30.10.25

Hvar er nýja rúmið mitt?

Ég lét bílinn alveg vera í gær líkt og í fyrradag. Hefði sennilega samt átt að sópa aðeins af honum og moka snjóinn fyrir aftan bílinn. En í staðinn var ég að duna hér heima við að mestu. Fór þó líka í hálftíma göngutúr um nær umhverfi, hring um Linda-hverfi. Notaði gönguskóna sem Davíð Steinn gaf mér fyrir nokkru. Hann hafði keypt þá á sig en þegar til kom voru þeir of litlir. Eru alveg passlegir á mig og mjög góðir. En þar sem ég var að ganga á þeim í fyrsta skipti ákvað ég að vera ekki að ganga of langt. Var þó eitthvað að spá í að labba yfir í Krónuna en ákvað að það mætti alveg bíða aðeins lengur. Það væri líka skynsamlegt að útbúa lista yfir það helsta sem fer að vanta. 

29.10.25

Ekkert á ferðinni í gær

Svaf til klukkan að ganga átta í gærmorgun. Veit þó að ég rumskaði einhvern tímann skömmu eftir miðnætti og það tók smá tíma að sofna aftur. Skrifa það á alls konar spenning. Varð ekki beint andvaka og ég lét það ekki eftir mér að kveikja á símanum, nema til að athuga tímann, eða lampanum til að fara að lesa. Þegar ég kíkti svo út um gluggann eftir að ég fór á fætur varð mér ljóst að ég væri ekkert að fara neitt á bílnum. Hefði getað skroppið í smá göngu og verið aðeins duglegri við að sýsla hérna heima en einhvern veginn leið samt dagurinn og það frekar hratt. Um sex leytið setti ég upp hýðishrísgrjón í einn pott og afhýddi sæta kartöflu og skar niður ásamt einni vænni gulrót í pott og bætti blómkáli saman við. Með þessu borðaði ég smá súrkál. Ágætis kvöldmatur og það er afgangur sem vel er hægt að borða kaldan. 

28.10.25

Það snjóar og snjóar

Var komin á fætur upp úr klukkan sex í gærmorgun og í Laugardalslaug rúmum klukkutíma síðar. Synti 300m á braut 8. Þegar ég var að slaka á, í sjópottinum, og svara ungri konu um í hvaða sveit ég ólst upp spurði einn eldri maður, fastagestur, hvort afi minn hafi verið Oddur Oddsson frá Heiði. Sagðist hafa þekkt hann af afspurn.  Var mætt í osteostrong rétt rúmlega hálfníu. Fór heim og var að sýsla við eitt og annað í rólegheitum fram yfir hádegi. Upp úr hádeginu gerði ég ferð í Ikea, þar fann ég skógrind og einnig betri fætur undir ikea-mubluna í herberginu. Ætlaði að skreppa í fiskbúð Fúsa en þar var lokað vegna vetrarfrís. Skrapp í LÍ í Borgartúni og fékk útprentað skjal og smá leiðbeiningar varðandi gjaldkeraskipti í húsfélagi. Fór síðan heim aftur. Hringdi í pabba og báða syni mína til að spjalla við tvo af þeim en ég fékk Davíð Stein til að kíkja yfir seinni partinn eða á sjötta tímanum og hjálpa mér að skrúfa fæturnar undir og reisa við mubluna í herberginu. Hann hefði helst viljað setja upp ledljósin í eldhúsið og herbergið en bæði fannst mér orðið of skuggsýnt og ég var ekki viss um að eldhústrappan væri nógu há enda bara tvær tröppur.

27.10.25

Mánudagur

Var komin á fætur skömmu fyrir klukkan sjö. Hætti fljótlega við að fara í sund en var í staðinn að dútla við ýmislegt hér heima. Prófaði m.a. eldavélahelluna í fyrsta skipti og bjó mér til hafragraut. Um eitt leytið fór ég með umbúðirnar af stofumublunum í Sorpu. Á eftir mér í röðinni var bekkjarbróðir Davíðs og konan hans og hjálpaði Sæmi mér að tæma pappann úr bílnum alveg óumbeðið. Þau komust hvort sem er ekki í burtu fyrr en ég var búinn. Þetta tók þó alls ekki langa stund. Næst lá leiðin yfir til tvíburahálfsystur minnar. Þær mæðgur sátu að snæðingi í nokkurs konar morgun/hádegisverði og var mér boðið að njóta með þeim. Við vinkonurnar vorum svo á leiðinni í Ikea. Sonja átti sendingu á Korputorgi og við ákváðum að fara fyrst þangað. Áður en við voru komnar alla leið datt okkur í hug að kíkja í Bauhaus fyrst. Þar fundum við ýmislegt sem sett var í kerru og verslað. Það varð því engin ferð í Ikea í þetta skiptið, töldum okkur vera komnar með allt sem þarfnaðist í bili. Sóttum sendinguna hennar og fórum með hana í Ljósakurinn ég dreif mig heim og þangað kom frænka mín og nafna sem hjálpaði til við undirbúninginn undir söluna á Drápuhlíð. Sonja kom skömmu síðar með vörurnar úr Bauhaus, verkfæri, skrúfur og fleira. Fengum okkur te og drukkum það í stofunni. Það fór vel um okkur í sófanum. Þegar frænka mín var farin ætluðum við Sonja að setja fætur undir lausa ikea skápinn í herberginu. Þegar við snérum honum við sáum við að það var gert ráð fyrir fótum með skrúfum í. Ég þarf þá að fara í Ikea eftir allt saman. Sonja gerði tilraunir til að "vekja" handklæða ofninn en það þarf víst að kalla til pípara í það mál. En það var hægt að setja saman skúffueininguna sem tekur við hlutverki grindanna í herbergisskápnum. Klukkan var farin að ganga sjö þegar við kölluðum þetta gott í bili. Sonja kvaddi og ég sýslaði smávegis í viðbót áður en ég "dagaði" uppi í nýja hægindastólnum fyrir framan sjónvarpið. 

26.10.25

Mublur í stofuna

Svaf alveg þokkalega en ekki óslitið fyrstu nóttina í Núpalind.  Þurfti að fara á salernið um tvö og fannst svolítið of kalt að fletta af mér sænginni. Ofnarnir voru stilltir á minna en 3 og þrátt fyrir að fagna kuldanum í sjónum og þeim kalda þá fannst mér ekki þægilegt að trítla fram á bað. Samt svo skrítið að ég fann ekki fyrir þessu að deginum til. Fór á fætur um sjö leytið og var klukkan byrjuð að ganga níu þegar ég lagði af stað í Laugardalslaugina. Þar var mjög rólegt, amk í kvennaklefanum. Fór beint á braut 7 og synti 600m. Var komin heim aftur um hálfellefu. Systir mín hringdi í mig um hálfeitt og rétt eftir að við hættum að spjalla var hringt í mig vegna sófans, hægindastólsins og sófaborðsins. Þetta var allt komið inn á stofugólf til mín upp úr klukkan eitt. Stóllinn í einum stórum kassa, sófaborðið í einum kassa og sófinn í þremur "kössum" eða viðamiklum plast og pappaumbúðum. Hringdi strax í tvíburahálfsystur mína og hún kom um tvö leytið með verkfæri með sér. Hún sá eiginlega alfarið um að púsla þessu saman. Ég gekk að mestu frá pappanum og plastinu og var svo að styðja við eða hjálpa til við að lyfta þegar/ef það átti við. Svitinn bogaði af okkur báðum. Ég opnaði út á svalir og varð skömmu síðar að opna rifur á þá hluta sem loka svölunum því það myndaðis móða innan á plexíglerið. Klukkan var farin að ganga sjö þegar mublurnar voru komnar saman og búið að stilla þeim upp. Sonja kvaddi á áttunda tímanum og ég eyddi kvöldinu til klukkan að ganga tíu í rafmagns-hægindastólnum.