30.3.25

Labbiganga í Öskjuhlíðinni í gær

Vaknaði um hálfsjö í gærmorgun. Klæddi mig, tók af rúminu og gerði æfingar með 2kg lóðum. Eftir morgun verkin á baðherberginu settist ég inn í stofu með fartölvu í fanginu. N1 sonurinn lagði af stað á sína vakt stuttu fyrir hálfátta og ég var komin í sund milli átta og níu. Synti 600m, flesta á bakinu, fór 2x5mínútur í kalda, 15 mínútur í gufu og 10 mínútur í sjópottinn. Hékk líka aðeins í rimlunum. Þvoði mér um hárið og var mætt í esperanto hitting um hálfellefu. Lásum 3 bls. Áður en ég fór heim eftir hittinginn keypti ég bílaþvott hjá Löðri við Fiskislóð og fyllti á tankinn hjá AO í Öskjuhlíð. Var komin heim rétt upp úr klukkan tólf. Restin af deginum fór í alls konar, m.a. prjón, lestur og uþb klukkkutíma göngu um Öskjuhlíðina þar sem ég mætti m.a. vörubíl með fullt af timbri. Hringdi líka í Lilju vinkonu. Lánaði Oddi bílinn og bað hann um að athuga með þrýstinginn á dekkjunum í leiðinni í heimsókn til pabba síns. 

29.3.25

Stilla

Vaknaði uþb sex mínútur yfir sex í gærmorgun. Rétt seinna hringdi vekjarinn næstum tíu mínútum of snemma. Hafði ekki valið rétta stillingu áður en ég fór að sofa á fimmtudagskvöldið. En þetta var svo sem í góðu lagi. Slökkti strax á hljóðinu og vekjaranum, klæddi mig og gerði æfingar með 2kg lóðum áður en ég fór fram og fékk mér lýsi. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í stofusófa með fartölvu í fanginu. Skömmu síðar kom N1 sonurinn fram, er á helgarvakt og mætir klukkan sjö á virkum dögum til að baka og undirbúa opnun klukkan hálfátta. Ég var mætt í mína vinnu rétt fyrir klukkan hálfátta. Það var mjög rólegt í klinkinu til að byrja með svo við notuðum tímann til að blása og sópa yfir salinn og þurrka af þegar við vorum búin að renna vögnum fram í skúr 2. Fórum í kaffipásu í fyrra fallinu. Eftir kaffi voru komin verkefni sem entust okkur í rúman klukkutíma svo við vorum komin upp í mat einnig í fyrra fallinu eða áður en klukkan var orðin hálftólf. Fljótlega komu síðustu verkefnin og vorum við að vinna þau til klukkan að verða hálftvö. Þá var líka allt búið uppi. Markmiðið var að klára fyrir tvö því það átti að fara að vinna í kerfinu sem við notum mest og þá mátti að sjálfsögðu ekki vera að nota það á meðan. Hringdi í pabba og spjallaði við hann á meðan ég var á leiðinni yfir í Laugardalslaug. Fór í fyrstu ferðina af þremur í þann kalda um klukkan tvö, synti 500m á braut 6, var í gufu í 15mínútur, gerði teygjuæfingar bæði í gufunni og við rimlana fyrir framan og slakaði svo vel á í sjópottinum. Ákvað að kíkja í Sports Direct og kaupa mér nýja sundboli. Fann reyndar bara einn í minni stærð sem var með smá skálmum eins og mér finnst best. Keypti hann og skrapp svo aðeins í Krónuna við hliðina. Klukkan var farin að ganga sex þegar ég kom heim. 

28.3.25

Næstum komin helgi enn á ný

Ég fóta mig alltaf betur og betur í nýju verkefnunum í neðra. Geri þó mistök af og til en læri mikið af þeim líka. Gærdagurinn var rólegur fram að kaffi. Fór meira að segja upp í fyrra fallinu. Nóg var að gera milli tíu og tólf. Áttu ekki mikið eftir þegar við fórum í mat. Öllum verkefnum, uppi og niðri var lokið fyrir klukkan tvö svo ég var komin snemma í sund. Átti ekki strax von á kalda potts vinkonu minni svo ég skrapp eina ferð í þann kalda. Og viti menn hún kom stuttu síðar beint frá tannlækni og mjög dofin í andlitinu. Við fórum á brautir 2 og 3 og syntum 600m á hálftíma og hún sagðist eftir á hafa synt úr sér deyfinguna. Ég var komin heim upp úr klukkan fjögur. Einum og hálfum tíma síðar datt mér í hug að skreppa í göngu upp í Öskjuhlíð. Ætlaði mér að skoða aðeins trjáfellingarsvæðið. Það svæði var enn merkt lokað og ég vogaði mér ekki inn fyrir lokunarpósta þótt líklega væri vinnu lokið þann daginn. Síminn skráði sjálfvirkt á mig tvær stuttar göngur, 1,91km á 24 mínútum og 0,87km á 11 mínútum. Skrefafjöldi gærdagsins fór rétt yfir 10.000 skref en rúmlega 4000 af þeim skrefum safnaði ég í vinnunni. 

27.3.25

Inn í daginn

Var glaðvöknuð upp úr klukkan fimm í gærmorgun og greip í bók fyrsta hálftímann áður en ég fór fram úr klæddi mig og gerði æfingar með tveimur 2,5kg lóðum.  Það var mjög rúmur tími í alla morgunrútínu og svo var ég mætt í vinnu á sama tíma og oftast, um hálfátta. Fór niður í klinkið korter fyrir átta. Byrjaði á því að renna vögnum með pöntunum á fram í skúr 2, kveikja á vélum og taka út úr kerfinu þær pantanir sem voru farnar eða að fara úr húsi. Það var aðeins komin ein pöntun, við Jói tókum hana til en svo var allt rólegt í smá stund. Hann þurfti að skreppa frá í rúman klukkutíma og ég var niðri að tékka á pöntunum reglulega. Hannes í afgreiðslunni hringdi skömmu eftir að Jói skrapp og bað mig um að fara með 3 tóm blá box í skúr 1 og afhenda manni sem var að koma með nokkra poka af klinki frá einum félagasamtökum. Eftir að hann var farinn renndi ég vagninum með klinkpokunum inn en ákvað að bíða með að sortera klinkið því það var úr öðrum banka heldur en það verkefni sem ég ætlaði að byrja á og var rétt ókomið. Forstjórinn kom niður með framkvæmdastjóranum um níu, aðallega til að sjá að kortavélin er loksins farin úr húsi og lögð af stað til Dúbæ en þau heimsóttu mig líka í klinkið. Líklega vildi hún líka sjá nýju vélarnar sem stauka upp klinkið. Fór upp fyrir klukkan hálftíu. Það var smá fundur í kaffitímanum. Eftir kaffi og fund var nóg að gera niðri fram að hádegi því það komu inn 5 klinkkassar. Unnum úr fjórum þeirra en ég var þó meira í að bóka og taka til pantanir sem bárust fyrir ellefu. Eftir hádegi lenti ég í smá veseni því ég blandaði saman klinki í eina staukvél og það tók meira en hálftíma að hreinsa og sortera frá. Hefði tekið lengri tíma ef Jói hefði ekki hjálpað mér. Samt vorum við búin um tvö leytið og ég stakk mér í sjóinn rétt fyrir þrjú og var komin heim upp úr klukkan fjögur.

26.3.25

Sjósund eftir vinnu í dag

Rumskaði aðeins stuttu fyrir fimm í gærmorgun og náði rétt að hugsa "Nei, ekki aftur!" áður en ég sofnaði aftur. Vaknaði svo tveimur mínútum áður en vekjarinn átti að ýta við mér. Samt hafði ég alveg nægan tíma fyrir alla morgunrútínu. Mætti í vinnu um hálfátta og korteri síðar fór ég niður, aðeins á undan læriföður mínum. Kveikti á vélum og fór að athuga með pantanir og henda út úr kerfinu því sem var farið. Gleymdi alveg að renna tveimur vögnum, með klinkpöntunum, fram í skúr tvö. Jói sá um þau mál þegar hann kom niður um átta. Tókum til þær pantanir sem lágu fyrir svo var smá pása á meðan við biðum eftir að plastvélin væri orðin nógu heit. Þá fékk ég að æfa mig í að stauka upp þrjár tegundir af klinki. Gekk vel fyrir utan að ég er hálfgerður klaufi, ennþá, við að skipta um pappíra. Eftir kaffi var nóg að gera til klukkan að verða tólf. Eftir hádegispásu var smá róleg stund en milli hálftvö og hálfþrjú komu slatti af klinkpöntunum sem þurfti að taka til. Sumar fóru strax út en hinar fara í dag. Vorum búin að öllu skömmu síðar. Það var líka allt að verða búið uppi. Stimplaði mig út stuttu fyrir þrjú og var mætt á braut 8 korter yfir þrjú. Var búin að synda 100m þegar kalda potts vinkona mín mætti. Synti 500m í viðbót, allt í allt í hálftíma. Kom heim um hálfsex eftir að hafa verið tvo tíma í sundi.

Ég er búin að klára að lesa framlengdu bókina og byrjuð á tveimur af þessum fimm sem ég sótti á safnið sl. mánudag; Ævintýrið eftir Vigdísi Grímsdóttur og Dauðinn einn var vitni eftir Stefán Mána. Síðarnefnda bókin er ný og því með 14 daga skilafresti. Er búin að lesa tæplega 70 bls. af henni og er frekar hissa á mér að geta lagt hana frá mér, hún er það spennandi og vel skrifuð. En ég sá líka að ég á eftir að ná í og lesa  Hungur eftir sama höfund og um sömu persónu.