Þegar ég mætti á planið við Laugardalslaug voru grunsamlega fáir á ferli og það leit út fyrir að vera lokað. Sá eina manneskju hálfhlaupa að innganginum en koma svo fljótlega til baka. Ég ákvað því að fara og leggja bílnum á stæði við Austurbæjarskóla og fara í Sundhöllina. Í afgreiðslunni þar fékk ég að vita að það hefði verið jólagleði hjá starfsfólkinu í Laugardalslaug í gær og allir sem voru á vaktinni þurftu ekki að mæta og opna fyrr en um tíu. Ég synti á braut 3 í innilauginn, 650m, flesta á bakinu, á um hálftíma. Fór nokkrar ferðir í þann kalda og þvoði mér svo um hárið áður en ég fór upp úr og beint í esperanto-hitting. Um hálftólf leytið ætlaði ég renna bílnum í gegnum þvottastöðina Löður við Fiskislóð. Var búin að borga og númer tvö af þeim sem biðu úti. Þá kom starfsmaður og sagði að það væri bilun. Hann tók mynd af bílnúmerinu mínu og sagði að mér yrði hleypt inn næst þegar ég væri á ferðinni. Kom við í Krónunni þarna skammt frá áður en ég fór heim. Þegar ég var búin að ganga frá vörunum ákvað ég að heyra aðeins í tvíburahálfsystur minni. Það sem átti að verða smá spjall og stöðutékkun teygði í yfir klukkustund. Ekkert svo löngu eftir spjallið fór ég niður með dót í hina ýmsu gáma bæði í ruslageymslu hússins og gámana hinum megin við götuna. Notaði tækifærið og fór í það sem kalla má örgöngu þar sem labbaði lítinn rúmlega áttahundruð metra hring á tíu mínútum.
Anna Sigríður Hjaltadóttir
Dagbókarkorn!
13.12.25
12.12.25
Árbæjarlaug og infrarauð gufa eftir vinnu
Ég hrökk aðeins upp stuttu fyrir miðnætti og varð að skella mér á klósettið. Maginn var eitthvað að mótmæla einhverju af því sem ég hafði fengið mér af jólahlaðborðinu. Þetta var samt ekki svo slæmt nema að því leyti að ég sofnaði ekki strax aftur. Veit ekki alveg hvað klukkan var þegar ég festi svefn en þá svaf ég alveg þar til vekjaraklukkan hringdi. Gaf mér nokkrar mínútur áður en ég fór á fætur. Það var samt nógur tími til að taka aðeins fram léttustu handlóðin, 1kg og einnig lesa smávegis. Fékk mér eitt harðsoðið egg og burstaði tennur áður en ég fór í vinnuna. Sem fyrr var ég mætt aðeins of snemma, líklega um sjö mínútum á undan þeim sem kom næst og var með lykla. Á föstudögum er lokað klukkan fjögur og þar sem ég var í Hádegismóum og með sunddótið meðferðist úti í bíl ákvað ég að fara beint í Árbæjarlaugina. Synti í uþb tuttugu mínútur, settist í kalda pottinn í rúmar þrjár mínútur og fór svo inn og í sturtu og þurrkaði mér áður en ég fór í infrarauða klefann í korter. Var komin heim um hálfsjö.
11.12.25
Á leið í jólahlaðborð
Rumskaði tvisvar til að fara á salernið í nótt. Drakk bara einn tebolla í gærkvöldi svo ég reikna með að það hafi aðeins verið að renna af mér smá bjúgur. Var komin á fætur um hálfsjö. Sleppti lóðaæfingum en las í ca korter áður en ég fékk mér eitthvað að borða og burstaði svo tennurnar. Var mætt í Hádegismóa um hálfátta, nokkrum mínútum á undan stöðvarstjóranum. Ég er nokkuð viss um að ef ég hefði lagt fimm mínútum seinna af stað að heiman hefði ég lent í aðeins meiri umferð sem var þó orðin nokkur. Það var líka þónokkur umferð á köflum á leiðinni heim úr vinnu um hálffimm leytið. Fór þó ekki í gegnum Árbæinn eins og í gær. En umferðarþunginn í gær stafaði að hluta til vegna lokunar á brú þar sem of stórt ökutæki ætlaði að fara þá leið stíflaði allt. Annars á ég að mæta í Þarabakkann klukkan sex í jólahlaðborð með vinnunni, amk vinnufélögum af höfuðborgarsvæðinu.
10.12.25
Osteostrong og sjósund eftir vinnu í dag
Var vöknuð stuttu fyrir klukkan sex. Hafði nægan tíma til að gera nokkrar lóða æfingar, lesa og fá mér morgunmat áður en ég dreif mig í vinnuna. Tók bæði sund- og sjósundsdót með mér út í bíl. Fór aðeins aðra leið en ég gær og varð fljótari fyrir vikið. Var semsagt aftur mætt aðeins á undan stöðvarsjóranum í Hádegismóum. Ætla ekkert að eyða tíma í að skrifa um sjálfan vinnudaginn. Stimplaði mig út rétt fyrir klukkan hálffimm. Átti tíma í osteostrong í Hátúninu klukkan fimm en þar sem ég fór of snemma út af fyrsta hringtorginu lenti ég fljótlega í mikilli umferð. Klukkan var orðin korter yfir fimm þegar ég kom í Hátúnið. Þar er opið til sex á miðvikudögum og allir bara slakir. Ég komst strax að. Bætti mig á tveimur tækjum og var alveg við mitt besta á hinum tveimur tækjunum. Eftir tímann var ég búin að taka ákvörðun um að skella mér í Nauthólsvík. Var komin þangað rétt fyrir sex. Sjórinn 1,6°C og fjara. Ég fór tvisvar sinnum 2-4 mínútur út í, sjö mínútur í gufuna og tæpar tíu mínútur í pottinn eftir seinni ferðina. Var komin heim um sjö. Þá sá ég rafrænan póst frá Landsbankanum um að nýr aðili væri tekinn við gjaldkerastöðunni í húsfélaginu Drápuhlíð 21. Það sannreyndi ég með því að skrá mig í einkabankann í appinu í símanum og sá að ekki er lengur hægt að fletta og skipta um notanda. Þannig að ég er laus undan þessum skyldum.
9.12.25
Hádegismóar og í Árbæjarlaug eftir vinnu
Rumskaði um hálffimm leytið í morgun. Skrapp aðeins fram á pisseríið og kúrði mig svo aftur niður. Sofnaði ekki aftur en kveikti ekki ljós og fór á fætur fyrr en klukkan að verða sex. Notaði næsta klukkutímann til að gera nokkrar lóða-æfingar, lesa og fá mér morgunmat. Fór úr húsi korter yfir sjö og var komin í Hádegismóa um hálfátta, fyrst af öllum. Þremur mínútum á eftir mér mætti stöðvarstjórinn. Ég kynnti mig og varð samferða honum inn. Hann skráði mig inn í tíma-kerfið og sagði svo að mín vinnustöð í afgreiðslunni yrði á tölvunni hans. Það kom í ljós að ég var ekki komin með allan aðgang svo hann skráði sig inn þar til ég var búin að fá kerfisfræðinginn til að "hjálpa" mér inn í flest kerfi á mínum aðgangi seinna um morguninn. Sú sem vinnur í afgreiðslunni býr á Suðurnesjunum en hún var mætt í vinnu nokkru fyrir átta sem og hinir tveir skoðunarmennirnir. Ég lærði heilmikið nýtt en kerfin voru að stríða okkur reglulega og það kemur í ljós á næstu dögum og vikum hversu vel allt síast inn þegar notkunin fer að verða meiri og reglulegri. Klukkan hálfeitt var læst í afgreiðslunni og allir fóru upp á næstu hæð í eldhúskrókinn þar til að fá sér að borða. Opnað var aftur niðri á slaginu klukkan eitt. Stimplaði mig sjálf út um hálffimm. Hringdi í Sillu þegar ég var komin út í bíl. Hún var nýkomin heim úr sinni vinnu, komin í kósý-föt og um það bil að fara að slaka á en mér tókst að plata hana til að hitta mig við Árbæjarlaugina og fara með mér í sund, potta og infrarauða klefann. Alls tók þessi hittingur um klukkukstund og vorum við báðar ánægðar með hann. Höfðum um nóg að spjalla og tíminn leið frekar hratt. Ég kom heim fyrir tæpum hálftíma síðan og næsta mál á dagskrá er að fá sér af afgangnum síðan í gær.