2.9.25

Allt að gerast

Var mætt í sund upp úr klukkan sjö. Synti 400m á brautum 6, 7 og 8. Eftir 10 mínútur í gufu, annað eins í sjópottinum, 4mínútur og dýfu í kalda fór ég upp úr og beint í osteostrong. Var komin heim um níu. Tveimur tímum síðar hringdi fasteignasali DomusNova í mig og sagði að ég væri búin að fá gagntilboð í fasteignina sem ég var að bjóða í sl. föstudag. Þessu hafði ég alveg reiknað með. Ég hef tilhádegis í dag til að samþykkja sem ég mun líklega gera eftir að ég kem úr sundi um níu. Fannst ekki alveg hægt að samþykkja á mánudegi. Um hálftvö kom fasteignasalinn minn til mín hálftíma á undan öðrum einstaklingnum sem er að bjóða í mína íbúð. Hann var með tvo smiði með sér. Mér heyrist á öllu að ungu hjónin séu búin að ákveða ýmsar breytingar og ætli að hreiðra um sig í þessari íbúð næstu tuttugu árin eða svo. Frétti líklega eitthvað meira um það í dag eða á morgun. Klukkan var að verða sex þegar ég skrapp út í smá göngutúr um Öskjuhlíðina og kirkjugarðinn í Fossvoginum, tæplega 4km langan, í tveimur lotum því ég staldraði aðeins við hjá leiði móðurforeldra minna og eins móðurbróður míns. Kom heim rétt fyrir sjö.

1.9.25

Glænýr mánuður

Rumskaði aðeins um sex leytið í gærmorgun. Svaf svo sem ekkert mikið lengur og var ég komin á fætur rétt um átta. Pabbi hafði komið fram á sínum venjulega tíma til að fá sér eitthvað og taka niður tölur. Hann kom svo klæddur fram um hálfellefu og tók þá strax út pakka af saltkjöti úr ísskápnum. Eftir hádegið, rétt rúmlega eitt fór ég í tvískipta göngu. Labbaði niður með ánni, undir brúna við þjóðveginn og yfir tvær smábrýr alveg þar til ég kom að bekk við árbakkann. Þar settist ég niður í ca tíu mínútur og gönguforritið skráði á mig 1,6km. Snéri svo við og labbaði aðeins lengra upp eftir ánni þó ekki mjög mikið lengra en forritið skráði þó á mig 2km. Þegar ég kom til baka sagði pabbi að það væru að koma gestir í heimsókn úr bænum. Þau komu þrjú um hálffjögur, einn bróðir mömmu, konan hans og sonur. Þau settust inn í stofu á meðan ég fann til kaffið og teið. Eftir kaffið bauðst pabbi til að fara með þau í bíltúr um slóðir þar sem þessi frændi minn vann einhver sumur fyrir Landgræðsluna fyrir meira en hálfri öld síðan. Ég fékk að fara með í þann bíltúr. Keyrðum m.a. framhjá Heiði en þegar við komum aðeins framhjá Bolholti beygði pabbi inn á svæði sem einu sinni var hraun og svartir sandar en er nú mjög gróðurmikið með lúpínu, grasi, trjám og fleiru. Það tók góða stund að keyra í gegnum þetta eftir slóðanum. Hægt var að fara fleiri slóða þarna um. Þegar við komum að stað þar sem hægt var að velja um að fara í átt að Selsundi eða Gunnarsholti fékk frændi minn að velja. Hann valdi seinni slóðann. Komum til baka á Hellu eftir eins og hálfstíma bíltúr. Pabbi hellti aftur upp á könnuna en frændi minn var einn um að þiggja kaffið, við hin fengum okkur vatn. Gestirnir kvöddu um sjö leytið en ég stoppaði klukkutíma lengur áður en ég kvaddi pabba og brunaði í bæinn.

31.8.25

Síðasti dagurinn í ágúst á þessu ári

Ég var komin í sund og á braut 6 fyrir klukkan hálfníu í gærmorgun. Synti 400m þar af 150m skriðsund. Heildartími sundferðar, með öllu, tók uþb einn og hálfan tíma. Var svo mætt til norsku esperanto vinkonu minnar rétt fyrir tíu. Lásum 3bls í Kon Tiki. Kvaddi um hálftólf. Kom við á AO við Öskjuhlíð. Stoppaði stutt heima við. Gekk frá sunddótinu, kláraði að pakka niður í smátösku og lagði svo af stað austur á bóginn með tveimur stoppum í borginni; Heilsuhúsinu í Kringlunni og N1 við Gagnveg. Á síðari staðnum athugaði ég loftþrýstinginn á bíldekkjunum og kíkti svo aðeins á N1 soninn sem var á vakt. Um hálfþrjú leytið var ég komin í Guttormshaga í mína fyrstu heimsókn þangað á þessu ári. Til fólksins sem ég var hjá í sveit fyrir meira en 40 árum. Hafði hringt á undan mér til að athuga hvort það væri örugglega einhver heima. Til pabba var ég svo komin  upp úr klukkan fjögur. 

30.8.25

Laugardagur

Þar sem töluverður tími fór í alls konar hugsanir og áætlanir þegar ég rumskaði um tvö í fyrrinótt var ég ekki tilbúin að fara á fætur um sex leytið. Klukkan var reyndar farin að ganga níu þegar fasteignasalinn hringdi í mig. Það kom beiðni frá kaupendunum um hvort þau mættu koma með smið með sér í næstu viku. Við ákváðum að það væri velkomið að koma eftir hádegi á mánudaginn kemur. Sagði henni frá tilboðinu og hún ráðlagði mér að breyta því aðeins, hafa hærri fyrstu útborgun, aðal greiðsluna hæsta eftir að ég væri búin að fá tvær innborganir frá kaupendunum og halda eftir einni millijón sem ég greiddi upp við afsal. Sendi strax á hinn fasteignasalann. Um ellefu leytið fékk ég send ýmis gögn og tillögu að tilboði sem hún ráðlagði mér að fá fasteignasalann minn til að lesa yfir. Aðeins þurfti að breyta smá en rétt fyrir hádegi í gær skrifaði ég rafrænt undir kauptilboð frá mér sem gildir til klukkan 12 nk mánudag. Um miðjan dag uppgötvaði ég það að ég hafði skilið fjölmiðlamælinn minn eftir undir koddanum en ekki sett hann í vasann þegar ég fór á fætur á níunda tímanum. Ekkert varð úr sjó- eða sundferð í gær en um hálffjögur fór ég út í nokkuð góðan göngutúr. Settist niður á bekk í Öskjuhlíðinni eftir klukkutíma göngu, þaðan átti ég svo 13 mínútur eftir heim eftir rúmlega hálftíma setu á bekknum og nokkur símtöl.

29.8.25

Föstudagur

Í gærmorgun var ég mætt á braut 7 um hálfátta. Hafði brautina alveg útaf fyrir mig. Synti 600 á rúmum 25 mínútum, flesta á bakinu en sennilega uþb 200m skriðsund líka. Hitti svo kaldapotts vinkonu mína í okkar fyrstu ferð af fimm í kalda pottinum. Gaf mér mjög góðan tíma í alla rútínu þannig að í heildina tók sundferðin rétt rúmlega tvo tíma. Kom heim rétt fyrir tíu. Um ellefu tæmdi ég rauða bakpokann og labbaði með hann á bakinu í Fiskbúð Fúsa. Þar verslaði ég harðfisk, ýsu, sneið af laxi og nokkrar glútenlausar fiskibollur til að smakka. Var komin heim aftur fyrir klukkan tólf. Setti upp kartöflur og ýsuna. Harðfiskurinn fór í eina skúffu og laxabitinn og fiskibollurnar í frystinn. Var alltaf á leiðinni út aftur en gleymdi mér aðeins við lestur; Völundur eftir Steindór Ívarsson, mjög spennandi bók. Rétt fyrir fimm var ég mætt á opið hús á tveggja herbergja íbúð á 4. hæð við Núpalind. Sama hæð og blokk og ég fór á opið hús á þriggja herbergja íbúð sl. þriðjudag. Einhvern veginn leið mér strax eins og ég væri að koma heim þegar ég kom í íbúðina í gær og nú er verið að setja saman tilboð frá mér í fasteignina. Hringdi í tvíburahálfsystur mína strax og ég var búin að skoða og taka með mér upplýsingar. Við sammæltumst um að ég kæmi til hennar um átta leytið. Fór heim í millitíðinni að melta hughrifin og sendi m.a. póst á fasteignasalann. Mætti til Sonju rúmlega átta. Hún hjálpaði mér við að gera ferilsskrá svo ég geti farið að demba mér út í atvinnuleit. Kvöldið leið ótrúlega hratt og var klukkan orðin hálfellefu áður en ég kvaddi og fór heim. Þurfti svo auðvitað að lesa smávegis áður en ég fór að sofa.