með einhverja magapest sem strákarnir voru líka búnir að fá (ég vona bara að þetta sé bundið við stráka;-)). Davíð treysti sér samt alveg til að taka á móti strákunum. Um leið og Helga kom heim til sín dreif ég mig heim og setti strákana í bað (var búin að lofa þeim því og gat ekki lagt það á Davíð). Fljótlega kvaddi ég þó og fór á kóræfingu. Það var til afgangur af rækjupizzu, uppáhald strákanna og svo lét Davíð þá sleppa með að lesa aðeins skylduna og einn aukalestur...

1.4.03

- Nýr mánuður -

Hann beit svolítið í kinnarnar í morgun og þegar ég leit í spegil eftir labbið og sá rjóðu kinnarnar mínar varð mér hugsað til frænku minnar sem ég var í teiti hjá á föstudagskvöldið var. Ég hef alltaf verið þannig að ef ég hreyfi mig þá verða kinnarnar mína eldrjóðar. Þegar ég var krakki voru þær þar að auki mjög bollulegar og þessi frænka mín kallaði þær epla-kinnar og freistaðist oft til þess að bíta í þær. Mér var meinilla við þetta en sl. föstudagskvöld gat ég þó sagt frá þessu í afmælis-veislunni!

Það er gabb-dagurinn mikli í dag. Eini dagurinn á árinu sem maður má plata fólk!!! Fyrir tveimur eða þremur árum náðum við mæðginin að láta húsbóndann hlaupa apríl. Þannig var að hann var að vinna alla nóttina fyrir þann 1. og var ekki kominn heim þegar við mæðginin fórum á fætur. Bíllinn var einhverra hluta vegna heima svo ég fékk þá hugmynd að láta annan strákinn hringja í pabba sinn og segja honum að við værum komin að sækja hann og biðum eftir honum fyrir utan. Davíð stóð upp frá tölvunni, fór út á svalir og kíkti út. Enginn bíll....