14.7.25

Ný vika

Ég var komin á braut 7 í Laugardalslauginni tuttugu mínútur yfir átta. Synti 600m á tæpum hálftíma. Var komin heim aftur á ellefta tímanum. Dagurinn var semi vel nýttur í alls konar sýsl. Á sjötta tímanum ákvað ég að bjóða strákunum út að borða. Það styttist í afmælið þeirra og það er ekki víst að þeir verði báðir á sama stað um það leyti. Fórum á bílnum hans Davíðs Steins. Vorum ekki alveg búin á ákveða hvert þegar við lögðum af stað en enduðum svo á Saffran í Faxafeni. 

13.7.25

Samverustundir með systurdóttur

Gærdagurinn var byrjaður fyrir klukkan fimm í gærmorgun. Tíminn fram að sundferð var nýttur í alls konar, bæði morgunrútinu og fleira. Var mætt í Laugardalinn um það leyti sem verið var að opna um átta. Fór beint á braut 7 og synti í uþb hálftíma eða 600m. Fór beint úr sundi í esperantohitting og var komin þangað um 10. Ég var svo komin heim aftur um hálftólf. Fljótlega fór ég aftur að sýsla við eitt og annað en þegar ég stóð mig að því að vera að fara úr einu í annað settist ég aðeins niður og hringdi í tvíburahálfsystur mína. Eftir gott spjall í hátt í klukkutíma hélt ég sýslinu áfram. Hulda frænka kom um þrjú leytið. Hún kom í bæinn í fyrradag en heldur til hjá vinkonu. Strákarnir voru að undirbúa sig undir heimsókn í Mosfellsbæinn og kvöddu á fimmta tímanum. Milli fimm og hálfsjö gerðum við frænkur okkur ferðir í Sports Direct og Ali Baba. Á fyrri staðnum keypti ég mér tvo nýja sundboli en frænka mín fjárfesti í skóm. Á seinni staðnum bauð ég frænku minni upp á uppáhalds réttinn hennar en fékk mér sjálf fiskrétt. Eftir að við komum heim aftur sat Hulda í smá stund úti á tröppum að njóta veðurblíðunnar. Vinkona hennar sótti hana stuttu fyrir tíu og þá skreið ég upp í rúm og las í smá stund. Bókin Vatnið brennur kemur á óvart. Var ekki alveg að tengja fyrst þegar ég byrjaði að lesa hana en núna verð ég helst að vita hvernig allt tengist og hvernig þetta endar allt saman. Bókin flakkar um þrjú tímabil, nútímann, 1972 og 6000 f. Kr. Hún er óhugnanleg á köflum en einhvern veginn eru sögurnar búnar að "ná mér".

12.7.25

Helgi

Var komin á stjá fyrir klukkan sex í gærmorgun. Í gær var sjósundsdagur og ég var mætt í Nauthólsvík rétt upp úr klukkan tíu. Sjórinn mældist 13°C, það var að fjara út og ég svamlaði og skokkaði út að kaðli á rúmum tíu mínútum. Ég fór aftur í sjóinn eftir 10 mínútur í gufunni og sat svo smá stund í pottinum áður en ég fór upp úr. Þá var klukkan rétt að verða ellefu. Fór beint heim og ekki aftur út fyrr en um þrjú. En þá skrapp ég út í göngu, réttsælis í kringum Öskjuhlíðina með tveimur stoppum. Eftir seinna stoppið sem var þegar ég settist á bekk í Eskihlíðinni. Þaðan var svo stutt heim að það skráðist ekki nein ganga. En það skráðust niður 2,2km og 3,2km. 

11.7.25

Hittingur

Ég var komin á fætur fyrir klukkan sex í gærmorgun en mætti samt ekki í Laugardalslaug fyrr en upp úr klukkan hálfátta. Synti 700m á braut 7, langflesta á bakinu. Þegar ég syndi á bakinu þýðir það að ég þvæ mér um hárið. Þetta gerist svona ca einu sinni í viku. Úr sundi brunaði ég upp á N1 við Gagnveg. Jafnaði þrýstinginn á dekkjunum og var svo að spjalla við N1 soninn og vinnufélaga hans sem átti 25 ára afmæli í gær. Mér skilst að Davíð Steinn hafi bæði sungið fyrir hann og fært honum afmælisköku. Það teygðist aðeins úr spjallinu og klukkan var byrjuð að ganga tólf þegar ég kvaddi og hélt heim á leið. Heima var ég að dunda mér við ýmislegt þar til fyrrum samstarfskona hafði samband og bað mig um að bruna til sín í fjögurra konu hitting. Við fjórar vorum þær sem komu að kortagerðarvinnu þar til henni var hætt í desember á sl. ári. Það var virkilega gott og gaman að hittast. Spjallað um alla heima og geyma og tíminn flaug hratt hjá. Þegar ég kom heim aftur hélt ég sýslinu áfram þar til leikurinn Ísland - Noregur 3:4 á EM kvenna hófst. Ég kláraði líka þriðju bókina af fjórum sem ég sótti síðast á safnið. Aðal skúrkurinn náðist ekki en gat komið því þannig fyrir að annar var handtekinn í hans stað. Það hlýtur að þýða að það eru fleiri bækur um þessar sögur persónur. 

10.7.25

Tíundi júlí

Gærmorguninn var einn af þeim dögum sem byrjaði óþægilega snemma en ég virtist alveg vera útsofin áður en klukkan var einu sinni orðin fimm. Þegar ég gafst upp á að reyna að kúra lengur greip ég í bók af náttborðinu og setti lesgleraugu á nefið og las þar til klukkan var að verða sex. Þá fór ég á fætur og sinnti hefðbundinni morgunrútínu. Vafraði helst til lengi í netheimum en ég var þó búin að leggja frá mér fartölvuna um átta. Um níu leytið útbjó ég mér hafragraut og svo var ég mætt á planið við Nauthólsvík rétt fyrir klukkan tíu. Kalda potts vinkona mín var þá þegar mætt. Sjórinn var rúmlega tólf gráður og það var að fjara meir og meir út. Við fórum þrisvar í sjóinn og tvisvar í gufu og klukkan var um hálftólf þegar við fórum upp úr og kvöddumst. Ég kom við í Fisbúð Fúsa áður en ég fór heim. Keypti m.a. ýsu í soðið og fljótlega eftir að ég kom heim skellti ég hluta af henni í pott og hluta í frysti. Afgangurinn af deginum var alls konar. Ýmislegt gert og hugsað, spekúlerað og spáð. M.a. átti ég mjög langt símtal við eina vinkonu mína sem er fasteignasali. Það skal skrifast og viðurkennast að ég er búin að vera að velta því fyrir mér í ákveðinn tíma að gera breytingar. Stöku sinnum í gegnum sl amk fimm ár hef ég verið að velta fyrir mér ýmsum hlutum og oftar en ekki ýtt þeim svo frá mér og ákveðið að sjá til. En það er pottþétt ekki hægt að "sjá til" alveg endalaust og á einhverjum tímapunkti verður maður að taka ákvörðun um að hrökkva eða stökkva. Ég sem er meira en lítið fanaföst en engu að síður með ágæta aðlögunarhæfileika, syndi bæði með og á móti straumnum og er búin að vera í millibils ástandi sl. mánuði þarf að fara að standa enn betur með sjálfri mér og gera enn frekari breytingar. Veit innst inni að þetta verður allt í góðu lagi, hvernig svo sem hlutirnir þróast. 

9.7.25

Sjósundsdagur framundan

Ég vaknaði útsofin um hálfsex í gærmorgun. Var samt ekki mætt í sund fyrr en um hálfátta. Fór beint á braut 7 og synti 700m áður en ég fór fyrstu ferðina í þann kalda. Ferðirnar í hann urðu þó aðeins þrjár talsins, 2 fimm mínútna ferðir og ein svona rúmlega dýfuferð eitthvað á aðra mínútu. Ég fór líka í gufu, nudd- og sjópott og gerði nokkrar æfingar í rimlum. Sundferðin tók alls tæpa tvo tíma með öllu. Þ.e. er frá því ég stilli símann áður en ég fer inn í klefa þar til ég slekk á stillingunni þegar ég kem út úr klefanum aftur. Forritið í Samung health veit ekki betur en ég sé að synda allan þennan tíma en ég skrái niður glósur um helstu hreyfiverkefni tímans þegar ég slekk á forritinu. Annars var gærdagurinn frekar fljótur að líða við alls konar og ekki neitt. Það er eiginlega alveg ljóst að ekkert fær stöðvað þennan tíma og það er bara spurning um hvernig og hversu vel hann er nýttur. Sjálfsagt gæti ég nýtt hann miklu miklu betur en ætla svo sem ekki að hafa áhyggjur af því. Fann bók í fórum mínum sem ekki er búið að taka plastið utan af en ég ætti kannski að gera og lesa; Lifum lífinu hægar eftir Carl Honoré. En annars er ég byrjuð á seinni tveimur bókum sem ég sótti í síðustu ferð á safnið um daginn; Opið hús eftir Sofie Sarenbrant og Vatnið brennur eftir Gunnar Theodór Eggertsson. Sú fyrrnefnda alveg sérlega spennandi og hin svolítið öðruvísi. Báðar bækurnar í kringum 400 bls. og ég er búin að lesa yfir 60 bls.

8.7.25

Þriðjudagur

Ég var komin í sund um korter fyrir sjö í gærmorgun. Synti í uþb tuttugu mínútur, fór þrisvar sinnum fjórar mínútur í þann kalda, rúmar tíu mínútur í gufu og svipaðan tíma í sjópottinn en þar hitti ég fyrir eina konu sem ég hitti nokkuð oft á árunum 2015-2020 en kemur nú aðeins tvisvar í viku. Alltaf um leið og opnar. Var mætt í osteostrong um hálfníu. Var við mitt besta á flestum tækjunum. Eftir tímann fór ég í Krónuna á Fiskislóð og var komin þangað rétt eftir að opnaði. Var komin heim fyrir tíu. Þar með átti ég að hafa tíma til að gera alls konar og jafnvel koma meiru af "skylduverkunum" í gegn.  Dagurinn leið amk frekar hratt en hversu mikið ég komst yfir að gera skal óskrifað bæði vegna þess að það má ekki skrifa um það og einnig vegna þess að miðað við tímann sem ég hafði fór aðeins brotabrot af honum í þessi verk. Það sat í mér bókin sem ég var síðast að lesa, hámaði í mig á rúmum sólarhring. Þannig að ég var einnig illa sofin. Lagði mig samt ekkert yfir daginn en var komin upp í rúm um níu í gærkvöldi og sennilega sofnuð um hálftíu því ég las bara í smá stund.

7.7.25

Osteostrong

Fannst eins og klukkan væri örugglega að ganga átta þegar ég dreif mig á fætur í gærmorgun. Þá var hún rétt að verða hálfsjö. Pabbi kom fljótlega á fætur líka. Veðrið var mjög gott. Ég fór samt ekki í neinn göngutúr en sat dágóða stund úti á palli eftir hádegið. Pabbi fór út á undan og var aðeins lengur. Ég "flúði" inn þegar mér var orðið alltof heitt. Annars fátt að frétta nema ég las heila bók, sögulega skáldsögu af safninu; Rokið í stofunni eftir Guðrúnu Jónínu Magnúsdóttur. Yfir þrjúhundruð blaðsíður en svo grípandi og átakanleg á köflum, sérstaklega þar sem sagan er byggð á raunverulegum atburðum sem gerðust á stríðsárunum, hvernig brotið var á ungum stúlkum bæði af réttarkerfi og sumu samferðafólki, og fylgir einni persónunni út lífið. Kleppjárnsreykir koma við sögu þegar sögupersónan er á fjórtánda ári. 

6.7.25

Sunnudagur

Ég var komin á fætur einhvern tímann á áttunda tímanum í gærmorgun. Pabbi kom fram ekkert svo löngu síðar. Gærdagurinn var annars bara rólegheita dagur. Um tvö leytið skrapp ég aðeins út og labbaði 3,5km hring á þremur korterum. Kláraði að lesa eina af bókunum sem ég sótti á safnið á miðvikudaginn; Sjúk eftir Þóru Sveinsdóttur. Þessi bók kom út í fyrra, fer fram og aftur í tíma og er nokkuð spennandi. Höfðum urriða í matinn um sex leytið og ég skreið upp í rúm um hálfellefu sem er mun seinna en vanalega.

Er enn að ná utan um það að Diogo Jota og bróðir hans André Silva hafi farist í skelfilegu slysi fyrir þremur dögum. Jota var fæddur sama ár og tvíburarnir mínir og var að gera góða hluti innan vallar sem utan, búinn að vera í fimm á hjá Liverpool. Bróðir hann var fjórum árum yngri. Þetta er svo skelfilega sorglegt. Hugur minn og bænir eru hjá fjölskyldum þeirra, ættingjum og vinum.

5.7.25

Fimmti fjórði

Gærmorguninn byrjaði upp úr klukkan fimm. Greip í bók og las þar til klukkan var að verða hálfsjö. Þá fór ég á fætur og náði að hitta aðeins á N1 soninn sem lagði af stað á helgarvinnuvakt áður en klukkan varð sjö. Ég sinnti morgunrútínunni og hélt svo áfram að lesa. Kláraði aðra af þeim bókum sem ég skildi eftir heima þegar ég fór á safnið í vikunni. Á tíunda tímanum fékk ég mér hinn helminginn af hafragrautnum sem ég útbjó á miðvikudagsmorguninn. Var svo mætt í Nauthólsvík rétt rúmlega tíu. Sjórinn 13°C og ég svamlaði út að kaðli fyrri ferðina sem ég fór út í. Fór upp úr um ellefu leytið og kom við í Fiskbúð Fúsa á leiðinni heim. Verslaði aðeins harðfisk að þessu sinni. Heima fékk ég mér hádegishressingu og pakkaði niður fyrir helgina. Lagði af stað úr bænum rúmlega tólf. Kom aðeins við á N1 við Gagnveg. Ætlaði að athuga þrýstinginn á dekkjunum en það var yfirgefin tezla og svo stór flutningabíll með gaskútum fyrir svo ég komst ekki að loftinu. Heilsaði aðeins upp á soninn. Keyrði austur um Þrengsli eins og ég geri orðið í langflestum tilvikum. Kom við hjá frændfólki á Selfossi og stoppaði við í tæpa klukkustund. Var komin á Hellu til pabba um þrjú. Afgangurinn af deginum fór í útsaum, kapallagnir og fótbolta- og imbagláp og leið mjög hratt. Líklega hefði verið skynsamlegra að safna aðeins fleiri skrefum en stundum þá er maður ekkert endilega mjög skynsamur. 

4.7.25

Föstudagur

Um þetta leyti í gærmorgun, 7:39, var ég að mæta í Laugardalslaugina. Gærdagurinn hófst samt miklu fyrr en ég byrjaði á því að grípa í bók um fimm leytið. Á laugarsvæðinu byrjaði ég á kalda pottinum áður en ég fór á braut 7. Laugin var í heitara lagi en kannski fann ég minna fyrir því þar sem ég synti flestar ferðirnar á bakinu. Synti 1km á rúmum þremur korterum. Fór tvær aðrar ferðir í þann kalda og gerði nokkrar æfingar í rimlum eftir gufu ferð. Þvoði mér um hárið og var komin heim um hálfellefu. Um hálftvö leytið skrapp ég út í göngutúr upp í Öskjuhlíð. Settist niður eftir hálftíma göngu og hringdi í tvíburahálfsystur mína. Við spjölluðum í þónokkra stund og ákváðum svo að hún myndi kíkja við hjá mér eftir vinnu. Hún var komin um fimm og augnabliki síðar var klukkan allt í einu langt gengin í sjö. Fór óvanalega seint í háttinn þar sem ég vildi horfa á Steinsnar frá þjóðvegi í línulegri dagskrá. Endaði svo daginn eins og ég byrjaði með því að lesa um stund. Fór ekki að sofa fyrr en um hálftólf. Gærdagurinn var semsagt langur í báða enda.

3.7.25

Fyrsti leikur gekk ekki alveg nógu vel

Í gær var sjósundsdagur svo ég fór ekki út úr húsi fyrr en rétt fyrir tíu. Þá var ég búin að vera á fótum í tæpa fjóra tíma og vakandi í rúmlega fimm tíma. Bjó mér til hafragraut upp úr klukkan níu. Hitti kalda potts vinkonu mína á planinu við Nauthólsvík um það leyti sem verið var að opna. Sjórinn var 12,4°C og það var að flæða að. Fórum þrjár ferðir í sjóinn, eina í gufu og tvær í pottinn. Fórum upp úr um hálftólf. Ég kom við í bókasafninu í Kringlunni áður en ég fór heim. Skilaði 7 bókum af 9 og tók fjórar bækur í staðinn, allar með 30 daga skilafresti og frekar þykkar. Í hádeginu sauð ég ýsubita í einum potti og sæta kartöflu, brokkolí og gulrætur í öðrum potti. Fljótlega eftir hádegið skrapp ég út í smá göngu. Forritið í símanum skráði á mig 1,2km á korteri en þótt gangan hafi ekki verið mjög löng var hún í heildina eitthvað lengri því skrefin fóru yfir 4000. Sennilega spilar inn í að það var hringt í mig í miðri göngu og ég stoppaði í smá stund og rölti svo miklu hægar og stoppaði jafnvel öðru hvoru á meðan ég var að tala í símann. Á línunni var ein frænka mín og nafna, fimm árum eldri en ég. Eftir að ég kom heim aftur hringdi ég í pabba. Hann var bara nokkuð hress. Hafði lent í meira brasi með sláttuvélina en náði að gera við hana og klára að slá. Kveikti á sjónvarpinu stuttu fyrir fjögur og fylgdist með fyrsta leiknum á EM kvenna; Ísland - Finnland 0:1. Stelpurnar okkar voru ekki líkar sjálfum sér, amk ekki alveg eins ákveðnar og í æfingaleiknum fyrir nokkrum dögum. Fengu þó sín færi sem þær nýttu ekki. Kannski sló magakveisa fyrirliðans þær eitthvað út af laginu og ég veit að þær ætluðu sér að gera betur. Vonandi nýta þær færin sín betur í þeim leikjum sem eftir eru í riðlinum og ná hagstæðari úrslitum. 

2.7.25

EM að byrja í dag

Þetta er einn af þeim dögum sem byrja eldsnemma. Það snemma að mér fannst ekki tímabært að fara á fætur og byrjaði því daginn eins og ég endaði gærdaginn. Eftir að hafa skroppið fram á baðherbergi um fimm fór ég aftur upp í rúm og greip í bók. Er búin með tvo þriðju af bókinni; Í skugga trjánna eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur og er alveg heilluð. Gærdagurinn byrjaði ekkert svo seint heldur en þó ekki eins snemma, einhvers staðar á milli sex og hálfsjö. Samt var klukkan orðin átta þegar ég var loksins mætt í sundið. Var í heila tvo tíma og synti m.a. 700m. Ég fór líka í göngutúr í gær en bara stuttan, 1,5km á 20 mínútum. Notaði ferðina til að fara með gler og málm í gámana við upphafsenda Eskihlíðar. Annars var nú veðrið í gær upplagt fyrir mikla útiveru en ég var að sýsla við eitt og annað hér heima og gleymdi mér í mis gáfulegum og mis nauðsynlegum verkefnum.

1.7.25

Verkstæðismál

Korter fyrir sjö í gærmorgun var ég komin á braut 7. Synti 700m á rúmum hálftíma. Hafði ágætis tíma til að fara í gufuna, sjópottinn og þrjár ferðir í þann kalda. Gat einnig gefið mér tíma í spjall við konu sem ég er nýfarin að hitta aftur í sundi og kemur nú aðeins tvisvar í viku um leið og opnar. Var mætt í Hátúnið í osteostrong um hálfníu og komst strax að. Bætti mig á einu tæki og var við mitt besta á tveimur öðrum. Kom klukkan að byrja að ganga tíu. Rúmum klukkutíma síðar hringdi ég á N1 verkstæðið við Ægisíðu og spurði hvort þeir gætu athugað bremsurnar og skipt um klossa ef þyrfti. Ég var beðin um að koma með bílinn til þeirra sem allra fyrst og dreif mig strax í það verkefni. Í ljós kom að það þurfti að skipta um diska og klossa að framan. Þeir sögðust geta afgreitt það samdægurs svo ég skildi bílinn eftir, nafn mitt og símanúmer og labbaði heim. Fór ekki alveg beinustu leið en það urðu rúmir 4km á tæpum 55 mínútum. Klukkan hálftvö var hringt í mig frá verkstæðinu til að láta vita að bíllinn væri tilbúinn. Var rúmar 40mínútur að labba 3,55km. Mátti gefa upp kennutölu N1 sonarins og fékk ágætis afslátt út á hana. Borgaði tæp 47þúsund en sú upphæð hefði farið yfir 60þúsund. Var komin heim fyrir klukkan hálfþrjú og lánaði Oddi bílinn til að reka einhver erindi. Skrefafjöldi dagsins var þarna kominn yfir 12þúsund. Kláraði annars að lesa enn eina bókina af safninu.