30.9.23

Helgi og mánaðamót

Þriðja morguninn í sömu vikunni var ég vakin af vekjaraklukkunni eftir aðra svefnskrykkjótta nótt. Var samt mætt í vinnu um hálfátta. Vinnudagurinn stóð til klukkan að ganga þrjú og nýttist í framleiðslu og mánaðamótabókhalduppgjör. Var með sjósundsdótið í skottinu en ég fann að dagsformið var heldur bágt sennilega vegna of lítis svefns og svo mikillar einbeitingar í mánaðamótauppgjöri. Þannig að ég endaði heima og var komin þangað óvenju snemma eða upp úr klukkan hálfþrjú. Sá fyrir mér að líklega yrði ég að fara snemma í háttinn um kvöldið. En þegar til kom fór ég ekkert svo snemma í háttinn en heldur ekkert svo seint.

29.9.23

Mánaðamót

Vaknaði tuttugu mínútum áður en vekjarinn átti að hringja. Mætti í vinnu um hálfátta. Við fyrirliðinn vorum í kortaframleiðslu til hádegis en að hjálpa til uppi eftir hádegi. Verkefnum var ekki lokið fyrr en klukkan var korter í fjögur. Fór aftur í Sundhöllina. Synti ekki nema 200 metra en var heldur ekki nema uþb klukkutíma á svæðinu. Fór þrjár ferðir í kalda pottinn, eina í gufu og eina í heitasta pottinn. Fékk stæði við hliðina á innkeyrslunni. Tók stuttan göngutúr áður en ég fór inn. 

28.9.23

Sundhöllin

Annan morguninn í röð vaknaði ég við vekjaraklukkuna en að þessu sinni var svefninn miklu miklu betri. Svaf örugglega í átta tíma og var að dreyma eitthvað fallegt þegar ég var vakin í gærmorgun. Mætti í vinnu um hálfátta. Ætlaði að taka kerfin niðri af en varð það á að setja af stað kerfið uppi. Eða eins og sá í afgreiðslunni sagði þegar hann hringdi í securitas; "Svolítið breiðir þumalfingur"! Mér tókst að taka kerfin skammlaust af í annarri tilraun og snéri mér svo að því að taka saman framleiðslutölur. Fyrirliðinn fór niður að hlaða inn og "sækja" þær tölur sem kom án tilkynninga. Í kaffinu kom sú sem á að sjá um kaffistofuna á miðvikudögum þegar boðið er upp á brauð og kruðerí og oft haldnir fundir um það sem er á döfinni. Fór í smá innlagnir. Tók þó ekki mikið og var búin að skila af mér um það leyti sem tölur um hádegisframleiðsluna skiluðu sér. Vorum búnar niðri um tólf. Eftir mat tók ég að mér að sjá um frágang í eldhúsinu þar sem það var mjög mikið að gera hjá þeim sem eiga kaffistofuvaktina þessa vikuna.  Svo hreinsaði ég gullið áður en ég fór aftur í innlagnir. Klukkan var langt gengin í fjögur þegar mínum verkefnum var lokið. Þar sem Laugardalslaugin er lokuð þessa dagana ákvað ég að skreppa í Sundhöllina. Lagði bílnum á stæði við Austurbæjarskólann. Það kom mér á óvart að það var ekkert svo margt um manninn, fékk meira að segja pláss til að synda á einni af fjórum brautum í útilauginni og synti alveg í tuttugu mínútur. Fór þrisvar í kalda pottinn, einu sinni í heitasta sem er 42°C og einu sinni í gufu. Var komin heim um hálfsex. Ákvað að framlengja skilafrestinum á þeim bókum sem ég sótti á safnið fyrir mánuði síðan. Á aðeins eftir að lesa eina bók en ég get þá skilað öllum bókunum átta þegar ég hef lesið hana.

27.9.23

Framlenging á bókaskilum; seinni fjórar

Svaf frekar lítið í fyrrinótt. Rumskaði eftir rúmlega tveggja tíma svefn og var allt í einu glaðvöknuð. Kveikti á lampanum og greip í bókina sem ég er að lesa; Mín sök sem ég hef minnst á hér áður. Spennan var svo mikil að ég steingleymdi tímanum og las í rúma tvo klukkutíma. Gerði svo tilraun til að sofna aftur. Um fimm leytið var ég að spá í hvort ég ætti bara að fara á fætur en svo vissi ég næst af mér um hálfsjö þegar vekjaraklukkan truflaði hjá mér ágætis draum. Var mætt í vinnuna um hálfátta. Á milli framleiðsluskammta og eftir hádegi vorum við fyrirliðinn að hjálpa til í innleggjunum. Fannst ég vera pínu utan við mig og þurfti óvenju mikla aðstoð á köflum en samt var sagt að það munaði um þessa hjálp. Mínum vinnudegi lauk um hálffjögur. Þá fór ég beinustu leið heim. Horfði á landsleikinn Þýskaland - Ísland með öðru auganu en þegar staðan var orðin 4:0 fyrir þýsku fótboltastelpurnar skipti ég yfir í þáttaáhorf. Var komin í rúmið fyrir hálftíu og farin að sofa um tíu.

26.9.23

Innlagnir og yfirferð

Var vöknuð og búin að slökkva á vekjaraklukkunni tæpum hálftíma áður en hún átti að hringja. Mætti í vinnu um hálfátta. Vélin var með mánudagsstæla eða mótþróaþrjóskuröskun en við komum henni af stað upp úr klukkan hálfníu. Eftir kaffi tók ég innlegg úr nokkrum vínbúðum á höfðuborgarsvæðinu. Handtaldi úr pokunum því ég mundi ekki eftir því að það var hægt að setja seðlana á spjöld. Klukkan var korter í tólf þegar ég fór loksins niður til að hlaða inn, gera skiptiblað og framleiða hádegisskammtinn. Fyrirliðinn var farin amk tuttugu mínútum á undan mér að taka til í framleiðsluna og svo beið hún bara róleg eftir mér. Hún sat svo yfir viðgerðarmönnunum þegar þeir komu rúmlega tólf á meðan ég skrapp í mat. Yfirferðinni lauk korter fyrir fjögur og ég fór beinustu leið í Nauthólsvík. Engin ferð á logninu, flóð og 9°C. Svamlaði út að kaðli og kom svo við í lóninu á leiðinni í heita pottinn. Eftir sjósundsferðina skrapp ég í Krónuna vestur á Fiskislóð sem opnaði nýlega aftur eftir miklar breytingar.

25.9.23

Síðasti mánudagur septembermánaðar

Rumskaði um hálffimm leytið í gærmorgun og þurfti á salernið. Gerði heiðarlega tilraun til að kúra mig niður aftur en í staðinn helltist andinn yfir mig og ég varð að ná í símann til að skrá niður tvær nýjar limrur. Fór ekki á fætur fyrr en um átta en hafði ekki sofnað aftur. Hellti upp á kaffi um níu leytið, lagði kapla, vafraði á netinu, prjónaði og las. Hafði bleikju í matinn eftir hádegisfréttir og horfði svo á Liverpool leikinn. Hellti aftur á könnuna um þrjú leytið. Um fjögur tók ég mig saman, kvaddi pabba og brunaði beinustu leið heim.

24.9.23

Rok og rigning úti, sól í sinni inni

Dreif mig á fætur um sjö leytið í gærmorgun. Vafraði aðeins um á netinu eftir morgunverkin á baðherberginu en var komin í Laugardalslaugin rúmlega átta. Þar var að byrja sundmót í innilauginni, Stæðin á planinu fyrir framan að fyllast og nóg að gera í búningsklefunum. Ég byrjaði á því að skella mér í kalda pottinn í uþb fimm mínútur. Synti svo 400 metra, helminginn á bakinu hinn helminginn á skriðsundi og bringusundi. Eftir næstu ferð í kalda fór ég beint í gufuna. Svo kalda sturtu og í sjópottinn. Þar lenti ég á kjaftatörn en ég hafði þó tíma til að dýfa mér í þann kalda í nokkrar sekúndur áður en ég fór inn og þvoði mér um hárið. Var í vandræðum með að bakka út úr stæðinu vegna bíls sem var vinstra megin við minn bíl. Sem betur fer kom þarna kona að sem var að sverma fyrir stæðinu. Hún gat leiðbeint mér þessa fáu metra sem ég var óviss um eftir að ég hafði þó dregið hliðarspegilinn bílstjórameginn inn. Var mætt til espernato vinkonu minnar tuttugu mínútum seinna. Stoppaði hjá henni í eina og hálfa klukkustund og stór hluti af þeim tíma var helgaður lestri á esperanto. Fór svo beint heim með sund- og espreantodótið, setti niður í tösku og dreif mig austur til pabba til "rugla" aðeins í helgarrútínunni hans, eða þannig. 

23.9.23

Á Hellu þessa helgina

Ég var mætt í vinnu rétt fyrir klukkan hálfátta í gærmorgun. Stimplaði mig inn á slaginu hálf og fór niður í kortadeild að kveikja á vélinni og "sækja" þær tölur sem ekki kemur póstur um. Svo fór ég upp, fyllti á vatnsflöskuna, fékk mér einn kaffibolla og prjónaði eina umferð í tuskunni sem er á prjónunum núna. Við fyrirliðinn fórum niður rétt rúmlega átta og kláruðum framleiðslu og pökkun á þeim skömmtum sem lágu fyrir og föstudagstalningu að  auki áður en klukkan varð hálftíu. Eftir tíu þurfti fyrirliðinn að skreppa aðeins úr húsi en næsti framleiðsluskammtur var hvort eð er ekki að koma fyrr en upp úr ellefu. Ég fór því í "innleggs-vinnu" uppi í um klukkutíma. Tók einnig saman hádegistölurnar, skipti- og talningablað og fór niður að hlaða inn og fylla út skiptiblaðið. Svo komu fyrirmæli frá framkvæmdastjóra um að koma upp í mat en hann kom með eldbakaðar pizzur í hús upp úr klukkan hálftólf. Hann hafði annars kíkt á okkur um átta leytið um morguninn með mjög erfiðar fréttir af fyrrum yfirmanni. Fer kannski út í þá sálma seinna. Vinnudegi var lokið um tvöleytið og ég fór beinustu leið í Nauthólsvík. Hringdi í tvíburahálfsystur mína á leiðinni þangað til að leita frétta af tvíburahálfmömmu minni. Þar er staðan öllu betri, hægur bati þó en svo sagði Sonja mér af því að það hafði verið viðtal við systurdóttur mína í tíu fréttunum á fimmtudagskvöldið. Ég var rúmar tuttugu mínútur í sjónum og ca helminginn af þeim tíma í heita pottinum. Hringdi í pabba þegar ég var á leiðinni heim. Bríet var þá stödd hjá honum og talaði líka við mig en hann sagðist einmitt líka hafa séð viðtalið við hana kvöldið áður og horft á það tvisvar. Þegar ég kom heim var ég fljót að kveikja á sjónvarpinu og velja að horfa á tíu fréttirnar frá því 21. september. Það sem ég er endalaust stolt af þessari systurdóttur minni sem ég á smá þátt í að hún varð til, allt vegna þess að mamma hennar vildi fá mitt álit og skoðun á því sem hún var að velta fyrir sér síðla árs 2003. Fyrst vildi ég ekkert segja um málið en systir mín sótti fast eftir mínu áliti og af tveimur valkostum sem hún velti upp var svarið hjá mér; Þú getur alveg gert bæði (...stundað nám og eignast annað barn)!

22.9.23

Sjórinn 8,6°C

Var búin að klæða mig, búa um og slökkva á vekjaranum amk tuttugu mínútum áður en hann átti að hringja í gærmorgun. Mætti í vinnu um hálfátta. Vinnudagurinn fór allur fram í kringum kortin en honum var lokið fyrir klukkan tvö. Fyrir utan daglega framleiðslu kláruðum við endurnýjun og svo var förgun á ónýtu plasti frá júní, júlí og ágúst. Gjafakortið sem fannst í vélinni í upphafi vikuknnar eftir að hafa verið "týnt" síðan í október í fyrra var líka tætt niður. Var komin í Laugardalslaugina rétt rúmlega tvö. Fór beinustu leið á braut átta og synti 500 metra. Var búin að fara eina ferð í kalda pottinn, eina ferð í magnesíum pottinn og hafði setið um 15 mínútur í sjópottinum þegar kalda potts vinkona mín mætti á svæðið. Fórum nokkrar ferðir í þann kalda, og annað hvort í heitasta, magnesíupottinn eða gufuna inn á milli. Settumst líka 2x30 mínútur í smá sólbað. Vorum í minni síðustu ferð í magnesíum pottinum þegar tveimur pokum af magnesíum flögum var sturtað út í. Ég var komin heim um hálfsex eftir þrjá tíma á sundlaugarsvæðinu. Átti von á sendingu um sex leytið en sú sending skilaði sér um hálfníu leytið. Var að styrkja dóttur einnar sem vann með mér á Grandaborg veturinn 1991-92. Keypti af þeim tvær pakkningar af klósettrúllum. 

21.9.23

Sólbaðsveður við sundlaugina

Vaknaði um sex leytið í gærmorgun. Mætti í vinnuna um hálfátta. Kláruðum daglega framleiðslu rétt fyrir tólf. Eftir hádegi "hreinsaði" ég gullið og fékk svo að æfa mig og fylgjast með verkefnum í kringum seðavélarnar og hraðbankana. Korter yfir þrjú var allt búið. Ég fór beint í sund. Hringdi aftur í pabba og frétti að hann hefði skellt sér aftur í rennibrautina eftir morgunsundið. Hann var hinn hressasti. Ég hins vegar var löt varðandi sundið. Þegar ég var búin að fara fjórar ferðir í kalda, 10 mínútur í gufu, eina ferð í heitasta og 20 mínútur í sjópottinn mætti ég kalda potts vinkonu minni. Það varð til þess að ég tók aukaferðir í kalda og gufu og svo sátum við amk hálftíma í sólbaði. Þegar ég kvaddi um hálfsex var enn um 13°C hiti í forsælu. 

20.9.23

Pabbi og rennibrautirnar í sundlauginni á Hellu

Var komin á stjá einhvern tíman rétt upp úr klukkan sex í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu vafraði ég um á netinu til klukkan að byrja að ganga átta. Mætti í vinnu um hálfátta og fékk fljótlega skilaboð frá fyrirliðanum að hún yrði sein fyrir, ég mætti alveg taka saman allar tölur þegar ég væri búin að "sækja" Emmurnar. Sá að það var komin smá endurnýjun, ekki stór en bæði debet og kredit fyrir fleiri en einn aðila. Hlóð öllum skrám inn en tók svo aðeins saman daglegar framleiðslutölur. Þeirri framleiðslu lauk um hálftíu. Eftir kaffi fór ég yfir skjöl en fyrirliðinn vann í kortabókhaldinu og tók saman endurnýjunartölurnar. Ákváðum að geyma þá framleiðslu aðeins. Lokuðum og gengum frá kortadeildinni um tólf eftir að hafa framleitt hádegisskammtinn. Eftir fór ég í verkefni uppi sem tók einn og hálfan tíma og það þrátt fyrir að fá smá aðstoð í restina. Mínum verkefnum lauk um þrjú leytið og mátti ég fara þá. Hringdi í pabba á meðan ég var á leiðinni yfir í Laugardalslaugina. Var að kanna hvort hann væri með strengi eftir leikfimina. Svo var ekki og hann sagðist meira að segja hafa skellt sér eina salibunu í rennibraut eftir sundið um morguninn. Hann sagði líka að hann væri búinn að fá gott krem til að bera á fæturnar og þetta krem mildaði eða tæki alla verki svo honum fannst hann vera léttari á sér. Ég bað hann samt um að passa sig á að fara ekki á undan sjálfum sér, flýta sér hægt. En ég er mjög glöð að pabbi er allur að braggast eftir þessa slæmu tognun.

Kaldapotts vinkona mín mætti ekki á svæðið. Ég synti 500 metra þar af næstum 100 metra skriðsund, fór fimm sinnum í kalda pottinn, tvisvar í heitasta, einu sinni í gufu og einu sinni í sjópottinn. Þegar ég fór loksins upp úr og heim var klukkan byrjuð að ganga sex.

19.9.23

Hitt og þetta

Í gærmorgun vaknaði ég uþb korteri áður en vekjaraklukkan átti að hringja. Hafði samt nægan tíma til að vafra aðeins á netinu áður en ég fór í vinnuna. Vinnudagurinn stóð til klukkan rétt að byrja að ganga fjögur. Hringdi í pabba og talaði við hann á meðan ég var á leiðinni í Nauthólsvík. Mér fannst hann eitthvað móður og spurði hvort hann hefði verið á hlaupum. Þá kom í ljós að hann hafði verið í sínum fyrsta eldri borgara leikfimitíma. Sjórinn var 10,5°C, fjara, lítil ferð á loginu og ég synti, svamlaði og "skokkaði" út að kaðli og til baka. Var í sjónum í um hálftíma og eiginlega jafn lengi eða jafnvel lengur í heita pottinum því ég lenti á smá kjaftatörn. Var komin heim um hálfsex. 

18.9.23

Ný vinnuvika

Nokkrar línur um gærdaginn. Var vöknuð snemma en þó ekki eins snemma og oft áður. Hafði ekki stillt á mig klukku en fór á fætur um sjö leytið. Vafraði aðeins um á netinu eftir morgunverkin á baðherberginu en um átta tók ég sunddótið með mér út í bíl og brunaði í Laugardalslaugina. Fór tvær ferðir í þann kalda og eina í heitasta áður en ég synti 500 metra á braut 2. Gufan var lokuð svo ég fór í sjópottinn eftir þriðju kaldapotts ferðina. Var að spá í að dýfa mér fjórðu ferðina í þann kalda áður en ég færi upp úr en þá mætti ég yngstu mágkonu mömmu og fór því aftur í sjópottinn eftir 4 mínútur í kalda pottinum. Við Kristín spjölluðum örugglega saman í hálftíma áður en við urðum samferða meðfram laugarbakkanum, hún til að fara að synda á brautum 7-8 en ég til að dýfa mér smástund í kalda pottinn áður en ég færi upp úr. Fór í kalda sturtu. Í stað þess að fara beint heim skrapp ég í heimsókn á N1 vinnustöðina hans Davíðs Steins. Hann var á vakt. Ég byrjaði á því að jafna loftþrýstinginn í dekkjunum. Í raun hefði verið nóg að pumpa í hægra framdekkið því mælaborðið var ekki að biðja mig um að jafna þrýstinginn en það dekk var þó komið í "26 en ég vil hafa dekkin "32. Hin þrjú dekkin voru öll á bilinu "30-31. Sonurinn ætlaði ekki að þekkja mömmu sína þegar hún kom inn á stöðina, eftir að hafa lagt bílnum, og óskaði eftir að fá kaffi. Hann er ekki vanur að sjá mig í kápunni sem ég keypti í vor. Drakk tvo bolla af kaffi og spjallaði við soninn í tæpan hálftíma. Það var rólegt hjá þeim tveimur sem voru á vakt en hann þurfti þó að afgreiða einu sinni eða tvisvar þegar komu fleiri en einn kúnnar inn í einu.

Kom heim rétt fyrir tólf og útbjó mér plokkfisk úr afganginum af fisknum sem ég verslaði hjá Fúsa á föstudaginn var. Meiningin var að skreppa aðeins út í göngu einhvern tíma dagsins en dagurinn leið og fór í allt annað; tuskuprjón, lestur, íþrótta og þáttaáhorf.

17.9.23

Á helgar nótunum

Hafði stillt vekjaraklukkuna á sjö eitthvað en var vöknuð fyrir klukkan sex og búin að slökkva á vekjaranum. Vafraði aðeins um á netinu, hitti N1 sonin áður en hann fór af stað í vinnuna um sjö leytið og var sjálf komin í sund rétt eftir að opnaði um átta. Synti ekki nema 300 metra, allt á bringunni, en fór amk fjórum sinnum 5 mínútur í kalda pottinn og eftir tvö skipti í heitasta pottinn, eina góða ferð í gufu og aðra í sjópottinn dýfði ég mér örstutt í kalda áður en ég fór upp úr. Var mætt vestur í bæ klukkan að byrja að ganga ellefu. Esperanto vinkona mín sagðist vera aum í hálsinum og hélt hún væri að fá kvef svo við ákváðum að fresta esperanto grúskinu en fengum okkur kaffi/vatn og hrökk brauð og spjölluðum um allt annað en esperanto og alls ekki á esperanto. Stoppaði í tæpan klukkutíma. Var komin heim um það leyti sem hádegisleikurinn í enska boltanum byrjaði en í þeim leik tóku úlfarnir á móti Liverpool og voru eitt núll yfir í hálfleik en gestirnir og mitt lið skoruðu þrjú mörk í seinni hálfleik, það þriðja var reyndar skráð sem sjálfsmark heimamanna. Það var mikil íþróttaveisla í sjónvarpinu mínu í gær, enski boltinn, bikarúrslitaleikur í knattspyrnu karla og nokkrir handboltaleikir að auki. En ég var líka að lesa og án þess að vita almennilega afhverju er ég byrjuð á öllum þremur bókunum sem ólesnar eru af safninu. Fimm lesnar komnar ofan í bókasafnspokann. En þær sem ég er að lesa eru;  Kuldagustur eftir Quentin Bates, Mín sök eftir Clare Mackintosh og Liðin tíð eftir Lee Child. Er komin lengst inn í þá fyrst nefndu, búin að lesa 100 blaðsíður af 340 en komin styst með síðast nefndu bókina.

16.9.23

Sund og klipping

Var mætt í vinnu um hálfátta í gærmorgun. Tók saman fyrstu framleiðslutölur dagsins á meðan fyrirliðinn fór inn og "náði" í þær tölur sem við fáum ekki póst um. Vorum búnar að framleiða og pakka fyrirliggjandi verkefnum áður en klukkan varð hálftíu. Það var líka rólegt uppi svo ég fór aðeins að kíkja á mánaðamóta tengingar þótt enn sé hálfur mánuður þar til allar þær tölur verða tilbúnar. Það kom reyndar í ljós að sumar tengingar voru ekki réttar og lagaði ég þær snarlega. Hádegistölurnar skiluðu sér í pósti um ellefu og á framleiðsluvélina tuttugu mínútum síðar. Vorum búnar að að framleiða og pakka nokkru fyrir tólf. Ég fór beint í að klára bókhaldsvinnuna áður en ég fór að fá mér að borða. Eftir mat vorum við fyrirliðinn og einn til kölluð á fund með framkvæmdastjóra og næstráðandi. Ég gat ekki einu sinni hjálpað til við að ganga frá í eldhúsinu eftir matinn. Reyndar var aðeins minna verk að ganga frá en oft áður því það var súpa í stórri fötu, sallat á fati og núðluréttur á öðru fati og ekkert fleira. Fljótlega upp úr klukkan eitt var ljóst að verkefni dagsins voru ekki til skiptanna og við fyrirliðinn máttum fara heim. Ég fór beinustu leið í sund. Synti 500 metra, flesta á bakinu og fór 3x5 mínútur í kalda, tíu mínútur í gufu og korter í sjópottinn. Þvoði mér svo um hárið áður en ég mætti til Nonna í Kristu Quest. Var mætt þar tíu mínútum áður en klukkan varð fjögur en komst næstum strax í stólinn. Nonni tók um þrjá til fjóra sentimetra af hárinu, snyrti endana, blés, greiddi og setti hárolíu í restina. Næsti tími er svo ekki fyrr en eftir hálft ár eða svo. Kom við í Fiskbúð Fúsa, keypti 500gr af roð- og beinlausri ýsu og tvo poka af óbarinn ýsu.

15.9.23

Í þrumu stuði

Var búin snemma í vinnunni í gær, eða um hálfþrjú leytið. Ef ég hefði verið með sund- eða sjósundsdótið í skottinu hefði ég örugglega skroppið annað hvort í sund eða sjóinn. Þess í stað fór ég beint heim og hafði það nokkuð notalegt og rólegt til klukkan að rétt rúmlega fimm. Þá skipti ég um föt og rölti í rólegheitum á Hereford.  Þar hittumst við langflest sem vinnum í SKM deildinni í RB, framkvæmdastjórinn okkar, tvö af sumarliðunum og sú sem hætti störfum um síðustu mánaðamót. Tilefnið var einmitt að kveðja þessa "hættulegu" en hún var búin að leggja sitt af mörkum í bankageiranum í fjörutíuogþrjú ár. Hún varð sextíuogtveggja í sumar svo hún hefur verið átján ára þegar hún hóf störf fyrst í Landsbankaútibúinu í Grindavík. Okkur bauðst að fá okkur fordrykk, áfengan eða óáfengan á meðan við vorum að safnast saman en alls vorum við tuttuguogsex, vantaði bara tvo úr starfsliðinu en fjögur af sumarliðunum. Ég lét freistast og fékk mér eitt hvítvínsglas í fordrykk. Þegar sest var að borðum var einnig í boði að fá sér rautt eða hvítt með matnum. Fengum mjög góða súpu í forrétt, góða steik með bakaðri kartöflu og tveimur sósu tegundum í aðalrétt og heita súkkulaðikökusneið með ís og rjóma í eftirrétt. Glatt var á hjalla, góður andi í hópnum og tíminn flaug ógnar hratt. Um hálfníu tók einn þjónninn mynd af hópnum í tröppunum úti.

Annars var ég mjög skynsöm og framlengdi skilafresti á fjórum bókum af átta þótt ég væri búin að lesa þrjár af þeim. Hinar fjórar eru með skilafrest um næstu mánaðamót og vonandi verð ég búin að lesa flestar af þeim þá.

14.9.23

Sól og 14°C

Var búin í vinnunni um hálfþrjú í gær og fór beinustu leið í Nauthólsvík. Hringdi í pabba á meðan ég var á leiðinni á milli staða. Hann lét vel af sér. Var komin í sjóinn korter yfir þrjú og var uþb 20 mínútur í 10,5°C sjónum. Sat svo annað eins í heita pottinum þannig að klukkan var um fjögur þegar ég settist aftur út í bíl. Þá voru allir og amma þeirra í umferðinni og heimferðin tók mig klukkutíma. Notaði tækifærið og hringdi þrjú símtöl. Reyndi líka að hringja í tvíburahálfsystur mína, hún hringdi svo til baka í gærkvöldi. 

13.9.23

Miðjan á vikunni

Vinnudegi  gærdagsins lauk upp úr klukkan þrjú í gær. Sinnti alls konar verkefnum. Þessa vikuna erum ég og sú fjórða ábyrgar fyrir uppvaski og kaffistofu umsjón. Byrjum uppvaskið fljótlega eftir að allir hafa borðað sem er upp úr klukkan hálfeitt. Mis mikill matur er eftir á fötunum og í skálunum og það er einnig mjög misjafnt hvort einhver og þá hversu margir vilja taka afganga með sér. En oftast erum við búnar að skola upp ílátin og þurrka af öllum borðum um eitt. Eftir eldhúshádegisfrágang gærdagsins fór ég í að hreinsa gullið með annarri sem var þegar byrjuð. Bunkarnir voru alls yfir hundraðogfjörutíu og misstórir. Milli tvö og þrjú fór ég yfir innlagnir. En um þrjú var allt búið. Dreif mig fljótlega í sund. Sleppti því alveg að synda þó. Var búin með eina ferð í kalda pottinn og var búin að sitja um tíu mínútur í sjópottinum þegar kalda potts vinkona mín mætti á svæðið. Saman fórum við fimm ferðir í þann kalda, fjórar í heitasta pottinn og eina í gufuna. Þá fór ég í smá sólbað áður en ég fór upp úr og heim en hún fór eina aukaferð í heitt og kalt.

12.9.23

Ýmislegt

Útsofin og slök byrjaði ég gærdaginn á að vafra aðeins um á netinu eftir morgunverkin á baðherberginu. Mætti í vinnu um hálfátta. Þessa vikuna verð ég í bókhaldi og á móttökuendanum svo ég byrjaði á því að taka saman fyrstu tölur. Fyrirliðinn hlóð inn verkefnunum og þær tölur sem við fáum aldrei póst um voru í stærra lagi því það fylgdi smá endurnýjun með. Vorum því að framleiða og pakka fram að hádegi með smá kaffipásu á milli. Eftir hádegi fórum við í innlegg. Þrátt fyrir að það vanti smá mannskap og mikið að gera á mánudegi var allt langt komið þegar ég þurfti að fara um hálffjögur. Lagði bílnum rétt við Sundhöllina og rölti þaðan yfir í blóðbankann. Þrátt fyrir að ég hafi fengið rafræna staðfestingu á því að ég ætti pantaðan tíma á þessum stað og degi klukkan fjögur, fannst ekki bókun. En ég var þó ekki rekin í burtu heldur bókuð. Ég fékk mér smá hressingu fyrir gjöf. Hremmingarnar virtust ætla að halda áfram því sá sem ætlaði að sinna mér treysti sér ekki til að stinga mig og náði í hjúkrunarfræðing með reynslu. Sú fékk einnig að þreyfa á báðum olnbogabótum og valdi að stinga í þá vinstri. Ég fann ekkert fyrir stungunni en hún hitti heldur ekki í æðina. Ég ýtti mjög á um að tilraun yrði gerð við að reyna að hitta æðina í hægri olnbogabótinni og mér varð að ósk minni. Það gekk eins og í sögu svo ég gat gefið í sextugasta og fyrsta sinn af sextíuogfjórum heimsóknum. Mikið varð ég bæði glöð og fegin. Hringdi í pabba þegar ég var á leiðinni heim. Hann lét vel af sér og virðist vera kominn á beinu brautina. Hann segist þó enn finna fyrir verkjum í hægra fæti en þeir há honum ekkert.

11.9.23

Sextugastaogfjórða heimsóknin í besta bankann

Það var ætlun mín að byrja daginn á því að fara í stutt sund áður en ég myndi mæta í vinnuna. Er yfirleitt að vakna áður en klukkan er orðin sex og á virkum dögum opnar laugin klukkna 6:30. Færði samt stillinguna á vekjaraklukkunni úr 6:27 í 6:12. Þrátt fyrir að vera búin að slökkva á lampanum áður en klukkan sló tíu í gærkvöldi og sofnaði mjög fljótlega þá vaknaði ég ekki fyrr en vekjaraklukkan hringdi í morgun. Og þar sem ég hafði bara korter til stefnu breytti ég áætluninni.

Annars aðeins af gærdeginum. Pabbi hafði farið á undan mér í háttinn á laugardagskvöldið en hann var klæddur og kominn á ról á undan mér í gærmorgun. Sestur fyrir framan imbann, búinn að kveikja á honum og beið spenntur eftir að bronsleikurinn í HM karla í körfu hæfist þegar ég kom fram korter yfir átta. Ég horfði með honum á leikinn sem var mjög spennandi en þar unnu Kanadamenn B-lið Bandaríkjamanna. Gull leikurinn hófst um hálfeitt og sá leikur var ekki síður spennandi á milli Slóveníu og Þýskalands. Þeir síðar nefndu voru ekki búnir að tapa neinum leik í keppninni og þrátt fyrir að vera að elta fyrstu tvo leikhlutana þá snéru þeir taflinu sér í vil í þriðja leikhluta. Þeir komust yfir og unnu leikinn.

Kvaddi pabba seinni part dags og ók heim um Þrengslin. Fitjaði upp á nýrri tusku í gær eftir munstri úr nýrri tuskubókinni minni. Munstrið heitir strik. Byrjaði líka á að lesa síðustu bókina af þeim bókum sem eru með skilafrest um miðjan mánuðinn; Laufskálafuglinn eftir Margréti Lóu Jónsdóttur.

10.9.23

Á Hellu

Ég var mætt í sund rétt upp úr klukkan átta í gærmorgun. Hitti fullt af fólki og það voru nokkrar kjaftatarnirnar hjá mér. Synti þó 400 metra, fór 4x 5 mínútur í kalda, 15 mínútur í gufu og sennilega annað eins í sjópottinn og endaði á smá sólbaði. Klukkan var að verða tíu þegar ég lagði af stað frá planinu við Laugardalslaug. Leiðin lá vestur í bæ í esperanto hitting. Stoppaði þar í einn og hálfan tíma. Fór heim með sunddótið, sótti þvott af snúrunni, pakkaði niður fyrir helgarferð út á land og rétt áður en ég var tilbúin að fara kom annar sonurinn fram. Setti honum fyrir smá verkefni sem hann átti að skipta milli sín og bróður síns. Ég var komin á Hellum um tvö og pabbi var alveg steinhissa á að ég kæmi aðra helgina í röð. Ruglaði aðeins reglunni hjá honum með því að taka út 2 flök af þorskhnökkum sem ég eldaði um kvöldið. Hann er annars allur að koma til. Aðeins farinn að geta setið við tölvuna stund og stund og notast aðeins við eina hækju á göngunni um húsið. Gleymir reyndar hækjunni alveg inn á milli. Frétti það líka í gær að pabbi besta vinar míns féll frá þann 7. sl. Svo er rétt að geta þess að hugsanlega verður einhver breyting á færslutímum á þessum vettvangi næstu vikuna, þ.e. ég mun ekki leggja eins ríka áherslu á að byrja dagana á því að blogga. Hvað ég mun gera í staðinn kemur í ljós eftir því sem dögunum og vikunni vindur fram. 

9.9.23

Laugardagur

Í fyrrakvöld var ég svo spennt yfir einni bók, Litla blóm eftir Margréti Hjálmtýsdóttur, að klukkan var að verða hálftólf þegar ég loksins slökkti á lampanum. Ég kláraði þó ekki bókina alveg en svaf í einum dúr til klukkan rúmlega sex. Var að vinna til klukkan að ganga þrjú og fór þá beint í Nauthólsvík og hoppaði í öldunum þar í um tuttugu mínútur. Næst lá leiðin í bókamarkaðinn við Fiskislóð og svo í Krónuna í Skeifunni en framkvæmdir við Krónubúðina sem ég fer oftast í. Klukkan var langt gengin í sex þegar ég kom heim. 

8.9.23

Föstudagur

Ég var mætt í vinnu um hálfátta. Fyrirliðinn var komin, búin að taka kerfin af og byrjuð að undirbúa bókhaldið. Ég dreif mig niður til að hlaða inn þeim tölum sem ekki kemur póstur um. Gleymdi gleraugunum og læsti mig þar að auki úti. Skipti um aðgangsorð í fyrradag. Var með það skráð en líklega skráði ég það ekki alveg rétt og svo gæti áslátturinn líka hafa klikkað. Alla vega ég fékk bara þrjár tilraunir áður en allt læstist. Fékk að fara inn á aðgangi fyrirliðans þar til kerfisfræðingurinn mætti í hús. Hann kom rétt fyrir níu og beint niður til okkar. Við vorum samt ekki búnar að hafa samband við hann heldur var að hugsa um allt aðra hluti á kortavélinni. Hann hefði getað opnað aðganginn minn aftur en þar sem ég var ekki viss um að hafa aðgangsorðið alveg rétt sá hann svo um að ég valdi mér nýtt aðgangsorð og komst á því. Fyrri framleiðslu lauk upp úr klukkan hálftíu. Engin endurnýjun svo við vorum uppi til klukkan að ganga tólf. Fyrirliðinn fór í innlegg en ég fór aðeins að sinna gjaldkeramálum fyrir húsfélagið mitt. Gengum frá kortadeildinni um tólf eftir að hafa framleitt hádegisskammtinn. Ég fékk svo að hreinsa gullið. Það voru 106 mis stórir bunkar og við vorum tvær við þetta verk. Ég stimplaði mig út stuttu fyrir þrjú og fór beint í sund. Hringdi í pabba á leiðinni yfir í Laugardalinn. Hann lét vel af sér en er alltaf mjög verkjaður fyrst á morgnana. Í sundi synti ég 500 metra, flesta á bakinu, fór 4x6 mínútur í kalda, eina ferð í magnesíum pottinn, eina í gufuna og eina í sjópottinn. Þvoði mér svo um hárið áður en ég fór heim. 

7.9.23

Styttist í helgi

Nú brá svo við að ég svaf til klukkan að ganga sjö í gærmorgun. Vaknaði þó fimmtán mínútum áður en vekjaraklukkan átti að ýta við mér. Var mætt í vinnuna um hálfátta, rétt á undan fyrirliðanum. Ég byrjaði á því að taka kerfin af hvelfingu og kortadeild og fór svo niður til að hlaða inn þeim framleiðslutölum sem við fáum ekki póst um. Þurfti að byrja á því að skipta um aðgangsorð á vélinni. Ég var nefnilega á ítroðsluendanum í gær. Framleiðslan gekk ágætlega og við kláruðum endurýjunina milli tíu og ellefu. Allri framleiðslu var lokið rétt fyrir tólf svo við gengum frá kortadeildinni og vorum í innleggjunum eftir hádegi. Ég fékk líka að "hreinsa gullið". Verkefnum mínum í vinnunni lauk um þrjú. Þá fór ég beinustu leið í Nauthólsvík, hringdi í pabba á leiðinni þangað. Sjórinn enn í tveggja stafa tölu en kominn niður fyrir 12. Fjara, smá ferð á logninu, öldugangur og gaman að hoppa í þeim. Var um korter í sjónum og eitthvað svipað í heita pottinum á eftir.

6.9.23

Aftur tvær í kortadeild í bili

Var komin á stjá stuttu fyrir klukkan sex í gærmorgun. Morgunrútínan var svipuð og oftast á virkum vinnudögum. Mætti í vinnu um hálfátta. Tók saman fyrstu framleiðslutölur þar sem fyrrum fyrirliði átti að mæta á einum öðrum stað áður en  hún mætti til vinnu. Fór svo niður með tölurnar og hitti fyriliðann en hana vantaði aðstoð við að komast inn í hvelfingu svo hún gæti sent frá sér nokkur testkort strax um morguninn. Þegar fyrrum fyrirliði mætti á svæðið og með allar aðrar tölur og talningablöð vorum við nýbúnar að framleiða allt visa. Eftir kaffi héldum við áfram með endurnýjun og áttum aðeins eftir um 420 óframleidd kort þegar hádegisskammturinn kom yfir á vélina. Ákváðum að ganga frá þegar allt daglegt var búið og vorum í innleggjum eftir hádegi. Var búin í vinnu fyrir klukkan hálffjögur og fór beinustu leið í sund. Kláraði að synda 400m og átti aðeins eftir 100 metra þegar kaldapotts vinkonan mætti á svæðið. Hinni hana í þeim kalda í hennar annari ferð. Saman fórum við fimm ferðir í þann kalda. Var komin heim um hálfsex. Hellti mér þá upp á einn bolla af kaffi.

5.9.23

Eitt og annað og aðeins meira af pabba

Mér fannst sem ég hefði alveg átt að geta sofið aðeins lengur í gærmorgun en ég var vöknuð milli klukkan fimm og hálfsex. Vissi samt að ég myndi ekki sofna aftur svo ég dreif mig bara á fætur. Það kom svo í ljós að ég þurfti alveg á öllum þessum tíma að halda, m.a. til að setja inn bloggfærsluna. Strax og ég lagði svo af stað í vinnuna hringdi ég í pabba til að heyra í honum hljóðið. Hann var smá verkjaður en þó þokkalegur og samkvæmt honum ætlaði hann að ná í Jónu Mæju og leyfa henni að koma með sér í bæjar-rannsóknarstússið seinna um morguninn. Hann var líka viss um að hann yrði örugglega ekki með neinar heilsufarsfréttir samdægurs. Ég hugsaði eitthvað á þá leið að líklega væri best að leyfa honum að ráða þessu alveg.

Nóg var að gera í vinnunni á öllum vígstöðvum og vorum við fengnar til að loka kortadeildinni eftir hádegi og hjálpa til við innleggin uppi. Það komu tvær kortaendurnýjanir í gær en þær voru ekki mjög stórar og þar að auki eigum við að hafa hátt í þrjár vikur til þess að vinna þær. Önnur endurnýjunin var þó kláruð fyrir hádegi, rúmlega fimmhundruð kort, ásamt daglegri framleiðslu sem var í heildina um og yfir fjögurhundruð. Klukkan var byrjuð að ganga fimm þegar ég stimplaði mig út og fór í sund. Synti aðeins 200 metra og var búin að fara 2 x 5 mínútur í kalda, eina ferð í gufu og eina ferð í þann heitasta þegar kalda potts vinkona mín mætti á svæðið. Saman fórum við þrisvar sinnum þrjár í kalda, tvær í heitasta og eina í gufuna. Ég var komin heim upp úr klukkan sex.

Stuttu fyrir klukkan níu hringdi ég í Jónu Mæju til að heyra allt um það hvernig bæjarferðin með pabba hafði gengið. Hann hafði keyrt sig á Selfoss til hennar og vildi helst að hún keyrði hann á hans bíl. Hún gat þó sannfært hann um að best væri að hún færi á bíl sem hún væri vön að keyra. Hún hleypti honum út við Domus Medica en meðan hún var að leggja bílnum fór pabbi inn og sagðist vera að koma í blóðskimun. Honum var sagt að slíkt færi ekki fram þarna og hann fékk ekki einu sinni að gefa upp kennitöluna sína heldur var sagt að hann ætti að fara að stað í Ármúlanum. Jóna Mæja keyrði hann þangað. En þar kom í ljós að auðvitað átti pabbi að mæta í Dómus í ómskoðun. Það kom alla vega í ljós í ómskoðuninni að það fannst enginn blóðtappi og það var léttir. Þegar þau voru komin aftur á Selfoss kvaddi pabbi Jónu Mæju og þakkaði henni fyrir snúningana með sig. Hann keyrði sig hins vegar sjálfur á bráðamóttöku HSU til að láta vita að ekkert hefði komið út úr ómskoðuninni. Ákveðið var að setja hann í myndatöku en tækið var bilað og hann þurfti að bíða í rúma tvo tíma. Í stað þess að fara aftur Jónu Mæju og fá að leggja sig þar, lagði hann sig í bílnum sínum. Þetta vissi hún því hún hafði hringt í hann eftir að hann var komin heim til sín eftir þessa ævintýralegu bæjarferð.

Annars er mjög gaman út í Gdansk hjá Bríeti systurdóttur minni. Hún er að fara að keppa þar í kjötiðn á morgun. Hún er í herbergi með háriðnaðarnema sem er búin að lita og dedúa við hárið á henni og þær eru duglegar að snappa um allt mögulegt sem tengist staðnum, þeim og tilvonandi keppni.

4.9.23

Pabbi og hægri fóturinn hans

 Hann pabbi minn er svo mikill nagli og einnig æðrulaus. Hans mottó er í hnotskurn að það séu engin vandamál, bara lausnir og svo lætur hann hverjum degi nægja sína þjáningu. Á föstudaginn tóku sig upp verkir í hægri fætinum hans sem hann taldi vera vegna þess að um daginn bögglaðist fóturinn undir honum þegar hann fór í rennibrautina í sundlauginni. Í fyrstu fann hann ekki fyrir neinu en það átti eftir að breytast þannig að hann tók sér nokkurra daga frí úr sundi og setti teygjuhólka utan um hnén. Já, bæði hnén þótt hann væri verri í því hægra þá fann hann klárlega mun á sér að vera með svona stuðning á báðum hnjám. Á fimmtudaginn skrapp hann í langan bíltúr alla leið austur á Kirkjubæjarklaustur. Hann fann ekki fyrir neinu og var mjög ánægður með sig. Dreif sig því í sund á föstudagsmorgninum en sleppti því að fara í rennibrautina. Þegar fór að líða á daginn versnuðu verkirnir í hægra fætinum. Honum leið best í rúminu og einnig stólnum hans í stofunni ef hann hafði sæmilega hátt undir fótunum. Þegar ég kom með dótið mitt um hálftólf á laugardaginn þurfti ég að nota lykil til að komast inn og hann var rétt kominn í dyrnar á sínu herbergi þegar ég var búin að setja töskuna inn í "mitt" herbergi og komin á ganginn til hans. Hann vildi samt sjá til yfir helgina og það var ekkert sem ég gat gert fyrir hann. Svo ég fór í gleðskapinn með árganginum mínum og skemmti mér vel næstu tíu tímana. Pabbi var að enda við að hlusta á fréttirnar klukkan tíu þegar ég kom heim. Það var ljós hjá honum svo ég kíkti á hann. Hann sagðist vera slæmur en ætlaði að sjá til fram yfir helgi og ég mátti ekki einu sinni færa honum vatnsglas. En hann hafði gaman af viðburðasögu dagsins. Ég fór inn í rúm að lesa og að sofa um miðnætti aðfaranótt sunnudags. Rumskaði um þrjú og þurfti á salernið. Gat ekki sofnað strax aftur en svo var klukkan farin að ganga tíu á sunnudagsmorguninn þegar ég fór á fætur. Pabbi sagðist vera skárri en enn var ekkert sem ég gat eða mátti gera fyrir hann nema hugsa fyrir mat og ég mátti ráða hvenær það yrði. Hann klæddi sig og staulaðist á tveimur hækjum inn í stofustólinn sinn. Hann fékk mig til að fara með ryksuguróbótinn inn á eldhúsborð en kom þangað sjálfur fljótlega til að hreinsa hann og setja hann af stað. Held að fljótlega eftir það hafi verkirnir í fætinum farið að versna. Ég sagði við pabba að ég vildi ekki taka af honum ráðin en spurði hvort það væri nokkuð skynsamlegt að bíða fram yfir helgi með að láta líta á þetta. Ég setti upp saltfisk, kartöflur og rófubita um hálftólf, allt í sama pottinn. Um tólf hringdi pabbi sjálfur á læknavaktina og þegar hann var búin að lýsa verkjum og líðan var ákveðið að senda til hans sjúkrabíl. Við vorum búin að borða og ég að vaska upp þegar bíllinn og tveir sjúkraliðar kom um eitt. Þau afsökuðu sig hversu lengi þau voru á leiðinni. Pabbi var skoðaður vel og spurður út í eitt og annað. Sú sem var í forsvari ákvað að hringja í lækni og í framhaldinu var ákveðið að pabbi yrði fluttur á bráðamóttökuna á Selfoss. Hann fór á inniskónum, með gemsann og hækjurnar. Þetta var um hálftvö í gær. Róbótinn var ekki búinn að ryksuga og ég vildi heldur ekki fara fyrr en ég fengi fréttir af pabba. Hann hringdi um hálffimm. Vissi ekkert enn þá en bað mig um að koma til sín þvagleggjum. Lét hann vita áð ég var þá búin að láta systur mína og mág vita, svara hringingu frá nágrannanum og hringja í Jónu Mæju, konu Reynis frænda. Hún var strax boðin og búin til að koma til aðstoðar. Vildi helst stökkva strax af stað til að leita pabba uppi eða að minnsta kosti athuga hvort hún mætti fá að hitta hann. Ég hafði sagt að það væri betra að bíða frétta. Hringdi aftur þegar ég var búin að ganga frá, slökkva á öllu og pakka mínu dóti. Spurði hvort ég mætti koma á hana þvagleggjunum. Sagði henni að pabbi væri samþykkur því að þau Reynir kæmu til hans og ef hann fengi að fara heim að þau myndu skutla honum. Þegar ég kom í Löngumýrina þáði ég smá kaffi, knús og spjall áður en ég kvaddi aftur. Skrapp svo aðeins í Fossheiðina þar sem ég hitti tvíburahálfsystur mína hjá foreldrum sínum og þau nýbúin að borða dýrindis kjötsúpu. Ég stóðst ekki mátið og þáði smá súpu og spjall. Stuttu seinna hringdi Jóna Mæja. Pabbi hafði hringt og mátti fara heim í nótt en var með beiðni um að mæta í Domus Medica í dag. Held að hann hafi helst vilja fá að keyra sig þangað sjálfur en þegar Jóna og Reynir voru búin að skutlast með hann heim og þyggja kaffi og pönnsur voru þau búin að tala hann inn á að Jóna mætti sækja hann og snúast með hann.

3.9.23

Hittingur í útskriftarárgangi 1984 úr Helluskóla

Hafði stillt vekjaraklukkuna á hálfsjö en var auðvitað vöknuð klukkan sex. Dreif mig á fætur og var búin að blogga, vafra aðeins á netinu og byrjuð að pakka þegar N1 sonurinn kom fram rétt fyrir klukkan sjö. Hann skutlaði mér vestur í bæ áður en hann fór á vakt upp á Gagnveg. Ég var rétt lögð af stað á mínum bíl, í áttina heim, þegar kom merki í mælaborðið um að athuga með þrýstinginn á dekkjunum. Ég kom því við á planinu við ÓB í Öskjuhlíðinni og notaði loftið þar til að stilla öll dekk á "32. Eitt dekkið var komið niður í "21 hin voru milli "27-"30. Næst lá leiðin á AO við Sprengisand þar sem ég fyllti á tankinn. Svo fór ég heim og kláraði að pakka áður en ég dreif mig í sund. Synti 400 metra, þar af rétt um 100 metra skriðsund. Fór 3x5 mínútur í kalda, eina ferð í sjópottinn og eina ferð í gufuna áður en ég fór í kalda sturtu, upp úr og heim. Hellti upp á sterkt kaffi og fékk mér smá hressingu áður en ég dreif mig austur á Hellu. Var komin þangað um hálftólf og byrjaði á því að fara með hluta af dótinu á Hólavanginn og taka með mér hvítvínsbeljuna mína ef ég skyldi ákveða að fá mér í litlu tána síðar um daginn. Var komin á planið við Hellana við Ægisíðu um tólf. Þar söfnuðumst við saman 17 af 19 (2 af 19 komu seinna um daginn og 2 af 21 höfðu boðað afföll). Hópur af erlendum ferðamönnum voru að fara í Hellaskoðun með öðrum leiðsögumanni. Sá hópur byrjaði í Hellunum við þjóðveginn en Baldur bekkjarbróðir leiðsagði okkur og fór með okkur fyrst í einn hellinn hinum megin við túnið og bæinn þar sem hann ólst upp. Tvær úr hópnum höfðu aldrei komið þarna áður. Baldur var með mjög góða leiðsögn og kunni fullt af sögum og þarna er að eiga sér mjög merkileg uppbygging og kannski fáum við einhvern tímann að vita nákvæmari aldursgreiningu á þessum hellum. Eftir Hellaferðina sameinuðumst við í 4-5 bíla og fyrst ætluðum við að heimsækja grunnskólann. Þar eru miklar framkvæmdir í gangi og þegar við vorum nýkomin út á planið og búin að skoða innganginn sem við notuðum í 7-11 ára bekk kom hellidema og ákveðið var að drífa sig bara aftur í bílana og fara í bakaríið. Þar áttum við að hitta einn úr bæjarstjórninni um tvö. Vorum komin amk tuttugu mínútum of snemma en mörg okkar notuðu tækifærið og fengu sér kaffi. Þarna hitti ég eina úr KÓSÍ-kórnum, þá sem var formaður amk síðustu tíu árinn sem hann var starfræktur. Hún var á leið í heimsókn til frænda síns um tvö. Eftir að við höfðum fengið kynningu um uppbyggingu og ýmisleg sveitastjórnarmál skruppum við að svokölluðum kúlum sem tengdasonur Baldurs er að byggja upp og á að vera fyrir ferðamenn sem m.a. vilja upplifa og sjá Norðurljós. Svo fórum við aftur í afgreiðsluna við Hellana og þar bauðst okkur að smakka bjór úr héraðinu og saltkringlur með. Ég þáði bita af kringlu og bláan kristal í dós. Þarna bættist líka átjánda manneskjan í hópinn og ég hringdi myndsímtal til Ellu og gekk á röðina svo mannskapurinn og hún gætu heilsast eða amk séð hvort annað. Næst lá leiðin að Heiðarbóli sem er í landi Heiðarbrúnar fyrir vestan á. Þar er ein bekkjarsystirin og maðurinn hennar búin að byggja sér sumarhús á góðum stað með frábært útsýni. Settar voru upp nýteknar kartöflur úr Þykkvabænum og þegar þær voru að verða tilbúnar voru valdir tveir grillmeistarar úr hópnum, held að það hafi samt farið amk fimm út. Sá 19. bættist í hópinn um það leyti sem verið var að bjóða fólki að gjöra svo vel að fá sér. Einn úr hópnum tók að sér að stjórna því hverjir byrjuðu en þetta gekk fljótt og vel fyrir sig og var maturinn og meðlætið mjög gott. Þarna var ég búin að ákveða að láta vínið alveg vera. Það voru fleiri árgangar að hittast og við áttum frátekið borð á Stracta frá klukkan níu en þangað fóru fæstir. Veit þó að amk þrír af strákunum áttu pantað gistinu svo kannski hittu þeir einhverja úr hinum árgöngunum. Ég kvaddi stuttu fyrir tíu og þá voru húsráðendur og átta manns eftir. Þetta var semsagt mjög skemmtilegur hittingur og strax farið að tala um hitting á næsta ári aftur en þá verða 40 ár síðan við útskrifuðumst úr grunnskóla.

2.9.23

Úfinn sjór í gær

Var mætt í vinnuna um hálfátta. Var aftur á ítroðsluendanum. Fyrirliggjandi framleiðslu lauk um hálftíu. Síðasti skammturinn skilaði sér á vélina á tólfta tímanum og þá fyrst fórum við niður aftur. Vorum búnar að ganga frá deildinni um tólf og það sem var að fara í útibú og póst komst vel fyrir í einum póstkassa. Eftir hádegi var ég að hjálpa til uppi með því að fara yfir sum innleggin. Það hef ég ekki gert síðan fyrir sumarfrí en gekk ágætlega. Hætti vinnu rétt fyrir þrjú en þá var allt að verða búið. Fór beinustu leið í Nauthólsvík. Það var fjara, sjórinn rúmar tólf gráður, öldugangur og smá hraðferð á logninu. Ég lét mér nægja að leika mér í öldunum í um það bil korter, synti sama og ekkert en hoppaði um smá svæði og sveiflaði handleggjunum. Var komin heim um hálffimm og stoppaði þar aðeins í rúman klukkutíma áður en ég fór vestur í bæ í hitting með Viðeyjargenginu. Fór á bílnum því ég ætlaði mér ekki að fá mér í litlu tána. En ég breytti þeim áætlunum þegar ég var mætt á svæðið og hafði fengið jákvætt svar frá N1 syninum um að sækja mig og skutla mér svo eftir bílnum áður en hann færi á laugardagsvaktina. Sú elsta í hópnum bauð upp á kjúklingasúpu, sallat og ostaköku í eftirrétt. Með þessu drukkum við vatn og hvítt eða rautt. Ég hafði verið seinust á svæðið en var sótt fyrst en klukkan var þá um átta og ég búin að eiga gott spjall við vinkonurnar í um tvo tíma. Horfði á einn og hálfan þátt áður en ég fór inn í rúm að lesa. 

1.9.23

September hefur göngu sína

Vaknaði helst til snemma í gærmorgun en þegar ég gafst upp á að reyna að kúra mig niður aftur  var klukkan rétt byrjuð að ganga sex. Fór á fætur, sinnti morgunverkunum á baðherberginu og settist svo inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Tveir tímar voru ekki lengi að líða. Mætti í vinnu um hálfátta. Ég var á ítroðsluendanum og fyrrum fyrirliði í bókhaldinu og á móttökuendanum. Rétt fyrir níu kom framkvæmdastjórinn niður til að ná í okkur. Hann var rétt áður búinn að tilkynna á TEAMS að kaffið yrði í fyrra fallinu en við vorum að ljúka við að telja fyrri vagninn eftir visa framleiðslu dagsins svo við vorum ekki búnar að sjá skilaboðin. Tilefni þessa kaffitíma var að kveðja einn starfsmann SKM sem var að vinna sinn síðasta vinnudag, byrjaði í Landsbankanum í Grindavík fyrir um 40 árum síðan. Það var boðið upp á þrjár brauðtertur, gos og gotterí. Annars var vinnudagurinn frekar rólegur. Daglegri kortaframleiðslu lauk rétt fyrir tólf. Eftir hádegi fór ég í verkefni sem kallast að "hreinsa gullið". Það voru 156 bunkar sem þurfti að hreinsa ég var búin með meiri helminginn þegar ég fékk aðstoð en ég hreinsaði amk rúmlega hundrað bunka á rúmum klukkutíma. Allt var búið fyrir klukkan þrjú. Var komin í Laugardalslaugina rétt rúmlega þrjú. Byrjaði á því að sitja sex mínútur í kalda pottinum áður en ég fór á braut átta. Var á ferð númer tvö þegar ég sá kalda potts vinkonu mína mæta svo ég synti ekki fleiri ferðir en fór fimm ferðir með vinkonunni í kalda, tvær í heitasta, tvær í magnesíum pottinn, eina í gufu og eina í sjópottinn. Kom heim á sjötta tímanum.